Ferill 534. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1040  —  534. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Ögmundi Jónassyni
um GATS- og TiSA-samninga.


     1.      Á hvaða þjónustusviðum telja stjórnvöld sig hafa skuldbundið Ísland í GATS-viðræðunum og í hverju felast þær skuldbindingar?
     Ísland er einn af stofnaðilum Alþjóðavið­skipta­stofnunarinnar (WTO) og hefur verið aðili að GATS-samningnum frá því að hann tók gildi 1. janúar 1995. Samningurinn er þríþættur og samanstendur af meginmáli þar sem grundvallarreglur alþjóðlegra þjónustuviðskipta milli aðila WTO eru settar fram, átta viðaukum og skuldbindingaskrám einstakra aðildarríkja.
    Skuldbindingaskrá Íslands tilgreinir þær skuldbindingar sem Ísland tókst á hendur um það annars vegar að veita þjónustuveitendum frá aðildarríkjum WTO aðgang að markaði sínum og hins vegar að hafa ekki í gildi reglur sem fælu í sér mismunun sem væru innlendum þjónustuveitendum í hag gagnvart erlendum þjónustuveitendum.
    Skuldbindingaskráin skiptist í tvo hluta, annars vegar almennan hluta sem inniheldur almennar skuldbindingar og takmarkanir á skuldbindingum sem gilda almennt um öll svið þjónustu sem skuldbundin eru og hins vegar þau svið þar sem Ísland hefur sérstakar skuldbindingar og takmarkanir á þeim skuldbindingum sem eiga við um einstök þjónustusvið.
    Samkvæmt skuldbingindaskrá Íslands í GATS er markaðsaðgangur veittur og kveðið á um jafnræði milli innlendra og erlendra þjónustuveitenda fyrir eftirfarandi flokka og svið þjónustu:
          *      Við­skipta­þjónusta.
          *      Fjarskiptaþjónusta.
          *      Byggingarþjónusta og tengd verkfræðiþjónusta.
          *      Dreifingarþjónusta.
          *      Um­hverfisþjónusta.
          *      Fjármálaþjónusta.
          *      Ferðamennska og ferðatengd þjónusta.
          *      Þjónusta á sviðum afþreyingar, menningar og íþrótta.
          *      Flutningaþjónusta.
    Samningurinn gildir ekki um opinbera þjónustu og Ísland hefur ekki gengist undir neinar skuldbindingar hvað varðar þjónustu tengda menntun og heilbrigðismálum, póstþjónustu, hljóð- og myndmiðlunarþjónustu eða félagslega þjónustu. Skuldbindingar Íslands í GATS- samningnum voru gerðar í samræmi við gildandi lög á þeim tíma er samningurinn var gerður og hafði hann því ekki áhrif á löggjöf eða reglusetningu hér á landi.
    Á heimasíðu utanríkisráðuneytisins 1 er að finna ítarlegt yfirlit yfir skuldbindingar samkvæmt skuldbindingaskrá Íslands í GATS. Þar má sjá hvaða þjónustusvið voru skuldbundin og hvaða þjónustusvið voru undanþegin skuldbindingum. Einnig er gerð grein fyrir takmörkunum á skuldbindingum Íslands á einstökum þjónustusviðum hvað varðar annars vegar markaðsaðgang erlendra aðila og hins vegar mismunun milli innlendra og erlendra aðila.
    Að lokum skal nefna að megintexti GATS-samningsins inniheldur almennar skuldbindingar sem gilda fyrir öll aðildarríki WTO, m.a. ákvæði um gagnsæi, setningu innlendra reglna hvað varðar t.d. leyfi­sveitingar og staðla, kröfur um einkaleyfi o.fl. Í megintextanum er einnig að finnar heimildir til undantekninga og ráðstafana í tilteknum tilvikum eins og verndarráðstafanir í neyðartilvikum, takmarkanir til að tryggja greiðslujöfnuð, almennar undanþágur og undanþágur af öryggisástæðum. Að auki eru sérstakir viðaukar um einstök svið þjónustuviðskipta hluti af samningstexta GATS.

     2.      Hver eru hin formlegu tengsl milli skuldbindinga GATS-samninga og TiSA-samninga?
    Engin formleg tengsl eru milli þessara tveggja samninga. Samningsaðilar ákváðu hins vegar frá upphafi að stefna að því að samningstextar fyrirhugaðs TiSA-samnings og GATS- samningsins yrðu samþættanlegir.
    Megintexti TiSA-samningsins byggist á efni og orðalagi GATS-samningsins og má segja að texti hans myndi grunninn að þeim textatillögum sem liggja fyrir í TiSA-samningaviðræðunum. Þó verða ýmis frávik í endanlegum texta TiSA-samningsins frá því sem er í GATS-samningnum. Þannig hafa verið lagðar fram tillögur að nýjum viðaukum sem ekki er að finna í GATS-samningnum, svo sem varðandi sjóflutninga, rafræn viðskipti, orkutengda og um­hverfistengda þjónustu. Þá verður framsetning skuldbindingaskráa með öðrum hætti í TiSA en í GATS. Samningsaðilar TiSA munu einnig uppfæra skuldbindingar sem þeir tókust á hendur með GATS-samningnum í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur frá því að sá samningur var gerður.
    Hvað varðar tillögu að viðauka um orkutengda þjónustu, sem Ísland ásamt Noregi hefur lagt fram í viðræðunum, skal áréttað að umræddri tillögu er ekki ætlað að hafa áhrif á það hvaða orkugjafa einstök ríki kjósa að vinna og nýta. Í 5. gr. tillögunnar er tekið skýrt fram að aðilar viðurkenni fullt forræði einstakra ríkja yfir orkuauðlindum og jafnframt að hver aðili fyrir sig hafi fullan rétt til að ákvarða hvaða landsvæði verði nýtt fyrir rannsóknir, þróun og nýtingu orkuauðlinda.
    Skuldbindingar Íslands samkvæmt GATS munu gilda áfram þótt fyrirhugaður TiSA-samningur taki gildi, nema til þess komi síðar meir að þeir aðilar WTO sem ekki eru þátttakendur í TiSA-viðræðunum gerist aðilar að samningnum á síðari stigum og TiSA-samningurinn og skuldbindingar samkvæmt honum verði hluti af samningstexta WTO og taki yfir skuldbindingar samkvæmt GATS-samningnum.

Neðanmálsgrein: 1
1     www.utanrikisraduneyti.is/media/GATS/Skuldbindingar-I%CC%81slands-skv-GATS-samningnum.pdf