Ferill 613. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1011  —  613. mál.




Beiðni um skýrslu


frá fjármála- og efnahagsráðherra um kynslóðareikninga.


Frá Helga Hjörvar, Árna Páli Árnasyni, Katrínu Júlíusdóttur, Kristjáni L. Möller,
Oddnýju Harðardóttur, Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur,
Valgerði Bjarnadóttur og Össuri Skarphéðinssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um svokallaða kynslóðareikninga, nánar tiltekið um þróun efnahagslegrar stöðu þess þjóðfélagshóps sem á hverjum tíma er á aldrinum 20–35 ára miðað við eldri kynslóðir undanfarna tvo til þrjá áratugi. Í skýrslunni verði þessi staða greind eins nákvæmlega og unnt er út frá þeim upplýsingum sem fyrir liggja og unnt er að vinna úr fyrirliggjandi grunngögnum, t.d. um tekjur og skuldir einstaklinga, vísitölu neysluverðs, þróun húsnæðisverðs og atvinnustöðu.

Greinargerð.

    Tilefni þessarar skýrslubeiðni er grein sem birtist 7. mars sl. í breska dagblaðinu The Guardian og fjallar um svokallaða kynslóðareikninga, eða þróun efnahagslegrar stöðu ungs fólks í hinum vestræna heimi síðustu þrjátíu ár. 1 Niðurstöður úttektarinnar, sem byggðist á gögnum frá sjö ríkjum Norður-Ameríku og Evrópu auk Ástralíu sýna að ungt fólk nú á dögum stendur að jafnaði umtalsvert verr að vígi í efnahagslegu tilliti miðað við aðra þjóðfélagshópa en raunin var fyrir 30 árum. Þannig hafa ráðstöfunartekjur heimila ungs fólks dregist saman miðað við landsmeðaltöl á tímabilinu í öllum ríkjunum sem til rannsóknar voru, að Ástralíu undanskilinni. Á sama tíma hafa ráðstöfunartekjur heimila elstu aldurshópanna aukist um allt að 60%. Einnig kemur fram að fólk á aldursbilinu 20–35 ára hafi að jafnaði haft hærri laun en meðallaun í viðkomandi landi fyrir þrjátíu árum en nú á dögum séu laun þessa aldurshóps allt að 20% undir meðallaunum. Fram kemur að samverkandi áhrif skulda, atvinnuleysis, hnattvæðingar og hækkunar húsnæðisverðs hafa dregið úr möguleikum ungs fólks á að fóta sig í nútímasamfélagi en á sama tíma hafi efnahagsleg staða eldri kynslóða batnað verulega.
    Að mati skýrslubeiðenda er mikilvægt að taka saman og greina sambærilegar upplýsingar um Ísland og gert er í fyrrnefndri úttekt um ýmis vestræn ríki. Margt bendir til þess að svipað sé uppi á teningnum hér á landi. Í grein The Guardian er línurit yfir þróun ráðstöfunartekna heimila mismunandi aldursflokka í hverju landi fyrir sig í prósentum miðað við landsmeðaltal (e. percentage growth in household disposable income above or below national average growth rate by age of head of household or spouse). Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands ná upplýsingar um ráðstöfunartekjur íslenskra heimila aðeins aftur til ársins 2004 og eru þær ekki greindar eftir aldurshópum. Hins vegar liggja fyrir upplýsingar um heildartekjur, atvinnutekjur og ráðstöfunartekjur einstaklinga frá 1990–2014, greindar niður á fimm ára aldursbil. Þessar upplýsingar ásamt þróun vísitölu neysluverðs og húsnæðisverðs og upplýsingum úr skattframtölum mætti nýta til að vinna greinargóða úttekt sambærilega þeirri sem birtist í grein The Guardian, heimfærða á Ísland. Eðlilegt er að ráðherra ákveði nánar hvaða breytur rétt sé að fjalla um í skýrslunni og hvernig hana skuli útfæra til að hún verði að sem mestu gagni.
    Áhyggjuefni er hve illa ungt fólk virðist standa að vígi nú á dögum í efnahagslegu tilliti. Altalað er að ungt fólk eigi mun erfiðara með að komast inn á fasteignamarkaðinn nú en á árum áður. Miklar hækkanir á leiguverði undanfarin ár valda því að ungt fólk sem er nýkomið út á vinnumarkaðinn á erfitt um vik að leggja fé í sparnað til að eiga fyrir afborgun í íbúð. Stórfelldar hækkanir á húsnæðisverði og auknar kröfur lánveitenda til lántaka til að standast greiðslumat leggjast á árar með hinu háa leiguverði svo að úr verður að ungu fólki reynist þrautin þyngri að eignast sína fyrstu fasteign án utanaðkomandi aðstoðar. Nákvæm greining á þróun efnahagslegrar stöðu ungs fólks undanfarinna ára er grundvallarforsenda þess að unnt sé að meta ástandið heildrænt svo vel sé. Í kjölfarið má taka upplýstar ákvarðanir um hvort og þá hvaða aðgerða sé þörf til að stemma stigu við þróuninni. Í þessu skyni er þess óskað að ráðherra láti vinna skýrslu þar sem fram fer nákvæm greining á þróun efnahagslegrar stöðu ungs fólks.
Neðanmálsgrein: 1
1     Caelainn Barr og Shiv Malik: „Revealed: the 30-year economic betrayal dragging down Generation Y's income“. The Guardian, mars 2016. Sjá:
     www.theguardian.com/world/2016/mar/07/revealed-30-year-economic-betrayal-dragging-down-generation-y-income
.