Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 962  —  385. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sérstakt gjald vegna
ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992, með síðari breytingum.

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Baldur P. Erlingsson, Ernu Jónsdóttur og Hinrik Greipsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Friðrik Friðriksson og Steinar Inga Matthíasson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
    Með frumvarpinu er lagt til að skilgreining á því hvað teljist til ólögmæts sjávarafla skv. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992 verði útvíkkuð. Í gildandi lögum er kveðið á um að eftirtalinn sjávarafli teljist ólögmætur: Í fyrsta lagi sá sjávarafli sem er umfram það aflamark sem veiðiskip hefur. Í öðru lagi sjávarafli sem er fenginn án þess að tilskilin veiðileyfi skv. 2. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, séu fyrir hendi en í þeirri grein er m.a. mælt fyrir um sérstakt leyfi Fiskistofu ef koma þarf í veg fyrir staðbundna ofnýtingu á tilteknum stofni, óeðlilegan meðafla af öðrum tegundum en veiði beinist að eða önnur óæskileg áhrif veiða. Í þriðja lagi sá sjávarafli sem 2. mgr. 7. gr. laga nr. 37/1992 nær til sem á við ef Fiskistofa sýnir fram á að verkun, vinnsla eða sala tiltekins aðila á sjávarafla eða afurða úr honum sé umfram uppgefin kaup hans eða aðföng.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að einnig teljist ólögmætur sá sjávarafli sem er umfram hámarksafla sem veiðiskipi er settur með öðrum hætti en aflamarki eða krókaaflamarki, sem er fenginn utan leyfilegra veiðidaga, með óleyfilegum veiðarfærum eða á svæði þar sem viðkomandi veiðar eru bannaðar svo og sjávarafli sem nær ekki þeirri lágmarksstærð sem er kveðið á um í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða sérstökum veiðileyfum. Hvað a-lið 1. gr. varðar bendir nefndin á að útgerðum hefur lengi verið heimilt að leiðrétta stöðu aflaheimilda sinna, ef veitt er umfram heimildir, innan ákveðinna tímamarka, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og því lítur nefndin svo á að ólögmætur sjávarafli sé aðeins talinn sá afli sem stæði umfram heimildir að þeim tíma liðnum. Í c-lið er kveðið á um að sjávarafli sem er fenginn utan leyfilegra veiðidaga teljist ólögmætur. Nefndin leggur til viðbót við stafliðinn í þá veru að undanskilja eðlilegan meðafla frá því að teljast til ólögmæts sjávarafla. Greinin orðist því svo að ólögmætur sé sá sjávarafli sem er fenginn utan leyfilegra veiðidaga nema um eðlilegan meðafla sé að ræða.
    Þar sem útgerðum er skylt að landa öllum afla sem veiðist blasir við að einhver hluti aflans kann að reynast undir ákveðnum lengdar- eða þyngdarmörkum, vera svokallað undirmál, en reglur um undirmálsafla er að finna í reglugerð nr. 600/2015 um veiðar í atvinnuskyni. Í 9. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um að undirmálsafli skuli aðeins teljast að hálfu til aflamarks. Með því hefur verið reynt að stuðla að því að undirmálsafla sé frekar landað en að honum sé kastað. Sú breyting sem felst í f-lið 1. gr. frumvarpsins stríðir gegn þessari hugmynd og meginrökunum að baki ákvæðum laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og telur nefndin það orka tvímælis að hvetja til löndunar alls sjávarafla, þ.m.t. undirmálsafla, og jafnframt gera hann að ólögmætum sjávarafla sem greiða þarf gjald fyrir eða sem getur sætt upptöku. Nefndin leggur því til að f-liður 1. gr. frumvarpsins falli brott. Jafnframt bendir nefndin á að í e-lið er mælt fyrir um að sjávarafli sem er fenginn á svæði þar sem viðkomandi veiðar eru bannaðar teljist ólögmætur og verður það að teljast fullnægjandi til verndar ungfiski.
    Kristján L. Möller og Þorsteinn Sæmundsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Við c-lið bætist: nema um eðlilegan meðafla sé að ræða.
     b.      F-liður falli brott.

Alþingi, 7. mars 2016.

Jón Gunnarsson,
form.
Páll Jóhann Pálsson,
frsm.
Haraldur Benediktsson.
Steingrímur J. Sigfússon. Ásmundur Friðriksson. Björt Ólafsdóttir.
Þórunn Egilsdóttir.