Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 909  —  420. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands,
nr. 36/2001, með síðari breytingum (stöðugleikaframlag).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Lilju Sturludóttur, Hafstein Hafsteinsson og Esther Finnbogadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Svein Arason ríkisendurskoðanda og Lárus Ögmundsson frá embætti ríkisendurskoðanda, Sigríði Logadóttur og Lilju Alfreðsdóttur frá Seðlabanka Íslands, Stefán Brodda Guðjónsson og Hrafn Steinarsson frá greiningardeild Arion banka hf. og Tryggva Gunnarsson, umboðsmann Alþingis, og Hafstein Dan Kristjánsson frá embætti umboðsmanns Alþingis. Umsagnir bárust frá greiningardeild Arion banka hf., Samkeppniseftirlitinu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands.
    Í frumvarpinu er lögð til breyting á bráðabirgðaákvæði III í lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum. Lagt er til að löggjafinn feli félagi í eigu Seðlabankans að annast umsýslu og að fullnusta og selja eftir því sem við á verðmæti sem Seðlabankinn tekur á móti í þeim tilgangi að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregðast við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum. Þá er kveðið á um að félagið skuli leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni í störfum sínum við umsýslu, fullnustu og sölu eigna ríkissjóðs.
    Í umsögnum sem bárust nefndinni og á fundum um málið komu fram athugasemdir sem hún taldi rétt að taka til nánari skoðunar. Leggur nefndin til nokkrar breytingar til að koma til móts við þær.
    Í núgildandi bráðabirgðaákvæði er kveðið á um að Seðlabanki Íslands móttaki og annist mótteknar stöðugleikaeignir. Í samræmi við það ákvæði var lagt til í frumvarpinu að Seðlabanki Íslands skyldi stofna félag sem annaðist umsýslu og ráðstafaði mótteknum stöðugleikaeignum. Við meðferð efnahags- og viðskiptanefndar á máli þessu og í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa komið fram veigamikil rök fyrir því að félagið verði ekki á forræði Seðlabanka Íslands heldur heyri beint undir fjármála- og efnahagsráðuneytið sem fer með eignir ríkissjóðs. Nefndin telur að með því fyrirkomulagi séu verkefnin leyst í hæfilegri fjarlægð frá ráðuneytinu en ráðherra skipi hins vegar í stjórn félagsins. Félagið falli undir eigandastefnu ríkisins auk þess sem ráðherra geri sérstakan samning um verkefni þess. Með þessu verði ábyrgð ráðherra skýrari á heildarframkvæmd verkefnisins, bæði varðandi eignarhald á félaginu og skipun í stjórn.
    Meiri hlutinn leggur til að Bankasýsla ríkisins fari með eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka frekar en að Bankasýslan fari með eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ráðuneytið hefur upplýst að á meðal eigna séu óbeinir eignarhlutir í fjármálafyrirtækjum sem eru hluti af eignum í eignarhaldsfélögum og eignir í fjármálafyrirtækjum sem í raun eru úrvinnslueignir. Í einhverjum tilvikum er um að ræða skráð hlutabréf sem einfalt er að selja á opinn og gegnsæjan hátt á hlutabréfamarkaði. Eðlilegt er að þessir eignarhlutir fylgi öðrum mótteknum eignum og sæti hefðbundinni úrvinnslu og sölu í félaginu. Ýmsir vankantar eru á því að slíkar eignir séu færðar til Bankasýslunnar enda er lagarammi þeirrar stofnunar ekki heppilegur til að taka við hlut ríkisins í eignarhaldsfélögum sem eiga óbeina eignarhluti í fjármálafyrirtækjum. Í lögum nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, er auk þess ekki að finna neinar heimildir fyrir Bankasýsluna eða ráðherra til að selja aðra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum en þar eru sérstaklega taldir upp.
    Ljóst er að talsverður kostnaður getur fallið til áður en eignir eru seldar, t.d. vegna ráðgjafar í tengslum við mat, auglýsingar og lögfræðiþjónustu og þar fram eftir götunum. Með hliðsjón af þeim miklu hagsmunum sem vinna þarf úr er lagt til að félaginu verði lagt til talsvert stofnfé, eða 150 millj. kr., til að mæta slíkum útgjöldum. Við slit félagsins renna eignir félagsins aftur í ríkissjóð.
    Lagt er til að fjármála- og efnahagsráðherra skipi félaginu stjórn. Ekki kemur fram í frumvarpinu hvort hér sé um að ræða þriggja eða fimm manna stjórn. Meiri hlutinn leggur til að verði um þriggja manna stjórn að ræða skipi ráðherra félaginu einnig a.m.k. tvo varamenn þannig að ávallt sé hægt að taka ákvarðanir með fullskipaðri stjórn ef upp koma t.d. vanhæfistilvik eða fjarvistir af öðrum ástæðum. Í drögum að samningi sem liggja fyrir hefur verið komið til móts við þetta sjónarmið á þann hátt að þar er miðað við tvo varamenn og að annar þeirra sitji alla fundi stjórnarinnar.
    Meiri hlutinn telur ekki þörf á að gerðar séu breytingar á þeim meginsjónarmiðum sem félagið skal leggja áherslu á við störf sín samkvæmt frumvarpinu en þau kveða á um að félagið skuli leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Hér er um að ræða sömu sjónarmið og finna má í 45. gr. nýsamþykktra laga um opinber fjármál varðandi almenna ráðstöfun ríkisins á eignum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að ráðherra árétti í samningi við félagið að stjórnendur þess og starfsmenn viðhafi ávallt vönduð og fagleg vinnubrögð að þessu leyti við öll störf sín þar sem hér sé um að ræða opinberar eignir. Að mati meiri hlutans skiptir miklu að allt ferli við sölu og ráðstöfun félagsins á eignum sé skýrt og ljóst og að ávallt liggi fyrir á hverju einstakar ákvarðanir séu byggðar. Einungis með því verði ferlið gagnsætt í samræmi við frumvarpstextann. Meiri hlutinn telur að ef tvær leiðir standa til boða við ráðstöfun á eignum skuli velja þá leið sem er gagnsærri. Jafnræði verði náð með því að allir sem uppfylli málefnaleg skilyrði eigi kost á því að bjóða í einstakar eignir og að nauðsynlegar upplýsingar um söluferlið séu aðgengilegar fyrir alla mögulega bjóðendur. Varðandi hlutlægni telur nefndin að ganga þurfi rækilega úr skugga um að uppfylltar séu hæfiskröfur til þeirra sem fjalla um einstök mál. Einnig skiptir miklu að allt ferlið í störfum félagsins, t.d. verðmat eða mat á hæfi bjóðenda, byggist á hlutlægum viðmiðum.
    Fram kemur að með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar. Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að um sé að ræða sama viðmið og finna má í 3. gr. laga nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Einnig hefur komið fram að við mat á því hvað telst vera hæsta verð er ávallt miðað við staðgreiðsluverð. Markmiðið er ávallt að hámarka verðmæti eignanna gagnvart ríkissjóði en einnig skal kappkostað að stilla kostnaði við rekstur félagsins og sölu eigna í hóf.
    Meiri hlutinn áréttar að ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga skuli lögð til grundvallar starfsemi félagsins eftir því sem við á og mælt er fyrir um í hlutaðeigandi lögum.
    Um þagnarskyldu gildir sama meginregla og gildir samkvæmt starfsmannalögum, þ.e. að stjórnarmenn, framkvæmdastjóri, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk á vegum félagsins skulu gæta þagmælsku um atriði sem þeir frá vitneskju um við framkvæmd starfa sinna og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
    Lagt er til að nefndum þingsins verði veittar upplýsingar um framgang við úrvinnslu eignanna. Lagðar eru til breytingar sem kveða á um að ráðherra skuli gera efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd Alþingis ársfjórðungslega grein fyrir framvindu við úrvinnslu eignanna á grundvelli áætlana og annarra upplýsinga frá félaginu.
    Áfram er gert ráð fyrir að Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með framkvæmd samningsins við félagið. Ríkisendurskoðun hefur auk þess sjálfstæðar heimildir til skoðunar á félaginu samkvæmt lögum um stofnunina.
    Fyrir hendi er almenn eigendastefna um hlutafélög og sameignarfélög í eigu ríkisins. Verði af stofnun félagsins gildir eigandastefnan um starfsemi þess og starfshætti.
    Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    Í stað 1. og 2. efnismgr. 1. gr. komi þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Þau verðmæti sem Seðlabankinn tekur á móti á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. skulu renna í ríkissjóð. Laust fé, þ.m.t. söluandvirði eigna að frádregnum kostnaði við úrvinnslu og ráðstöfun eignanna, skal varðveitt á sérstökum reikningum ríkissjóðs í bankanum. Bankasýsla ríkisins fer með eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.
    Ráðherra er heimilt að stofna einkahlutafélag í eigu ríkissjóðs og leggja því til allt að 150 millj. kr. Tilgangur félagsins skal vera að annast umsýslu annarra eigna og fullnusta þær og selja eftir því sem við á. Stjórn félagsins skal skipuð af ráðherra og skulu stjórnarmenn hafa víðtæka og haldgóða þekkingu og reynslu af sambærilegum verkefnum.
    Við umsýslu, fullnustu og sölu verðmæta skv. 2. málsl. 1. mgr. skal félagið leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar. Gerður skal samningur milli félagsins og ráðherra um verkefni þess og starfshætti. Ríkisendurskoðun hefur eftirlit með framkvæmd samnings við félagið. Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk á vegum félagsins skulu gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa sinna og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Ráðherra skal gera efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd Alþingis ársfjórðungslega grein fyrir framvindu við úrvinnslu eignanna á grundvelli áætlana og annarra upplýsinga frá félaginu. Félaginu skal slitið þegar það hefur lokið störfum sínum.

    Steinunn Þóra Árnadóttir ritar undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 29. febrúar 2016.

Frosti Sigurjónsson,
form., frsm.
Sigríður Á. Andersen. Willum Þór Þórsson.
Guðmundur Steingrímsson. Vilhjálmur Bjarnason. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Brynjar Níelsson. Steinunn Þóra Árnadóttir,
með fyrirvara.