Ferill 660. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 1088  —  660. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum
um meðferð einkamála (endurupptaka).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008,
með síðari breytingum.

1. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 214. gr. laganna orðast svo: Sé beiðni tekin til greina skal fyrri dómur í málinu halda gildi sínu þar til nýr dómur hefur verið kveðinn upp.


II. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991,
með síðari breytingum.

2. gr.

    2. og 3. málsl. 3. mgr. 168. gr. laganna orðast svo: Fallist nefndin á beiðni skal fyrri dómur í málinu halda gildi sínu þar til nýr dómur hefur verið kveðinn upp. Ákvörðun nefndarinnar um endurupptöku hindrar ekki aðför eftir dómi.


3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu.
    Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru til komnar vegna niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 628/2015 frá 25. febrúar 2016 um að fyrirmæli í 2. málsl. 1. mgr. 214. gr. laga um meðferð sakamála séu andstæð stjórnarskrá, en þar segir að ákveði endurupptökunefnd að endurupptaka skuli mál falli fyrri dómur úr gildi. Bendir Hæstiréttur á að endurupptökunefnd sé stjórnsýslunefnd. Með 3. mgr. 215. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 214. gr. sömu laga, sé nefnd sem heyri undir framkvæmdarvaldið falið hlutverk sem geti náð til þess að fella úr gildi úrlausnir dómstóla. Slík skipan sé andstæð 2. gr. stjórnarskrárinnar og væri lagaákvæðið því ekki gild réttarheimild og verði því ekki beitt. Samsvarandi heimild er í lögum um meðferð einkamála.
    Í frumvarpi þessu eru ein­göngu lagðar til nauðsynlegar breytingar í fram­haldi af fyrrgreindum dómi Hæstaréttar svo að umrædd lagaákvæði séu ekki í andstöðu við stjórnarskrá. Ekki er hins vegar um endurskoðun á fyrirkomulagi við endurupptöku mála að ræða. Hefur frumvarpið því ekki verið kynnt sérstaklega eða óskað athugasemda um það utan þess að farið var yfir breytingartillögurnar á fundi réttarfarsnefndar. Hér er því ein­göngu lagt til að í stað þess að dómur í því máli sem á að endurupptaka falli úr gildi við ákvörðun endurupptökunefndar um að mál verði endurupptekið, eða að endurupptökunefnd skuli taka sérstaka ákvörðun um hvort áhrif fyrri dóms falli niður við ákvörðun hennar um að mál verði endurupptekið, þá sé skýrt tekið fram að fyrri dómur haldi gildi sínu þar til nýr dómur í hinu endurupptekna máli liggur fyrir.
    Frumvarpið mun ekki hafa í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð.