Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 957  —  504. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni
um aðgerðir gegn sjávarrofi við Vík í Mýrdal.


     1.      Er talin þörf á bráðaaðgerðum til að varna því að sjávarrof ógni mannvirkjum í Vík í Mýrdal og í hverju yrðu þær fólgnar?
    Svæðið þar sem sjávarrof ógnar mannvirkjum í Vík í Mýrdal er austan við sjóvarnargarð sem byggður var 2011 til að stöðva sjávarrof milli garðsins og Reynisfjalls, þ.e. fyrir framan aðalbyggðina. Sjávarrofið er alvarleg ógn við byggð austan við garðinn og er rofið komið inn fyrir svokallaða aðgerðarlínu. Eftir mikil sjávarflóð í Vík 1990–1991 var byggður flóðvarnargarður og ákveðin aðgerðarlína en í því fólst að þegar rofið næði malarkambi fyrir framan byggðina yrði að ráðast í gerð sjóvarnargarðs til að stöðva rofið.
    Til að stöðva sjávarrofið austan við núverandi sjóvarnargarð er miðað við að byggja annan hliðstæðan sjóvarnargarð um 700 m austan við hann. Sú aðgerð er talin varanleg og hefjist framkvæmdir í ár er ekki talin þörf á bráðaaðgerðum. Bráðaaðgerðir stöðva ekki rofið en draga úr flóðahættu til skamms tíma.

     2.      Liggja fyrir áætlanir um varanlegar aðgerðir til varnar strandlengjunni framan byggðar í Vík og í hverju yrðu þær fólgnar?
    Hönnun sjóvarnargarðs fyrir ströndina austan við núverandi sandfangara í Vík felst aðallega í ákvörðun á tveimur stærðum, þ.e. lengd garðs og vegalengdar milli núverandi garðs og nýs garðs.
    Vegna grunnbrota langt úti fyrir ströndinni er ölduhæð uppi við ströndina háð dýpi. Miðað við þær takmarkanir sem grjótnám á staðnum setur eru takmörk fyrir því út á hvaða dýpi nýr garður getur náð. Þar er átt við að mögulegur stærsti grjótflokkur ræður ekki við nema ákveðna ölduhæð en samhengi er á milli ölduhæðar og dýpis. Fjarlægð milli garða ákvarðast af lengd nýja garðsins frá ströndinni, langur garður hefur áhrif á stærra svæði en stuttur.
    Grunnupplýsingar fyrir framhaldið eru dýptarmælingar annars vegar og athugun á grjótnámi hins vegar. Stefnt er að dýptarmælingum við fyrsta tækifæri en líklega verður ekki hægt að gera þær fyrr en í apríl eða maí á þessu ári. Til að hægt sé að mæla má ölduhæð ekki vera mikil. Vegna hafnleysu hefur dýptarmælingabátur verið sjósettur í Landeyjahöfn og siglt til Víkur. Slík sigling tekur um 3,5 klst. hvora leið og af öryggisástæðum þarf að vera hægt að sigla og mæla í sæmilegri dagsbirtu.

     3.      Hversu mikið er áætlað að, eftir atvikum, bráðaaðgerðir eða varanlegar varnaraðgerðir kosti?
    Áætlaður kostnaður við bráðaaðgerðir er allt að 25 millj. kr. en gagn af slíkum aðgerðum er talið afar takmarkað. Áætlað er að varanlegur varnargarður kosti um 256 millj. kr. Gera má ráð fyrir, miðað við reynslu annarra þjóða, að endurbyggja þurfi þennan garð að jafnaði á tíu ára fresti. Í framhaldi af byggingu varnargarðs væri líklega hagkvæmt að endurbyggja núverandi garð og er gert ráð fyrir að það kosti allt að 70 millj. kr.
    Vegagerðin vinnur að nánari útfærslu og hönnun á nauðsynlegum mannvirkjum og mun koma með kostnaðargreindar tillögur til ráðuneytisins að því loknu. Þegar niðurstaða þeirra vinnu liggur fyrir verða teknar ákvarðanir um framhald málsins.