Ferill 620. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1023  —  620. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um átaksverkefni í eftirliti með fylgni við vinnu- og skattalöggjöf.


Flm.: Lilja Rafney Magnúsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
Björn Valur Gíslason, Katrín Jakobsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon,
Svandís Svavarsdóttir, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra að leita eftir samkomulagi við fulltrúa vinnumarkaðarins um eins árs átaksverkefni í eftirliti með fylgni við vinnu- og skattalöggjöf. Átaksverkefnið hefjist 1. maí 2016 og hafi það að markmiði, auk þess að fylgjast með og tryggja eftirfylgni við vinnu- og skattalöggjöf, að safna upplýsingum um brot á þessum sviðum og gera tillögur um úrbætur. Sérstaklega ber að gefa gaum að vinnumansali og huga að ráðstöfunum gegn því. Félags- og húsnæðismálaráðherra stýri átaksverkefninu og láti gera skýrslu um framkvæmd þess ásamt tillögum um aðgerðir til að efla fylgni við vinnu- og skattalöggjöf sem lögð verði fyrir Alþingi í síðasta lagi 1. október 2017 með það að markmiði að niðurstöðurnar verði nýttar til að skipuleggja ráðstafanir sem bæti eftirfylgni við skatta- og vinnulöggjöf til framtíðar.

Greinargerð.

    Með fyrirliggjandi þingsályktunartillögu er stuðlað að því að samræma og samhæfa aðgerðir opinberra stofnana og verkalýðsfélaga gegn brotum á vinnu- og skattalöggjöf, en slík brot eru oft tengd og framin af sömu aðilum. Hvort tveggja er samfélagsmein sem vegur í senn að rótum réttarríkisins og velferðarkerfisins. Því er mikils um vert að samfélagið sporni við þeim brotum eftir fremsta megni. Átaksverkefnið yrði til þess að bæta skattheimtu og draga fram hugsanlega ágalla í skattkerfinu með tilliti til skattskila og útrýma brotum á vinnulöggjöf. Með því að sameina krafta og þekkingu aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera ætti að geta tekist að afla upplýsinga um tegundir og umfang brota á þessu sviði sem nýta mætti til að hamla gegn þeim með bættri löggjöf og öflugri gagnráðstöfunum.
    Þenslumerki eru auðgreinanleg í efnahagslífinu um þessar mundir og sýna sig m.a. í sívaxandi eftirspurn eftir vinnuafli sem Vinnumálastofnun spáir að muni haldast næstu árin. Sem stendur er mest eftirsókn eftir vinnuafli í tveimur starfsgreinum, ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Þörf fyrir vinnuafl er meiri en svo að innlent vinnuafl anni henni. Hlutfall erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði hérlendis hefur hækkað jafnt og þétt undanfarin ár og var komið í 9,3% í lok ársins 2015 þegar um 17.700 erlendir ríkisborgarar stunduðu vinnu hér á landi. Vinnumálastofnun spáir því að þetta hlutfall kunni að verða um 10% árið 2018 og verði þá hið sama og áratug áður, þegar hrun fjármálakerfisins varð. 1
    Hinn mikli fjöldi erlendra ríkisborgara, að hluta til frá löndum utan Evrópu, sem starfaði á Íslandi á árunum fyrir efnahagshrunið 2008 og sækir hingað aftur nú er til marks um alþjóðavæðingu efnahagskerfa samtímans og tengsl Íslands við alþjóðahagkerfið. Fólk í atvinnuleit lætur ekki landamæri ríkja eða heimsálfa stöðva sig heldur leitar þangað sem viðurværi er að hafa. Vissulega felast oft úrræði í því fyrir fólk sem býr við rýran kost og skort á tækifærum í heimahögum sínum að geta leitað sér viðurværis annars staðar, en þann kost tóku margir Íslendingar eftir hrun fjármálakerfisins haustið 2008. Raunin er því miður sú að ýmis konar misneyting fylgir alþjóðavæðingunni og hinu hreyfanlega vinnuafli, svo sem undirboð á launum og öðrum starfskjörum, blekkingar, hýrudráttur, nauðungarvinna og mansal.
    Vinnumarkaðseftirlit verkalýðsfélaga, Vinnumálastofnunar og lögreglu hefur leitt í ljós að ýmsar misfellur er að finna á íslenskum vinnumarkaði varðandi kjör og aðbúnað erlends starfsfólks og sumar sem upp hafa komið eru býsna alvarlegar eins og mansalsmál bera vott um.     Reynsla nágrannaþjóða, sem lengur hafa búið við aðstreymi erlends vinnuafls í stórum stíl en Íslendingar, bendir eindregið til þess að samfélagið þurfi að halda vöku sinni gagnvart misbeitingu á þessum vettvangi. Í danskri ágripsskýrslu eftir Anders Lisborg, Menneskehandel til tvangsarbejde i Danmark?, um mansal og nauðungarvinnu í Danmörku, sem gefin var út árið 2012 af Socialstyrelsen, er t.d. á það bent að grófra brota á borð við mansal hafi orðið vart í mörgum starfsgreinum í Evrópu, þar á meðal á Norðurlöndum. Vakin er athygli á því að víða sé þörf árvekni til að greina vinnumarkaðsbrot og hamla gegn misbeitingu á borð við nauðungarvinnu. Hafa ber hugfast að slíkt á sér oft stað við árstíðabundin störf og ekki síður í dreifbýli en þéttbýli. Þá er bent á að algengt sé að réttindi séu brotin á vinnufólki á einkaheimilum, t.d. á svonefndum „au pair“ sem annast barnagæslu og heimilisverk og eru langoftast konur eða stúlkur.
    Útsendir starfsmenn fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu og erlendir starfsmenn sem hingað koma á vegum starfsmannaleigna geta einnig verið útsettir fyrir brotum á vinnulöggjöf og er ástæða til að gefa því gaum.
    Undanskot frá skattgreiðslum eru engan veginn nýlunda hér á landi. Þvert á móti hefur slíkt athæfi lengi verið meinsemd sem grafið hefur undan sameiginlegum verkefnum landsmanna og skekkt samkeppnisstöðu fyrirtækja í atvinnurekstri.
    Í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um bætt skattskil sem flutt var á 140. löggjafarþingi, 741. mál, er í stuttu máli rakin saga rannsókna stjórnvalda á skattskilum og niðurstöður þeirra á síðustu áratugum og greint frá því að niðurstaðan hafi leitt í ljós að ástandið hafi verið „athugunarvert og stundum alvarlegt“. Engar vísbendingar eru í þá átt að skattskil hafi batnað að undanförnu. Þvert á móti var haft eftir starfsmanni ríkisskattstjóra, sem unnið hafði að rannsóknum á skattskilum, í hádegisfréttum RÚV 27. ágúst 2015 að 14%–15% rekstraraðila á landinu færu með einhverjum hætti á svig við lög og reglur um skattskil og næmu undanskotin tugum milljarða króna á ári. Í leiðara Tíundar, blaðs ríkisskattstjóra, sem ritaður var af ríkisskattstjóra og vararíkisskattstjóra í desember 2015 kom fram að áætluð vanhöld á skattskilum næmu um 80 milljörðum kr. á því ári. Sé mat ríkisskattstjóra á umfangi skattsvika hér á landi nærri lagi er ljóst að bætt skattskil mundu skila ríki og sveitarfélögum umtalsverðum tekjum um leið og skattheimta í landinu yrði jafnari og réttlátari. Meðal þess sem bent var á í umræddum leiðara voru brot gegn skatta- og vinnulöggjöf í byggingariðnaði og var hvatt til þess að snúast gegn þeim með því að efla löggjöf á þessu sviði. Um þetta segir: „Á allra síðustu árum hefur orðið æ algengara að í stórum framkvæmdum kaupi aðalverktaki drjúgan hluta verksins hjá undirverktökum sem aftur kaupa svo vinnu hjá enn öðrum undirverktökum og svo koll af kolli, jafnvel niður í sjö eða átta lög undirverktaka. Við þessar aðstæður hefur það æ oftar komið upp að síðustu aðilarnir í keðjunni standi ekki skil á opinberum gjöldum og séu að auki með stafsmenn á duldum launum eða óskráða. Á þessu verður ekki breyting nema með hertri löggjöf.“ Full ástæða virðist til að taka þessi orð ríkisskattstjóra alvarlega og gera ráðstafanir til að treysta þá ábyrgðarkeðju sem rofin er með óábyrgri og ólögmætri verktakastarfsemi.
    Ljóst er að skattyfirvöld telja veruleg skattsvik í byggingariðnaði. Þannig var frá því greint í fréttum sjónvarps að kvöldi 26. ágúst 2015 að embætti ríkisskattstjóra áliti að skipulögð skattsvik tengd byggingariðnaði hefðu numið um 2 milljörðum kr. árið 2014 og hefðu m.a. verið framin af félögum sem hefðu sérhæft sig í fléttu umfangsmikilla skatt- og bótasvika, m.a. með útgáfu tilhæfulausra reikninga.
    Nú þegar byggingarstarfsemi fer mjög vaxandi á nýjan leik eftir mikla lægð í kjölfar fjármálahrunsins er mikilvægt að gefa gaum að þessari starfsemi sértaklega í ljósi þess að þar hefur orðið vart bæði skattalagabrota og brota á vinnulöggjöf í allnokkrum mæli. Hið sama er að segja um ferðaþjónustu. Þar hafa einnig komið upp skattsvikamál og brot á vinnulöggjöf að því marki að ástæða er til að veita þeirri atvinnugrein sérstaka athygli í þessu tilliti. Í skýrslu um skattsvik í ferðaþjónustu frá árinu 2014 er vakin athygli á því að skatttekjur af hverjum ferðamanni hafi dregist saman á undanförnum árum og talið að það megi rekja til „aukinna skattundanskota í ferðaþjónustu“. 2
    Þótt hér hafi byggingariðnaður og ferðaþjónusta verið dregin sérstaklega fram sem atvinnugreinar sem sérstaklega beri að athuga með tilliti til skattalagabrota og brota á vinnulöggjöf er ekki svo að skilja að slík brot séu ekki framin í öðrum starfsgreinum einnig en talið er að þau séu sérstaklega algeng á þessum vettvangi enda hefur verið mikil þensla í þessum starfsgreinum undanfarin missiri.
    Ríkisvaldið og aðilar vinnumarkaðarins, þ.e. samtök launafólks og atvinnurekenda, hafa oft átt farsælt samstarf um að vinna gegn brotum sem grafa undan og eyðileggja þann vinnumarkað sem hefur þróast hér meðal þessara aðila á mörgum áratugum. Brot á reglum vinnumarkaðarins eru brot á samkomulagi fólksins sem vinnur störfin, fólksins sem á og stýrir atvinnutækjunum og fólksins sem fer með sameiginleg málefni samfélagsins. Öllum er hagur í að uppræta skattalagabrot og brot á vinnulöggjöf og því ber að halda áfram samstarfi opinberra aðila og aðila vinnumarkaðarins um þetta verkefni af fullri einurð og blása í það nýju lífi.
Neðanmálsgrein: 1
1     Staða og horfur á vinnumarkaði á árunum 2016 til 2018. Vinnumálastofnun, janúar 2016, bls. 3–5.
Neðanmálsgrein: 2
2     Árni Sverrir Hafsteinsson og Jón Bjarni Steinsson. Skattsvik í ferðaþjónustu. Umfang og leiðir til úrbóta. Rannsóknastofnun atvinnulífsins, Bifröst, maí 2014, bls. 1–2, 26.