Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 913  —  332. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um fullnustu refsinga.

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar (HHG, ÓÞ, BjG, RM).


     1.      Á undan orðinu „aðlögun“ í 2. mgr. 1. gr. komi: betrun og.
     2.      Á eftir 4. tölul. 2. gr. komi nýr töluliður, svohljóðandi: Betrun: Leið til að auka færni og lífsgæði einstaklings með það að markmiði að sporna gegn frekari brotastarfsemi og endurkomum í fangelsi.
     3.      Við 3. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Lög þessi gilda án nokkurrar mismununar hvort sem er á grundvelli kyns, kynþáttar, kynhneigðar, kynvitundar, litarháttar, trúar, lífs- eða stjórnmálaskoðana, fötlunar, félagslegrar stöðu eða stöðu að öðru leyti.
     4.      Við 11. gr.
                  a.      Í stað orðanna „Starfsmönnum fangelsa og Fangelsismálastofnunar“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: Fangavörðum.
                  b.      Fyrri málsliður 2. mgr. falli brott.
                  c.      Orðið „þó“ í síðari málslið 2. mgr. falli brott.
     5.      2. mgr. 17. gr. falli brott.
     6.      Við 1. málsl. 2. mgr. 21. gr. bætist: enda sé það liður í betrun fangans og í samræmi við betrunaráætlun eða nauðsynlegt vegna öryggis fangans eða annarra fanga.
     7.      3. mgr. 23. gr. falli brott.
     8.      Við 24. gr.
                  a.      Í stað fyrri málsliðar komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Fangelsismálastofnun skal, í samvinnu við fanga, gera betrunaráætlun fyrir fanga. Í betrunaráætlun getur falist starfs- og menntunaráætlun, endurhæfingaráætlun, heilsuverndaráætlun og aðrar áætlanir sem taldar eru fanga til betrunar.
                  b.      Fyrirsögn greinarinnar verði: Betrunaráætlun.
     9.      Orðið „lögreglu“ í 7. tölul. 33. gr. falli brott.
     10.      Orðið „lögreglu“ í 2. tölul. 1. mgr. 38. gr. falli brott.
     11.      Við 42. gr.
                  a.      Við bætist ný málsgrein sem verði 1. mgr., svohljóðandi:
                      Aðstaða í fangelsum skal vera mannúðleg og uppfylla kröfur sem gerðar eru til heilbrigðis, hreinlætis, stærðar á klefa, lýsingar, hitunar og loftræstingar.
                  b.      Orðin „nema sérstakar aðstæður eða húsrými komi í veg fyrir það“ í 1. málsl. 1. mgr., sem verði 2. mgr., falli brott.
     12.      Við 45. gr.
                  a.      Orðin „sem afplánar í lokuðu fangelsi“ í fyrri málslið 1. mgr. falli brott.
                  b.      Í stað orðsins „refsifullnustu“ í fyrri málslið 1. mgr. komi: betrun.
                  c.      Á eftir orðinu „fjölskyldu“ í síðari málslið 1. mgr. komi: og vinum.
                  d.      Orðin „en heimsóknir frá vinum skulu ekki verið fleiri en tvær í mánuði nema í sérstökum tilvikum“ í síðari málslið 1. mgr. falli brott.
                  e.      2. mgr. falli brott.
                  f.      Orðin „ svo sem um undanþágur fyrir fleiri vinaheimsóknum“ í 3. mgr. falli brott.
     13.      Við 46. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Forstöðumaður setur reglur um takmarkanir á heimsóknum og meðferð mála þar að lútandi. Reglurnar skulu vera föngum aðgengilegar.
     14.      Við 47. gr.
                  a.      Í stað orðanna „Fangelsisyfirvöld skulu“ í 1. mgr. komi: Fangelsisyfirvöldum er heimilt að.
                  b.      Í stað 1. og 2. málsl. 2. mgr. komi einn nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að leita á þeim sem heimsækja fanga, annars vegar í ytri fötum og hins vegar líkamsleit, enda samþykki heimsóknargestur það.
     15.      Við 58. gr.
                  a.      Orðin „úr röðum samfanga sinna“ falli brott.
                  b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Talsmenn fanga geta verið afplánunarfangar, fyrrum fangar eða hverjir aðrir sem gefa kost á sér og hljóta kosningu fanga.
                  c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Fangelsismálastofnun skal tryggja að fangar hafi góðan aðgang að talsmanni sínum og tryggja talsmanni fanga viðunandi aðstöðu til starfa sinna sé hann í afplánun.
     16.      Við 59. gr.
                  a.      Í stað orðsins „refsifullnustu“ í 1. málsl. 1. mgr. og fyrri málslið 3. mgr. komi: betrun.
                  b.      Orðin „þó ekki skemmri tíma en eitt ár“ í fyrri málslið 2. mgr. falli brott.
                  c.      Í stað orðanna „á samfelldu tveggja ára tímabili“ í fyrri málslið 3. mgr. komi: sex sinnum á hálfs árs tímabili.
     17.      Á eftir orðunum „hvort hann hafi“ í síðari málslið 1. mgr. 60. gr. komi: haldið þá betrunaráætlun sem gerð hefur verið í samráði við hann, sbr. 24. gr., og.
     18.      Við 62. gr.
                  a.      Í stað orðsins „refsifullnustu“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: betrun.
                  b.      Lokamálsliður 1. mgr. falli brott.
     19.      Við 63. gr.
                  a.      Í stað orðsins „refsifullnustu“ í 1. málsl. komi: betrun.
                  b.      Lokamálsliður falli brott.
     20.      Á eftir orðunum „hvort hann hafi“ í 2. málsl. 64. gr. komi: haldið þá betrunaráætlun sem gerð hefur verið í samráði við hann og.
     21.      Við 80. gr.
                  a.      Orðin „mjög sérstakar persónulegar ástæður mæla með því og“ í 1. málsl. 3. mgr. falli brott.
                  b.      Við 1. málsl. 3. mgr. bætist: og fangi hefur haldið þá betrunaráætlun sem gerð hefur verið í samráði við hann og nýtt sér meðferðarúrræði sem til boða hafa staðið í fangelsi og náð árangri.
                  c.      Lokamálsliður 3. mgr. falli brott.
                  d.      Orðið „lögreglu“ í 5. mgr. falli brott.
     22.      Við 81. gr.
                  a.      Orðin „eða annars aðila sem hún ákveður“ í 1. tölul. 2. mgr. falli brott.
                  b.      Orðin „eða annar aðili sem hún velur“ í 5. tölul. 2. mgr. falli brott.
     23.      Orðin „eða felur það öðrum“ í 1. mgr. 83. gr. falli brott.
     24.      Við 98. gr.
                  a.      Á eftir orðunum „fyrir vinnu og nám“ í síðari málslið 1. mgr. komi: í samræmi við þróun verðlags.
                  b.      Orðin „og talsmenn fanga í fjölmiðlum“ í síðari málslið 1. mgr. falli brott.