Ferill 547. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 882  —  547. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991 (fundir þingnefnda).

Flm.: Helgi Hrafn Gunnarsson, Birgitta Jónsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir.


    1. gr.

    19. gr. laganna orðast svo:
    Nefndarfundi mega auk nefndarmanna sitja starfsmenn nefnda og þeir gestir sem nefnd kveður til fundar eða fellst á að komi fyrir nefndina.
    Nefndarfundir skulu að jafnaði haldnir í heyranda hljóði eftir því sem húsrúm leyfir og sendir út á vef samkvæmt reglum forsætisnefndar. Forsætisnefnd setur reglur um fundi skv. 1. málsl. og aðgang að þeim.
    Nefnd getur haldið fund í því skyni að afla upplýsinga um þingmál sem vísað hefur verið til hennar eða um mál sem nefndin tekur upp að eigin frumkvæði. Nefnd getur óskað eftir því að núverandi eða fyrrverandi ráðherra, forstöðumenn sjálfstæðra ríkisstofnana, formenn ráða og nefnda á vegum ríkisins, ríkisendurskoðandi, umboðsmaður Alþingis, fulltrúar hagsmunaaðila og sérfræðingar sem ekki starfa undir stjórn eða á ábyrgð ráðherra komi fyrir nefndina og veiti henni upplýsingar. Fari að minnsta kosti fjórðungur nefndarmanna fram á slíkan fund skal formaður nefndarinnar leita eftir því með hæfilegum fyrirvara við þann sem beðinn er að koma fyrir nefndina að hann verði við því og gera honum grein fyrir tilefni fundarins. Slíkir fundir skulu haldnir í heyranda hljóði og sendir út í sjónvarpi og á vef þingsins samkvæmt nánari reglum forsætisnefndar.
    Þingnefnd getur ákveðið að fundur verði haldinn fyrir luktum dyrum ef fjalla á um gögn eða upplýsingar sem nefnd tekur við í trúnaði, ef starfsmenn Stjórnarráðsins koma fyrir þingnefnd, ef gestur sem kemur fyrir nefnd óskar eftir því eða ef ræða skal mál sem varðar þjóðaröryggi eða mikilvæga hagsmuni Íslands sem leynt þurfa að fara. Óheimilt er að vitna til orða nefndarmanna eða gesta sem falla á lokuðum nefndarfundi nema með leyfi viðkomandi.
    Óheimilt er að miðla upplýsingum á fundi sem haldinn er í heyranda hljóði, eða vísa til þeirra, sem eiga að fara leynt samkvæmt reglum um þagnarskyldu eða upplýsingalögum. Ekki skal halda fund í heyranda hljóði ef nefnd hefur fallist á að taka við upplýsingum eða gögnum í trúnaði, sbr. 50. gr. Formaður nefndar getur ákveðið að fundi skuli lokað svo að leggja megi fram slíkar trúnaðarupplýsingar.
    Forsætisnefnd setur nánari reglur um framkvæmd funda fastanefnda Alþingis, m.a. um aðgang áheyrenda og útsendingu frá fundunum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á 19. gr. laga um þingsköp Alþingis. Breytingin miðar að því að fundir fastanefnda þingsins verði í auknum mæli haldnir í heyranda hljóði.
    Í gildandi lögum er gerður greinarmunur á opnum fundum skv. 3. mgr. 19. gr. (útsendum fundum), fundum sem fréttamönnum er heimill aðgangur að skv. 2. mgr. 19. gr. og svo nefndarfundum sem segja má að séu lokaðir, þ.e. skv. 1. mgr. 19. gr. laga um þingsköp Alþingis nr. 55/1991 (þingsköp).
    Stór hluti löggjafarferlisins felst í nefndarstörfum fastanefnda Alþingis. Oftar en ekki koma gestir á slíka fundi til að svara spurningum nefndarmanna og upplýsa viðkomandi þingnefnd um afstöðu sína til þess þingmáls sem er til umfjöllunar. Fundir fastanefnda eru að jafnaði lokaðir þótt oft komi fram gagnlegar upplýsingar um einstaka þætti þingmáls, t.d. útskýringar á greinum eða hugtökum sem nefndarmenn telja ekki sérstaklega ástæðu til að geta um í nefndaráliti en geta verið gagnlegar í almennri umræðu og við umfjöllun fjölmiðla. Breyting þingskapa á þá leið að fundir fastanefnda Alþingis yrðu að jafnaði opnir mundi veita betri innsýn í þær forsendur sem liggja að baki lagasetningu og tillögum Alþingis og gera fjölmiðlum og almenningi betur kleift að fylgjast með þingstörfum.
    Í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er lagt til að nefndarfundir skuli að jafnaði haldnir í heyranda hljóði og að forsætisnefnd setji reglur um aðgang þeirra. Áfram er kveðið á um að þingnefndir geti óskað eftir að ráðherra, forstöðumenn sjálfstæðra ríkisstofnana, formenn ráða og nefnda á vegum ríkisins o.fl. komi fyrir nefndina og veiti upplýsingar, sbr. 3. mgr. 1. gr. Slíkir fundir eru sendir út á vef þingsins og er sjónvarpað.
    Þá er í 4. mgr. 1. gr. lagt til að þingnefnd geti ákveðið að fundur verði haldinn fyrir luktum dyrum í ákveðnum tilvikum, t.d. ef fjalla á um trúnaðargögn, ef starfsmenn Stjórnarráðsins koma fyrir þingnefnd, ef gestur óskar þess eða ef á dagskrá er mál sem varðar þjóðaröryggi eða mikilvæga hagsmuni Íslands.
    Sú venja hefur lengi tíðkast að starfsmenn ráðuneyta komi fyrir þingnefndir til að gera grein fyrir efni lagafrumvarpa eða tillagna frá viðkomandi ráðuneyti, svo og til að svara spurningum um einstök efnisatriði mála. Þeir starfsmenn starfa undir stjórn og á ábyrgð þess ráðherra sem fer með viðkomandi málaflokk og því er ekki eðlilegt að eftirlit þingsins beinist að þeim. Ef nefnd telur ástæðu til getur hún kallað ráðherra fyrir nefndina til að gefa skýringar eða veita upplýsingar sem gagnlegt þykir að gera opinberar. Einnig gæti gestur sem kæmi fyrir þingnefnd óskað eftir því að fundur yrði lokaður. Umsagnaraðilar um þingmál hafa jafnan sjálfir hagsmuni af því að sjónarmið þeirra séu reifuð sem víðast enda eru skriflegar umsagnir nú þegar birtar opinberlega. Jafnan er fundað með umsagnaraðilum til að varpa nánara ljósi á athugasemdir og sjónarmið sem koma fram í umsögnum þeirra. Því er ekki búist við því að heimild gesta til að óska eftir lokuðum fundi verði nýtt í teljandi mæli.
    Frumvarpinu er ætlað að stuðla að því að fjölmiðlaumfjöllun og umræða meðal almennings geti farið fram samhliða nefndarstörfum en ekki einungis eftir að nefnd hefur afgreitt mál og það tekið til umræðu í þingsal að nýju. Slíkt fyrirkomulag mundi enn fremur veita almenningi og öðrum hagsmunaaðilum færi á því að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum áður en mál væri komið á lokastig þinglegrar meðferðar.
    Þrátt fyrir að óheimilt sé samkvæmt gildandi lögum um þingsköp Alþingis að vitna til þess sem nefndarmenn eða gestir hafa sagt á lokuðum fundum er í seinni tíð algengara að það sé gert. Flutningsmenn telja þá þróun skiljanlega í ljósi þess að á nefndarfundum koma oft fram mikilvæg atriði sem varða mál sem eru til umfjöllunar á Alþingi og eiga erindi við almenning. Ekki er í frumvarpinu lögð til breyting á þessu ákvæði þar sem búist er við að lokuðum fundum fækki til muna og tilvitnanir til þess sem fram hefur farið verði hvort eð er jafnan heimilar. Gert er ráð fyrir því að almenningur og aðrir hagsmunaaðilar nýti sér fyrst og fremst vefstreymi til þess að fylgjast með fundum og að forsætisnefnd setji nánari reglur um aðgang að nefndarfundum.