Ferill 671. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 1099  —  671. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna
og raffanga, nr. 146/1996, með síðari breytingum
(markaðseftirlit o.fl., EES-reglur).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætast fjórar nýjar skilgreiningar, í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
     1.      Dreifingaraðili raffangs: Einstaklingur eða lögaðili í aðfangakeðjunni, annar en framleiðandi eða innflytjandi, sem býður rafföng fram á markaði.
     2.      Framleiðandi raffangs: Einstaklingur eða lögaðili sem framleiðir rafföng eða lætur framleiða eða hanna rafföng og markaðssetur þann búnað undir sínu nafni eða vörumerki.
     3.      Innflytjandi raffangs: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins sem setur rafföng frá þriðja landi á markað á Evrópska efnahagssvæðinu.
     4.      Viðurkenndur fulltrúi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins sem hefur skriflegt umboð frá framleiðanda raffangs til að koma fram fyrir hans hönd í tengslum við tilgreind verkefni.

2. gr.

    Við 3. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Rafsegultruflanir af völdum raffanga og rafbúnaðar skulu vera innan marka samkvæmt því sem nánar er skilgreint í reglugerð, sem og ónæmi slíks búnaðar fyrir rafsegultruflunum.

3. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Rafverktakar skulu fara yfir eigin verk að þeim loknum og ganga úr skugga um að ákvæði laga og reglugerða séu uppfyllt ásamt því að tilkynna lok verks til Mannvirkjastofnunar samkvæmt skilgreindum verklagsreglum stofnunarinnar. Þetta gildir bæði um vinnu við nýjar neysluveitur og breytingar á neysluveitum í rekstri.

4. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, 5. gr. a – 5. gr. d, svohljóðandi:

    a. (5. gr. a.)
    Bannað er að leggja háspenntar loftlínur yfir íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði, aðrar byggingar og mikilvæg íþrótta- og útivistarsvæði. Jafnframt er óheimilt að reisa slíkar byggingar undir háspenntum loftlínum. Þó mega háspenntar loftlínur liggja yfir byggingum minni en 50 m 2 að flatarmáli sem ekki eru notaðar til íbúðar eða tímabundinnar dvalar fólks.
    Háspenntar loftlínur skulu lagðar í öruggri fjarlægð yfir jörð, frá gróðri, öðrum línum, umferðarleiðum og byggingum. Fjarlægðir skulu ákvarðast í samræmi við ákvæði reglugerðar um raforkuvirki.

    b. (5. gr. b.)
    Framleiðendur, viðurkenndir fulltrúar, innflytjendur og dreifingaraðilar raffanga skulu tryggja að rafföng sem sett eru á markað uppfylli kröfur laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Óheimilt er að setja á markað rafföng sem uppfylla ekki þessar kröfur.
    Áður en raffang er sett á markað skal framleiðandi útbúa viðeigandi tæknigögn og framkvæma eða láta framkvæma mat á því hvort raffangið uppfylli kröfur um öryggi, kröfur um rafsegulsamhæfi eða aðrar kröfur sem kveðið er á um í reglugerð að raffangið þurfi að uppfylla. Samræmismat skal framkvæmt af tilkynntum aðila eftir því sem við á og í samræmi við kröfur sem skilgreindar eru í reglugerð. Framleiðandi skal á grundvelli samræmismats gefa út samræmisyfirlýsingu og festa CE-merki á viðkomandi raffang. Framleiðandi ber allan kostnað af samræmismati og CE-merkingu.
    Sá sem markaðssetur raffang hér á landi skal halda skrá yfir öll rafföng sem hann hefur á boðstólum og hafa tiltæk afrit af tæknilegum gögnum um vöruna og samræmisyfirlýsingu. Enn fremur skal hann að beiðni Mannvirkjastofnunar afhenda skrá með upplýsingum um birgja og þá sem bjóða fram vörur hans ef það er að mati stofnunarinnar nauðsynlegt í tengslum við rannsókn máls.

    c. (5. gr. c.)
    Ráðherra tilkynnir viðeigandi stjórnvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu um þá aðila hér á landi sem hafa heimild til að annast samræmismat samkvæmt ákvæðum þessara laga og reglugerða settra samkvæmt þeim. Ráðherra annast einnig eftirlit með tilkynntum aðilum en getur falið Mannvirkjastofnun að annast það fyrir sína hönd.
    Tilkynntur aðili skal hafa faggildingu og faglega þekkingu til að framkvæma samræmismat. Um faggildinguna fer samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. og ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Sé tilkynntur aðili ekki opinber stofnun eða ríkisfyrirtæki skal hann hafa ábyrgðartryggingu sem nær til skaðabótaábyrgðar gagnvart öllum þeim sem hann kann að valda tjóni með starfsemi sinni.

    d. (5. gr. d.)
    Rafföng eru álitin uppfylla kröfur um öryggi og rafsegulsamhæfi ef þau uppfylla ákvæði samhæfðra evrópskra staðla sem staðfestir hafa verið af Staðlaráði Íslands sem íslenskir staðlar fyrir slíka vöru. Mannvirkjastofnun birtir á vef sínum lista yfir staðla sem varða rafföng. Ráðherra getur með reglugerð falið öðru stjórnvaldi eða Staðlaráði Íslands birtingu staðla samkvæmt þessari málsgrein.
    Séu samhæfðir evrópskir staðlar ekki til eru rafföng álitin uppfylla kröfur um öryggi og rafsegulsamhæfi ef þau uppfylla kröfur staðla Alþjóðaraftækniráðsins (IEC) og kröfur landsstaðla sem í gildi eru í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem jafnframt er framleiðsluland viðkomandi raffanga, uppfylli slíkir staðlar kröfur á Íslandi.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað 5. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Mannvirkjastofnun getur fyrirskipað innköllun, tekið af markaði eða bannað sölu eða afhendingu raffangs ef það uppfyllir ekki skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, svo sem um merkingar, þ.m.t. CE-merkingar, leiðbeiningar og gögn sem ber að útbúa og hafa tiltæk, svo sem samræmisyfirlýsingu, samræmisvottorð, skýrslur um prófanir eða útreikninga og tæknileg gögn.
                 Mannvirkjastofnun getur falið faggiltri prófunarstofu að prófa vöru og meta hvort hún uppfyllir ákvæði laga þessara.
                 Framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi, innflytjandi eða dreifingaraðili ber allan kostnað af innköllun raffangs. Sé raffang ekki í samræmi við settar reglur skal framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi hans eða innflytjandi bera þann kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn og prófun, svo og annan kostnað. Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans, innflytjandi eða dreifingaraðili greiðir allan kostnað af tilkynningum um hættulega vöru sem beint er til almennings, svo sem kostnað við tilkynningar í fjölmiðlum. Framleiðanda eða viðurkenndum fulltrúa, innflytjanda eða dreifingaraðila er heimilt að annast tilkynningu um þetta til almennings, enda sé það gert í samráði við Mannvirkjastofnun og með þeim hætti að eðlileg varnaðaráhrif náist.
                 Mannvirkjastofnun getur haft samstarf við tollyfirvöld um markaðseftirlit við innflutning.
     b.      Í stað „7. mgr.“ í 9. mgr. kemur: 10. mgr.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Sá sem fellst ekki á ákvörðun tilkynnts aðila, sem hefur heimild til að framkvæma samræmismat hér á landi, getur óskað eftir endurskoðun hans á slíkri ákvörðun innan þriggja vikna frá því að honum var kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Þær ákvarðanir sem um er að ræða eru synjun á útgáfu vottorðs um samræmismat, takmörkun á útgáfu þess, tímabundin niðurfelling vottorðs eða afturköllun. Tilkynnti aðilinn skal taka beiðni viðkomandi til skoðunar og tilkynna honum um endanlega ákvörðun. Höfnun tilkynnts aðila um breytingu á upphaflegri ákvörðun er heimilt að kæra til ráðherra. Kærufrestur eru þrjár vikur frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun tilkynnta aðilans.

6. gr.

    Við 2. mgr. 13. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: nánari kröfur vegna markaðssetningar raffanga, þ.m.t. um:
     a.      Skilgreiningu á skyldum og ábyrgð framleiðanda, viðurkennds fulltrúa, innflytjanda og dreifingaraðila.
     b.      Kröfur sem gerðar eru vegna samræmismats. Samræmismat getur m.a. falið í sér kröfu um EB-gerðarprófun, gæðatryggingu í framleiðslu, sannprófun vöru, gerðarsamræmi, gæðatryggingu vöru, innra eftirlit með framleiðslu eða sannprófun eintaka.
     c.      Gerð og form samræmisyfirlýsingar og kröfur um CE-merkingu, þ.m.t. tungumálakröfur. Heimilt er í reglugerð að krefjast þess að samræmisyfirlýsing og leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál séu á íslensku.
     d.      Kröfur sem gerðar eru til tilkynnts aðila og um hlutverk hans og skyldur við framkvæmd samræmismats og eftir atvikum afturköllun vottorða.
     e.      Kröfur um gerð og afhendingu tæknilegra gagna og annarra gagna, þ.m.t. tungumálakröfur. Heimilt er í reglugerð að krefjast þess að slík gögn séu á íslensku.
     f.      Öryggiskröfur og kröfur vegna rafsegultruflana sem rafföng þurfa að uppfylla.
     g.      Kröfur sem gerðar eru til framleiðanda, viðurkennds fulltrúa, innflytjanda og dreifingaraðila um vistun gagna og upplýsinga vegna markaðseftirlits.
     h.      Birtingu staðla.
     i.      Framkvæmd markaðseftirlits og réttarúrræði Mannvirkjastofnunar.

7. gr.

    Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
    Mannvirkjastofnun er heimilt að birta skýrslur um niðurstöður markaðseftirlits með rafföngum á vef stofnunarinnar, enda hafi hlutaðeigandi verið veittur sanngjarn frestur til úrbóta. Mannvirkjastofnun skal gefa út verklagsreglur um nánari framkvæmd þessa ákvæðis og birta á vef stofnunarinnar.

8. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Mannvirkjastofnun getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn 4., 5. og 5. gr. b eða ákvörðunum Mannvirkjastofnunar skv. 11. gr.
    Stjórnvaldssektir geta numið allt að 5.000.000 kr.
    Við ákvörðun sekta skal m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækisins. Mannvirkjastofnun er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Ákvörðun Mannvirkjastofnunar um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Aðili máls getur einungis skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Málskot frestar aðför.
    Heimild Mannvirkjastofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 7. mgr. rofnar þegar Mannvirkjastofnun tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

9. gr.

    18. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Innleiðing.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á ákvæðum eftirfarandi gerða:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um rafsegulsamhæfi (endurgerð).
     2.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um markaðssetningu raffanga sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka (endurgerð).

10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 20. apríl 2016.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarp þetta er samið á vegum um­hverfis- og auðlindaráðuneytisins í samstarfi við Mannvirkjastofnun. Megintilgangur frumvarpsins er að undirbúa innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um markaðssetningu raffanga sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka (endurgerð) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um rafsegulsamhæfi (endurgerð). Um er að ræða innleiðingu á þeim lágmarkskröfum sem umræddar tilskipanir kveða á um. Lög nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, eru rammalög sem skapa grundvöll fyrir frekari reglusetningu og fullri innleiðingu tilskipananna. Til viðbótar eru í frumvarpinu lagðar til lítils háttar lagfæringar á lögunum í ljósi reynslunnar og snúa þær annars vegar að skyldum rafverktaka til yfirferðar eigin verka og hins vegar að skilgreiningu helgunarsvæða raflína. Markmið þeirra breytinga er að styrkja lagagrundvöll framkvæmdar sem þegar er til staðar og byggist að hluta til á ákvæðum gildandi reglugerða.
    Framangreindar tilskipanir hafa ekki enn verið teknar upp í EES-samninginn en undir­búningur að upptöku þeirra er langt á veg kominn. Gert er ráð fyrir að sam­eigin­lega EES- nefndin taki ákvörðun um upptöku þessara tilskipana á næstu mánuðum. Væntanleg ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar mun verða tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands þar sem innleiðing tilskipananna kallar á lagabreytingu. Tilskipanirnar koma til framkvæmda 20. apríl 2016.

II. Meginefni frumvarpsins.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 014/35/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um markaðssetningu raffanga sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka fjallar um öryggi raffanga sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka, þ.e. 50–1000V AC og 75–1500V DC. Tilgangur hennar er að tryggja að rafföng á markaði uppfylli kröfur sem er ætlað að vernda heilbrigði og öryggi manna, húsdýra og eigna, auk þess sem henni er ætlað að tryggja starfsemi innri markaðarins. Samkvæmt tilskipuninni skulu rafföng sem undir hana falla uppfylla grunnkröfur sem þar eru skilgreindar. Beita skal skilgreindu samræmismati til að tryggja samræmi við grunnkröfur og festa CE-merki á öll eintök viðkomandi raffangs því til staðfestingar, auk þess að gefa út skriflega samræmisyfirlýsingu. Tilskipunin kemur í stað eldri tilskipunar, 2006/95/EB, sem var innleidd með reglugerð um raforkuvirki, sem sett er með stoð í lögum nr. 146/1996. Helstu breytingar sem hin nýja tilskipun felur í sér lúta að skipulagi markaðseftirlits, samræmingu viðbragða gagnvart rafföngum sem ekki uppfylla kröfur, skilgreiningu á hlutverki aðila í aðfangakeðjunni og aðkomu tollyfirvalda að eftirliti. Ekki er um að ræða breytingar er varða kröfur um öryggi (grunnkröfur) og samræmismat.
    Tilskipun 2014/30/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um rafsegulsamhæfi gildir um búnað, þ.e. tæki (rafföng) og fastan búnað, sem valdið getur rafsegultruflunum eða orðið fyrir áhrifum af slíkum truflunum. Tilgangur hennar er að tryggja starfsemi innri markaðarins með því að kveða á um fullnægjandi rafsegulsamhæfi. Í tilskipuninni eru því skilgreindar þær grunnkröfur sem búnaður skal uppfylla hvað varðar rafsegulsamhæfi. Beita skal skilgreindu samræmismati til að tryggja samræmi tækja við grunnkröfur og festa CE-merki á öll eintök þeirra því til staðfestingar, auk þess að gefa út skriflega samræmisyfirlýsingu. Tilskipunin kemur í stað eldri tilskipunar, 2004/108/EB, sem var innleidd með reglugerð nr. 270/2008 um rafsegulsamhæfi, sbr. nú reglugerð nr. 397/2012, sem settar eru með stoð í lögum nr. 146/1996. Helstu breytingar sem hin nýja tilskipun felur í sér lúta að skipulagi markaðseftirlits, samræmingu viðbragða gagnvart búnaði sem ekki uppfyllir kröfur, skilgreiningu á hlutverki aðila í aðfangakeðjunni og aðkomu tollyfirvalda að eftirliti. Þá eru ákvæði er varða tilkynnta aðila mun ítarlegri í nýju tilskipuninni. Grunnkröfur varðandi rafsegulsamhæfi breytast ekki.
    Tilskipanir 2014/35/ESB og 2014/30/ESB fela báðar í sér endurskoðun á eldri tilskipunum sem innleiddar voru í íslenska löggjöf með reglugerðum sem settar voru með stoð í lögum nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Tilskipanirnar eiga það sam­eigin­legt að með þeim verður innleitt skipulag markaðseftirlits með þeim vörum sem falla undir gildissvið þeirra, samræming viðbragða vegna raffanga eða búnaðar sem ekki uppfyllir kröfur, skilgreiningar á hlutverki aðila í aðfangakeðjunni og aðkoma tollyfirvalda að eftirliti. Með tilskipununum eru ekki gerðar breytingar á grunnkröfum né fela þær í sér umfangsmiklar breytingar á fyrirkomulagi markaðseftirlits frá því sem verið hefur hér á landi.
    Rafföng má því aðeins setja á markað að hönnun þeirra, gerð og frágangur stofni ekki öryggi manna, húsdýra eða eigna í hættu þegar þau eru rétt upp sett, þeim við haldið og þau notuð með þeim hætti sem til er ætlast. Ábyrgðaraðilar og aðrir seljendur raffanga mega aðeins setja á markað rafföng sem uppfylla ákvæði um öryggi og formleg skilyrði til markaðssetningar. Mannvirkjastofnun annast markaðseftirlit raffanga samkvæmt gildandi lögum, fylgist með rafföngum á markaði, aflar á skipulegan hátt upplýsinga um þau og tekur við ábendingum frá neytendum og öðrum aðilum. Faggiltar skoðunarstofur annast framkvæmd skoðana í umboði Mannvirkjastofnunar samkvæmt gildandi samningi hverju sinni, verklagsreglum og skoðunarhandbók stofnunarinnar. Á árinu 2014 voru heimsóknir til söluaðila raffanga alls 286 víðs vegar um land. Í þessum 286 heimsóknum voru „skimuð“ 21.999 rafföng og 42 skoðuð nánar (B-skoðun) vegna gruns um að þau uppfylltu ekki kröfur. Alls voru 14 mismunandi rafföng send til prófunar hjá prófunarstofu sem er tilkynntur aðili á Evrópska efnahagssvæðinu. Öll voru þau prófuð bæði með tilliti til öryggis og rafsegulsamhæfis. Ekki er gert ráð fyrir að breyting verði á fyrirkomulagi markaðseftirlits með tilkomu frumvarpsins en skerpt er þó á ákveðnum atriðum og lagt til að stofnuninni verði veitt heimild til beitingar nýrra úrræða, þ.e. beitingar stjórnvaldssekta. Ekki er gert ráð fyrir að því úrræði verði beitt í miklum mæli, en talið er engu að síður nauðsynlegt að geta gripið til þess, t.d. ef um ítrekuð brot er að ræða og aðili fylgir ekki fyrirmælum stofnunarinnar.
    Í 3. gr. frumvarpsins er nýtt ákvæði um að rafverktakar skuli fara yfir eigin verk að þeim loknum og ganga úr skugga um að ákvæði laga og reglugerða séu uppfyllt ásamt því að tilkynna lok verks til Mannvirkjastofnunar samkvæmt skilgreindum verklagsreglum stofnunarinnar. Þetta gildir bæði um vinnu við nýjar veitur og breytingar á veitum í rekstri. Ekki er um breytingu að ræða frá þeirri framkvæmd sem tíðkast hefur en lagt er til að þessi skylda rafverktaka komi skýrt fram í lögunum og þar með undirstrikuð ábyrgð rafverktaka á eigin verkum.
    Í a-lið 4. gr. er lagt til að styrkja lagastoðina fyrir því banni að leggja háspenntar loftlínur yfir íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði, aðrar byggingar og mikilvæg íþrótta- og útivistarsvæði. Jafnframt er lagt til að styrkt verði lagastoðin fyrir því að óheimilt sé að reisa slíkar byggingar undir háspenntum loftlínum. Tilgangur ákvæðisins er að tryggja öryggi í nánasta um­hverfi háspenntra loftlína og kveða skýrt á um byggingarbann innan helgunarsvæðis þeirra. Stærð helgunarsvæðis ræðst af spennu viðkomandi raflínu. Samkvæmt gildandi lögum ber þeim sem leggur háspennta loftlínu að afla tilskilinna leyfa og annarra heimilda fyrir nýjum flutningsvirkjum, frá opinberum aðilum sem og einkaaðilum. Þannig eru raflínur háðar mati á um­hverfisáhrifum, skipulagsáætlanagerð, leyfum sveitarfélaga og annarra opinberra aðila, auk þess sem afla þarf heimilda yfir landi á viðkomandi línuleið. Sá sem leggur línuna á ekki eignarrétt að viðkomandi landi heldur er sett kvöð um byggingarbann til að tryggja öryggi við línuna sem þinglýst er á viðkomandi jörð. Þrátt fyrir kvaðir þær sem byggingarbann setur á land vegna raflína getur landeigandi haft ákveðin not af landinu, en honum eins og öðrum ber að virða þeir kvaðir sem kann að leiða af lögum eða samningum. Kröfur um bann við byggingum undir háspenntum loftlínum voru skýrar í eldri reglugerð um raforkuvirki en hafa í seinni tíð meira byggst á ákvæðum staðla og almennum tilvísunum til þess að tryggja öryggi í nágrenni háspennulína. Er því ljóst að umrætt bann við byggingum undir háspenntum loftlínum hefur ekki verið skýrt í lögum eða reglugerðum heldur að vissu leyti falið innan um tæknileg ákvæði og því ekki verið hinum almenna borgara nógu ljóst. Við skoðun á virkjum hafa á undanförnum árum komið í ljós tilvik þar sem mannvirki hafa verið staðsett innan helgunarsvæða flutningslína í andstöðu við fyrirliggjandi kvaðir og þrátt fyrir byggingarbann innan helgunarsvæða samkvæmt skipulagi. Af þeim sökum er talið æskilegt að kveðið verði skýrt á um byggingarbannið í lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, bæði til að fyrirbyggja frávik en einnig til þess að unnt sé að bregðast við ef slík tilvik koma upp og tryggja öryggi borgaranna með fullnægjandi hætti.

III. Stjórnarskrá.
    Frumvarp þetta hefur ekki gefið sérstakt tilefni til mats á samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Rétt er þó að nefna að bann við því að leggja háspenntar loftlínur yfir byggingar og byggingar undir háspenntum loftlínum hefur í för með sér almenna takmörkun á eignarráðum fasteignareiganda. Umrætt bann er þó ekki nýmæli heldur er verið að leggja til í frumvarpinu að lagastoðin fyrir slíku banni verði styrkt.

IV. Samráð.
    Um­hverfis- og auðlindaráðuneytið sendi drög að frumvarpi þessu til umsagnar tollstjóra, Samtaka iðnaðarins, Samorku, Rafiðnaðarsambands Íslands, Staðlaráðs Íslands og Félags raftækjaheildsala. Frumvarpsdrögin fóru einnig í opið umsagnarferli á netinu. Athugasemdir bárust ein­göngu frá Samorku vegna frumvarpsins í tengslum við tiltekið orðalag og voru í kjölfarið gerðar breytingar í samræmi við þær athugasemdir. Ráðuneytinu barst einnig tölvupóstur frá tollstjóra þar sem fram kom að engar athugasemdir væru gerðar við frumvarpsdrögin. Auk þessa þótti rétt við nánari skoðun að gera nokkrar breytingar á frumvarpinu sem flestar fólu í sér minni háttar lagfæringar. Auk þeirra var bætt við ákvæði um að rafföng uppfylltu kröfur um öryggi og rafsegulsamhæfi ef þau uppfylltu kröfur staðla Alþjóðaraftækniráðsins og gildandi landsstaðla, þ.e. í þeim tilvikum þegar samhæfðir evrópskir staðlar eru ekki til. Einnig var ákveðið að tilgreina sérstaklega þau brot sem vörðuðu stjórnvaldssektum auk þess að setja fram ákvæði um tímafresti hvað varðar heimild Mannvirkjastofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir. Samhliða er lagt til að almenna sektarákvæði 17. gr. laganna verði fellt brott. Þá var bætt við kæruheimild til ráðherra vegna ákvarðana tilkynntra aðila í tengslum við útgáfu vottorða um samræmismat, svo sem synjun um útgáfu þeirra og afturköllun vottorða.

V. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur ekki í sér miklar breytingar á því eftirliti sem verið hefur með markaðssetningu raffanga hér á landi né þeim reglum sem um markaðssetninguna gilda. Fyrst og fremst er verið að skerpa á lagastoðinni til að unnt sé að innleiða hinar nýju tilskipanir með reglugerð og uppfylla kröfur þeirra um eftirfylgni. Eftirliti hefur verið sinnt með skipulegum og skilvirkum hætti hingað til og mun svo verða áfram. Lítils háttar breytingar gætu orðið á eftirfylgni með tilkomu heimildar til beitingar stjórnvaldssekta en ekki er gert ráð fyrir að heimildinni verði beitt í miklum mæli. Samkvæmt upplýsingum frá Mannvirkjastofnun hefur almennt gengið vel hingað til að framfylgja gildandi reglum vegna markaðssetningar raffanga og hefur nokkuð góð sátt verið um framkvæmdina. Þau úrræði sem stofnunin hefur haft til að fara fram á úrbætur hafa hingað til virkað vel og lítil þörf því verið á því að kæra mál til lögreglu. Því gerir stofnunin ekki ráð fyrir að mikil þörf verði fyrir beitingu stjórnvaldssekta. Að mati Mannvirkjastofnunar mun frumvarpið almennt séð ekki hafa í för með sér þörf á breytingum á framkvæmd markaðseftirlits.
    Megintilgangur frumvarpsins er að undirbúa innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um markaðssetningu raffanga sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um rafsegulsamhæfi. Helstu breytingar sem hinar nýju tilskipanir fela í sér lúta að skipulagi markaðseftirlits, samræmingu viðbragða gagnvart rafföngum (2014/35/ESB) og búnaði (2014/30/ESB) sem ekki uppfyllir kröfur, skilgreiningu á hlutverki aðila í aðfangakeðjunni og aðkomu tollyfirvalda að eftirliti. Ekki er um að ræða breytingar er varða kröfur um öryggi (grunnkröfur) og samræmismat. Umræddar tilskipanir fela ekki í sér umfangsmiklar breytingar á fyrirkomulagi markaðseftirlits frá því sem verið hefur hér á landi. Því er ekki gert ráð fyrir að breyting verði á fyrirkomulagi markaðseftirlits Mannvirkjastofnunar en skerpt er þó á ákveðnum atriðum og lagt til að stofnuninni verði veitt heimild til beitingar nýrra úrræða, þ.e. beitingar stjórnvaldssekta. Það er niðurstaða um­hverfis- og auðlindaráðuneytisins að ákvæði umræddra tilskipana muni ekki hafa teljandi áhrif á starfsemi Mannvirkjastofnunar. Af framansögðu má þar af leiðandi gera ráð fyrir, verði frumvarpið óbreytt að lögum, að afkoma ríkissjóðs haldist óbreytt.
    Áhrif á atvinnulíf felast fyrst og fremst í skilvirkari heimildum til eftirfylgni og markaðseftirlits, en eins og áður segir eru þau áhrif óveruleg. Eins og fram hefur komið er skerpt á ákveðnum atriðum í frumvarpinu og má nefna sem dæmi að í lögum nr. 146/1996 er gert ráð fyrir að Mannvirkjastofnun birti opinberlega upplýsingar um hættuleg raforkuvirki, neysluveitur og rafföng ef af þeim stafar hætta og er einnig gert ráð fyrir að eigandi raforkuvirkis, neysluveitu eða raffanga beri kostnað af öryggisráðstöfunum sem gripið er til. Í frumvarpinu er hins vegar að finna ítarlegra og skýrara ákvæði um að framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi, innflytjandi eða dreifingaraðili greiði allan kostnað af tilkynningum um hættulega vöru sem beint er til almennings og er þeim jafnframt heimilt að annast slíkar tilkynningar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að skilgreiningar tilskipana 2014/35/ESB og 2014/30/ESB á helstu ábyrgðaraðilum í aðfangakeðjunni verði teknar upp í lögin en þær eru samhljóma hvað þá varðar. Skyldur þeirra og ábyrgð samkvæmt tilskipunum verði hins vegar tilgreindar í b-lið 4. gr. frumvarpsins og reglugerðum.

Um 2. gr.

    Kröfur tilskipunar 2014/30/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um rafsegulsamhæfi varða ekki bara kröfur um öryggi heldur er þeim einnig ætlað að tryggja að rafsegultruflanir af völdum raffanga og rafbúnaðar séu innan skilgreindra marka og um ónæmi slíks búnaðar fyrir rafsegultruflunum. Lög um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga snúa að mestu leyti að öryggiskröfum, en lítillega er þó minnst á truflanir. Af þeim sökum er talið nauðsynlegt að skerpa á lagaheimildinni fyrir því að settar séu kröfur vegna mögulegra truflana af völdum raffanga.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er skerpt á ábyrgð og skyldum rafverktaka sem kveðið hefur verið á um í gildandi reglugerð um raforkuvirki. Ákvæðið er til að styrkja lagastoð fyrir slíkri skyldu og þar með undirstrika mikilvægi þess að löggiltir rafverktakar vinni samkvæmt innra öryggisstjórnunarkerfi sem tryggi að öll þeirra verk séu unnin samkvæmt settum reglum og að þeir yfirfari eigin verk. Til að unnt sé að hafa eftirlit með neysluveitum er nauðsynlegt fyrir Mannvirkjastofnun að fá tilkynningu um það þegar verki er lokið. Bent skal á í þessu sambandi að samkvæmt lögum nr. 160/2010, um mannvirki, er skylt að gera eftirlitsaðila viðvart um lok úttektarskyldra verkþátta. Lokatilkynning rafverktaka sem hér um ræðir uppfyllir tilkynningu um lok verkþáttar samkvæmt þeim lögum.

Um 4. gr.

    Í a-lið er lagt til að sett verði í lög skýrt ákvæði um byggingarbann undir háspenntum loftlínum. Tilgangur ákvæðisins er að tryggja öryggi borgaranna og kveða með skýrum hætti á um þær reglur sem gilda varðandi staðsetningu mannvirkja í nánasta um­hverfi slíkra raflína, sbr. nánari umfjöllun í almennum athugasemdum frumvarpsins. Almennt fer stærð helgunarsvæðis eftir spennu viðkomandi línu og er útreiknuð á grundvelli staðla. Gert er ráð fyrir að nánari ákvæði um fjarlægðir komi fram í reglugerð.
    Í b-lið koma fram skyldur helstu ábyrgðaraðila í aðfangakeðjunni við markaðssetningu raffanga og byggjast þær á ákvæðum tilskipana 2014/30/ESB og 2014/35/ESB sem eru að mestu samhljóða hvað þetta varðar. Ekki er í raun um nýmæli að ræða en þar sem um íþyngjandi kröfur er að ræða er talið nauðsynlegt að skyldurnar séu tilgreindar almennt í lögunum og síðan nánar útfærðar í reglugerð. Um er að ræða hefðbundnar kröfur vegna markaðssetningar CE-merkingarskyldra vara sem byggjast á samræmdri aðferðafræði Evrópusambandsins.
    Fjallað er í c-lið um þær kröfur sem gerðar eru til tilkynntra aðila vegna samræmismats sem fara á fram vegna markaðssetningar raffanga. Eins og í b-lið er hér ekki um breytingu að ræða heldur er verið að styrkja lagastoð núverandi kerfis. Í tilskipunum 2014/30/ESB og 2014/35/ESB er heldur skerpt á kröfum til tilkynntra aðila og því enn mikilvægara en áður að lagastoð krafna sem fram koma í reglugerðum sé traust.
    Að lokum er í d-lið kveðið á um svokallað ætlað samræmi, þ.e. að ef vara uppfyllir kröfur samhæfðra staðla þá teljist hún uppfylla kröfur um öryggi og aðrar þær kröfur sem viðkomandi tilskipanir kveða á um að hún eigi að uppfylla.

Um 5. gr.

    Í a-lið er kveðið á um úrræði Mannvirkjastofnunar ef rafföng á markaði uppfylla ekki kröfur laga og reglugerða. Getur stofnunin í þeim tilvikum fyrirskipað innköllun, tekið af markaði eða bannað sölu eða afhendingu raffangs. Að auki er þegar í lögum heimild til álagningar dagsekta. Jafnframt er lagt til að skerpt verði á ákvæðum um heimildir Mannvirkjastofnunar til að láta prófa rafföng, um kostnað vegna innkallana og prófana og um samstarf við tollyfirvöld. Í tilskipunum 2014/30/ESB og 2014/35/ESB er skerpt á kröfum til markaðseftirlits og kveðið á um að markaðseftirlitsstjórnvöld skuli hafa nægjanleg úrræði til að framfylgja kröfum tilskipananna. Er því lagt hér til að skerpt verði á ákvæðum laganna um úrræði stofnunarinnar en til viðbótar er í 8. gr. frumvarpsins lagt til að Mannvirkjastofnun fái heimild til beitingar stjórnvaldssekta.
    Í c-lið ákvæðisins er gert ráð fyrir kæruheimild til ráðherra vegna synjunar tilkynnts aðila á útgáfu vottorðs um samræmismat, takmörkunar á útgáfu þess, tímabundinnar niðurfellingar vottorðs eða afturköllunar vottorðs. Ákvæðið er í samræmi við kröfu 33. gr. tilskipunar 2014/30/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um rafsegulsamhæfi, um að aðildarríkin tryggi að fyrir hendi sé málsmeðferð við áfrýjun ákvarðana tilkynntra aðila. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að tilkynnti aðilinn taki kröfur viðkomandi um breytingu á tiltekinni ákvörðun til skoðunar áður en unnt er að kæra endanlega ákvörðun til ráðherra.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að við reglugerðarákvæði laganna bætist nokkuð ítarlegar heimildir til setningar reglugerða. Gert er ráð fyrir að tilskipanir 2014/30/ESB og 2014/35/ESB verði að meginstefnu til innleiddar með reglugerðum á grundvelli þess lagaramma sem fram kemur í lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

Um 7. gr.

    Lagt er til að skýrt verði kveðið á um heimildir Mannvirkjastofnunar til birtingar eftirlitsskýrslna á vef stofnunarinnar. Almennara ákvæði er í 12. tölul. 2. mgr. 13. gr. laganna en lagt er til að skerpt verði á heimildinni. Fyrirmynd að ákvæðinu er í nýlegum lögum nr. 114/2014, um byggingarvörur, en birting slíkra skýrslna felur í sér ákveðið aðhald með þeim sem markaðssetja vörur auk þess sem þær hafa upplýsingagildi fyrir neytendur.

Um 8. gr.

    Lagt er til að viðurlagaákvæði 17. gr. laganna falli brott. Samkvæmt upplýsingum frá Mannvirkjastofnun hafa brot á umræddum lögum aldrei verið kærð til lögreglu og er það mat stofnunarinnar að ekki sé þörf á slíkri heimild.
    Í ákvæðinu er lagt til að Mannvirkjastofnun fái heimild til álagningar stjórnvaldssekta. Er gert ráð fyrir að stofnunin geti lagt á slíkar sektir til að framfylgja almennt ákvæðum laganna og að slíkri heimild verði einkum beitt í þeim tilvikum þar sem ítrekuð tilmæli um úrbætur hafa ekki borið árangur. Í tilviki rafverktaka væri t.d. unnt að beita stjórnvaldssektum sem vægara úrræði en sviptingu löggildingar ef innri öryggisstjórnun rafverktakans væri ekki samkvæmt settum reglum þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um úrbætur. Við útfærslu ákvæðisins var m.a. höfð hliðsjón af 62. gr. efnalaga, nr. 61/2013. Þá á 7. og 8. mgr. um fyrningu sér fyrirmynd í 64. gr. sömu laga. Eins og fram kemur í skýrslu nefndar sem skipuð var af hálfu forsætisráðherra um viðurlög við efnahagsbrotum, dags. 12. október 2006, er mikilvægt að vandað sé til rannsóknar og allrar meðferðar mála hjá stjórnvöldum þegar lagðar eru á stjórnvaldssektir. Í skýrslunni kemur fram að það sé mikilvægt réttaröryggisúrræði að geta kært ákvörðun um stjórnvaldssektir til æðra stjórnvalds eða borið hana undir dómstóla, sem hafi fullar endurskoðunarheimildir í slíkum málum. Í frumvarpi þessu er lagt til að unnt verði að bera ákvarðanir Mannvirkjastofnunar undir dómstóla, sérstaklega í ljósi þess að slík málsmeðferð lýtur strangari kröfum en málsmeðferð hjá stjórnvöldum. Er slík málsmeðferð auk þess í samræmi við málsmeðferð í öðrum refsimálum þar sem um sektarviðurlög er að ræða. Á þetta sér fordæmi í ýmsum lögum, svo sem efnalögum, lögum nr. 55/2013, um velferð dýra, og lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.
    Gerð er krafa í tilskipunum 2014/30/ESB og 2014/35/ESB um að aðildarríkin setji reglur um viðurlög vegna brota á ákvæðum tilskipunar og að þau skuli vera skilvirk, í hlutfalli við alvarleika brots og hafi fyrirbyggjandi áhrif. Í sérhæfðum málaflokki sem þessum, þar sem markaðseftirlit er framkvæmt af stofnun sem býr yfir sérfræðiþekkingu, verður að telja eðlilegt að stofnunin hafi heimild til að beita stjórnsýsluviðurlögum og að slíkum viðurlögum sé beitt í stað þess að mál séu kærð til lögreglu.

Um 9. gr.

    Hér er gerð grein fyrir því að með frumvarpinu er ætlunin að innleiða tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB og 2014/30/ESB.

Um 10. gr.

    Lagt er til að frumvarpið öðlist gildi á sama tíma og tilskipanir 2014/35/ESB og 2014/30/ESB, þ.e. 20. apríl 2016.