Ferill 635. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1058  —  635. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um vöggugjöf.


Flm.: Róbert Marshall, Valgerður Bjarnadóttir, Óttarr Proppé,
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Guðmundur Steingrímsson,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Björt Ólafsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem hefji undirbúning að áhugakönnun og þarfagreiningu á opinberum stuðningi við verðandi foreldra í formi vöggugjafar sem innihaldi nauðsynjavörur fyrir ungabörn. Hópurinn geri tillögu að nánari útfærslu og skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. október 2016.

Greinargerð.

    Markmið þingsályktunartillögu þessarar er að kanna þörfina á og grundvöllinn fyrir opinberum stuðningi við verðandi foreldra í formi nokkurs konar barnsburðarpakka, eða vöggugjafar, sem innihaldi nauðsynjavörur fyrir ungabörn. Lagt er til að skipaður verði starfshópur sem hefji undirbúning að fýsileikakönnun, kostnaðar- og þarfagreiningu á slíkri nýjung og geri tillögur að nánari framkvæmd hennar.
    Hugmyndin að barnsburðarpakkanum á rót sína að rekja til Finnlands en árið 1937 hóf finnska ríkið að veita verðandi foreldrum styrki. Fyrst var um að ræða peningastyrki fyrir láglaunafólk sem átti von á barni en frá árinu 1949 voru slíkir styrkir í boði fyrir allar verðandi mæður. Nú geta verðandi foreldrar í Finnlandi valið um að fá peningastyrk eða barnsburðarpakka og er um að ræða viðbót við hefðbundna fæðingarstyrki og fæðingarorlof. Ánægja foreldra með barnsburðarpakkann er könnuð reglulega með tilliti til þess hvernig innihald pakkans nýtist og hvort eitthvað megi bæta fyrir næsta ár. Pakkinn er endurskoðaður árlega og hefur þannig þróast í áttina að um­hverfisvænna innihaldi. Sem dæmi má nefna að árið 2000 var einnota bleium skipt út fyrir fjölnota. Barnsburðarpakkinn inniheldur allt sem ungabörn þurfa fyrstu mánuðina, svo sem föt, bleiur, sæng, dýnu, sængurver, samfellur, svefnpoka, útigalla, heilgalla, húfur og vettlinga, sokkabuxur og sokka, buxur og boli, handklæði, naglaklippur, hárbursta, tannbursta, hitamæli fyrir baðvatn, hitamæli fyrir barnið, smekki, lítið nagdót og bók fyrir barnið, auk þess sem kassann utan af vörunum má nýta sem rúm. Pakkinn inniheldur einnig nauðsynjavörur fyrir móður og föður barnsins, svo sem dömubindi, getnaðarvarnir, geirvörtukrem og brjóstapúða. Oftar en ekki eru fötin í pakkanum og kassinn utan um hann hönnuð af finnskum hönnuðum til að styðja við innlenda framleiðslu.
    Finnsk stjórnvöld hófu þetta framtak á sínum tíma til að draga úr vöggudauða og jafnframt auka aðgengi mæðra að heilbrigðisþjónustu. Þess má geta að tíðni ungbarnadauða í Finnlandi er með því lægsta sem gerist í heiminum.
    Vöggugjöf af þessum toga er táknræn með þeim hætti að hún býður hvern nýjan þjóðfélagsþegn velkominn. Gjöfin inniheldur það helsta sem hann þarf fyrstu mánuði ævinnar og snýr fyrst og fremst að rétti barnsins.
    Opinbert útboð fer fram til að ákveða hvaða vörur fari í pakkann hverju sinni. Samkvæmt opinberum tölum frá Finnlandi nam kostn­aður ríkisins vegna barnapakkans 653.049 evrum í september 2015, fyrir 3.499 barnsburðarpakka. Það gerir 187 evrur á hvern pakka sem jafngildir um 26.000 kr. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands fæddust 4.375 börn á Íslandi árið 2014. Að meðaltali fæddust 4.748 börn á ári frá 2006–2010. Út frá þessum forsendum má gróflega áætla að árlegur kostn­aður hins opinbera af verkefninu gæti numið um 120–130 millj. kr.
    Með þessu móti mætti í senn tryggja nýfæddum börnum nauðsynlegan útbúnað og spara nýbökuðum foreldrum bæði fyrir­höfn og peninga sem kæmi sér sérstaklega vel fyrir þá foreldra sem hafa lítið á milli handanna. Með þessari framkvæmd er einnig auðveldara en ella að hafa eftirlit með því að vörur sem ungabörn nota uppfylli öryggiskröfur og séu ekki heilsuspillandi.
    Barnsburðarpakkinn í Finnlandi er með þeim hætti að allir eiga rétt á honum, óháð fjárhagsstöðu. Pakkinn tryggir þannig ákveðinn jöfnuð fyrir öll börn og foreldra. Innihald íslenska pakkans gæti verið innlend framleiðsla og með því væri stutt við innlendan markað. Nú þegar er boðið upp á mæðraskoðun og ungbarnaeftirlit foreldrum að kostnaðarlausu. Stuðningur í formi vöggugjafar með nauðsynjavörum væri góð viðbót við það. Til að gera enn betur mætti í fram­haldinu skoða möguleika á að niðurgreiða eða bjóða upp á fræðslunámskeið fyrir verðandi foreldra þeim að kostnaðarlausu um öryggi barna, þroska þeirra og uppeldisaðferðir. Tölfræðin bendir til að með slíkum opinberum stuðningi við nýbakaða foreldra megi draga úr hættu á ungbarnadauða.
    Í Vínarborg í Austurríki er hægt að sækja um sambærilegan pakka og fá nýbakaðir foreldrar hann afhentan í kjölfar viðtals við félagsráðgjafa þar sem spurt er um aðbúnað barnsins á fyrstu mánuðunum. Með þessu er unnt að bjóða frekari aðstoð ef tilefni þykir til að tryggja enn betur rétt barnsins.
    Markmið þingsályktunartillögu þessarar er að gera fýsileika-, þarfa- og kostnaðargreiningu við að bjóða nýfædda þjóðfélagsþegna velkomna með svipuðum hætti og t.d. er gert í Finnlandi og Austurríki. Mikilvægt er að greina kostnað og meta hvort vilji sé meðal þjóðarinnar til að leggja til þann kostnað sem verkefnið útheimtir. Byrja mætti smátt og bæta smám saman við innihald vöggugjafarinnar þegar fram í sækir og reynsla er komin á fyrirkomulagið. Reiknað er með að pakkinn yrði með öllu skattfrjáls og hrein viðbót við annan opinberan stuðning vegna barneigna. Með þessu styddi íslenska ríkið við bakið á þegnum sínum og byði þá velkomna með kærkominni gjöf.