Ferill 487. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 918  —  487. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur
um leiguleið til uppbyggingar hjúkrunarheimila.


     1.      Hvað felst í svokallaðri leiguleið til uppbyggingar hjúkrunarheimila sem ríkið samdi um við sveitarfélögin á síðasta kjörtímabili, við hversu mörg sveitarfélög var gerður samningur og til hversu margra ára var samið?
    Leiguleiðin á sér nokkuð langan aðdraganda og var til skoðunar þegar unnið var að nýrri framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma á landsvísu á árunum 2007–2008. Ákvörðun um hana var svo tekin í kjölfar efnahagskreppu og þegar mörkuð hafði verið sú stefna að færa málaflokk öldrunarmála yfir til sveitarfélaga. Ný framkvæmdaáætlun var kynnt árið 2008. Mikilvægur liður þeirrar áætlunar var að bæta aðbúnað aldraðra, taka úr notkun fjölbýli og fjölga einbýlum sem uppfylltu viðmið velferðarráðuneytis (þá félags- og tryggingamálaráðuneytis) um aðbúnað á hjúkrunarheimilum. Á þessum forsendum tóku stjórnvöld ákvörðun árið 2009 um að leita samninga við sveitarfélög um uppbyggingu hjúkrunarheimila samkvæmt leiguleið.
    Í leiguleiðinni felst að sveitarfélag tekur að sér, á grundvelli samnings við velferðarráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti, hönnun og byggingu hjúkrunarheimilis. Verkið er á ábyrgð sveitarfélags sem annast fjármögnun þess. Á móti greiðir ríkið húsaleigu til 40 ára sem svarar til 85% stofnkostnaðar en sveitarfélagið leggur til 15%. Hlutur ríkissjóðs er fjármagnaður úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Í samningum við sveitarfélögin er samið um hámarksstærð hvers húsnæðis sem ríkissjóður greiðir leigu fyrir og leigufjárhæð fyrir hvern fermetra sem er föst krónutala. Leigugreiðslur hefjast við afhendingu húsnæðisins og breytist fjárhæð leigunnar frá þeim degi í takt við breytingar sem verða á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.
    Í upphafi var gert ráð fyrir samningum við níu sveitarfélög. Árið 2011 bættust tvö sveitarfélög við en eitt af upphaflegu sveitarfélögunum hætti við. Framkvæmdum er lokið í átta sveitarfélögum, sbr. töflu hér á eftir. Gert er ráð fyrir að nýtt heimili taki til starfa á Seltjarnarnesi á árinu 2017. Þá standa yfir viðræður við Hafnarfjarðarkaupstað um endurskoðun fyrri samnings en framkvæmdir þar hafa ekki gengið eftir í samræmi við áform.


Sveitarfélag

Ný rými

Aflögð fjölbýli

Rými alls

Verklok ársfj./ár
Akureyrarkaupstaður 45 45 3/2012
Borgarbyggð 32 32 3/2012
Garðabær 21 39 60 2/2013
Mosfellsbær 30 30 2/2013
Reykjanesbær 21 39 60 1/2014
Fljótsdalshérað * 12 18 30 1/2015
Ísafjarðarbær 11 19 30 3/2015
Bolungarvíkurkaupstaður 10 10 3/2015
Framkvæmdum lokið 95 202 297
Seltjarnarneskaupstaður 40 40 3/2017
Hafnarfjarðarkaupstaður 5 55 60 óvíst
Á framkvæmda-/undirbúningsstigi 45 55 100
Hjúkrunarrými alls 140 257 397
              *      Heilbrigðisstofnun Austurlands leigir 25% af húsnæðinu til tíu ára. Að samningstímanum loknum fjölgar rýmum
                   um 10 í sveitarfélaginu og verða þá 40.

    Í áætlun ráðuneytisins er gert ráð fyrir að alls verði til 397 hjúkrunarrými hjá þessum sveitarfélögum, að undanskildum þeim 10 sem bætast við á Fljótsdalshéraði síðar. Þegar hafa 297 rými verið tekin í notkun. Þar af hafa 95 rými nýst til að mæta þörfum fólks sem bíður eftir hjúkrunarrými, en 202 rými hafa leyst af hólmi eldri rými sem ekki standast nútímakröfur.

     2.      Vinnur ráðuneytið enn eftir þeirri stefnu?
    Ekki er gert ráð fyrir þessari fjármögnunarleið við byggingu fleiri hjúkrunarheimila. Í nýrri framkvæmdaáætlun ráðherra um uppbyggingu hjúkrunarheimila á næstu fjórum til fimm árum er gert ráð fyrir að farin verði hefðbundin fjármögnunarleið. Í henni felst að 45% stofnkostnaðar komi úr ríkissjóði, 40% úr Framkvæmdasjóði aldraðra og að sveitarfélögin leggi til 15% kostnaðarins.

     3.      Hver er áætlaður kostnaður ríkisins samtals á samningstímanum og hvað leggja sveitarfélögin fram mikið fjármagn á móti ríkinu?
    Eins og kom fram í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar þá greiðir ríkið húsaleigu í 40 ár sem telst ígildi 85% af stofnkostnaði hjúkrunarheimilis. Hlutdeild sveitarfélags nemur þá 15% af stofnkostnaðinum. Eins og kemur jafnframt fram í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar bera sveitarfélögin ábyrgð á verkinu og fjármögnun þess. Ráðuneytið hefur hvorki upplýsingar um fjármögnunarsamninga sveitarfélaganna né hvort byggingarkostnaður hvers heimilis hafi verið í samræmi við þær forsendur sem lagt var upp með í samningunum. Því verður aðeins hægt að nálgast kostnað sveitarfélaganna út frá þeim leigugreiðslum sem ríkissjóður greiðir. Á yfirstandandi ári (2016) er áætluð húsaleiga sem ríkið greiðir vegna þeirra átta heimila sem þegar hafa verið tekin í notkun 600 millj. kr. Miðað við 15% hlutdeild sveitarfélaga leggja þau að auki til 106 millj. kr. í ár.
    Að teknu tilliti til leigugreiðslna þeirra heimila sem tekið hafa til starfa og þeirra heimila sem eru í farvatninu en hafa ekki tekið til starfa má áætla að kostnaður ríkisins verði um 800 millj. kr. á ári og kostnaður sveitarfélaganna um 140 millj. kr. á ári. Hér er miðað við verðlag yfirstandandi árs.
    Á heimilum sem reist hafa verið samkvæmt leiguleið hafa þegar orðið til 95 ný rými. Með nýjum rýmum er átt við viðbótarrými sem nýtast til að mæta þörfum fólks á biðlistum og kalla á viðbótarrekstrarheimildir (daggjöld). Daggjöld á hjúkrunarheimilum miðast við þörf fyrir þjónustuna samkvæmt RAI-mati. Vegið meðaltal þyngdarstuðuls fyrir þessi nýju rými er 1,16. Daggjald fyrir hvert rými miðað við þann þyngdarstuðul er samtals rúmar 10,2 millj. kr. á ári samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2016. Árlegur rekstrarkostnaður 95 nýrra rýma er um 975 millj. kr. á ári og hafa rekstrarútgjöld aukist sem nemur þeirri fjárhæð með tilkomu leiguleiðarheimila. Ef miðað er við 140 ný rými, sbr. töflu hér fyrr, má gera ráð fyrir að árlegur rekstrarkostnaður aukist um 460 millj. kr. til viðbótar og verði þannig um 1.435 millj. kr. á ári þegar öll nýju rýmin hafa verið tekin í notkun.

     4.      Hvernig er eignarhaldinu háttað í leiguleiðinni?
    Hjúkrunarheimilin eru í eigu sveitarfélaganna. Þeim er á hinn bóginn óheimilt að framselja eignarrétt að húsnæðinu til þriðja aðila á samningstímanum.