Ferill 587. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 955  —  587. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög,
nr. 108/1999, með síðari breytingum (skráning barna).

Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Ásta Guðrún Helgadóttir,
Brynhildur Pétursdóttir, Óttarr Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir.


1. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Þeir sem eru orðnir 13 ára að aldri geta tekið ákvörðun um inngöngu í skráð trúfélag eða lífsskoðunarfélag eða úrsögn úr trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi.
    Það foreldri sem fer með forsjá barns tekur ákvörðun um inngöngu þess í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi, þar til barn er 13 ára að aldri. Ef foreldrar fara saman með forsjá barns taka þeir ákvörðun sameiginlega. Hafi barn náð 12 ára aldri skal leita álits þess um slíka ákvörðun. Hafi forsjá barns verið falin öðrum en foreldrum á grundvelli laga tekur forsjáraðili ákvörðun um inngöngu þess í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi. Staða barns skal vera ótilgreind að þessu leyti þar til foreldri eða forsjáraðili eða barnið sjálft óskar eftir skráningu í trúfélag eða lífsskoðunarfélag.
    Enginn má samtímis heyra til þjóðkirkjunni, skráðu trúfélagi utan þjóðkirkjunnar eða skráðu lífsskoðunarfélagi eða fleiri en einu skráðu trúfélagi utan þjóðkirkjunnar eða skráðu lífsskoðunarfélagi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 144. löggjafarþingi (572. mál) og er nú lagt fram að nýju óbreytt.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999. Annars vegar er lagt til að börn geti tekið ákvörðun varðandi aðild sína að skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi sjálf á fjórtánda aldursári eða þegar þau eru orðin 13 ára í stað 16 ára eins og núna. Hins vegar er lagt til að lagaáskilnaður um sjálfkrafa skráningu nýfæddra barna í trúfélög eða lífsskoðunarfélög verði felldur úr lögunum.

Skráning barna í skráð trúfélag eða lífsskoðunarfélag.
    Í 2. mgr. 8. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög er mælt fyrir um skráningu barna í trúfélag eða lífsskoðunarfélag frá fæðingu. Séu foreldrar barns í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess skal barnið skráð sjálfkrafa í það skráða trúfélag eða lífsskoðunarfélag sem foreldrar þess eru skráðir í, en vera utan slíkra félaga ef foreldrar þess eru utan þeirra. Ef foreldrar barns, sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess, eru ekki skráðir í sama skráða trúfélag eða lífsskoðunarfélag eða annað þeirra er utan slíkra félaga taka foreldrar sameiginlega ákvörðun um skráningu barnsins í trúfélag eða lífsskoðunarfélag. Ef foreldrar eru hvorki í hjúskap né skráðri sambúð skal skrá barnið í sama skráða félag og forsjárforeldri tilheyrir en vera utan trúfélaga ef forsjárforeldrið er utan trúfélaga.
    Flutningsmenn frumvarpsins telja ekki rétt að börn séu sjálfkrafa skráð í trúfélag eða lífsskoðunarfélag við fæðingu og með þessu frumvarpi er lagt til að slík skráning verði afnumin. Með aðild sinni að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, og lögfestingu sáttmálans hér á landi, hefur íslenska ríkið skuldbundið sig til að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi í hvers kyns lagasetningu sem varðar börn. Sjálfkrafa skráning barna í trúfélög er ekki í þágu hagsmuna barnsins og í raun er þetta fyrirkomulag einungis í þágu hagsmuna trúfélaganna eða lífsskoðunarfélaganna sjálfra. Í ályktun Jafnréttisstofu frá 1. desember 2008 segir m.a.:
    „[E]kki er að sjá að það séu neinir hagsmunir, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag, hvort sem það fylgir skráningu móður eða föður. Miklu eðlilegra, og í meira samræmi við jafnréttislög og anda þeirra laga, sem og jafnrétti og mannréttindi almennt, væri að forsjáraðilar tækju um það ákvörðun hvort, og þá hvenær skrá ætti barn í trúfélag. Samþykki beggja forsjáraðila ef þeir eru tveir, yrði þá að liggja fyrir til þess að barn yrði skráð í trúfélag þegar það er yngra en að því sé heimilt að sjá um slíkt á eigin forsendum. […] Niðurstaða Jafnréttisstofu er því sú að endurskoða þurfi tilgreint ákvæði laganna um skráð trúfélög, og þá annað hvort færa fyrir því gild rök að fyrirkomulag sem nú er lögfest sé eðlilegt og samrýmist jafnréttislögum og mannréttindalöggjöf eða fella ákvæðið í 2. mgr. 8. gr. laganna brott, og breyta fyrirkomulaginu í þá veru að forsjáraðilar taki sameiginlega ákvörðun um skráningu barns í trúfélag, þegar þeir svo kjósa.“
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráð trúfélög, sem ætlað var að koma til móts við þessi sjónarmið Jafnréttisstofu, var samþykkt á 141. löggjafarþingi (132. mál). Með lagabreytingunni var þó einungis breytt þeirri reglu að barn skyldi frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess. Með breytingunni skyldi jafna stöðu foreldra, þannig að meginreglan yrði sú að barn heyrði til sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og þeir sem færu með forsjá þess, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um skráð trúfélög eða lífsskoðunarfélög. Þannig var með breytingunni einungis komið til móts við sjónarmið um jafnrétti kynjanna en látið liggja milli hluta að rétta hlut barnsins. Ekki var heldur farið að þeim tilmælum Jafnréttisstofu að færa þyrfti gild rök fyrir því að núgildandi fyrirkomulag sé eðlilegt og samrýmdist jafnréttis- og mannréttindalöggjöf sem hér gilti.
    Í 1. mgr. 14. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins segir: „Aðildarríki skulu virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar.“ Í 2. mgr. 14. gr. samningsins segir: „Aðildarríki skulu virða rétt og skyldur foreldra, og lögráðamanna, eftir því sem við á, til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum á þann hátt sem samræmist vaxandi þroska þess.“ Í þessu ákvæði felst að það er skylda foreldra til að aðstoða barn við slíka ákvörðun og taka afstöðu hafi barn ekki þroska til þess sjálft að taka ákvörðun um þessi mál. Á þetta benti Mannréttindaskrifstofa Íslands í umsögn sinni við fyrrgreinda lagabreytingu á 141. löggjafarþingi. Í umsögn Mannréttindaskrifstofunnar segir einnig og í framhaldi af þessari túlkun á 2. mgr. 14. gr. barnasáttmálans, að því væri lagt til að ákvæðið kvæði á um það að foreldrar barns í hjúskap eða skráðri sambúð taki sameiginlega ákvörðun um skráningu barns í trúar- eða lífsskoðunarfélag og fram til þess tíma verði staða barns að þessu leyti ótilgreind.
    Flutningsmenn þessa frumvarps vilja að farið verði að tilmælum Jafnréttisstofu og Mannréttindaskrifstofu Íslands og leggja til að ákvæði 8. gr. laganna verði breytt á þann veg að sjálfkrafa skráningu barna í skráð trúfélag eða lífsskoðunarfélag verði hætt og foreldrar eða forsjáraðili barnsins ákvarði, að eigin frumkvæði, hvort barn skuli skráð í trúfélag eða lífsskoðunarfélag. Þá er lagt er til að sá háttur verði hafður á að barn geti tekið ákvörðun um aðild að skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi sjálft á fjórtánda aldursári eða þegar einstaklingur er orðinn 13 ára að aldri. Vilja flutningsmenn því miða við hinn hefðbundna fermingaraldur eða þegar venja er að ungmenni hljóti einhvers konar manndómsvígslu.

Framkvæmd á Norðurlöndum.
    Ýmis háttur er á þessum málum á Norðurlöndunum. Í Noregi gilda svipuð lög og hér á landi varðandi skráningu í trúfélög. Norsk börn eru sjálfkrafa skráð við fæðingu í norsku þjóðkirkjuna, svo fremi að annað foreldrið tilheyri þjóðkirkjunni. Vilji hins vegar það foreldri, sem ekki er skráð í þjóðkirkjuna, að barn sitt verði ekki skráð sjálfkrafa í kirkjuna getur foreldrið óskað eftir því. Séu báðir foreldrarnir meðlimir í norsku þjóðkirkjunni er barn þeirra sjálfkrafa skráð í kirkjuna þar til það nær 15 ára aldri. Sama gildir um foreldra sem fara einir með forsjá barna sinna. Þó að barn sé sjálfkrafa skráð í þjóðkirkjuna við fæðingu verður það ekki meðlimur hennar fyrr en við skírn. Þegar barn hefur náð 15 ára aldri getur það sjálft ákveðið að láta skíra sig, hafi það ekki þegar verið skírt. Ef barn hefur hins vegar ekki verið skírt fellur skráning þess í norsku þjóðkirkjuna úr gildi þegar það nær 18 ára aldri. Einstaklingi sem náð hefur 15 ára aldri er jafnframt frjálst að skrá sig í eða úr þjóðkirkjunni. Sé einstaklingur meðlimur norsku þjóðkirkjunnar getur hann ekki verið skráður í önnur trúfélög.
    Í Danmörku er þjóðkirkja líkt og á Íslandi og í Noregi. Í Danmörku eru börn hins vegar ekki sjálfkrafa skráð í þjóðkirkjuna. Allir sem eru skírðir í dönsku þjóðkirkjunni eru skráðir í hana en aðrir, sem hafa hlotið skírn frá annarri evangelískri-lútherskri kirkju, þurfa að skrá sig sérstaklega í þjóðkirkjuna óski þeir þess. Meðlimir dönsku þjóðkirkjunnar mega ekki vera skráðir í önnur trúfélög. Foreldrum er leyfilegt að láta skíra börn sín í dönsku þjóðkirkjuna en eftir 15 ára aldur þarf að liggja fyrir samþykki barnsins.
    Í Svíþjóð var aðskilnaði ríkis og kirkju komið á árið 2000. Sænska kirkjan er því eins og hvert annað trúfélag. Ríkið sér um innheimtu sóknargjalda og greiðir ákveðna upphæð til hennar sem miðast við fjölda meðlima, líkt og lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög segja til um. Áður fyrr, þegar kirkjan var enn ríkiskirkja, voru einstaklingar skráðir sjálfkrafa í kirkjuna við fæðingu líkt og enn tíðkast hér á landi og í Noregi. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi verður hver sá sem hlýtur skírn hjá sænsku kirkjunni meðlimur hennar. Sé einstaklingur skírður hjá annarri kristinni kirkju getur hann óskað eftir að gerast meðlimur í sænsku kirkjunni með viðtali hjá presti í sínu umdæmi. Þá er einstaklingum frjálst að skrá sig í eða úr sænsku kirkjunni líkt og tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum.