Ferill 365. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 902  —  365. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur
um námskeið og þjálfun lögreglumanna erlendis.


    Í tilefni af fyrirspurninni óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra og Lögregluskóla ríkisins.

     1.      Hversu margir lögreglumenn hafa verið sendir á námskeið og í þjálfun til annarra landa sl. 10 ár?
    Í umsögn embættis ríkislögreglustjóra, dags. 26. janúar 2016, kemur fram að 439 lögreglumenn hafi verið sendir til útlanda á námskeið og til þjálfunar á umræddu tímabili samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá lögregluembættum landsins. Í umsögn Lögregluskóla ríkisins, dags. 9. febrúar 2016, kemur fram að sex starfsmenn skólans, sem allir eru lögreglumenn, hafi sótt mismunandi námskeið og þjálfun erlendis á sama tímabili.

     2.      Til hvaða landa hafa lögreglumenn sótt námskeið og þjálfun á fyrrgreindu árabili?
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hafa lögreglumenn sótt námskeið og þjálfun til eftirfarandi landa:
Austurríkis,
Bandaríkjanna,
Belgíu,
Bretlands,
Brasilíu,
Búlgaríu,
Danmerkur,
Eistlands,
Finnlands,
Frakklands,
Grikklands,
Hollands,
Írlands,
Ítalíu,
Króatíu,
Kýpur,
Lettlands,
Litháens,
Kanada,
Mónakós,
Möltu,
Noregs,
Portúgals,
Póllands,
Rúmeníu,
Rússlands,
Skotlands,
Slóveníu,
Spánar,
Sviss,
Svíþjóðar,
Tékklands,
Ungverjalands,
Þýskalands.

    Þá hafa starfsmenn Lögregluskóla ríkisins verið sendir til eftirfarandi landa:
Austurríkis,
Bretlands,
Danmerkur,
Eistlands,
Finnlands,
Frakklands,
Noregs,
Portúgals,
Spánar,
Svíþjóðar,
Þýskalands.

     3.      Er með þessum ferðum um reglubundna þjálfun þeirra að ræða?
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra og Lögregluskóla ríkisins er ekki um reglubundna þjálfun að ræða.

     4.      Hver er tilgangur ferðanna og hver greiðir kostnaðinn?
    Í umsögn embættis ríkislögreglustjóra kemur fram að tilgangur ferða hafi verið þjálfun og fræðsla fyrir lögreglumenn í tengslum við verkefni sem þeir hafa með höndum og þar með að auka við þekkingu þeirra í ljósi nýjustu tækni og aðferða hverju sinni. Þannig sé um að ræða námskeið og þjálfun m.a. vegna alþjóðasamskipta lögreglu, t.d. námskeið á vegum FRONTEX um landamæravörslu, málefni flóttafólks og notkun á gagnagrunnum. Þá hafi ýmis námskeið á vegum EUROPOL, INTERPOL og FBI verið sótt. Einnig hafi verið sótt námskeið varðandi heimilisofbeldi, skólaskotárásir, hefndarglæpi, tölvurannsóknir, fjármálagreiningar, rannsóknir spillingarmála og skipulegrar glæpastarfsemi auk endurheimts ólögmæts ávinnings af brotastarfsemi. Þá hafi verið sótt þjálfun vegna svokallaðra ID-mála, þ.e. til að bera kennsl á óþekkjanleg lík, þjálfun vegna dulkóðunarkerfa og sprengju- og fíkniefnaleitarhunda. Eins hafi verið sótt námskeið er varða yfirheyrsluaðferðir, þ.m.t. yfirheyrslur grunaðra einstaklinga í kynferðisbrotum, auk námskeiða í skýrslutökum af viðkvæmum vitnum, þ.e. börnum, einstaklingum með þroskaskerðingu o.fl. Að lokum kemur fram í umsögninni að sótt hafi verið námskeið er lúta að þjálfun vegna almannavarna, geislavár, aðgerðastjórnunar og hamfarastjórnunar, aðallega á vettvangi norræns og evrópsks samstarfs í almannavarnamálum.
    Í umsögn Lögregluskóla ríkisins kemur fram að tilgangur ferðanna sé að kynnast nýjungum í löggæslu annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópu með það fyrir augum að læra að beita nýju verklagi í hinum ýmsu málaflokkum sem lúta að kennslu í lögregluskólanum.
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra er kostnaður við umræddar ferðir að mestu leyti greiddur af viðkomandi lögregluembættunum. Boð um námskeið eða fræðslu fólu í einhverjum tilfellum í sér styrki sem dugðu fyrir hluta kostnaðar, t.d. kostnaði við ferðir á námskeiðsstað og námskeiðsgjöldum en í þeim tilvikum var kostnaður við uppihald greiddur af viðkomandi lögregluembætti. Í sumum tilvikum voru styrkir sóttir til starfsmenntunarsjóðs Landssambands lögreglumanna, STALL, en auk þess hafa eftirtaldir aðilar tekið þátt í kostnaði: FRONTEX, CEPOL, Evrópusambandið, Norræna ráðherranefndin og sveitarfélög.
    Samkvæmt upplýsingum frá Lögregluskóla ríkisins hefur kostnaðurinn í flestum tilvikum verið greiddur af skólanum sjálfum.