Ferill 529. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 948  —  529. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni
um tannlækningar fyrir fanga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Stendur föngum í afplánun til boða fjárhagsaðstoð frá ríki eða sveitarfélögum vegna nauðsynlegrar tannlæknaþjónustu? Ef svo er, hvernig er slík aðstoð kynnt fyrir föngum?

    Í lögum um fullnustu refsinga er ekki kveðið á um skyldu fangelsisyfirvalda til að greiða fyrir tannlækningaþjónustu við fanga heldur greiða þeir sjálfir fyrir slíka þjónustu. Ef fangi getur hins vegar ekki staðið straum af kostnaðinum sjálfur greiðir fangelsið fyrir bráðaþjónustu (vegna tannverkja o.þ.h.). Sá kostnaður er innheimtur eins og unnt er með því að draga smám saman af þóknun viðkomandi fanga fyrir vinnu eða af dagpeningum hans. Samkvæmt 21. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, er heimilt að taka þóknun eða dagpeninga til greiðslu á skaðabótum eða öðrum útgjöldum sem fangi verður ábyrgur fyrir meðan á afplánun stendur, þar á meðal skuldum sem hann hefur stofnað til við fangelsið. Þó má ekki taka meira en helming af þóknun fanga eða fjórðung af dagpeningum til slíkra greiðslna. Hafi fangi ekki náð að greiða skuld áður en hann lýkur afplánun falla eftirstöðvar niður. Sé fangi fluttur í annað fangelsi heldur innheimta skuldarinnar áfram þar.
    Fangar geta eins og aðrir borgarar átt rétt á félagsþjónustu í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga lögheimili, þar á meðal til greiðslu á kostnaði vegna tannlækninga (sjá álit umboðsmanns Alþingis nr. 5335/2008). Jafnan sækja einhverjir fangar um slíka styrki og geta þeir fengið leiðbeiningar þar um hjá félagsráðgjöfum Fangelsismálastofnunar.