Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 905  —  332. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um fullnustu refsinga.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar (UBK, LínS, KG, HE, VilÁ).


     1.      Við 2. gr. bætist ný skilgreining í réttri stafrófsröð, svohljóðandi: Barnaverndaryfirvöld: Það ráðuneyti sem fer með barnaverndarmálefni hverju sinni og undirstofnanir þess.
     2.      10. gr. orðist svo:
                      Áður en aðili er skipaður, settur eða ráðinn til starfa hjá Fangelsismálastofnun eða í fangelsum ríkisins skal hann, að fengnu samþykki hans, undirgangast athugun, sem felst í öflun upplýsinga úr skrám og upplýsingakerfum sem getið er í 2. mgr., sem lið í mati á því hvort óhætt sé að veita viðkomandi aðgang að fangelsum ríkisins og aðgengi að upplýsingum um framkvæmd fangelsisstarfa og um fanga. Afla skal upplýsinga fimm ár aftur í tímann. Samþykki umsækjanda skal ritað á eyðublað sem Fangelsismálastofnun ákveður. Endurtaka skal athugunina með reglulegu millibili og ekki sjaldnar en á fimm ára fresti. Aldrei má þó ganga lengra við könnun á bakgrunni og sakaferli en þörf er á hverju sinni.
                      Samþykki aðila skv. 1. mgr. veitir Fangelsismálastofnun heimild, eftir atvikum með aðstoð ríkislögreglustjóra, til að afla upplýsinga um viðkomandi úr:
                  a.      skrám lögreglu, þ.m.t. málaskrá lögreglu,
                  b.      sakaskrá til yfirvalda,
                  c.      upplýsingakerfi Alþjóðalögreglunnar eða annarra erlendra yfirvalda og
                  d.      upplýsingakerfi þjóðskrár.
                  Leggja skal heildstætt mat á það hvort óhætt sé að veita viðkomandi aðgang að fangelsum ríkisins og upplýsingum skv. 1. mgr. Heimilt er að nýta upplýsingar úr málaskrá lögreglu með beinum hætti til að synja um skipun, setningu eða ráðningu enda sé það mat Fangelsismálastofnunar að upplýsingarnar gefi tilefni til að draga í efa hæfni eða trúverðugleika aðila til að starfa hjá Fangelsismálastofnun eða í fangelsum ríkisins.
                  Nú er það mat Fangelsismálastofnunar að upplýsingar úr skrám eða upplýsingakerfum skv. 2. mgr. leiði til þess að ekki sé óhætt að veita aðila aðgang að fangelsum ríkisins eða upplýsingum skv. 1. mgr. og skal þá, áður en ákvörðun er tekin, gefa aðila færi á að gæta andmæla. Ákvörðun Fangelsismálastofnunar skal rökstudd.
                  Fangelsismálastofnun skal í samvinnu við ríkislögreglustjóra annast bakgrunnsskoðun skv. 1. mgr.
                  Nú uppfyllir starfandi fangavörður ekki bakgrunnsskoðun og skal hann þá leystur frá störfum. Sama gildir um aðra starfsmenn. Ráðherra setur nánari reglur um bakgrunnsskoðanir fangavarða og öryggisstig bakgrunnsskoðana að fengnum tillögum ríkislögreglustjóra í reglugerð.
     3.      Í stað orðsins „heilbrigðisstofnun“ í 2. mgr. 22. gr. komi: heilbrigðis- eða meðferðarstofnun.
     4.      Í stað orðanna „greidda dagpeninga eða örorkubætur“ í 3. mgr. 27. gr. komi: greiðslur.
     5.      Í stað orðanna „ekki talið andstætt hagsmunum barnsins“ í 1. mgr. 30. gr. komi: barninu fyrir bestu.
     6.      Í stað orðanna „30 dagar“ í 2. mgr. 32. gr. komi: 60 dagar.
     7.      Í stað orðsins „forráðamaður“ í 3. tölul. 33. gr. komi: forsjáraðili.
     8.      Við 36. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Fangelsismálastofnun skal tímanlega fyrir lok afplánunar tilkynna félagsþjónustu þess sveitarfélags sem fangi á lögheimili í um lok afplánunar, sé þess þörf. Ráðherra ákveður í reglugerð tímaviðmið tilkynninga Fangelsismálastofnunar.
     9.      Við 42. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Föngum í lokuðum fangelsum er óheimilt að fara inn í fangaklefa annarra fanga. Forstöðumaður getur í samráði við Fangelsismálastofnun vikið frá reglunni ef sameiginleg rými í fangelsinu eru ekki fullnægjandi eða aðrar málefnalegar ástæður mæla með því.
     10.      1. mgr. 44. gr. orðist svo:
                  Fangar sem eru undir 18 ára aldri skulu afplána refsingu á vegum barnaverndaryfirvalda. Óheimilt er að vista fanga undir 18 ára í fangelsi nema fyrir liggi mat sérfræðinga um að það sé honum fyrir bestu með vísan til sérstakra aðstæðna er lúta að honum sjálfum og í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Um slíka vistun gilda ákvæði laga þessara ef við á.
     11.      Við 1. mgr. 47. gr. bætist tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Við könnunina er heimilt að afla upplýsinga úr málaskrá lögreglunnar fimm ár aftur í tímann og úr sakaskrá til yfirvalda. Leggja skal heildstætt mat á það hvort óhætt sé að heimila heimsókn en aldrei má þó ganga lengra við könnun á bakgrunni og sakaferli en þörf er á hverju sinni.
     12.      Í stað orðanna „forráðamanns“ og „forráðamanna“ í 2. mgr. 48. gr. komi: forsjáraðila.
     13.      Við 56. gr.
                  a.      Í stað 2. og 3. mgr. komi ein ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Forstöðumaður fangelsis getur leyft fanga, í samræmi við reglur fangelsis, að hafa raftæki í klefa sínum. Í samráði við Fangelsismálastofnun getur forstöðumaður opins fangelsis heimilað fanga að hafa nettengda tölvu og farsíma í klefa sínum á nánar tilgreindum tímum. Forstöðumaður lokaðs fangelsis getur heimilað fanga, í samráði við Fangelsismálastofnun, að hafa aðgang að nettengdri tölvu í sameiginlegu rými fangelsis. Fangelsismálastofnun setur sérstakar reglur um fyrirkomulag og notkun raftækja, síma og nettengdra tölva.
                  b.      2. málsl. 4. mgr. orðist svo: Fanga er þó heimilt í undantekningartilfellum að hafa lyf í klefa sínum, ef það telst nauðsynlegt vegna heilsu hans samkvæmt læknisráði og með samþykki forstöðumanns.
                  c.      Við fyrri málslið 5. mgr. bætist: forstöðumanns.
     14.      Fyrirsögn 57. gr. verði: Skylda til að hlýða fyrirmælum starfsfólks.
     15.      Í stað orðanna „Fangelsismálastofnun getur“ í 1. málsl. 1. mgr. 62. gr. komi: Forstöðumaður fangelsis getur að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar.
     16.      Við 63. gr.
                  a.      Í stað orðanna „Fangelsismálastofnun getur“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: Forstöðumaður fangelsis getur að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Áður en leyfi til dvalar utan fangelsis skv. 1. mgr. er veitt skal liggja fyrir skrifleg staðfesting vinnuveitanda um að fangi geti hafið störf þann tíma sem fyrirhugað er að leyfið gildi. Þá skal gengið úr skugga um að vinnuveitanda sé ljóst að um fanga sé að ræða sem afpláni refsingu og þeim gerð grein fyrir reglum og skilyrðum sem gilda um leyfið.
     17.      Í stað orðanna „ekki vera“ í 1. málsl. 3. mgr. 69. gr. komi: að jafnaði vera.
     18.      Við 84. gr.
                  a.      Í stað orðsins „dómþola“ í fyrri málslið komi: þeim sem sætir eftirliti.
                  b.      Orðin „að sæta eftirliti“ í fyrri málslið falli brott.
     19.      Í stað síðari málsliðar 2. mgr. 87. gr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Eigi skal þó veita lengri greiðslufrest en eitt ár frá að því sekt kemur til innheimtu. Heimilt er að veita lengri greiðslufrest ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.
     20.      Í stað orðanna „með sannanlegum hætti“ í 2. málsl. 1. mgr. 88. gr. komi: með þeim hætti sem áskilinn er við birtingu ákæru skv. 156. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.
     21.      1. mgr. 92. gr. orðist svo:
                      Lögreglustjóri annast framkvæmd eignaupptöku.
     22.      Í stað orðsins „ókeypis“ í síðari málslið 2. mgr. 93. gr. komi: án endurgjalds.
     23.      Orðin „bakgrunnsskoðanir og“ í 4. mgr. 98. gr. falli brott.
     24.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Ráðherra skal í samráði við hlutaðeigandi aðila setja á laggirnar starfshóp til að endurskoða fyrirkomulag rafræns eftirlits við afplánun refsinga. Starfshópurinn skal greina hvaða afleiðingar það kunni að hafa á framkvæmd fullnustu refsinga samkvæmt gildandi lögum að fangi eigi þann kost að fara beint í rafrænt eftirlit í stað afplánunar í fangelsi, sé hann dæmdur til refsivistar í styttri tíma, með hliðsjón af varnaðaráhrifum refsinga, betrun og lækkaðri endurkomutíðni. Starfshópurinn skal skila tillögum ásamt greinargerð til ráðherra eigi síðar en 1. október 2016.