Ferill 489. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 919  —  489. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur
um fækkun fæðingarstaða og ungbarnaeftirlit í dreifbýli.


     1.      Hvert er viðhorf ráðherra til þess að fæðingarstöðum hefur fækkað á undanförnum árum samkvæmt skýrslum frá fæðingaskrá og fæðingum kvenna á leið á fæðingarstað fjölgað?
    Einn grundvallarþátturinn í heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma er að tryggja öryggi þeirra sem hennar njóta. Skipulag heilbrigðisþjónustu, þar með fæðingarþjónustu, þarf að vera í takt við breytingar á kröfum um færni heilbrigðisstarfsmanna og viðhorf almennings til öruggrar þjónustu. Það felur m.a. í sér að unnt sé að veita mjög sérhæfða þjónustu fyrir móður og barn ef ófyrirséð vandamál koma upp í fæðingu.
    Fæðingarstöðum hefur fækkað nokkuð á undanförnum árum og áratugum sem helgast ekki hvað síst af því að konur leita til staða þar sem þær telja öryggi sínu og barnsins best borgið. Um nokkurt skeið hefur reynst erfitt að manna stöður sérfræðinga eins og svæfingalækna og fæðingarlækna á litlum stofnunum í dreifbýli og einnig fylgir mikill kostnaður því að halda úti vöktum fyrir slíka sérfræðinga. Því hafa heilbrigðisstofnanir í dreifbýli dregið úr þeirri þjónustu. Rétt er að benda á að þó ekki hafi verið sett viðmið hér á landi um lágmarksfjölda fæðinga á fæðingarstað til að viðhalda færni í fæðingarhjálp hafa slík viðmið verið sett fram víða annars staðar.
    Embætti landlæknis (EL) hefur gefið út leiðbeiningar um val á fæðingarstað þar sem skilgreind eru fjögur mismunandi þjónustustig frá A til D, þar sem A táknar Landspítala en D fæðingarstað sem hentar eingöngu þegar meðganga hefur verið eðlileg og ekki er talin aukin áhætta í fæðingu að mati læknis og ljósmóður. Hver fæðingarstaður skilgreinir sitt stig miðað við fagþekkingu og aðstæður á hverjum stað. EL ítrekar að um leiðbeiningar er að ræða en ekki reglur og að val á fæðingarstað sé einstaklingsbundið og háð aðstæðum hverju sinni. Leiðbeiningunum er ætlað að stuðla að því að verðandi móðir og faðir geti tekið upplýsta ákvörðun um fæðingarstað.
    Á vegum ráðherra er nú verið að skoða hvort og með hvaða hætti væri æskilegt að fjölga á ný fæðingarstöðum og/eða hækka þjónustustig á einhverjum sem fyrir eru. Við þessa vinnu verður öryggi mæðra og ófæddra barna þeirra í fyrirrúmi.
    Heilbrigðisyfirvöld vilja leitast við að tryggja jafnræði í aðgengi að bestu mögulegu fæðingarþjónustu með því að aðstoða fjölskyldur svo að þær geti dvalið nærri fæðingarstað dagana fyrir áætlaða fæðingu barns, m.a. með aðgengi að sjúkrahóteli.

     2.      Telur ráðherra, í ljósi þess hversu margar konur hafa alið börn sín á leið á fæðingarstað undanfarið, að öryggi kvenna sem búa langt frá fæðingarstöðum sé nægilega tryggt?
    Fjöldi fæðinga á Íslandi hefur verið á bilinu 4300–4500 á ári undanfarin tíu ár. Samkvæmt fæðingarskrá fæddust níu börn á leið á fæðingarstað árið 2014, átta á árinu 2013, þrjú á árinu 2012 og eitt árið 2011. Ekki kemur fram hversu mörg börn fæðast á leið á fæðingarstað í þéttbýli og hversu mörg í dreifbýli.
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar á öryggi móður og barns alltaf að vera í öndvegi. Öryggi verður best tryggt með vel þjálfuðu fagfólki á fæðingarstað og aðstæðum sem gera verðandi foreldrum kleift að dvelja nálægt völdum fæðingarstað þegar líður að áætluðum fæðingardegi.

     3.      Hver hefur kostnaður verið við flutning kvenna á fæðingarstað undanfarin fimm ár og hvernig skiptist hann eftir heilbrigðisumdæmum?
    Ráðuneytið hefur áætlað kostnað vegna sjúkraflutninga með sjúkrabíl en nægilegar upplýsingar voru ekki tiltækar til að meta kostnað við flutninga með sjúkraflugi.
    Kostnaður við flutningana var áætlaður annars vegar út frá tölum um fjölda flutninga með sjúkrabíl á fæðingardeildir Landspítala (LSH) og Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) á árunum 2010–2014 og hins vegar áætluðum kostnaði við flutning samkvæmt reglugerð nr. 1142/2015 um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir og greiðslum þeirra fyrir heilbrigðisþjónustu. Miðað við þessar forsendur skiptist kostnaður við sjúkraflutninga á fæðingardeildir Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri niður á umdæmi eins og sjá má í eftirfarandi töflu. Ekki var metinn kostnaður við flutninga á aðra fæðingarstaði.

2010 2011 2012 2013 2014
Heibrigðisumdæmi Austurlands 0 0 720.500 0 0
    SAk 0 0 720.500 0 0
Heilbrigðisumdæmi Norðurlands 4.788.500 4.590.500 7.708.500 9.230.000 4.868.500
    LSH 0 791.500 1.422.000 1.422.000 0
    SAk 4.788.500 3.799.000 6.286.500 7.808.000 4.868.500
Heilbrigðisumdæmi Suðurlands 5.089.500 7.403.500 6.623.500 3.958.500 4.901.000
    LSH 5.089.500 7.403.500 6.623.500 3.958.500 4.901.000
Heilbrigðisumdæmi Suðurnesja 5.732.500 6.213.000 6.540.000 5.415.500 5.078.500
    LSH 5.732.500 6.213.000 6.540.000 5.415.500 5.078.500
Heilbrigðisumdæmi Vesturlands 848.000 522.000 498.000 2.094.500 852.500
    LSH 848.000 522.000 498.000 2.094.500 852.500
Höfuðborgarsvæðið 12.556.000 15.652.000 12.212.000 11.266.000 12.470.000
    LSH 12.556.000 15.652.000 12.212.000 11.266.000 12.470.000
Samtals kr. 29.014.500 34.381.000 34.302.500 31.964.500 28.170.500

     4.      Hver er afstaða ráðherra til heimafæðinga og skipulags ljósmæðraþjónustu með tilliti til þeirra?
    Heilbrigðisyfirvöld leggja áherslu á mikilvægi þess að verðandi foreldrar hafi val um fæðingarstað og að heimafæðing sé fyrir fram ákveðin og upplýst val verðandi foreldra. Í leiðbeiningum EL um fæðingarstað er sérstaklega fjallað um ábendingar um heimafæðingar. Þar eru einnig tilgreindir þættir tengdir heilsufari móður og/eða barns og fyrri fæðingarsögu konunnar sem eru frábendingar frá heimafæðingum. Öryggi móður og barns þarf að vera í fyrirrúmi og leiðbeiningar EL eru mikilvægur þáttur í því að svo geti verið.

     5.      Hvernig er háttað ungbarnaeftirliti í dreifbýli og er því sinnt með sama hætti og sömu tíðni og í þéttbýli?
    Heilsuverndin er framkvæmd í samræmi við leiðbeiningar um heilsuvernd barna 0–5 ára frá embætti landlæknis þar sem m.a. eru leiðbeiningar um skoðanir, bólusetningar, mat á þroska barna og fræðslu og forvarnir. Heilsuvernd barna er sinnt með sama eða svipuðum hætti um land allt þó að skipulag við vitjanir og komur á heilsugæslustöð geti verið mismunandi eftir landsvæðum.