Ferill 641. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1066  —  641. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um kynja- og jafnréttiskennslu í grunn- og fram­haldsskólum.


Flm.: Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að endurskoða aðalnámskrár grunn- og fram­haldsskóla með það að markmiði að kynja- og jafnréttisfræði verði skyldufag í öllum grunn- og fram­haldsskólum innan fjögurra ára.

Greinargerð.

    Ný aðalnámskrá var samþykkt árið 2011 og byggist hún á sex grunnþáttum: læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun. Í aðalnámskrám fyrir bæði grunn- og fram­haldsskóla segir skýrt að á öllum skólastigum eigi menntun að stuðla að jafnrétti þar sem börnum og ungmennum er kennd gagnrýnin hugsun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra. Kynjafræði er nú kennd sem valáfangi í 17 fram­haldsskólum á landinu og hefur sú kennsla verið nemendum þessara skóla til mikillar styrkingar og eflingar. Markmið kynjafræði er að vekja nemendur til vitundar um stöðu kynjanna í samfélaginu, orsakir og afleiðingar kynjaskekkjunnar og að nemendur skoði helstu birtingarmyndir ójafnréttis í samfélaginu, bæði á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi. Árangur kennslunnar er greinilegur, en nemendur í tíu fram­haldsskólum um allt land hafa tekið sig saman og stofnað eigin félagasamtök til að berjast fyrir jafnrétti kynjanna. Misrétti kynjanna er raunverulegt og hefur alvarlegar afleiðingar fyrir allt samfélagið. Nauðsynlegt er að sporna gegn staðalímyndum sem hafa heftandi áhrif á persónu hvers og eins óháð kyni og getu til að blómstra sem einstaklingur. Kynjafræðikennsla í grunn- og fram­haldsskólum getur orðið mikilvægur liður í þessari baráttu.