Ferill 633. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1056  —  633. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Brynjar Níelsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigríður Á. Andersen, Valgerður Gunnarsdóttir,
Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason.


1. gr.

    Við 2. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Launagreiðandi skal aðgreina útsvar og tekjuskatt á launaseðli launamanns.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að launagreiðendur skuli aðgreina útsvar og tekjuskatt á launaseðlum til að launamenn eigi þess kost að sjá hvernig staðgreiðsla skatta skiptist milli ríkis og sveitarfélaga og er frumvarpinu ætlað að auka gagnsæi í opinberum fjármálum og bæta fjármálalæsi.
    Ríkisskattstjóri aðgreinir tekjuskatt og útsvar við álagningu en verði frumvarp þetta að lögum munu upplýsingarnar birtast á sjálfum launaseðlinum.