Ferill 502. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1002  —  502. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um ritun
sögu kosningarréttar kvenna og verkefni Jafnréttissjóðs Íslands.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig hyggst forseti Alþingis bregðast við eftir að framlög samkvæmt samningi Alþingis og Sögufélags um ritun sögu kosningaréttar kvenna, sem gerður var 31. október 2014, voru felld niður og verkefninu vísað til Jafnréttissjóðs Íslands við gerð fjárlaga fyrir árið 2016?
     2.      Hvaða áhrif hefur þessi ráðstöfun á framvindu verkefnisins sem hér um ræðir og tækifæri stjórnar Jafnréttissjóðs Íslands til að verja fé sjóðsins í samræmi við tilefni hans og markmið?

    Í október 2014 gerðu framkvæmdanefnd 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna, sem komið var á fót samkvæmt ályktun Alþingis 11. mars 2013, og Sögufélag með sér samstarfssamning um útgáfu rannsóknarrits um þróun kosningarréttar, lýðræðis og jafnréttis á Íslandi. Við gerð samningsins var miðað við að til verksins kæmu árlegar fjárveitingar frá Alþingi á árabilinu 2014–2020. Við samþykkt fjárlaga fyrir árin 2014 og 2015 var sérstök fjárveiting til verksins bæði árin.
    Við samþykkt fjárlaga fyrir árið 2016 var fellt úr fjárlagafrumvarpinu 4 millj. kr. framlag til útgáfu rannsóknarritsins. Í rökstuðningi meiri hluta fjárlaganefndar, sem birtur er í nefndaráliti á þskj. 585, fyrir brottfalli framlagsins er vísað til þess að „um er að ræða verkefni sem á að rúmast innan fjárveitinga til Jafnréttissjóðs Íslands“. Er þar vísað til þess að í f-lið 1. mgr. ályktunar Alþingis um Jafnréttissjóð Íslands frá 19. júní 2015 segir m.a. að sjóðnum sé ætlað að fjármagna eða styrkja „rannsóknarverkefni sem eru til þess fallin að varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð“. Samkvæmt ályktun Alþingis um Jafnréttissjóð er gert ráð fyrir að sjóðurinn fái 100 millj. kr. á ári, í fimm ár, 2016–2020. Í samræmi við það voru Jafnréttissjóði Íslands veittar 100 millj. kr. á fjárlögum fyrir árið 2016.
    Í 2. mgr. 6. gr. samstarfssamnings framkvæmdanefndarinnar við Sögufélag segir að nefndinni sé heimilt að segja upp samningnum ef framlög á fjárlögum reynast ekki vera í samræmi við samninginn. Þá er í 7. gr. samningsins kveðið á um að þegar framkvæmdanefndin hefur lokið störfum sínum taki skrifstofa Alþingis við réttindum og skyldum nefndarinnar samkvæmt samningnum, en framkvæmdanefndin lauk störfum 31. des. 2015.
    Forseti Alþingis lítur svo á að þó að bein fjárveiting til útgáfu rannsóknarritsins hafi verið felld úr fjárlagafrumvarpinu felist ekki í því stefnubreyting varðandi þann vilja Alþingis að útgáfa verksins verði fjármögnuð á fjárlögum. Það var hins vegar niðurstaða Alþingis við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2016 að í ár verði framlag til verkefnisins greitt úr Jafnréttissjóði á grundvelli f-liðar 1. mgr. ályktunar Alþingis um Jafnréttissjóð, en sjóðurinn fær sín framlög á fjárlögum. Þegar Alþingi hefur kjörið í stjórn Jafnréttissjóðs mun forseti því rita stjórn sjóðsins og gera henni grein fyrir því að það sé afstaða Alþingis að hluta af framlögum Alþingis til Jafnréttissjóðs á árinu 2016 verði varið til að vinnu við gerð rannsóknarritsins á þessu ári. Forseti mun jafnframt beita sér fyrir því að við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2017 verði gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu til áðurgreinds rannsóknarrits.