Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 883  —  402. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um neytendasamninga.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Frey Björnsson og Guðrúnu Rósu Ísberg frá innanríkisráðuneyti og Daða Ólafsson og Matthildi Sveinsdóttur frá Neytendastofu.
    Með frumvarpinu er lagt til að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB um réttindi neytenda verði innleidd í íslenskan rétt. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 181/2012 frá 28. september 2012. Markmið tilskipunarinnar er að samræma reglur aðildarríkja EES-svæðisins um samninga utan fastrar starfsstöðvar seljanda og fjarsölusamninga, auk sölu- og þjónustusamninga, og um hvaða atriði seljanda er skylt að upplýsa neytanda áður en slíkir samningar verða skuldbindandi af hálfu neytanda. Verði frumvarpið að lögum munu lög nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga, falla brott en með þeim voru eldri tilskipanir innleiddar í íslenskan rétt, þ.e. tilskipun ráðsins 85/577/EBE frá 20. desember 1985 um að vernda neytendur þegar samningar eru gerðir utan fastra starfsstöðva og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga.
    Helstu breytingar sem verða við innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB í íslensk lög eru annars vegar að strangari kröfur verða gerðar um form samninga utan fastrar starfsstöðvar og fjarsölusamninga og hins vegar verður skýrar kveðið á um rétt neytanda til að falla frá samningi og verður meginreglan þar að lútandi 14 dagar. Verði frumvarpið að lögum fá neytendur aukinn rétt til að falla frá samningi.
    Nefndin bendir á að innanríkisráðherra hefur boðað að fram fari heildarendurskoðun á neytendalöggjöfinni í því skyni að einfalda reglur og gera þær gagnsærri.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 23. febrúar 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Róbert Marshall.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Karl Garðarsson. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Haraldur Einarsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.