Ferill 366. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 917  —  366. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur
um rekstrarform í heilbrigðisþjónustu.


     1.      Stendur til að breyta rekstrarformi innan heilsugæslunnar eða annarra heilbrigðisstofnana? Ef svo er, hvert er markmiðið með breytingunni, hvaða faglegu og fjárhagslegu ástæður liggja þar að baki og hyggst ráðherra bera breytinguna undir Alþingi?
    Betri heilbrigðisþjónusta 2013–2017 er vinnuheiti á nokkrum umbótaverkefnum heilbrigðisráðherra sem unnið hefur verið að á kjörtímabilinu. Ákveðnum verkefnum er lokið og áfram er unnið að öðrum, þar á meðal eru endurbætur í heilsugæslunni sem nær til höfuðborgarsvæðisins.
    Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið gert kleift að sinna hlutverki sínu til fulls og er hún þar af leiðandi ekki alltaf í stakk búin að sinna því hlutverki að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Sú gagnrýni sem hefur helst beinst að heilsugæslunni snýr m.a. að því að notendur séu án heilsugæslulæknis, nýliðun ónóg, bið sé eftir tíma hjá heilsugæslulækni, skortur sé á yfirsýn og eftirfylgni með sjúklingum o.fl. Notendur leita því annað eftir þjónustu, gjarnan í dýrari úrræði. Breytingar þær sem áformaðar eru miða að því að bregðast við gagnrýninni, bæta aðgengi og auka gæði þjónustunnar. Þá er gert ráð fyrir að allir íbúar verði skráðir á heilsugæslustöð að eigin vali.
    Vilji ráðherra stendur til þess að skapa umhverfi sem hvetur til umbóta og eykur sveigjanleika í rekstri m.a. með aukinni aðkomu fleiri heilbrigðisstétta og ríkari áherslu á teymisvinnu og þverfaglegt samstarf. Fyrirhuguðum breytingum er ætlað að skapa faglegan og fjárhagslegan hvata sem ýtir undir að þekking fagfólks á ólíkum sviðum heilbrigðisþjónustu sé nýtt sem best.
    Grundvöllur endurbótanna er af tvennum toga, breytt fjármögnun og kröfulýsing fyrir þjónustuna. Í breyttri fjármögnun felst að fjármagn til reksturs hverrar stöðvar endurspeglar þann sjúklingahóp sem stöðin þjónar. Fjármögnun mun fylgja sömu forskrift, óháð rekstrarformi sem þýðir að fullt jafnræði verður með heilsugæslustöðvum hvort sem þær eru í opinberum rekstri eða reknar af heilbrigðisstarfsfólki. Þá hafa verið skilgreindar ýmsar kröfur til reksturs heilsugæslu í svokallaðri kröfulýsingu sem verður viðmið fyrir allan heilsugæslurekstur á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem um ræðir stöðvar í opinberum rekstri eða stöðvar reknar af heilbrigðisstarfsfólki.
    Heilbrigðisráðherra fer með yfirstjórn heilbrigðismála og markar stefnu um heilbrigðisþjónustu í samræmi við lög þar um. Honum er heimilt að grípa til ráðstafana til að fylgja þeirri stefnu m.a. hvað varðar skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hagkvæmni, gæði og öryggi þjónustunnar og aðgengi að henni.
    Engin breyting verður gerð á verkefnum heilsugæslunnar eins og þau eru skilgreind í lögum. Öll lagaumgjörð sem snýr að réttindum og skyldum heilbrigðisstarfsfólks og eftirliti með störfum þess og heilsugæslunnar verður óbreytt. Þar af leiðir leggur ráðherra hvorki fram lagafrumvarp fyrir þingið né þingsályktunartillögu. Ráðherra telur hins vegar sjálfsagt að upplýsa Alþingi um verkefnið og framgang þess þegar þess er óskað.

     2.      Stendur til að bjóða út rekstur á heilsugæslustöðvum eða öðrum heilbrigðisstofnunum?
    Til stendur að auglýsa rekstur nýrrar heilsugæslustöðvar/-stöðva á höfuðborgarsvæðinu innan skamms.