Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
2. uppprentun.

Þingskjal 1012  —  13. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak,
lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald
af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum (smásala áfengis).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ívar J. Arndal, Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur og Svein Víking Árnason frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Þóru Jónsdóttur frá Barnaheillum, Heiðu Björgu Pálmadóttur og Halldór Birgisson frá Barnaverndarstofu, Þórgný Thoroddsen, Gunnar Sigurðsson og Margréti Ásgerði Þorsteinsdóttur frá Fágun – félagi áhugafólks um gerjun, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Björgu Ástu Þórðardóttur og Almar Guðmundsson frá Samtökum iðnaðarins, Sóleyju Ragnarsdóttur frá Samkeppniseftirlitinu, Lárus M.K. Ólafsson frá Samtökum verslunar- og þjónustu, Frosta Ólafsson frá Viðskiptaráði, Söndru Aðalsteinsdóttur, Önnu S. Karlsdóttur, Aðalstein Gunnarsson og Jóhannes Ævar Hilmarsson frá IOGT, Einar Guðmundsson frá Brautinni – bindindisfélagi ökumanna, Maríu Rúnarsdóttur og Katrínu G. Alfreðsdóttur frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Árna Guðmundsson og Geir Bjarnason frá foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum, Árna Einarsson frá Fræðslu og forvörnum, Olgu Pokrovskayu frá Núll prósent hreyfingunni, Geir Bjarnason frá Saman-hópnum, Stefaníu Sörheller frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Harald Sigurðsson frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, Hildigunni Ólafsdóttur afbrotafræðing, Elísabetu Gísladóttur frá umboðsmanni barna, Birgi Jakobsson landlækni og Dóru G. Guðmundsdóttur og Rafn M. Jónsson frá embætti landlæknis, Svan Sigurbjörnsson lækni, Guðrúnu Höllu Jónsdóttur frá samráðshópi um forvarnir hjá Reykjavíkurborg, Matthildi Sveinsdóttur, Elísabetu Gísladóttur og Huldu Magnúsdóttur frá Neytendastofu, Halldór Jónsson frá SÁÁ og Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá AA-samtökunum, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, BSRB, Barnaheillum, Barnahreyfingu IOGT á Íslandi, Barnaverndarstofu, Bindindissamtökum IOGT, Brautinni – bindindisfélagi ökumanna, Fágun – félagi áhugafólks um gerjun, Félagi atvinnurekenda, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum, Fræðslu og forvörnum, Grímsnes- og Grafningshreppi, Gunnari Hersveini, Guðbjörgu Snót Jónsdóttur, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Hildigunni Ólafsdóttur, Hlyni Davíð Löve, Hrunamannahreppi, IOGT á Íslandi, landlæknisembættinu, Neytendastofu, Núll prósent hreyfingunni, Óháða söfnuðinum, Reykjavíkurborg, SÁÁ, Saman-hópnum, Samkeppniseftirlitinu, Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum iðnaðarins, Seyðisfjarðarkaupstað, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Stefáni Geir Þórissyni hrl., Svani Sigurbjörnssyni, Sveitarfélaginu Hornafirði, Sveitarfélaginu Vogum, Svæðisráði IOGT, Samtökum verslunar og þjónustu, umboðsmanni barna, verkefnastjórum hjá Reykjavíkurborg, Viðskiptaráði Íslands, Vopnafjarðarhreppi og Þorgerði Helgadóttur.
    Málið er endurflutt frá síðasta þingi (17. mál á 144. löggjafarþingi) en nefndin fjallaði þá ítarlega um málið og afgreiddi það til 2. umræðu en málið varð ekki útrætt. Tekið hefur verið tillit til breytingartillagna 1. minni hluta nefndarinnar frá síðasta þingi. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki með það að markmiði að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis verði aflagt og fleiri aðilum þannig veittur möguleiki til smásölu áfengis. Mörgum athugasemdum sem fram hafa komið varðandi efni frumvarpsins var svarað í áliti 1. minni hluta nefndarinnar á síðasta þingi (þskj. 1024 á 144 löggjafarþingi) og vísast til þeirrar umfjöllunar. Í áliti þessu telur meiri hlutinn þó ástæðu til að gera nánar grein fyrir nokkrum atriðum.
    Á fundum nefndarinnar var fjallað nokkuð um aðgreiningu áfengis frá öðrum vörum í smásöluverslunum öðrum en sérvöruverslunum og er þá sérstaklega horft til matvöruverslana. Í þessu sambandi bendir meiri hlutinn á að sveitarfélögin munu hafa töluvert vald til að ákveða fjölda og staðsetningu á smásölustöðum á áfengi í gegnum leyfisveitingakerfi sitt. Sveitarfélög veita almenn verslunarleyfi og þá er lagt til í frumvarpinu, líkt og framkvæmdin er reyndar nú þegar, að sveitarfélögin veiti smásöluleyfi fyrir áfengi sérstaklega. Sveitarfélögin veita þegar vínveitingaleyfi til veitingastaða og fellur þetta því vel að núverandi hlutverki. Meiri hlutinn telur þó rétt að leggja til að sveitarfélögin fái enn meira um fyrirkomulag áfengissölu að segja með því að sveitarfélög geti sett skilyrði um aðgreiningu áfengis frá öðrum neysluvörum í gegnum leyfisveitingar. Þannig geti sveitarfélög m.a. gert kröfu um svokallað búð í búð fyrirkomulag smásölunnar sem felur í sér algjöra aðgreiningu áfengis frá öðrum vörum innan verslunar. Meiri hlutinn leggur því til þá breytingu að ráðherra verði falið að útfæra nánar í reglugerð hvaða kröfur skuli gilda um leyfisveitingar sveitarfélaga að þessu leyti og að reglugerðin skuli samin í samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Þá áréttar meiri hlutinn í ljósi umsagna að með frumvarpinu er sú eina breyting lögð til að fyrirkomulagi smásölu áfengis verði breytt. Allar aðrar reglur varðandi sölu, meðhöndlun og neyslu áfengis verða þær sömu og áður og þannig jafn strangar. Meiri hlutinn bendir hér á athugasemdir í umsögn Samkeppniseftirlitsins þar sem fram kemur að eftirlitið sé fylgjandi því að núgildandi fyrirkomulag við sölu áfengis verði endurskoðað en jafnframt tekið fram að mikilvægt sé að löggjafinn leitist við að vernda samfélagið og einstaklinga frá þeirri vá sem neysla áfengis geti haft í för með sér en til þess verði hins vegar að velja þær aðferðir sem skerði frjálsa samkeppni sem minnst. Samkeppniseftirlitið dregur í efa að núgildandi lög hafi verið lögð á þennan mælistokk og tekur nefndin undir þau sjónarmið.
    Við umfjöllun nefndarinnar nú komu fram áhyggjur af því hvernig eftirliti með framkvæmd laganna yrði háttað og hvort það yrði jafn skilvirkt og nú er. Meiri hlutinn bendir á að í frumvarpinu felst að 400 millj. kr. til viðbótar munu árlega renna í Lýðheilsusjóð til forvarnaverkefna, sbr. 28. gr. frumvarpsins. Til að mæta þeim sjónarmiðum að kunna þurfi að auka eftirlit með framkvæmd laganna þegar smásölufyrirkomulagi áfengis hefur verið breytt leggur nefndin til að helmingur þeirrar fjárhæðar renni til lögreglunnar til að styrkja eftirlit með framkvæmd laganna og vímuefnanotkun ungmenna ásamt því að stunda forvarnir og taka félagsleg vandamál fastari tökum þegar í upphafi líkt og gert hefur verið á Suðurnesjum síðustu ár og nýlega á höfuðborgarsvæðinu einnig varðandi heimilisofbeldi. Ljóst er að ekki er vanþörf á því að styrkja lögregluna fjárhagslega séð.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:


     1.      Við 2. efnismgr. 22. gr. bætist: Sveitarstjórn er einnig heimilt að setja það skilyrði að áfengi skuli aðgreint frá öðrum vörum í verslun. Ráðherra setur, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, nánari kröfur um aðgreiningu áfengis frá öðrum vörum í reglugerð.
     2.      28. gr. orðist svo:
             Í stað orðanna „skal 1% renna í lýðheilsusjóð, sbr. lög um landlækni og lýðheilsu“ kemur: skulu 2,5% renna í lýðheilsusjóð, sbr. lög um landlækni og lýðheilsu, og 2,5% til ríkislögreglustjóra.

    Helgi Hrafn Gunnarsson ritar undir álitið með fyrirvara um heildarsamhengi málsins.

Alþingi, 15. mars 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Guðmundur Steingrímsson. Karl Garðarsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
Vilhjálmur Árnason.