Ferill 387. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 920  —  387. mál.
Nýjar töflur.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur Nýsköpunarmiðstöð Íslands sótt um eða fengið styrki úr samkeppnissjóðum og á hvaða lagagrundvelli hefur það þá verið gert? Ef svo er, hversu marga styrki hefur stofnunin sótt um og fyrir hversu háar fjárhæðir, hversu marga styrki hefur stofnunin fengið og hver var fjárhæð þeirra?
    Svarið óskast sundurliðað eftir árum frá árinu 2007.

    
    Þau grundvallarsjónarmið gilda um úthlutun fjármagns úr samkeppnissjóðum (Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði) að í öllum tilfellum skulu bestu verkefnin hljóta styrk af því fjármagni sem til ráðstöfunar er hverju sinni. Til að tryggja að svo sé hefur verið byggt upp faglegt matsferli og hæfustu einstaklingar á hverju fagsviði fengnir til að leggja mat á umsóknir. Þeir sitja í fagráðum sem skipuð eru af Vísinda- og tækniráði og eru þessir aðilar ótengdir Rannís (sem fer með umsýslu sjóðanna) eða viðkomandi ráðuneyti. Ráðuneytin skipa stjórnir sjóðanna sem bera ábyrgð á vali verkefna og fjárreiðum sjóðanna gagnvart ráðherra. Úthlutunarreglur eru einfaldar og gagnsæjar og eru þær ásamt matskerfi birt á heimasíðu Rannís. Matskerfið er í stöðugri þróun og er lagfært í hvert skipti sem ástæða er til og er þá oftast miðað við ábendingar viðskiptavina sjóðanna, en einnig kunna áherslur að breytast í takt við þróun og breyttar áherslur rannsóknasamfélagsins.
    Í samþykktri stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2013–2016 er lögð sérstök áhersla á fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun og gegna samkeppnissjóðir þar veigamiklu hlutverki. Í aðgerð stefnunnar nr. 1.3 er lögð til hækkun hlutfalls samkeppnisfjár í fjármögnun háskóla og rannsóknastofnana og hafa framlög til sjóðanna tveggja (Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs) verið aukin um alls 2,8 milljarða kr. á fjárlögum fyrir árin 2015 og 2016. Hækkun framlaga til sjóðanna sýnir ótvírætt áherslur ráðsins í verki og að samkeppni um nýsköpunar- og rannsóknafjármagn verði sú leið sem notast verði við í auknum mæli í stað beinna fjárveitinga til stofnana. Einnig má benda á aðgerð 3.1 í stefnu Vísinda- og tækniráðs þar sem áhersla er lögð á virkara samstarf fyrirtækja, rannsókna- og menntastofnana enda vel þekkt á alþjóðavísu að hagnýting rannsóknaverkefna og þekkingar er mikilvæg uppspretta nýsköpunar og framþróunar í vísinda- og nýsköpunarkerfum þjóða. Því er hvatt til slíks samstarfs þar sem einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir geti unnið saman að nýsköpunar- og þróunarverkefnum.
    Þeirri stefnu hefur verið fylgt á undanförnum árum að auka framlög til samkeppnissjóðs og hafa háskólar og aðrar opinberar stofnanir í vaxandi mæli þurft að verða samkeppnisfærar við hvern þann sem sækir um framlag til rannsókna og þróunar.
    Í 5. gr. laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007, segir: „Rannsóknastarfsemi á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands skal starfrækt undir heitinu Íslenskar tæknirannsóknir. Starfsemin skal taka mið af ályktunum Vísinda- og tækniráðs en áhersla skal vera á hagnýtar rannsóknir og vöruþróun í þágu nýsköpunar atvinnulífsins og grunnrannsóknir á afmörkuðum sviðum sem hafa þjóðhagslega þýðingu. Starfsemin skal stuðla að tækni yfirfærslu og aðlögun þekkingar til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf.“
    Nýsköpunarmiðstöð styður við frumkvöðla og sprotafyrirtæki, m.a. með því að veita þeim húsnæði, ráðgjöf, leiðsögn og upplýsingar. Í töflu 1 er gerð grein fyrir þeim styrkjum sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur fengið á tímabilinu 2007–2015. Nýsköpunarmiðstöð sækir í flestum tilfellum um styrki með öðrum, svo sem sprotafyrirtækjum eða fyrirtækjum sem eru í rannsóknum og þróun. Því er það aðeins hluti styrksins sem sótt er um sem rennur til Nýsköpunarmiðstöðvar.

Tafla 1.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í töflu 2 má sjá skiptingu styrkja til Nýsköpunarmiðstöðvar árin 2007–2015 eftir samkeppnissjóðum. Með í styrkjum frá Rannís eru Tækniþróunarsjóður, Rannsóknasjóður, M-ERA.NET og Innviðasjóður.

Tafla 2.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.