Ferill 576. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 936  —  576. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um samningsveð, nr. 75/1997
(fasteignaveðlán, fullnusta kröfu).

Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson.


1. gr.

    Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lánveitandi, sem í atvinnuskyni veitir einstaklingi lán til kaupa á fasteign sem ætluð er til búsetu og tekur veð í eigninni til tryggingar endurgreiðslu lánsins, getur ekki leitað fullnustu kröfu sinnar í öðrum verðmætum veðsala en veðinu. Krafa lánveitanda á hendur lántaka skal falla niður þegar lánveitandi hefur gengið að veðinu, enda þótt andvirði þess við nauðungarsölu dugi ekki til greiðslu upphaflegu kröfunnar. Óheimilt er að semja á annan veg en greinir í ákvæði þessu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp sambærilegt því sem hér lítur dagsins ljós var fjórum sinnum lagt fram á síðasta kjörtímabili án þess að það næði fram að ganga. Efnislegar breytingar frá fyrra frumvarpi eru óverulegar utan þess að aðeins er gert ráð fyrir að ákvæðið nái yfir lánasamninga sem til er stofnað eftir að frumvarpið öðlast gildi að lögum.

Markmið.
    Markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi hér á landi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna, þ.e. viðkomandi fasteign, og ganga skuldlausir frá borði ef í harðbakkann slær. Frumvarpið er þannig mikilvægur liður í því að dreifa áhættutöku í fasteignalánum og færa hérlenda lánastarfsemi úr því horfi að áhætta sé einhliða á hendi lántaka.

Um úrræðið.
    Með frumvarpi þessu er lögfest nokkurs konar efndaígildi (l. datio in solutum) í fasteignalánum. Efndaígildi lýsir sér þannig að kröfusambandi kröfuhafa og skuldara lýkur með öðrum hætti en upphaflega er að stefnt þar sem kröfuhafi viðurkennir aðra greiðslu fullnægjandi. Þannig gerir frumvarp þetta ráð fyrir að kröfuhafa samkvæmt samningi um fasteignalán, þar sem endurgreiðsla lánsins er tryggð með veði í hinni keyptu fasteign, verði gert að samþykkja að afhending umræddrar eignar í sínar hendur teljist vera fullnaðargreiðsla af hálfu skuldara sem jafngildi því að skuldbindingin hafi verið efnd að fullu. Ákvæðið er orðað með þeim hætti að ekki er gert ráð fyrir að á það reyni nema í neyð, þ.e. þegar greiðslufall hefur orðið af hálfu skuldara og lögbundinn réttur kröfuhafa til að neyta fullnusturéttar síns er orðinn virkur.

    Í skýrslu London Economics frá árinu 2012 um úrræði til handa neytendum í fjárhagsörðugleikum er ítarlega fjallað um efndaígildi á borð við það sem hér um ræðir. 1 Þar kemur fram að sambærileg úrræði hafi lengi þekkst í mörgum ríkjum Bandaríkjanna og hafi frá fjármálahruni rutt sér til rúms í Evrópu, einkum á Spáni. 2

Nauðsyn og kostir lagasetningar.
    Brýn nauðsyn þess að lögfesta úrræði á borð við það sem frumvarp þetta mælir fyrir um kom bersýnilega í ljós í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008 þegar gengi krónunnar hríðféll með þeim afleiðingum að gengistryggðir lánasamningar urðu skuldurum ofviða. Úrræðaleysið sem blasti við neytendum olli fordæmalausu uppþoti í samfélaginu sem dró dilk á eftir sér. Nauðsynlegt er að læra af reynslunni og innleiða úrræði til að fyrirbyggja að sagan endurtaki sig. Að mati flutningsmanna frumvarps þessa yrði til mikilla bóta að styrkja stöðu skuldara að fasteignaveðlánum með þeim hætti sem frumvarpið kveður á um. Auk þess að færa skuldurum í hendur nauðsynlegt úrræði til að mæta ófyrirséðum fjárhagsörðugleikum mundi sú áhættudreifing sem í því felst hvetja lánastofnanir til vandaðri lánastarfsemi. Þannig gerði frumvarpið að verkum, yrði það að lögum, að hagur lánveitanda og skuldara yrði sameinaður umfram það sem nú er, með það að markmiði annars vegar að skuldari geti staðið undir afborgunum af fasteignaláni sínu og hins vegar að raunverulegt virði fasteignar sé ekki miklum mun minna en virði lánasamningsins heldur sambærilegt. Þannig yrði dregið úr líkunum á myndun fasteignabólu í líkingu við þá sem varð á árunum fyrir hrun. Til langs tíma litið leiddi breytt umhverfi að þessu leyti til vandaðri lánastarfsemi samfélaginu öllu til hagsbóta.

Lagaleg útfærsla.
    Lagt er til að bætt verði við 19. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997, málsgrein þess efnis að fullnustu vegna fasteignaveðláns verði ekki leitað í öðrum eignum veðsala en veðinu. Áréttað er að ákvæðið gildi aðeins um fasteignalán sem veitt eru einstaklingum í atvinnuskyni, þ.e. ákvæðið nái aðeins til neytendalána til fasteignakaupa. Í lokamálslið ákvæðisins er tekið fram að óheimilt sé að semja á annan veg en ákvæðið mælir fyrir um. Er það gert til að girða fyrir að úrræðið verði að markleysu í framkvæmd vegna almennrar heimildar í 1. mgr. 2. gr. laga um samningsveð til að víkja frá ákvæðum laganna með samningi.
Neðanmálsgrein: 1
1    London Economics: Study on means to protect consumers in financial difficulty, bls. 106–155. Sjá hér: ec.europa.eu/finance/finservices-retail/docs/fsug/papers/debt_solutions_report_en.pdf
Neðanmálsgrein: 2
2    Sama heimild, bls. 106 og 138–151.