Ferill 668. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.Þingskjal 1096  —  668. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti.

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
I. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Tekjur samkvæmt þessari grein koma til skattlagningar þegar hlutabréfin eru seld. Telst mismunur á kaupverði hlutabréfa samkvæmt kaupréttarsamningi og söluverði bréfanna til launatekna.

2. gr.

    Við 1. mgr. 18. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hagnaður einstaklings vegna viðskipta með breytanleg skuldabréf sem breytt hefur verið í hlutabréf á lægra verði en nemur markaðsverði bréfanna, sbr. 47.–49. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, og 31.–32. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, telst til skattskyldra fjármagnstekna þegar hlutabréfin eru seld.

3. gr.

    Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: 25% tekna skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. þeirra erlendu sérfræðinga sem skattskyldir eru skv. 1. eða 3. gr., fyrstu þrjú árin frá ráðningu í starf, enda séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
     a.      Erlendur sérfræðingur sé ráðinn til starfa hjá lögaðila sem hefur lögheimili eða fasta starfsstöð hér á landi og sé sá sem greiðir hinum erlenda starfsmanni tekjur sem sérfræðingi.
     b.      Erlendur sérfræðingur hafi ekki verið búsettur eða heimilisfastur hér á landi á fimm ára tímabili næst á undan því almanaksári er hann hóf störf hér á landi.
     c.      Erlendur sérfræðingur búi yfir þekkingu sem ekki sé fyrir hendi hér á landi nema í litlum mæli.
    Skrifleg umsókn um staðfestingu á því að tiltekinn erlendur sérfræðingur uppfylli skilyrði ákvæðisins skal send nefnd, sbr. 3. mgr. Umsókn um staðfestingu ásamt fylgigögnum skal berast eigi síðar en þremur mánuðum eftir að erlendur sérfræðingur hóf störf hér á landi. Vinnuveitandi og/eða starfsmaður skulu senda nefndinni umsókn og skal hún innihalda þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru hlutlægu mati nefndarinnar, sbr. a–c-lið 1. mgr. og 4. mgr.
    Ráðherra skipar nefndina sem meta skal hvort skilyrði 1. mgr. fyrir frádrætti frá tekjuskattsstofni séu uppfyllt. Skulu ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og fjármál og ráðherra sem fer með fræðslumál tilnefna sinn fulltrúa hvor, en sá þriðji skal skipaður án tilnefningar og vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Nefnd skv. 3. mgr. skal fara yfir þær umsóknir sem berast og meta þær m.a. með tilliti til menntunarstigs, sérþekkingar, reynslu og fjárhæðar launa. Telji nefndin umsækjanda uppfylla skilyrði ákvæðisins skal hún veita umsækjanda staðfestingu á því en hafna umsókn ella. Afrit af staðfestingu umsóknar skal senda ríkisskattstjóra.
    Ákvörðun nefndar skv. 4. mgr. er endanleg á stjórnsýslustigi.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð sem kveður nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis, m.a. um form og skilyrði umsókna, þær kröfur sem erlendir sérfræðingar þurfa að uppfylla, svo sem varðandi menntun, reynslu og fyrri störf, auk ráðningarsamninga, ásamt starfsháttum nefndarinnar og nefndarskipan.

4. gr.

    1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna orðast svo: Allt að 30% frá tekjuskattsstofni einstaklings, sbr. 1. og 3. gr., að viðbættum fjármagnstekjum, af fjárhæð sem hann sýnir fram á að sé til komin vegna fjárfestinga í hlutafélagi eða einkahlutafélagi sem uppfyllir skilyrði 2. og 3. mgr., við álagningu opinberra gjalda á árunum 2017, 2018 og 2019 vegna fjárfestinga á árunum 2016, 2017 og 2018. Fyrst skal dregið frá stofni til tekjuskatts og síðan fjármagnstekjuskattsstofni, að teknu tilliti til frítekjumarks vegna vaxta- og leigutekna.
    Til þess að einstaklingur geti nýtt sér heimild til frádráttar skv. 1. mgr. þurfa öll eftirfarandi skilyrði að vera uppfyllt:
     1.      Fjárfesting einstaklings í félagi nemi að lágmarki 500 þús. kr. á almanaksári.
     2.      Hver einstaklingur getur nýtt frádráttarheimild vegna heildarfjárfestinga sem nemi að hámarki 10 millj. kr. á almanaksári.
     3.      Einstaklingur geti sýnt fram á að fjárfesting hafi verið að fullu greidd.
     4.      Fjárfesting einstaklings sé til komin vegna hlutafjáraukningar í félagi.
     5.      Félagið skili lista til ríkisskattstjóra yfir þátttakendur hlutafjáraukningarinnar og aukningin sé skráð í hlutafélagaskrá.
     6.      Einstaklingur sé hvorki tengdur félaginu né félagasamstæðum þess, tveimur árum fyrir og þremur árum eftir skráða hlutafjáraukningu, á eftirfarandi hátt:
                  a.      Á grundvelli fjárhagslegra hagsmuna tengdra félaginu eða ef einstaklingur á eða mun eiga rétt á, með beinum eða óbeinum hætti, meira en 30% eignarhlutdeild í félaginu eða atkvæðarétti þess. Einstaklingur telst jafnframt vera tengdur félaginu ef viðskipti hans við félagið vegna hlutafjáraukningarinnar eru ekki sambærileg því sem almennt gerist í viðskiptum milli ótengdra aðila.
                  b.      Sem beinn eða óbeinn stjórnarmeðlimur eða starfsmaður félagsins, eða annars félags sem á beint eða óbeint eignarhlutdeild í félaginu. Einstaklingur telst jafnframt vera tengdur félaginu ef hann er tengdur einstaklingi skv. 1. málsl. þessa stafliðar eða a- lið á grundvelli sifjaréttarlegra tengsla, t.d. með hjónabandi eða staðfestri samvist, þeir eru systkini eða skyldir í beinan legg. Það sama á við um við­skipta­leg bönd.
    Félag skv. 1. mgr. þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     1.      Félagið sé stofnsett á Íslandi eða innan annars EES-ríkis, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og með fasta starfsstöð á Íslandi.
     2.      Hjá félaginu starfi ekki fleiri en 25 starfsmenn og félagið sé með árlega veltu undir 650 millj. kr. og/eða efnahagsreikning undir 650 millj. kr. Ef félag er hluti af félagasamstæðu skal miða við samstæðuna í heild á grundvelli samstæðureiknings.
     3.      Félagið hafi lokið greiðslu á öllu lágmarkshlutafé vegna stofnunar þess.
     4.      Félagið hafi ekki verið skráð á hlutabréfamarkað.
     5.      Félagið hafi ekki, þegar hlutafjáraukning á sér stað, verið starfandi á markaði lengur en fjögur ár frá fyrstu sölu þess í við­skipta­legum tilgangi.
     6.      Félagið sé rekið í hagnaðarskyni.
     7.      Félagið eigi ekki í fjárhagsvanda.
     8.      Íslenska ríkið eigi ekki útistandandi endurgreiðslukröfu á félagið vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar.
     9.      Félagið hafi innan fimm mánaða frá lokum hvers reikningsárs sent ríkisskattstjóra ársreikning sinn fyrir næstliðið reikningsár sem gerður hefur verið í samræmi við lög um ársreikninga.
     10.      Félagið sýni fram á að andvirði hlutafjáraukningarinnar verði ráðstafað í þágu við­skipta­starfsemi þess. Ef félagið hefur ekki hafið við­skipta­starfsemi ber að nota að lágmarki 30% af andvirðinu til rannsókna eða þróunar á við­skipta­starfsemi sem hefjast skal innan tveggja ára frá skráningardegi hlutafjáraukningarinnar.
     11.      Hlutafjáraukning í félagi getur að hámarki numið 2.000 millj. kr. í heild. Ef félag er hluti af félagasamstæðu nær hámarkið til samstæðunnar.
     12.      Áður en hlutafjáraukning fer fram og árlega eftir það skal félag fá staðfestingu ríkisskattstjóra á því að öll skilyrði 2. mgr. og þessarar málsgreinar séu uppfyllt. Sækja skal um staðfestinguna á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og getur hann krafið félagið um öll nauðsynleg gögn vegna hennar. Ríkisskattstjóri skal halda sérstaka skrá yfir þau félög sem hljóta staðfestingu samkvæmt ákvæði þessu og skal hún birt á vefsvæði ríkisskattstjóra. Ákvörðun ríkisskattstjóra má skjóta til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd.
    Eftirtalin starfsemi félags fellur ekki undir ákvæði þetta:
     a.      starfsemi sem felst í viðskiptum með fasteignir,
     b.      starfsemi sem felst í útleigu fasteigna eða lausafjár,
     c.      starfsemi eignarhaldsfélaga,
     d.      starfsemi fjárfestingarfélaga,
     e.      starfsemi eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999,
     f.      starfsemi sem felst í útseldri þjónustu og ráðgjöf sérfræðinga,
     g.      starfsemi sem felst í kvikmyndaframleiðslu,
     h.      starfsemi sem felst í mannvirkjagerð og hvers kyns viðhaldi og endurbótum á mannvirkjum,
     i.      starfsemi tengd fjárfestingu og/eða rekstri hótela, gistiheimila og veitingastaða,
     j.      starfsemi sem felst í útflutningi og innflutningi vara sem framleiddar eru og þróaðar af öðrum,
     k.      starfsemi sem felst í hvers kyns námuvinnslu.
    Ef einstaklingur sem notið hefur frádráttar skv. 1. mgr. selur þau hlutabréf sem voru grundvöllur frádráttarins innan þriggja ára frá því að fjárfesting fer fram skal bakfæra upphaflega frádráttinn. Jafnframt skal bakfæra upphaflega frádráttinn ef einstaklingur tekur upp tengsl við félagið skv. 6. tölul. 2. mgr, eða ef félagið eða starfsemi þess uppfyllir ekki lengur skilyrði 3. mgr. eða fellur undir 4. mgr. Nýttur frádráttur samkvæmt þessari málsgrein skal færast til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa.
    Ef frádráttur samkvæmt ákvæði þessu er hærri en tekjuskattsstofn skattaðila að viðbættum fjármagnstekjum á almanaksári færist það sem umfram er milli ára þar til hann er fullnýttur, en þó ekki lengur en næstu þrjú ár. Það sem ónýtt er af frádráttarheimildinni að þremur árum liðnum fellur niður.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð sem kveður nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis, m.a. um þær kröfur sem félög þurfa að uppfylla skv. 3. mgr., gagnsæiskröfur og skilgreiningu á hugtakinu félag í fjárhagsvanda.

II. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, með síðari breytingum.
5. gr.

    Í stað orðanna „2.–5. tölul.“ í 1. málsl. A-liðar 2. gr. laganna kemur: 2.–6. tölul.

III. KAFLI
Breyting á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, með síðari breytingum.
6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað „2 milljónum“ tvisvar í 1. tölul. kemur: 10 milljónum.
     b.      Í stað „(EB) nr. 800/2008 frá 6. ágúst 2008“ í 1. tölul. kemur: (ESB) nr. 651/2014 frá 17. júní 2014.
     c.      Í stað „(EB) nr. 800/2008“ í 2. og 8. tölul. kemur: (ESB) nr. 651/2014.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      Í stað „100.000.000 kr.“ í 2. málsl. kemur: 300.000.000 kr.
     b.      Í stað „150.000.000 kr.“ í 3. málsl. kemur: 450.000.000 kr.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 41/2015.
8. gr.

    Í stað „2 milljónum“ í 6. tölul. 3. gr. laganna kemur: 10 milljónum.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda sem hér segir:
    Ákvæði 1., 2. og 7. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2017 vegna tekjuársins 2016.
    Ákvæði 3. og 5. gr. öðlast gildi 1. janúar 2017 og koma til framkvæmda við álagningu 2018 og staðgreiðslu opinberra gjalda 2017.
    Ákvæði 4. gr. öðlast gildi nú þegar og kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2017 vegna fjárfestinga á árinu 2016.
    Ákvæði 6. og 8. gr. öðlast gildi og koma til framkvæmda nú þegar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar er snúa bæði að skattlagningu einstaklinga og fyrirtækja. Má þar nefna skattlagningu kaupréttar, skattalega ívilnun til erlendra sérfræðinga, frádrátt vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja og skattafslátt vegna hlutabréfakaupa þar sem þeim einstaklingum sem fjárfesta í hlutafélögum eða einkahlutafélögum í vexti gefst kostur á að njóta frádráttar frá tekjuskattsstofni að viðbættum fjármagnstekjum. Lagt er til að þetta skattafsláttarkerfi verði í gildi í þrjú ár til reynslu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum vorið 2013 hefur hún lagt mikla áherslu á endurskoðun skattkerfisins með einföldun og skilvirkni í huga. Varðandi skattlagningu fyrirtækja hefur sérstök áhersla verið lögð á bætta samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, auk stuðnings við nýsköpun og þróun þeirra sem kostur er, m.a. með aðkomu og þátttöku einstaklinga. Í frumvarpinu er að finna breytingar sem flestar stefna að framangreindum markmiðum og talið er nauðsynlegt að lögfesta hið fyrsta.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna eftirfarandi tillögur að lagabreytingum:
          Í fyrsta lagi er lagt til að sú breyting verði gerð á skattalegri meðferð tekna vegna kaupa manns á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem hann hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, skv. 9. gr. tekjuskattslaga, að þær verði skattlagðar við sölu bréfanna í stað afhendingardags/innlausnar eins og nú er.
          Í öðru lagi er lagt til að hagnaður eiganda breytanlegra skuldabréfa, sem breytt er í hlutabréf á lægra verði en gildir almennt á markaði, verði skattlagður við sölu bréfanna í stað nýtingar breytiréttarins.
          Í þriðja lagi er lögð til frádráttarheimild fyrir erlenda sérfræðinga sem ráðnir eru til starfa hér á landi og verða þeir einungis skattskyldir af 75% tekna sinna en 25% þeirra verða skattfrjálsar og undanþegnar staðgreiðslu fyrstu þrjú árin í starfi að uppfylltum frekari skilyrðum.
          Í fjórða lagi er lagður til skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa einstaklinga.
          Í fimmta lagi er lögð til hækkun á hámarki rannsóknar- og þróunarkostnaðar til viðmiðunar á skattfrádrætti nýsköpunarfyrirtækja.
          Í sjötta lagi er lögð til leiðrétting á veltuviðmiði við skilgreiningu lítilla fyrirtækja og tilvísun í nýja reglugerð í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.

4. Nánar um einstaka liði frumvarpsins.
    Eftirfarandi er nánari umfjöllun um breytingartillögur frumvarpsins.

4.1. Skattlagning á kauprétti hlutabréfa.
    Sérstakar reglur gilda um skattalega meðferð tekna vegna kaupa á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem maður hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila. Meginreglan er sú að líta skal á mismun gangverðs og söluverðs sem starfstengda launagreiðslu sem sætir sömu skattalegu meðferð og aðrar launagreiðslur. Greiðsla er því staðgreiðsluskyld og kemur til skattlagningar þegar kaupréttur er nýttur. Ef hlutabréf eru ekki skráð í kauphöll og engin viðskipti hafa verið með bréf er myndað hefur gangverð í viðskiptum, skal miða við bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags. Skattlagning hefur þannig átt sér stað við nýtingu og innlausnarverð, sem lagt var til grundvallar við skattlagningu kaupaukans, þá talist sem stofnverð við síðari sölu, og hagnaður af sölunni þannig reiknaður talist til fjármagnstekna í hendi seljanda.
    Í frumvarpinu er lagt til að sú breyting verði á skattalegri meðferð tekna vegna kaupa manns á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem hann hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, skv. 9. gr. tekjuskattslaga, að þær verði skattlagðar við sölu bréfanna í stað afhendingardags/innlausnar eins og nú er. Verði frumvarpið að lögum mun því starfsmaðurinn hvorki greiða skatt af kauprétti sínum á samningsdegi né þegar hann leysir bréfin til sín. Skattlagningu er frestað þangað til bréfin eru seld og mun mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og söluverði teljast til launatekna.

4.2. Skattlagning breytanlegra skuldabréfa.
    Breytanleg skuldabréf (e. convertible bonds) teljast til afleiðusamninga og eru ein­göngu gefin út af hlutafélögum. Einkenni bréfanna er að þeim má breyta í hlutabréf á fyrir fram ákveðnu gengi, sem gjarnan er talsvert hærra en gengi hlutabréfanna við útgáfu skuldabréfsins, og innan tiltekins tímabils. Vextir breytanlegra skuldabréfa eru hins vegar oft lægri en venjulegra skuldabréfa. Eigandi skuldabréfsins hefur því tvo kosti og getur valið þann betri, annars vegar að eiga skuldabréfið til gjalddaga og hins vegar að breyta skuldabréfinu í hlutabréf viðkomandi fyrirtækis ef markaðsverð hlutabréfanna hækkar umfram viðmiðunarverðið í skilmálum skuldabréfsins. Þannig fær eigandinn hlutabréf á lægra verði en gildir almennt á markaðnum og getur selt þau strax ef hann kýs og innleyst gengishagnað.
    Hagnaður eiganda breytanlegra skuldabréfa, sem breytt er í hlutabréf á lægra verði en gildir almennt á markaðnum, er í dag skattlagður við nýtingu breytiréttarins. Sé eigandinn einstaklingur þarf hann því að standa skil á fjármagnstekjuskatti þó hann hafi ekki selt nein bréf með hagnaði. Hlutafé er eðli málsins samkvæmt áhættuhlutafé og því sá möguleiki alltaf fyrir hendi að það tapist að fullu og hefur þá eigandinn greitt skatt af tapi. Því er lagt til að skattlagningunni verði frestað fram að sölu hlutabréfanna, í tilviki einstaklinga, en slíkt myndi gera þennan fjármögnunarkost mun meira aðlaðandi fyrir fjárfesta auk þess sem skattlagningin verður sanngjarnari.

4.3. Skattlagning erlendra sérfræðinga.
    Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er stefnt að því að greiða fyrir og laða að landinu erlenda sérfræðinga til starfa hér á landi, ekki hvað síst í íslenskum tækni- og rannsóknarfyrirtækjum og háskólasamfélaginu. Margir telja að á Íslandi vanti fólk með sérfræðiþekkingu á vissum sviðum, svo sem tæknimenntað starfsfólk, starfsfólk með hugbúnaðarþekkingu og þekkingu á markaðssetningu á stórum erlendum mörkuðum auk sérfræðinga til kennslu í háskólasamfélaginu. Ákvæðinu er þar með ekki ætlað að taka til íþróttamanna eða þjálfara sem ekki eru beinir þátttakendur í atvinnulífinu.
    Tillaga frumvarpsins sem byggist að mestu á sænskri fyrirmynd hvetur til þess að fyrirtæki komi á fót hágæðastarfsemi innan lands sem geri þeim auðveldara fyrir að fá til sín aðila sem búa yfir nauðsynlegri þekkingu og hæfni svo að ekki þurfi að fara með viðkomandi starfsemi úr landi. Koma erlendra sérfræðinga styrkir því einnig tækni, rannsóknir, þróun og nýsköpun í landinu. Erlendir sérfræðingar sem dvelja hér á landi í takmarkaðan tíma geta ekki notið til fulls þeirrar opinberu þjónustu sem fjármögnuð er með sköttum. Þeir sem standa utan Evrópska efnahagssvæðisins og sækja um atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi þurfa til að mynda að verða sér úti um eigin sjúkratryggingu. Auk þess nýta erlendir sérfræðingar ekki opinberar atvinnuleysis- eða örorkutryggingar þar sem dvalarleyfi þeirra eru veitt á grundvelli atvinnu. Þá hafa erlendir sérfræðingar sótt sér menntun í skólum erlendis og hið opinbera hefur því ekki borið neinn kostnað vegna menntunar þeirra.
    Þeir erlendu sérfræðingar sem nýta sér heimildina verða einungis skattskyldir af 75% tekna sinna en 25% þeirra verða skattfrjálsar og undanþegnar staðgreiðslu fyrstu þrjú árin frá ráðningu í starf og er það í samræmi við sænsku reglurnar. Eftir sem áður er tryggingagjald og lífeyrisiðgjöld greidd af heildarlaunum án tillits til 25% frádráttarins. Sama gildir um greiðslur barna- og vaxtabóta. Gert er ráð fyrir stofnun sjálfstæðrar nefndar sem fari yfir skriflegar umsóknir og staðfesti eða hafni því að tiltekinn erlendur sérfræðingur uppfylli skilyrði ákvæðisins fyrir frádrætti frá tekjuskattsstofni.
    Mikil verðmæti geta verið fólgin í því að fá sérfræðiþekkingu til landsins þar sem þekking er af skornum skammti. Vegna þessa hafa lönd eins og t.d. Danmörk, Svíþjóð, Noregur, Finnland, Holland og Kanada sett reglur um skattalega hvata til að laða til sín erlenda sérfræðinga og eru þær mikilvægur liður í að tryggja samkeppnishæfni í við­skipta­um­hverfi viðkomandi landa. Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem ekki hefur lögfest ákvæði sem ætlað er að bæta um­hverfi erlendra sérfræðinga, svo sem sérfræðinga í rannsóknum og þróun, framleiðslu, stjórnun, skipulagningu, markaðssetningu, verkfræði, fjármálum, upplýsingatækni, samskiptatækni og kennslu, svo eitthvað sé nefnt.
    Hér á eftir er reglum annarra Norðurlanda um skattlagningu erlendra sérfræðinga lýst í fáum orðum.

Finnland.
    Í Finnlandi greiðir erlendur sérfræðingur flatan 35% skatt af launum sínum í fjögur ár. Almennur tekjuskattur einstaklinga til ríkisins er 6,5–31,75%. Af launatekjum er einnig greitt útsvar til sveitarfélags (16–22%), kirkjuskattur (1–2%) og sjúkratryggingagjald (u.þ.b. 2%).

Danmörk.
    Í Danmörku gilda sérstakar skattareglur þar sem vísindamenn og hátt launaðir starfsmenn, sem ráðnir eru erlendis frá og uppfylla skilyrði laganna, geta valið um að greiða 26% skatt auk framlaga til vinnumarkaðarins, samtals 31,92% í fimm ár, án nokkurs frádráttar, í stað hins almenna tekjuskatts. Hæsta almenna skattþrep launatekna er 51,95% í Danmörku.

Svíþjóð.
    Í Svíþjóð gilda sérstakar reglur um skattlagningu erlendra sérfræðinga og lykilstarfsmanna. Samkvæmt reglunum eru aðeins 75% af tekjum þeirra skattlagðar á fyrstu þremur árunum. Hlunnindi eins og skólagjöld og flutningspeningar eru skattfrjáls. Reglurnar taka til erlendra starfsmanna sænskra fyrirtækja eða fyrirtækja sem hafa fasta starfsstöð í Svíþjóð. Um takmarkaðan tíma er að ræða, eða að hámarki fimm ár, og sérfræðingurinn má ekki hafa verið búsettur í Svíþjóð áður. Til staðfestingar á því að menn uppfylli skilyrði undanþágunnar verður að liggja fyrir úrskurður frá nefnd sem kallast Forskarskattenämnden. Þeir sem hafa komið til Svíþjóðar 1. janúar 2012 eða síðar uppfylla sjálfkrafa það skilyrði að teljast sérfræðingar eða lykilstarfsmenn ef mánaðarlaun þeirra árið 2015 eru umfram SEK 89.000 að uppfylltum öllum öðrum skilyrðum laganna. Almennur tekjuskattur einstaklinga nemur 29–34%, auk kirkjuskatts og útfarargjalds u.þ.b. 1–2%, og stighækkandi tekjuskatts 20–25%

Noregur.
    Alþjóðlegir vísindamenn geta átt rétt á að 15% tekna þeirra verði undanþegin skatti í allt að tvö ár, þó að hámarki NKR 40.000. Reglurnar eru breytilegar og eru skilgreindar í tvísköttunarsamningum Noregs við önnur ríki. Almennur tekjuskattur einstaklinga er 25%, auk þrepaskatts sem er 0,44–13,7%.

4.4. Skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa.
    Um nokkurra ára skeið hafa verið uppi áform um að koma á fót ívilnunarkerfi sem felur í sér skattafslátt til þeirra einstaklinga sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum. Þannig kerfi var lögfest með lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, sem tóku gildi 1. janúar 2010 en það kom þó aldrei til framkvæmda því það var fellt brott í heild sinni í árslok 2010 vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Upphafleg lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki fólu annars vegar í sér beinan stuðning við nýsköpunarfyrirtæki í formi frádráttar frá tekjuskatti, og hins vegar óbeinan stuðning við nýsköpunarfyrirtæki í formi skattafsláttar til einstaklinga og lögaðila sem fjárfest höfðu í hlutabréfum nýsköpunarfyrirtækja.
    Þá er rétt að geta þess að á árunum 1984–2002 voru í gildi sérstakar frádráttarheimildir til einstaklinga sem fjárfestu í hlutabréfum í félögum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Upphaflega var gerð krafa til viðkomandi hlutafélaga um lágmarkshlutafé og lágmarksfjölda hluthafa. Þá máttu ekki vera hömlur á viðskiptum með hlutafé félags en þau skilyrði voru síðar rýmkuð. Skattafslátturinn átti frá upphafi að vera tímabundið úrræði til að auka áhuga almennings á hlutabréfaeign og var hann felldur niður í áföngum á árunum 1996–2002.

4.4.1. Starfshópur um skattafslátt til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum í litlum fyrirtækjum í vexti.
    Hinn 21. ágúst 2013 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp um skattafslátt til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum í litlum fyrirtækjum í vexti.
    Starfshópnum var falið það verkefni að meta efnahagslegar forsendur fyrir ríkisstyrkjakerfi sem veitir einstaklingum sem kaupa hlutabréf í litlum fyrirtækjum í vexti skattafslátt og grundvallast á leiðbeinandi reglum Eftirlitsstofnunar EFTA um málaflokkinn. Starfshópnum var sérstaklega falið að kynna sér sambærileg skattafsláttarkerfi í helstu samkeppnisríkjum og leggja mat á það hvort tilefni væri til þess að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um slíkt kerfi.
    Starfshópinn skipuðu: Guðrún Þorleifsdóttir, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti, sem jafnframt var formaður, Jón Vilberg Guðjónsson skrifstofustjóri, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Helga Haraldsdóttir skrifstofustjóri, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Davíð Lúðvíksson forstöðumaður, tilnefndur af Samtökum iðnaðarins, og Jón Ásgeir Tryggvason skrifstofustjóri, tilnefndur af ríkisskattstjóra. Starfshópurinn skilaði greinargerð til fjármála- og efnahagsráðherra 3. desember 2013. Í niðurstöðum starfshópsins er sett fram tillaga að skattafsláttarkerfi. Eftir að starfshópurinn skilaði greinargerð sinni gaf Vísinda- og tækniráð út stefnu og aðgerðaáætlun fyrir árin 2014–2016. Hluti af aðgerðaáætluninni fól í sér innleiðingu skattalegra hvata til að auka fjárfestingu í nýsköpunarfyrirtækjum.
    Frá því að starfshópurinn skilaði greinargerðinni hefur orðið nokkur þróun á gildandi regluverki um heimila ríkisaðstoð á þessu sviði innan EES. Þannig hefur svigrúm til þess að koma á fót skattafslætti til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum í litlum fyrirtækjum í vexti verið rýmkað með nýjum reglum á þessu sviði og tekur frumvarpið mið af þeim.

4.4.2. EES-réttur.
    Skattafsláttur vegna fjárfestinga í einstökum fyrirtækjum telst að jafnaði fela í sér ríkisaðstoð í skilningi Evrópuréttar. Að meginstefnu til er öll ríkisaðstoð sem hefur áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna óheimil skv. 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins. Frá þessari meginreglu eru ákveðnar undanþágur sem tilgreindar eru í 2. og 3. mgr. 61. gr. EES- samningsins og eru þær undanþágur útfærðar í ýmsum reglugerðum og leiðbeinandi reglum sem eru hluti af EES-rétti.
    Helstu sérákvæði um skattafslátt til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum í fyrirtækjum er nú að finna í nýlegri hópundanþágureglugerð, um aðstoð vegna áhættufjárfestinga (e. Risk Finance Aid), nr. 651/2014, sem tók gildi þann 1. júlí 2014. Ákvæði um slíka skattafslætti til einstaklinga var áður að finna í sérstökum leiðbeinandi reglum um ríkisaðstoð sem veitt er til að örva áhættufjárfestingar í litlum og meðalstórum fyrirtækjum frá árinu 2006. Nýjar leiðbeiningarreglur tóku gildi þann 1. júlí 2015 og taka þær einungis til skattafsláttar til lögaðila vegna fjárfestinga í fyrirtækjum í vexti. Með þessum nýlegu breytingum sem orðið hafa á EES-rétti á þessu sviði hefur svigrúm til þess að veita skattafslátt til einstaklinga aukist til mikilla muna.
    Um skattafslátt vegna fjárfestinga einstaklinga í litlum og meðalstórum fyrirtækjum er fjallað í 3. kafla nýju hópundanþágureglugerðarinnar nr. 651/2014. Ef aðstoð uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar telst hún ekki tilkynningarskyld ríkisaðstoð til ESA. Til þess að skattafsláttur til einstaklinga vegna fjárfestinga í fyrirtækjum falli undir hópundanþágureglugerðina þarf hann annars vegar að uppfylla almenn skilyrði reglugerðarinnar og hins vegar sérstök skilyrði 3. kafla reglugerðarinnar um áhættufjárfestingar.
    Almenn skilyrði hópundanþágureglugerðarinnar takmarka að einhverju leyti hvaða fyrirtæki það eru sem geta notið aðstoðar. Þannig falla t.d. fyrirtæki í fjárhagserfiðleikum ekki undir gildissvið reglugerðarinnar.
    Ef ríkisaðstoð á að falla undir hópundanþágureglugerðina þurfa fyrirtæki, sem aðstoð þiggja, að uppfylla a.m.k. eitt af þremur skilyrðum sem koma fram í a–c-lið 5. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar. Fyrsta skilyrðið er að fyrirtæki hafi ekki verið starfandi á markaði. Annað skilyrði er að fyrirtæki hafi einungis verið starfandi á markaði í minna en 7 ár eftir fyrstu sölu við­skipta­legs eðlis (e. commercial sale). Þriðja skilyrðið er að fyrirtæki sýni fram á að það þarfnist fjármögnunar sem, samkvæmt við­skipta­áætlun sem gerð hefur verið vegna þess að fyrirtæki er að koma inn á nýjan vöru- eða landfræðilegan markað, er hærri en 50% af meðalársveltu síðustu fimm ára.
    Að öðru leyti er það ekki afmarkað frekar í 3. kafla reglugerðarinnar, um aðstoð vegna áhættufjárfestinga, hvaða fyrirtæki geta fallið undir kerfið, þ.e. ekki er um að ræða skilyrði varðandi það hvers konar starfsemi fyrirtækin geta stundað. Skv. 1. gr. reglugerðarinnar getur slíkt kerfi ekki tekið til árlegs meðalfjármagns til ríkisaðstoðar sem fer yfir jafnvirði 150 milljóna evra í íslenskum krónum frá sex mánuðum eftir að slíkt kerfi öðlast gildi. Þá má aðstoð til hvers fyrirtækis ekki vera hærri en jafnvirði 15 milljóna evra í íslenskum krónum, sbr. g-lið 4. gr. reglugerðarinnar. Íslensk stjórnvöld þurfa að fylgjast með því að ekki verði farið fram úr þessu hámarki.
    Það skattafsláttarkerfi sem lagt er til í frumvarpi þessu getur fallið innan ramma hinnar nýju almennu hópundanþágureglugerðar. Kerfið þarf því ekki að tilkynna sérstaklega til ESA og fá samþykki fyrir því áður en það tekur gildi.

4.4.3. Reglur annarra Evrópuríkja um skattafslátt vegna kaupa á hlutabréfum.
    Nokkur EES-ríki hafa lögfest sérstök skattafsláttarkerfi vegna hlutabréfakaupa einstaklinga.
    Árið 2013 kom til framkvæmda nýtt skattafsláttarkerfi í Svíþjóð. Samkvæmt því geta þeir einstaklingar sem fjárfesta í litlum fyrirtækjum fengið skattafslátt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hver einstaklingur getur að hámarki fjárfest innan kerfisins fyrir SEK 1.300.000 á ári. Skattafslátturinn reiknast þannig að heimilt er að draga 50% af fjárfestingunni frá fjármagnstekjum einstaklinga. Ef einstaklingur hefur ekki fjármagnstekjur yfirfærist heimildin yfir á aðrar tekjur. Einstaklingur má ekki vera tengdur því fyrirtæki sem fjárfest er í og greiða verður fyrir hlutinn með reiðufé.
    Á árunum 2013–2015 var í gildi tímabundið skattafsláttarkerfi í Finnlandi fyrir einstaklinga sem fjárfestu í litlum fyrirtækjum þar í landi. Afslátturinn fólst í því að einstaklingar gátu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum fengið frestun á skattlagningu fjármagnstekna vegna fjárfestinga í litlum fyrirtækjum. Einstaklingur mátti ekki vera tengdur því fyrirtæki sem fjárfest var í.
    Hvorki er að finna í Danmörku né Noregi sérstakt kerfi sem felur í sér skattafslátt vegna hlutabréfakaupa í félögum. Í Danmörku er þó að finna kerfi sem styður við félög sem rekin eru með tapi og lýtur stuðningurinn að endurgreiðslu ríkisins á útgjöldum félagsins sem rekja má til atriða sem tengjast rannsóknum og þróun. Í Noregi er hins vegar fyrir hendi stuðningskerfi sem felur í sér beinan stuðning við nýsköpunarfyrirtæki í formi frádráttar frá tekjuskatti fyrirtækjanna sjálfra, líkt og hér er í gildi samkvæmt lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.
    Írland hefur um árabil veitt skattafslátt til einstaklinga sem fjárfesta í hlutabréfum. Afslátturinn felst í frádrætti frá tekjuskattsstofni sem getur numið 30% af fjárfestingu með möguleika á 11% viðbót við lok þriggja ára eignarhaldstíma ef sýnt er fram á ákveðinn vöxt í fyrirtæki. Ónýttan skattafslátt er heimilt að flytja á milli ára. Í Bretlandi gildir svipað kerfi og á Írlandi. Í báðum löndum er gengið út frá því að fjárfestar séu ekki tengdir því fyrirtæki sem fjárfest er í.

4.4.4. Breytingartillaga frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lögð til breyting sem tekur til álagningar opinberra gjalda á árunum 2017, 2018 og 2019. Þetta ákvæði felur það í sér að komið verði á fót nýju skattafsláttarkerfi fyrir einstaklinga sem kaupa hlutabréf. Markmið tillögunnar er að stuðla að nýsköpun og fjölgun starfa með því að hvetja fjárfesta, sem stunda fjárfestingar í nokkrum mæli, að leggja fyrirtækjum í vexti til nýtt hlutafé. Undirliggjandi er sú staðreynd að óskráð fyrirtæki sem eru komin af sprotastiginu og í þann mund að byrja að vaxa hafa oft takmarkaðan aðgang að viðbótarfjármögnun í formi lánsfjár eða hlutafjáraukningar enda yfirleitt um áhættufjárfestingar að ræða. Á hinn bóginn getur vöxtur slíkra fyrirtækja leitt til aukinnar hagsældar fyrir samfélagið í heild til lengri tíma litið. Verði frumvarpið að lögum mun það leiða til þess að lítil fyrirtæki geti aukið hlutafé sitt fyrir tilstuðlan fjárfestinga einstaklinga í hlutafélögum og einkahlutafélögum.
    Í frumvarpinu koma fram þau skilyrði sem bæði einstaklingar og félög þurfa að uppfylla svo að slík fjárfesting geti talist frádráttarbær frá tekjuskattsstofni einstaklinganna. Fjölmargar atvinnugreinar standa þó utan við kerfið og fjárfestingar í þeim veita þannig ekki rétt til skattafsláttar. Ólíkar ástæður búa að baki því að ekki er talin ástæða til að hvetja til og styrkja fjárfestingar í þessum atvinnugreinum og er nánari grein gerð fyrir þeim sjónarmiðum í greinargerð um 4. gr. frumvarpsins.
    Samsetning fyrirtækja hér á landi er ólík í samanburði við flestar aðrar þjóðir en 97,4% fyrirtækja eru ekki með fleiri en 25 starfsmenn. Hlutfall fyrirtækja með tíu starfsmenn eða færri er 93,6%. Eftirfarandi tafla sýnir fjölda fyrirtækja flokkuð eftir starfsmannafjölda.

Stærðarflokkur Fjöldi Hlutfall af heild
>500 25 0,1%
250–500 45 0,1%
200–249 21 0,1%
150–199 29 0,1%
100–149 62 0,2%
50–99 175 0,6%
40–49 114 0,4%
30–39 178 0,6%
20–29 342 1,1%
10–19 1.004 3,2%
<10 28.979 93,6%
Samtals 30.974 100,0%
Heimild: Hagstofa Íslands.

4.5. Hækkun viðmiðunarfjárhæða frádráttar vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja.
    Í frumvarpinu er lagt til að núgildandi skattaívilnanir til nýsköpunarfyrirtækja sem er að finna í lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, verði hækkaðar verulega, sbr. eftirfarandi tillögur:
          að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til almennrar viðmiðunar á frádrætti hækki úr 100 m.kr. í 300 m.kr.,
          að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til viðmiðunar frádrætti hækki úr 150 m.kr. í 450 m.kr. þegar um aðkeypta rannsóknar- og þróunarþjónustu er að ræða frá ótengdu fyrirtæki, háskóla eða rannsóknastofnun.
    Framangreindar viðmiðunarfjárhæðir hafa staðið óbreyttar frá því að lögin tóku gildi og því orðið tímabært að hækka þær. Þá er það stefna stjórnvalda að auka stuðning og efla ­rannsóknir við tækniþróun á Íslandi og er þessi hækkun viðmiðunarmarka mikilvægur áfangi á þeirri braut. Við álagningu opinberra gjalda á fyrirtæki fyrir árið 2015, miðað við rekstur ársins 2014, námu þessar ívilnanir 1,2 mö.kr. Rétt er að taka fram að litið er á þessa fjárhæð sem beinan ríkisstyrk og er hún sem slík færð sem fjárfestingarútgjöld hjá ríkissjóði, en ekki sem lækkun á tekjuskatti félaga. Að mati stjórnvalda hafa þessar reglur stuðlað að arðbærum rannsóknum og þróun fyrirtækja á undanförnum árum í takt við stefnu stjórnvalda og þar af leiðandi talið eðlilegt að hækka þær nokkuð umfram verðlagsþróun á tímabilinu.

4.6. Leiðrétting á veltuviðmiði við skilgreiningu lítilla fyrirtækja og tilvísun í nýja reglugerð.
    Með lögum nr. 165/2010 var bætt við ákvæði laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, skilgreiningum á litlum og meðalstórum fyrirtækjum en þær voru taldar nauðsynlegar vegna þeirra reglna sem gilda um samanlagt hámark á opinberum styrkjum til rannsóknar- og þróunarverkefna samkvæmt sömu leiðbeinandi reglum. Í skilgreiningu laganna á litlum fyrirtækjum er m.a. miðað við að árleg velta þeirra sé undir 2 milljónum evra og/eða efnahagsreikningur undir 2 milljónum evra og er í því sambandi vísað til I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 frá 6. ágúst 2008.
    Nú hefur komið í ljós að veltuviðmið laganna varðandi lítil fyrirtæki er ekki rétt. Samkvæmt reglugerð framkvæmdastjórnarinnar er miðað við að árleg velta þeirra sé undir 10 milljónum evra og/eða efnahagsreikningur undir 10 milljónum evra en ekki 2 milljónum evra eins og gildandi lög tiltaka. Því er lögð til leiðrétting á fjárhæðunum auk þess sem rétt þykir að breyta tilvísun í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar þar sem ný reglugerð hefur leyst þá eldri af hólmi.
    Sama breyting, vegna veltuviðmiða við skilgreiningu á litlum fyrirtækjum, er lögð til við lög um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 41/2015, en hún er af sömu rót runnin.

5. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá. Í frumvarpinu felst ríkisaðstoð, sbr. skattafslátt vegna hlutabréfakaupa, sem þarf að samræmast skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Í kafla 4.4. er að finna umfjöllun um það hvernig sú ríkisaðstoð sem frumvarp þetta felur í sér samræmist ákvæðum EES-samningsins.

6. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst skattskylda aðila, bæði einstaklinga og lögaðila. Við gerð frumvarpsins var haft samráð við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og ríkisskattstjóra.

7. Mat á áhrifum.
    Lagabreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu munu samanlagt hafa neikvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs til skemmri tíma litið verði frumvarpið óbreytt að lögum. Til lengri tíma litið ættu hins vegar þau áhrif að snúast yfir í það að verða jákvæð enda tilgangur þeirra að stuðla að aukinni hagsæld til framtíðar. Áhrif einstakra tillagna eru þó nokkuð mismunandi og er hér á eftir gerð nánari grein fyrir þeim.
    Gert er ráð fyrir því að fjárhagsleg áhrif tillagna um breytta skattlagningu kaupréttar og breytanlegra skuldabréfa verði innan tekjuramma fjárlaga til framtíðar séð þótt einhver tilfærsla kunni að eiga sér stað í tekjuskattsgreiðslum milli ára.
    Bein áhrif skattaívilnana til handa erlendum sérfræðingum á afkomu ríkissjóðs eru afar óljós. Halda má því fram að þau verði jákvæð þar sem viðkomandi sérfræðingur hefði ella ekki orðið íslenskur skattþegn. Það sem fyrst og fremst er óljóst er hvaða áhrif innflutningur erlendra sérfræðinga undir formerkjum skattalegra hvata mun hafa á innlendan vinnumarkað þegar eftirspurn eftir vinnuafli er eins mikil og nú er. Í ljósi þessarar óvissu er ekki reiknað með ávinningi eða kostnaði af þessari aðgerð fyrir afkomu ríkissjóðs að svo stöddu.
    Markmið skattafsláttar vegna hlutabréfakaupa er að styðja við lítil fyrirtæki hér á landi með því að gera þau að fýsilegum fjárfestingarkosti. Með því að veita einstaklingum sem fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum sérstakan skattafslátt má ætla að fyrirtækin fái fjármagn sem ella hefði ekki komið til enda slík fjárfesting að jafnaði áhættusöm fyrir fjárfesta. Varðandi mat á áhrifum þessa nýja fjárfestingarkosts á tekjuskatt einstaklinga er rennt algjörlega blint í sjóinn, ekki síst í ljósi þess að um er að ræða áhættufjárfestingu eins og fyrr segir en ekki almennt sparnaðarform fyrir einstaklinga og því ekki raunhæft að gera ráð fyrir að mikill fjöldi muni nýta sér þessa leið. Til samanburðar má nefna að í Svíþjóð nýttu um 6.000 einstaklingar sér skattafslátt samkvæmt þeirra kerfi árið 2014. Giskað er á að 1.200 einstaklingar muni nýta sér afsláttinn á gildistíma afsláttarins, þ.e. 2017–2019, þó ívið færri fyrsta árið. Á grundvelli þessara forsendna er áætlað tap ríkissjóðs á tekjuskatti einstaklinga 300 m.kr. árið 2017 og 400 m.kr. á árunum 2018 og 2019. Nauðsynlegt er að árétta það sem áður var sagt að hér er um bein skammtímaáhrif að ræða sem ættu að jafnast út til lengri tíma litið. Í áðurnefndri greinargerð starfshóps, um skattafslátt til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum í litlum fyrirtækjum í vexti, kemur fram að skattafsláttarkerfi, sambærileg því sem hér er lagt upp með, geti verið nokkuð mannaflsfrek og haft í för með sér aukinn kostnað fyrir skattyfirvöld. Tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga gætu þó fljótlega orðið meiri en útgjöldin af kerfinu og það gæti falið í sér jákvætt greiðsluflæði um leið og fyrstu hlutafjárútboðin fara fram þar sem skattafslátturinn kemur fyrst til frádráttar frá tekjuskattsstofni við álagningu opinberra gjalda árið eftir að útboðið fer fram. Til lengri tíma litið ætti vöxtur fyrirtækjanna að leiða til aukinna tekna fyrir ríkissjóð og sveitarfélög.
    Í frumvarpinu er að finna tillögu um þreföldun á viðmiðunarmörkum kostnaðar við ­rannsóknir og þróun sem veitir rétt til skattalegrar ívilnunar í formi endurgreiðslu eða lækkunar á tekjuskatti fyrirtækja. Sem fyrr greinir nam þessi ívilnun samtals 1,2 mö.kr. á árinu 2015 vegna útgjalda á árinu 2014. Gert er ráð fyrir því að sú fjárhæð gæti hækkað um u.þ.b. 1 ma.kr. á ársgrundvelli.
    Að lokum er lögð til leiðrétting á veltuviðmiði við skilgreiningu lítilla fyrirtækja og tilvísun í nýja reglugerð í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Ekki verður séð að þessi leiðrétting muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Samanlögð áhrif frumvarpsins, verði það samþykkt óbreytt, verða í einhverjum mæli neikvæð til skamms tíma litið. Sem dæmi má nefna að hlutabréfaafslátturinn mun fyrst hafa áhrif á álagningu tekjuskatts hjá einstaklingum til lækkunar árin 2017–2019 eins og að framan er lýst. Þá mun aukinn stuðningur við fyrirtæki sem eru að fjárfesta í rannsóknum og þróun hækka fjárfestingaútgjöld ríkissjóðs og því hafa neikvæð áhrif á afkomuna til skemmri tíma litið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar sem lúta að skattalegri meðferð svokallaðra kaupréttar- eða valréttarsamninga. Nánar tiltekið er lagt til að sú breyting verði á skattalegri meðferð tekna vegna kaupa manns á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem hann hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, skv. 9. gr. tekjuskattslaga, að þær verði skattlagðar við sölu bréfanna í stað afhendingardags/innlausnar eins og nú er. Verði frumvarpið að lögum mun því starfsmaðurinn hvorki greiða skatt af kauprétti sínum á samningsdegi né þegar hann leysir bréfin til sín. Skattlagningu er frestað þangað til bréfin eru seld. Telst mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og söluverði bréfanna til launatekna.

Um 2. gr.

    Lagt er til að hagnaður eiganda breytanlegra skuldabréfa, sem breytt er í hlutabréf á lægra verði en gildir almennt á markaðnum, verði skattlagður við sölu bréfanna í stað nýtingar breytiréttarins í tilviki einstaklinga. Skattlagningu fjármagnstekna er því frestað fram að sölu bréfanna, sbr. 47.–49. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, og 31.–32. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, sem fjalla um lántöku með sérstökum skilyrðum.

Um 3. og 5. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar sem lúta að skattalegri meðferð tekna erlendra sérfræðinga fyrstu þrjú árin frá ráðningu í starf. Gert er ráð fyrir því að erlendir sérfræðingar, svo sem sérfræðingar og aðrir helstu lykilstarfsmenn í rannsóknum og þróun, framleiðslu, stjórnun og skipulagningu, markaðssetningu, verkfræði, fjármálum, upplýsingatækni, samskiptatækni og kennslu, sem bera hér á landi ótakmarkaða eða takmarkaða skattskyldu, sbr. 1. og 3. gr. laga um tekjuskatt, geti dregið 25% frá tekjum sínum utan atvinnurekstrar sem falla undir 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna. Hér undir falla hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan tekjurnar stafa eða í hvaða formi þær eru. Til skattlagningar í staðgreiðslu og álagningu koma því einungis 75% teknanna, en að öðru leyti gilda ákvæði tekjuskattslaga. Tryggingagjald og lífeyrisiðgjöld verða eftir sem áður greidd af heildarlaunum án tillits til 25% frádráttarins. Sama gildir um greiðslur barna- og vaxtabóta.
    Ákvæðið tiltekur nokkur skilyrði sem þarf að uppfylla en þau eru í fyrsta lagi að erlendur sérfræðingur sé ráðinn til starfa hjá lögaðila sem hefur lögheimili eða fasta starfsstöð hér á landi og sé sá sem greiðir honum tekjur sem sérfræðingi. Í öðru lagi má hinn erlendi sérfræðingur ekki hafa verið búsettur eða heimilisfastur hér á landi á fimm ára tímabili næst á undan því almanaksári sem hann hóf störf hér á landi. Að lokum þarf hinn erlendi sérfræðingur að búa yfir þekkingu sem ekki er fyrir hendi nema í litlum mæli hér á landi. Gert er ráð fyrir stofnun sjálfstæðrar nefndar sem fari yfir skriflegar umsóknir og staðfesti eða hafni því að tiltekinn erlendur sérfræðingur uppfylli skilyrði ákvæðisins fyrir frádrætti frá tekjuskattsstofni. Umsókn um staðfestingu, ásamt fylgigögnum, skal berast eigi síðar en þremur mánuðum frá því að erlendur sérfræðingur hóf störf hér á landi. Vinnuveitanda og/eða starfsmanni, þ.e. hinum erlenda sérfræðingi, er heimilt að senda nefndinni umsókn og skal hún innihalda þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að nefndin geti komist að niðurstöðu að undangengnu hlutlægu mati sínu, sbr. a–c-lið 1. mgr. og 4. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Í ákvæðinu er lagt til að ráðherra skipi nefndina. Ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og fjármál og ráðherra sem fer með fræðslumál tilnefna sinn mann hvor, en sá þriðji skal skipaður án tilnefningar og vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Samkvæmt greininni er lagt til að nefndin fari yfir umsóknir og meti m.a. menntunarstig, sérþekkingu, reynslu og fjárhæð launa. Þar sem markmið ákvæðisins er m.a. að greiða fyrir og laða að landinu erlenda sérfræðinga til starfa hér á landi, ekki hvað síst í íslenskum tækni- og rannsóknarfyrirtækjum og háskólasamfélaginu, er ákvæðinu þar með ekki ætlað að taka til íþróttamanna eða þjálfara sem ekki eru beinir þátttakendur í atvinnulífinu. Telji nefndin umsækjanda uppfylla skilyrði ákvæðisins skal hún veita umsækjanda staðfestingu á því en hafna umsókn ella. Afrit af staðfestingu umsóknar skal senda ríkisskattstjóra.
    Ákvörðun nefndarinnar er endanleg á stjórnsýslustigi.
    Gert er ráð fyrir því að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð sem kveður nánar á um framkvæmd ákvæðisins, m.a. um form og skilyrði umsókna, þær kröfur sem erlendir sérfræðingar þurfa að uppfylla, svo sem varðandi menntun, reynslu og fyrri störf, ráðningarsamninga og viðmiðunarfjárhæðir launa samkvæmt ráðningarsamningi, ásamt starfsháttum nefndarinnar.
    Lagt er til að ákvæðið öðlast gildi 1. janúar 2017 og komi til framkvæmda við álagningu 2018 og staðgreiðslu opinberra gjalda 2017.

Um 4. gr.

    Einstaklingar sem skattskyldir eru á grundvelli 1. og 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem fjárfesta í félögum sem uppfylla skilyrði ákvæðisins, munu skv. 1. mgr. geta dregið frá tekjuskattsstofni sínum að viðbættum fjármagnstekjum 30% af fjárfestingunni á hverju ári. Heimild þessi tekur til álagningar opinberra gjalda á árunum 2017, 2018 og 2019 vegna fjárfestinga á árunum 2016, 2017 og 2018. Við það er miðað að lögin taki til fjárfestinga á árinu 2016 að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins að öðru leyti.
    Í 2. mgr. er kveðið á um þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar til að einstaklingur geti nýtt sér frádráttarheimildina. Til þess að eiga rétt á frádrætti þarf einstaklingur að fjárfesta í félagi fyrir að lágmarki 500 þús. kr. á almanaksári. Ekki er veittur frádráttur vegna heildarfjárfestinga umfram 10 m.kr. á ársgrundvelli. Þá er gerð krafa um að einstaklingur geti sýnt fram á að fjárfesting hafi verið að fullu greidd. Með því er tryggt að greitt hafi verið fyrir hlutafé einstaklingsins fyrir úthlutun hlutabréfanna og slíkt leiði jafnframt til eðlilegrar hlutafjáraukningar í félaginu. Þá er það einnig skilyrði að fjárfesting sé tilkomin vegna hlutafjáraukningar í félagi og nær fjárfestingin ekki til frekari hlutafjáraukningar í félaginu í kjölfarið. Félagið skal jafnframt hafa skilað lista til ríkisskattstjóra um þátttakendur hlutafjáraukningarinnar og aukningin skráð í hlutafélagaskrá. Til að geta fjárfest í félagi má einstaklingurinn sem fjárfestir ekki vera tengdur félaginu eða félagasamstæðum þess á ákveðnu tímabili, þ.e. tveimur árum fyrir og þremur árum eftir skráða hlutafjáraukningu. Sérstaklega er fjallað um tengsl einstaklinga við félag eða félagasamstæðu á grundvelli fjárhagslegra hagsmuna og stjórnunarlegra yfirráða auk sifjaréttarlegra tengsla. Fyrirmyndina má rekja til bæði írskrar og breskrar löggjafar á sama sviði. Er m.a. gert að skilyrði að einstaklingur sé ekki tengdur félaginu á grundvelli fjárhagslegra hagsmuna tengdra félaginu sem leitt gæti til vafa um að hann sé óhlutdrægur gagnvart eðlilegri hlutafjáraukningu félagsins og að hún fari fram með þeim hætti sem almennt gerist í viðskiptum milli ótengdra aðila. Jafnframt er það gert að skilyrði að ef einstaklingur mun eignast meira en 30% eignarhlutdeild í félaginu eða atkvæðarétti þess þá missi hann rétt sinn til skattafsláttar. Sem dæmi má nefna að ef einstaklingur eignast á einu ári 15% eignarhlutdeild í félagi og ári seinna auka 20% eignarhlutdeild þá ber honum að greiða tekjuskatt eins og frádrátturinn hefði ekki komið til. Þá er kveðið á um að einstaklingar teljist tengdir ef félagið er beint eða óbeint undir stjórnunarlegum yfirráðum þeirra eða þeir eru starfsmenn félagsins. Sömu skilyrði eiga við ef um er að ræða annað félag sem á beint eða óbeint eignarhlutdeild í félaginu sem skattafsláttur einstaklingsins grundvallast á. Á grundvelli sömu atriða mega einstaklingar ekki vera tengdir nánum persónulegum böndum, svo sem sifjaréttar- eða fjárhagslegum. Með sifjaréttarlegum tengslum er t.d. átt við þegar eiginkona einstaklings fer með stjórnunarleg yfirráð í félagi sem á beinan eða óbeinan eignarhlut í félaginu sem skattafsláttur einstaklingsins grundvallast á. Sama á við þegar einstaklingar eru tengdir við­skipta­legum böndum, en með því er t.d. átt ef fjárfesting einstaklings í félagi er hluti af samkomulagi gagnvart tengdum einstaklingi sem fjárfestir á móti í öðru félagi sem fyrri einstaklingurinn er tengdur.
    Þau félög sem fjárfest er í þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði skv. 3. mgr. Í fyrsta lagi þarf félag að vera stofnsett á Íslandi. Fjárfesting tekur þó einnig til félaga sem stofnsett eru í öðrum EES-ríkjum, EFTA-ríkjum eða Færeyjum ef þau eru með fasta starfsstöð á Íslandi. Í öðru lagi tekur ákvæðið einungis til fjárfestinga í félögum sem eru ekki með fleiri en 25 starfsmenn og félagið er með árlega veltu undir 650 m.kr. og/eða efnahagsreikning undir 650 m.kr., en miða skal við samþykktan ársreikning síðasta reikningsárs. Í þriðja lagi þarf greiðslum á öllu lágmarkshlutafé vegna stofnunar félags að vera lokið og félag sé þar af leiðandi ekki lengur á frumstigi starfsemi sinnar heldur á vaxtarstigi. Í fjórða lagi tekur ákvæðið ekki til félaga sem eru skráð eða hafa verið skráð á hlutabréfamarkað, þ.m.t. markaðstorg fjármálagerninga. Í fimmta lagi tekur ákvæðið ekki til félags sem hefur, frá tímamarki upphaflegu hlutafjáraukningarinnar, verið starfandi á markaði lengur en fjögur ár frá fyrstu sölu þess í við­skipta­legum tilgangi, þ.e. frá þeim tíma sem hvers kyns vara/þjónusta þess var seld í fyrsta sinn í við­skipta­legum tilgangi á vöru- eða þjónustumarkaði fyrir utan takmarkaða sölu til að prófa markaðinn. Bæði fyrrnefndu skilyrðin má rekja til hópundanþágureglugerðar framkvæmdastjórnar (ESB) nr. 651/2014. Í sjötta lagi þarf félagið að vera rekið í hagnaðarskyni, þ.e. með það að markmiði að stuðla að hagnaði, og í því samhengi þarf að vera um að ræða skattskyldan lögaðila á grundvelli 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem ekki fellur undir 4. gr. sömu laga. Í sjöunda og áttunda lagi falla félög sem eiga í fjárhagsvanda utan gildissviðs ákvæðisins og það sama gildir um félög sem íslenska ríkið á útistandandi endurgreiðslukröfu á vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar. Þessi tvö skilyrði má rekja til hópundanþágureglugerðar framkvæmdastjórnar (ESB) nr. 651/2014. Gert er ráð fyrir því að ráðherra skýri nánar fyrra skilyrðið og þar eigi við þau sambærilegu sjónarmið sem búa að baki í reglugerð nr. 758/2011, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, sbr. þær breytingar sem voru gerðar á henni með reglugerð nr. 247/2015. Síðara skilyrðið felur það í sér að á meðan ósamrýmanleg ríkisaðstoð er óuppgerð af hálfu félagsins, samkvæmt ákvörðun ESA, er ekki hægt að sækja um skattafslátt á grundvelli ákvæðisins og er það í samræmi við svokallaða Deggendorf-reglu, sem má rekja til dóms Evrópusambandsins í máli C-355-95 P (Textilwerke Deggendorf GmbH gegn framkvæmdastjórn ESB). Uppgjör miðast við að sú ívilnun sem ESA hefur kveðið á um að sé ólögmæt sé ekki lengur í höndum félagsins. Aðstoðin hefur þá að jafnaði verið endurgreidd viðkomandi stjórnvaldi eða fyrirtæki í yfirráðum hins opinbera en einnig getur komið til þess að fjármunir séu geymslugreiddir, til að mynda á meðan beðið er úrlausnar EFTA-dómstólsins. Í níunda lagi gerir frumvarpið ráð fyrir að félög hafi skilað ársreikningi innan tilskilins frests og má rekja þetta skilyrði til sambærilegs ákvæðis í eldri lögum nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Í tíunda lagi gerir ákvæðið ráð fyrir því að andvirði hlutafjáraukningarinnar verði notað í þágu við­skipta­starfsemi þess eða í undirbúning á slíkri við­skipta­starfsemi. Sem dæmi má nefna að það að nýta andvirðið til kaupa á hlutum í dótturfélagi telst út af fyrir sig ekki vera liður í við­skipta­starfsemi félags nema dótturfélagið verði í meirihlutaeigu félagsins og það uppfylli skilyrði ákvæðisins. Í ellefta lagi er kveðið á um það að heildarhlutafjáraukning í félagi geti numið 2.000 m.kr. og ef félagið er hluti af félagasamstæðu þá nái þetta hámark til þeirrar samstæðu í heild, en sem dæmi má nefna að samtals hlutafjáraukning dótturfélags ásamt hlutafjáraukningu móðurfélags má ekki fara yfir hámarkið. Hámarkið má rekja til ákvæða í hópundanþágureglugerð framkvæmdastjórnar (ESB) nr. 651/2014. Í tólfta lagi er kveðið á um það að svo að hægt sé að nýta sér skattafslátt samkvæmt frumvarpinu þurfi félag að hafa hlotið staðfestingu ríkisskattstjóra um að það uppfylli skilyrði ákvæðisins á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og getur hann krafið félagið um þau gögn sem hann telur nauðsynleg. Ákvörðun ríkisskattstjóra má skjóta til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd. Jafnframt er kveðið á um eftirlit ríkisskattstjóra og upplýsingaskyldu gagnvart almenningi, en augljós nauðsyn er á því að einstaklingum sé um það kunnugt fyrir fram hvort fyrirhuguð kaup á tilteknum hlutabréfum veiti rétt til frádráttar frá tekjuskattsstofni eða ekki.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir því að félög sem stunda ákveðna starfsemi falli utan ákvæðisins, þ.e. fjárfestingar í slíkum félögum mynda ekki rétt til skattafsláttar. Í því sambandi mun þó ekki ein­göngu verða horft til skráðrar starfsemi félags ef meginstarfsemi eða raunveruleg starfsemi þess fellur í raun undir ákvæðið, sbr. úrskurð yfirskattanefndar, nr. 7/2011. Með frumvarpinu er ekki farin sú leið að einskorða skattafsláttinn við fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum, enda afar erfitt að afmarka með skýrum hætti hvaða félög teljast nýsköpunarfyrirtæki. Farin er sú leið að félög í ákveðinni starfsemi, sem ekki er talið nauðsynlegt að styðja sérstaklega við með sérstökum skattafslætti, falla utan gildissviðs ákvæðisins. Í a- og b-lið er kveðið á um starfsemi sem felst annars vegar í viðskiptum með fasteignir og hins vegar í útleigu fasteigna eða lausafjár, en slík starfsemi er ekki talin vera þess eðlis að hún sé líkleg til að fela í sér nýsköpun. Sömu rök eiga við um c- og d-lið að því er varðar annars vegar starfsemi hvers kyns eignarhaldsfélaga og hins vegar fjárfestingarfélaga sem hafa að meginstefnu til það markmið að fjárfesta í öðrum félögum eða sjóðum. Í ljósi sérstöðu og eðlis þeirrar starfsemi sem eftirlitsskyldir aðilar hafa á grundvelli 5. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er jafnframt talið eðlilegt að slík starfsemi falli utan ákvæðisins, sbr. e-lið. Þá telst starfsemi sem felst að meginstefnu til í útseldri þjónustu og ráðgjöf sérfræðinga falla utan ákvæðisins, sbr. f-lið. Nefna má sem dæmi sérfræðinga, arkitekta, verkfræðinga, endurskoðendur, heilbrigðisstarfsmenn o.fl. Ákvæðið á þó ekki við ef sérfræðingur hagar störfum sínum á þann hátt í sérstöku félagi að þau fela í sér t.d. rannsókn sem ætlað er að stuðla að nýsköpun á ákveðnu fagsviði. Á grundvelli g-liðar verður ekki veittur sérstakur skattafsláttur vegna fjárfestinga í fyrirtækjum sem stunda kvikmyndaframleiðslu, enda nýtur slík starfsemi nú þegar ríkisaðstoðar á grundvelli laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Þá er í h- og i-lið mælt fyrir um annars vegar starfsemi sem felst í mannvirkjagerð og hvers kyns viðhaldi og endurbótum á mannvirkjum og hins vegar starfsemi sem tengist fjárfestingu og/eða rekstri hótela, gistiheimila og veitingastaða. Telja verður varhugavert að fella slíka starfsemi undir ákvæðið. Bæði er hún að hluta til ekki fyrir fram líkleg til að stuðla að nýsköpun og þróun á markaði og jafnframt er vöxturinn í greininni slíkur að ekki er tilefni til ýta þar frekar undir. Að lokum er í j- og k-lið mælt fyrir um annars vegar starfsemi sem felst í útflutningi og innflutningi vara sem framleiddar eru og þróaðar af öðrum og hins vegar starfsemi sem felst í hvers kyns námuvinnslu. Slík starfsemi fellur ekki undir ákvæðið vegna annars vegar skilyrða sem rekja má til hópundanþágureglugerðar framkvæmdastjórnar (ESB) nr. 651/2014, og hins vegar er slík starfsemi ekki talin vera þess eðlis að hún feli í sér nýsköpun.
    Í 5. mgr. kemur fram að ef einstaklingur selur bréf sín í félagi innan þriggja ára skuli bakfæra frádráttinn enda er skattafslátturinn ekki hugsaður vegna skammtímafjárfestinga. Sama gildir ef einstaklingur gerist tengdur félaginu skv. 6. tölul. 2. mgr. ákvæðisins eða ef félagið eða starfsemi þess uppfyllir ekki lengur skilyrði 3. mgr. eða fellur undir 4. mgr., t.d. ef félagið skráir sig á hlutabréfamarkað, sbr. 4. tölul. 3. mgr., innan þriggja ára frá því fjárfestingin fór fram. Skilyrði 3. mgr. á þó ekki við á þriggja ára tímabilinu eftir hlutafjáraukninguna ef félaginu er slitið á grundvelli raunverulegra við­skipta­legra ástæðna. Nýttur frádráttur skal færast til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa.
    Í 6. mgr. er gert ráð fyrir því að ef skattafslátturinn er hærri en tekjuskattsstofn skattaðila að viðbættum fjármagnstekjum á almanaksári færist það sem umfram er milli ára þar til hann er fullnýttur, en þó ekki lengur en næstu þrjú ár. Það sem ónýtt er af frádráttarheimildinni að þremur árum liðnum fellur niður. Sem dæmi má nefna að ef einstaklingur fjárfestir árið 2018 en tekjuskattsstofninn hans að viðbættum fjármagnstekjum er lægri en frádrátturinn þá færist hann yfir á næstu þrjú ár.
    Í 7. mgr. er kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd ákvæðisins. Hér er m.a. átt við þær kröfur sem félög þurfa að uppfylla skv. 3. mgr., nánari gagnsæiskröfur vegna skattafsláttar og skilgreiningu á hugtakinu félagi í fjárhagsvanda.

Um 6. og 8. gr.

    Komið hefur í ljós að veltuviðmið laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, í skilgreiningu þeirra á litlum fyrirtækjum er ekki rétt. Skv. I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 frá 6. ágúst 2008 er miðað við að árleg velta þeirra sé undir 10 milljónum evra og/eða efnahagsreikningur undir 10 milljónum evra en ekki 2 milljónum evra eins og lögin kveða á um. Því er lögð til leiðrétting á fjárhæðunum auk þess sem lögð er til breyting á tilvísun í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar þar sem ný reglugerð hefur leyst þá eldri af hólmi.
    Sama breyting, vegna veltuviðmiða við skilgreiningu á litlum fyrirtækjum, er lögð til á lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 41/2015, og er hún af sömu rót runnin.

Um 7. gr.

    Þær breytingar sem eru lagðar til á 1. mgr. 10. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki eru verulegar hækkanir á skattfrádrætti til nýsköpunarfyrirtækja. Þannig er lagt til að almennt hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hækki úr 100 m.kr. í 300 m.kr. Þá er hámark kostnaðar vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarþjónustu hækkað úr 150 m.kr. í 450 m.kr. Það er stefna stjórnvalda að auka stuðning og efla rannsóknir við tækniþróun á Íslandi auk þess sem fjárhæðir hámarksins hafa ekki hækkað frá því að lögin komu til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2011 vegna tekjuársins 2010.

Um 9. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.