Ferill 115. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1031  —  115. mál.
Nr. 23/145.


Þingsályktun

um siðareglur fyrir alþingismenn.


    Alþingi ályktar, með vísan til 88. gr. þingskapa, að setja eftirfarandi siðareglur fyrir alþingismenn:

SIÐAREGLUR ALÞINGISMANNA
Tilgangur.
1. gr.

    Siðareglur þessar taka til alþingismanna og starfa þeirra og fela í sér viðmið um hátterni þeirra sem þjóðkjörinna fulltrúa. Tilgangur þeirra er að efla gagnsæi í störfum alþingismanna og ábyrgðarskyldu þeirra, svo og tiltrú og traust almennings á Alþingi.

Gildissvið.
2. gr.

    Reglur þessar gilda um alþingismenn við opinbera fram­göngu þeirra og snerta skyldur þeirra sem þjóðkjörinna fulltrúa.

3. gr.

    Ákvæði reglnanna koma til fyllingar þeim skyldum sem alþingismenn hafa samkvæmt stjórnarskrá, þingsköpum og úrskurðum forseta Alþingis um góða reglu, sbr. 1. mgr. 8. gr. þingskapa.

4. gr.

    Forsætisnefnd fjallar um mál sem varða siðareglur alþingismanna, framkvæmd þeirra og brot á þeim eins og nánar er mælt fyrir um í reglum þessum. Forsætisnefnd getur falið ráðgefandi nefnd, sbr. 15. gr., að fjalla um einstök mál. Nefndin er forsætisnefnd og þingmönnum að öðru leyti til ráðgjafar um framkvæmd siðareglnanna, sbr. 16. og 17. gr.

Meginreglur um hátterni.
5. gr.

    Alþingismenn skulu sem þjóðkjörnir fulltrúar:
     a.      rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika,
     b.      taka ákvarðanir í almannaþágu,
     c.      ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni,
     d.      nýta þá aðstöðu sem þeim er veitt við störf sín með ábyrgum hætti,
     e.      ekki nýta opinbera stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra,
     f.      greina frá öllum hagsmunum sem máli skipta og varða opinbert starf þeirra og leggja sig fram um að leysa úr árekstrum sem upp kunna að koma með almannahag að leiðarljósi,
     g.      efla og styðja grundvallarreglur þessar með því að sýna frumkvæði og fordæmi.
    Við upphaf þingsetu sinnar skulu alþingismenn afhenda forseta Alþingis undirritaða yfirlýsingu um að þeir hafi kynnt sér siðareglur þessar. Sama gildir um varaþingmenn sem hafa setið samfellt í fjórar vikur.

6. gr.

    Meginreglur skv. 1. mgr. 5. gr. koma til sérstakrar athugunar þegar erindi berst um brot á siðareglum þessum.

Hátternisskyldur.
7. gr.

    Þingmenn skulu í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu.

8. gr.

    Þingmenn skulu við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar. Takist þingmanni ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá.

9. gr.

    Þingmenn skulu, þar sem við á, vekja athygli á persónulegum hagsmunum sínum sem máli skipta við meðferð þingmála.

10. gr.

    Þingmenn skulu ekki fara fram á eða taka við neinu endurgjaldi, launum eða umbun sem hefur þann tilgang að hafa áhrif á athafnir þeirra sem alþingismanna, einkum ákvarðanir þeirra um að styðja eða beita sér gegn þingmáli í umræðum á Alþingi eða í nefndum þess. Þingmenn skulu forðast hagsmunaárekstra í starfi sínu og ekki taka við óviðeigandi greiðslu eða gjöf.

11. gr.

    Þingmenn skulu ekki nota aðstöðu sína sem alþingismenn til þess að vinna að eigin hagsmunum eða hagsmunum annars aðila þannig að ekki samrýmist siðareglum þessum.

12. gr.

    Alþingismenn skulu sýna varfærni við meðferð upplýsinga, ef við á, og þeir skulu ekki nýta sér upplýsingar sem þeir fá í trúnaði við störf sín til persónulegs ávinnings.

13. gr.

    Þingmenn skulu skrá hjá skrifstofu Alþingis gjafir eða annan sambærilegan hag sem þeir njóta, svo sem ferðakostnað, uppihald eða risnukostnað, sem þeir veita viðtöku við störf sín sem alþingismenn og falla ekki undir reglur um þingfararkostnað, sbr. ákvæði reglna um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings.

14. gr.

    Þingmenn skulu sjá til þess að endurgreiðsla fyrir útgjöld þeirra sé í fullkomnu samræmi við reglur sem settar eru um slík mál.

Eftirlit með framkvæmd siðareglna.

15. gr.

    Forsætisnefnd Alþingis skipar þriggja manna ráðgefandi nefnd til fimm ára í senn sem tekur til meðferðar erindi sem forsætisnefnd beinir til hennar um meint brot á siðareglum þessum. Nefndin lætur í té álit sitt á því hvort þingmaður hafi með hátterni sínu brotið gegn hátternisskyldum sínum og meginreglum um hátterni, sbr. 5. gr. Nefndin er forsætisnefnd jafnframt til ráðgjafar um öll málefni sem falla undir reglur þessar og aðstæður sem upp kunna að koma við framkvæmd þeirra.
    Forseti gerir tillögu um formann nefndarinnar og skal hann hafa þekkingu á störfum Alþingis og alþingismanna. Tveir nefndarmenn skulu tilnefndir af samstarfsnefnd háskólastigsins, sbr. 26. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006. Skal annar þeirra hafa embættis- eða meistarapróf í lögfræði og hinn hafa meistarapróf í heimspeki eða hagnýtri siðfræði og þekkingu á siðareglum. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

16. gr.

    Einstaklingum og lögaðilum er heimilt að leggja fram í eigin nafni skrifleg og rökstudd erindi um meint brot á siðareglum þessum. Beina skal erindum til forsætisnefndar.
    Forsætisnefnd skal leita skýringa þingmanns og frekari upplýsinga hjá honum eftir því sem tilefni er til. Málsmeðferð skal haga í samræmi við meginreglur um óhlutdrægni og vandaða og réttláta málsmeðferð.
    Þingmaður sem sakaður er um að hafa brotið siðareglur þessar skal ávallt eiga þess kost, meðan mál hans er til umfjöllunar hjá forsætisnefnd, að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og upplýsingum.
    Alþingismenn láta í té, sbr. 2. mgr., upplýsingar við rannsókn á meintum brotum þeirra á reglum þessum.
    Rökstutt erindi um brot á siðareglunum má aldrei bitna á sendanda þess. Forsætisnefnd getur ákveðið að sendandi erindis njóti nafnleyndar ef telja má ljóst að meðferð málsins geti bitnað á honum.
    Einstakir þingmenn geta enn fremur, samkvæmt siðareglum þessum, leitað álits forsætisnefndar á hátterni sínu.

Úrlausn einstakra mála.
17. gr.

    Forsætisnefnd lýkur athugun sinni á máli ef frá upphafi er ljóst að erindi gefur ekki nægilegt tilefni til frekari athugunar eða uppfyllir ekki skilyrði siðareglnanna. Jafnframt getur nefndin lokið athugun sinni á máli ef hún telur að erindið varði meint brot á lagareglum sem hægt er að bera undir úrskurð stjórnvalda eða dómstóla.
    Hafi forsætisnefnd tekið mál til nánari athugunar og fram hafa komið fullnægjandi skýringar eða leiðrétting og brot telst minni háttar lýkur hún málinu með tilkynningu til þingmanns.
    Málum sem ekki fá lyktir skv. 1. og 2. mgr. lýkur forsætisnefnd með því að láta í ljós álit sitt á því hvort athafnir þingmanns brjóti í bága við meginreglur um hátterni og hátternisskyldur hans samkvæmt siðareglum þessum.

18. gr.

    Forsætisnefnd tilkynnir þingmanni um niðurstöðu sína skv. 2. eða 3. mgr. 17. gr. og ákveður um leið, ef ástæða þykir til og hún er einhuga um það, hvort birta skuli álit hennar á vef Alþingis.
    Þingmaður sem hlut á að máli getur ávallt krafist þess að álit nefndarinnar verði birt á vef Alþingis.
    Forseti Alþingis felur skrifstofu Alþingis að tilkynna sendanda erindis um niðurstöðu nefndarinnar skv. 17. gr.
    Forsætisnefnd tekur saman árlega skýrslu um störf sín samkvæmt reglum þessum á liðnu ári.

Reglur forsætisnefndar o.fl.
19. gr.

    Forsætisnefnd setur nánari reglur um málsmeðferð samkvæmt reglum þessum.

20. gr.

    Siðareglur þessar taka gildi með samþykkt Alþingis, sbr. 2. mgr. 45. gr. þingskapa, og eftir birtingu þeirra á vef Alþingis, og koma til framkvæmda við setningu 146. löggjafarþings.

Samþykkt á Alþingi 16. mars 2016.