Ferill 459. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 945  —  459. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Júlíusdóttur um kostnað við auglýsingar ríkisstjórnarinnar.


     1.      Hversu miklu fjármagni hefur verið varið í auglýsingar frá ríkisstjórninni frá og með júní 2013 til dagsins í dag og hvert hefur efni þeirra verið, brotið niður á einstaka miðla með kostnaði?
    Frá árinu 2013 hefur ríkisstjórnin birt tvær auglýsingar. Efni fyrri auglýsingarinnar var að hvetja neytendur til að fylgjast með verðlagi og beina viðskiptum sínum til þeirra sem skiluðu lækkunum eða niðurfellingu opinberra gjalda til almennings í lægra vöruverði og var sú hvatning sett fram í tengslum við lagabreytingar sem fólu í sér lækkanir á tollum af fötum, skóm og öðrum nauðsynjavörum, sem tóku gildi um síðustu áramót. Efni síðari auglýsingarinnar var að vekja athygli almennings á þeirri þverpólitísku samstöðu sem náðist á Alþingi við samþykkt fjárlaga um að verja bæri tekjum sem rynnu í ríkissjóð vegna stöðugleikaframlaga föllnu bankanna, á grundvelli nauðasamninga þeirra, til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs og ná þannig fram lækkun á vaxtabyrði ríkissjóðs.
    Heildarkostnaður án virðisaukaskatts vegna auglýsinganna nam 2.537.918 kr., þar af nam birtingarkostnaður 2.290.909 kr. og skiptist hann niður á fréttamiðla með eftirfarandi hætti: RÚV 197.700 kr., Fréttablaðið 800.000 kr., Morgunblaðið 458.835 kr., Fréttatíminn 193.800 kr., DV 135.000 kr., Viðskiptablaðið 139.994 kr., visir.is 168.000 kr, mbl.is 70.590 kr., dv.is 94.290 kr. og pressan.is 32.700 kr.
    Að auki tók ríkisstjórnin þátt í birtingu auglýsinga í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins í janúar 2014 um forsendur kjarasamninga tengdar verðstöðugleika. Þá hafa auglýsingar í einhverjum tilvikum verið birtar í nafni ríkisstjórnar sem þáttur í meðferð lögbundinna verkefna stjórnvalda, svo sem vegna höfuðstólslækkunar íbúðalána. Slíkar auglýsingar eru ekki taldar með í svari þessu enda hefur ríkisstjórnin ekki beina aðkoma að ákvarðanatöku vegna þeirra heldur hvílir framkvæmdin hjá þeim ráðherra sem ber ábyrgð í hverju tilviki.

     2.      Hversu mikið hefur hingað til kostað auglýsingaherferð, sem nýlega var farið að birta, m.a. um verk ríkisstjórnarinnar og stöðu efnahagsmála og hver er áætlaður heildarkostnaður hennar?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar hefur ríkisstjórnin einungis staðið að birtingu tveggja auglýsinga og er kostnaður vegna þeirra sá sem þar greinir. Ekki eru uppi áform um frekari birtingar auglýsinga.

     3.      Hversu margar auglýsingar hafa verið birtar í þessari herferð, brotið niður á einstaka miðla með kostnaði? Óskað er eftir upplýsingum um birtingaráætlun fyrir frekari auglýsingar.
    Sjá svar við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

     4.      Hvar var ákvörðun tekin um að hefja slíkar auglýsingar og af hvaða fjárlagalið eru þær greiddar?
    Ákvörðun um að hefja birtingu framangreindra tveggja auglýsinga var tekin í forsætisráðuneytinu, að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, að lokinni kynningu í ríkisstjórn. Kostnaður vegna auglýsinganna var greiddur af ráðstöfunarfé ríkisstjórnar samkvæmt ákvörðun hennar.

     5.      Hvers vegna var ákveðið að ráðast í birtingu auglýsinga til að kynna sérstaklega verk ríkisstjórnarinnar? Telur forsætisráðherra þetta upplýsingar er varða slíka almannahagsmuni að setja beri fjármuni í að auglýsa? Hafa þessar upplýsingar ekki birst í fjölmiðlaumfjöllun um þjóð- og efnahagsmál eða verið aðgengilegar að öðru leyti?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar var efni og tilgangur fyrri auglýsingarinnar að hvetja neytendur til að fylgjast með verðlagi og beina viðskiptum sínum til þeirra sem skiluðu gjaldalækkunum í lægra vöruverði og var sú hvatning sett fram í tengslum við lagabreytingar sem fólu í sér lækkanir á tollum af fötum, skóm og öðrum nauðsynjavörum, sem tóku gildi um síðustu áramót. Efni og tilgangur síðari auglýsingarinnar var að vekja athygli almennings á þeirri þverpólitísku samstöðu sem náðist á Alþingi við samþykkt fjárlaga um að verja bæri tekjum sem rynnu í ríkissjóð vegna stöðugleikaframlaga föllnu bankanna, á grundvelli nauðasamninga þeirra, til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs og ná þannig fram lækkun á vaxtabyrði ríkissjóðs.
    Framangreind málefni varða mikilsverða almannahagsmuni og var það mat ríkisstjórnarinnar að réttlætanlegt væri að nýta ráðstöfunarfé hennar til að kosta birtingu umræddra tveggja auglýsinga enda þótt upplýsingarnar hefðu þegar verið aðgengilegar almenningi í öðru formi.

     6.      Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi auglýsingar? Telur forsætisráðherra eðlilegt að auglýsa án þess að um sérstakar leiðbeiningar eða nauðsynlegar upplýsingar til almennings sé að ræða? Hvar liggja mörk upplýsingaskyldu og flokkapólitískrar auglýsingaherferðar að mati ráðherra?
    Upplýsingagjöf til almennings er hluti af skyldum stjórnvalda, sbr. 1. mgr. 13. gr. upplýsingalaga. Með hvaða hætti upplýsingum er komið á framfæri er matsatriði í hverju tilviki innan ramma laga og reglna.
    Ríkisstjórnin hefur ekki mótað sér stefnu um notkun auglýsinga við upplýsingamiðlun til almennings en fyrir liggur að auglýsingar stjórnvalda verða að byggja á málefnalegum sjónarmiðum og varða almannahagsmuni.