Ferill 646. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1072  —  646. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um innleiðingu á frammistöðukerfinu „broskarlinn“.


Flm.: Brynhildur Pétursdóttir, Björt Ólafsdóttir, Guðmundur Steingrímsson,
Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að semja, í samvinnu við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna og Matvælastofnun, lagafrumvarp svo að unnt verði að taka upp frammistöðukerfið „broskarlinn“ að danskri fyrirmynd hjá fyrirtækjum sem selja matvæli. Ráðherra leggi frumvarpið fram á Alþingi fyrir árslok 2016.

Greinargerð.

    Tillaga sama efnis var áður flutt af flutningsmönnum á 143. löggjafarþingi (58. mál) og bárust um það fjórar umsagnir. Árið 2012, á 140. löggjafarþingi, flutti Siv Friðleifsdóttir tillögu til þingsályktunar þess efnis að íslensk stjórnvöld tækju upp broskarlakerfið að danskri fyrirmynd (677. mál). Málið varð ekki útrætt og var endurflutt á 141. löggjafarþingi (32. mál).
    Danir hafa í 15 ár upplýst neytendur um helstu niðurstöður eftirlitsheimsókna heilbrigðisfulltrúa til aðila sem selja matvæli með því að gefa seljendum einkunn í formi broskarla. Markmiðið er að neytendur séu upplýstir um ástand veitingastaða, ísbúða, bakaría og annarra staða sem selja matvæli. Eftir hverja úttekt eru niðurstöðurnar hengdar upp á áberandi stað, svo sem í glugga eða við inngang að sölustað, og einnig eru þær settar á netið. Áhersla er lögð á að kerfið sé skiljanlegt og því eru birt tákn, broskarlar, sem gefa til kynna hvernig fyrirtækið stendur sig. Leiða má líkur að því að opinbert og gagnsætt eftirlit auki traust og tiltrú neytenda á eftirlitskerfinu auk þess sem það veitir fyrirtækjunum mikilvægt aðhald.
    Danir innleiddu broskarlakerfið árið 2001. Þekking danskra neytenda á kerfinu varð fljótt mikil enda hafa þarlend stjórnvöld kynnt það vel. Árið 2009 birtist grein í 2. tbl. Neytendablaðsins um danska broskarlakerfið og viðtal við Knud Arne Nielsen, starfsmann dönsku matvælastofnunarinnar (Fødevarestyrelsen), sem vann við að innleiða kerfið í Danmörku. Að hans sögn voru flest fyrirtæki mótfallin hugmyndinni í upphafi og heilbrigðisfulltrúar voru einnig fullir efasemda um hvort rétt væri að opinbera efni skýrslna sem almenningur hafði fram að þeim tíma ekki haft neinn aðgang að. Hagsmunir neytenda urðu þó ofan á og kerfið var innleitt þrátt fyrir nokkra andstöðu. Það var pólitískur vilji ráðamanna sem réð því að skrefið var stigið í átt að auknu gagnsæi.
    Knud Arne Nielsen bendir í viðtalinu á mikilvægi þess að kerfið sé einfalt þannig að neytendur skilji auðveldlega skilaboðin og broskarlar urðu því fyrir valinu. Þeir eru fjórir, misbrosmildir eftir því hversu vel seljendur standa sig. Árið 2008 var eðalbroskarl („elítu- smiley“) kynntur til sögunnar en hann fá ákveðin fyrirtæki, svo sem veitingastaðir og kaffihús, sem eru undir miklu eftirliti og hafa fengið brosmildasta broskarlinn fjögur ár í röð. Eftirlit með seljendum með eðalbroskarl er minna en með öðrum sem ekki hafa staðið sig jafn vel en þau geta þó alltaf búist við skyndiheimsóknum frá heilbrigðisfulltrúum. Mikil áhersla er lögð á að skýrslurnar séu sýnilegar og aðgengilegar neytendum. Þær skulu hanga í glugga við inngang eða vera eins sýnilegar og kostur er og hafi fyrirtækin vefsíðu skulu þessar upplýsingar einnig birtar á henni.
    Neytendasamtökin töldu að danska broskarlakerfið væri til eftirbreytni og sendu erindi í febrúar 2011 til þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar, þar sem stjórnvöld voru hvött til að fara að dæmi Dana. Einnig óskuðu samtökin eftir afstöðu stjórnvalda til málsins. Samtökin ítrekuðu erindi sitt í janúar 2012 til þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, þar sem ekkert svar hafði borist við fyrra erindi. Í svari stjórnvalda við seinna erindinu kom m.a. fram að ekki hefði verið unnt að vinna að þessu máli sökum tímaleysis og fjárskorts.
    Það er mat flutningsmanna að neytendur eigi rétt á upplýsingum um ástand veitingastaða, kaffihúsa og annarra staða sem selja matvæli. Þeir eiga rétt á að vita hvenær síðasta úttekt var gerð og hverjar niðurstöður hennar voru. Þessi krafa um upplýsingar og gagnsæi hafa nú leitt til þess að sífellt fleiri lönd fara að fordæmi Dana og gera niðurstöður úttekta heilbrigðiseftirlitsins aðgengilegar og sýnilegar. Danir voru fyrstir til að innleiða broskarlakerfi á landsvísu en þróunin er sú að fleiri lönd og svæði fylgja í kjölfarið. Í nokkrum sveitarfélögum í Noregi, t.d. Kristjánssundi, Levanger og Þrándheimi, hefur verið í gangi tilraunverkefni frá árinu 2007 en frá og með árinu 2016 hefur broskarlakerfið verið innleitt á landsvísu á kaffihúsum og veitingastöðum. Í Finnlandi hefur matvælastofnunin, Evira, innleitt broskarlakerfi í tilraunaskyni. Í New York og Los Angeles eru upplýsingar aðgengilegar neytendum í formi bókstafa þar sem A er besta einkunnin. Hugmyndin er sú sama, að sýna neytendum að heilbrigðiseftirlitið hafi tekið út starfsemina og hver niðurstaða þeirrar úttektar var.
    Telja verður eðlilegt að neytendur hafi aðgang að niðurstöðum úttekta heilbrigðiseftirlitsins. Það eykur gagnsæi og tiltrú á eftirlitskerfinu og það verður að teljast sjálfsögð krafa að neytendur sjái hvernig fyrirtæki standa sig áður en þeir ákveða hvert þeir beina viðskiptum sínum. Þá má telja líklegt að kerfi líkt og broskarlakerfið auki metnað og samkeppni seljenda um að halda ástandi sinna sölustaða góðu og skora þannig hátt í úttektum heilbrigðiseftirlitsins.
    Með tillögunni er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra falið að vinna frumvarp í samvinnu við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna og Matvælastofnun sem felur í sér upptöku broskarlakerfisins. Lagt er til að horft verði til Danmerkur þar sem góð reynsla er komin á kerfið þar. Þá er lagt til að ráðherra leggi fram frumvarp þessa efnis fyrir árslok 2016.