Ferill 688. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 1116  —  688. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993,
með síðari breytingum (Uppbyggingarsjóður EES 2014–2021).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: samning milli Evrópusambandsins, Íslands, Liechtensteins og Noregs um EES-fjármagnskerfið 2014–2021.

2. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    1. gr. samningsins, sem vísað er til í 11. tölul. 1. gr., skal hafa lagagildi hér á landi.
    Þau ákvæði samningsins, sem vísað er til í 13. mgr., eru prentuð sem fylgiskjal X með lögum þessum.

3. gr.

    1. gr. samningsins um EES-fjármagnskerfið 2014–2021, sem vísað er til í 2. gr. laga þessara, er prentuð sem fylgiskjal með lögum þessum.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Fylgiskjal.


Fylgiskjal X með lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993,
með síðari breytingum.


1. GR. SAMNINGS UM EES-FJÁRMAGNSKERFIÐ 2014–2021

1. gr.

    Í stað 117. gr. EES-samningsins komi eftirfarandi:
    „Í bókun 38, bókun 38a, og viðauka við hana, í bókun 38b og viðauka við hana og í bókun 38c er að finna ákvæði um fjármagnskerfið“.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í utanríkisráðuneytinu.
    Allt frá gildistöku EES-samningsins hafa EES-ríkin innan EFTA, Noregur, Ísland og Liechtenstein, skuldbundið sig til að inna af hendi tiltekin framlög til að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi milli svæða innan EES með það fyrir augum að stuðla að jafnri og stöðugri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila eins og kveðið er á um í 1. gr., sbr. 115. gr. EES-samningsins. Hefur þetta falist í fjárhagslegum framlögum EES-ríkjanna innan EFTA til tiltekinna ríkja innan Evrópusambandsins (ESB), sbr. 116. gr. EES- samningsins. Þessi þáttur EES-samningsins hefur ávallt verið tímabundinn. Var hann fyrst framlengdur árið 1999. Er það viðhorf ESB að þessi stuðningur sé ein af forsendum EES- samningsins. Það er ástæða þess að sambandið tekur málið ítrekað upp að liðnum gildistíma sjóðanna.
    Við stækkun EES árið 2002 vegna fjölgunar aðildarríkja ESB gerði ESB ríkari kröfur en áður til EES-ríkjanna innan EFTA um fjárhagsleg framlög á grundvelli framangreindra ákvæða EES-samningsins. Niðurstaða samningaviðræðna varð sú að stofnað var nýtt fjármagnskerfi EES (hér eftir vísað til sem Uppbyggingarsjóður EES) fyrir nýju samningsaðilana, auk Grikklands, Spánar og Portúgals. Kom það í stað sjóðsins sem verið hafði við lýði frá upphafi samningsins og endurnýjaður var árið 1999. Fjárframlög til þessa sjóðs hækkuðu verulega frá því sem verið hafði. Búlgaría og Rúmenía bættust í hóp þeirra ríkja sem nutu framlaga úr sjóðnum árið 2007 og hækkaði þá framlag EES-ríkjanna innan EFTA nokkuð. Frumvörp vegna þessara breytinga voru samþykkt á Alþingi árin 2004 og 2007 og síðan 2014 vegna inn­göngu Króatíu í EES þar sem á ný var samið um aukin framlög til sjóðsins. Samhliða þessum samningum hafa verið gerðir tímabundnir samningar við ESB um tilteknar tollaívilnanir fyrir innflutning sjávarafurða inn til ESB.
    Að kröfu ESB var á ný gengið til samninga um uppbyggingarsjóðinn á árinu 2008 þegar leið að lokum gildistíma hans. Tóku samningaviðræður langan tíma og reyndust erfiðar, ekki síst vegna þess að framkvæmdastjórn ESB gerði á ný kröfur um aukin fjárframlög sem EES- ríkin innan EFTA töldu óraunhæfar með öllu. Samningaviðræðum lauk á vormánuðum árið 2010 og var samningur um endurnýjaðan sjóð undirritaður í ágúst sama ár. Samningurinn var að efni til í samræmi við hina fyrri en með nokkurri hækkun á heildarfjárhæð fjárframlaga í sjóðinn. Samhliða þessum nýja samningi var endurnýjaður samningur Noregs og ESB um sérstök tvíhliða framlög Noregs og samningur um viðskipti með sjávarafurðir.
    Framangreindir samningar runnu út í lok apríl 2014. Nokkru áður höfðu hafist viðræður við ESB um nýja samninga. Sem fyrr voru þær afar þungar þar sem ESB gekk til samninga með kröfur um mjög miklar hækkanir á fjárframlögum EES-ríkjanna innan EFTA. Þeim kröfum var alfarið hafnað strax frá upphafi. Þar við sat um langan tíma eða allt þar til líða tók á árið 2015 að ESB tók að ljá máls á því að endurskoða kröfur sínar. Samningaviðræðum lauk síðan um mitt ár 2015 með því að fallist var á hækkun framlaga sem nemur rúmum 11% af heildarframlögum á síðasta tímabili sem er töluvert innan verðlagsbreytinga á Íslandi frá gildistöku fyrri samnings. Þessi niðurstaða var síðan staðfest í bréfaskiptum samningsaðila í nóvember 2015. Fastanefnd EFTA ákveður innbyrðis skiptingu fjárframlaga til sjóðsins milli EES-ríkjanna innan EFTA. Fram til þessa hafa framlög Íslands ráðist af hlutfalli landsframleiðslu af meðallandsframleiðslu EES-ríkjanna innan EFTA annars vegar og gengi íslensku krónunnar gagnvart evru hverju sinni hins vegar. Það er því erfitt að segja til um fyrir fram hver hækkunin verður í krónum talið en miðað við núverandi forsendur nemur hækkunin um 100 m.kr. á ári.
    Samhliða framangreindum breytingum á fyrirkomulagi sjóðsins árið 2002 náðust samningar við ESB um tímabundna niðurfellingu tolla á ákveðnu magni tiltekinna sjávarafurða. Samningar þar um hafa sama gildistíma og samningar um sjóðinn. Tengjast því í þessum samningum sérstakir hagsmunir fyrir íslenskan sjávarútveg en þeir tryggja árlegan tollfrjálsan útflutning á gildistíma samningsins. Í þetta skiptið var samið um umtalsverða aukningu fyrir tollfrjálsan innflutning sjávarafurða til ESB eða í alls 1.000 tonn af humri (var 520 tonn), 2.000 tonn af ferskum eða kældum karfaflökum (var 750 tonn), 950 tonn af heilfrystri síld (óbreytt) og 2.500 tonn af niðursoðinni lifur (nýr kvóti).
    Gildistími samningsins er til loka apríl 2021. Samningstíminn hefur hingað til verið til fimm ára, en lengist nú í sjö ár.
    Uppbyggingarsjóður EES sem slíkur hefur tvenns konar markmið, annars vegar að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi á Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar að efla tengsl við styrkþegaríkin.
    Mikil áhersla er lögð á eftirlit og vöktun ásamt áhættu- og gæðamati með framkvæmdinni. Starfsfólk skrifstofu sjóðsins (FMO) í Brussel, skrifstofur landstengiliða í hverju styrkþegaríki og stjórn sjóðsins þar sem fulltrúar utanríkisráðuneyta EES/EFTA-ríkjanna sitja, fara með þetta eftirlitshlutverk og gera nauðsynlegar ráðstafanir þegar við á. Framkvæmd verkefna sem fjármögnuð eru innan ramma starfstímabilsins 2009–2014 er á lokametrunum og lýkur endanlega vorið 2017. Þær greiningar sem nú liggja fyrir á árangri þessa starfstímabils benda til þess að það fyrirkomulag sem komið var á í byrjun hafi stuðlað að betri árangri, en það byggist á áætlanagerð og tekur mið af skilgreindum markmiðum og útkomu. Stefnt er að því að halda þessu fyrirkomulagi til haga í megindráttum á næsta starfstímabili. Það sama gildir um áherslusviðin sem áætlanir styrkþegaríkjanna byggjast á.
    Hvað hið síðara markmið varðar, þá hefur komið í ljós að umfang og fjöldi verkefna með íslenskum samstarfsaðilum hefur verið töluvert yfir því hlutfalli sem framlagi Íslands nemur í Uppbyggingarsjóð EES enn sem komið er (sem er ríflega 3%). Á það við á öllum stigum slíks samstarfs, þ.e. þær íslensku stofnanir sem reka samstarfsáætlanir, samstarfsverkefni sem verða til sem hluti af áætlunum styrkþegaríkja og samstarfsverkefni sem hafa orðið til undir hatti svokallaðra tvíhliða sjóða. Rannís og Orkustofnun taka þátt í rekstri 13 af 79 samstarfsáætlunum sem heyra undir bæði Uppbyggingarsjóð EES og Noregs og nema greiðslur til þeirra yfir 3% af greiðslum til allra slíkra stofnana, þ.m.t. þeirra sem sinna norska sjóðnum. Í upphafi starfstímabils er samið um hluta þess samstarfs sem íslenskir aðilar taka þátt í, en að öðru leyti er um opin köll (e. open calls) á samkeppnisgrundvelli að ræða. Ísland lagði einkum áherslu á samstarf á sviði jarðvarma og nemendaskipta í upphafi þess tímabils sem nú er að ljúka. Hefur það tekist með ágætum. Hafin er vinna við markmiðasetningu Íslands fyrir næsta tímabil og búist er við að samningaviðræður við styrkþegaríkin hefjist á árinu 2016.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar.
    Samningurinn felur í sér breytingu á meginmáli EES-samningsins, nánar tiltekið 117. gr. hans, en honum hefur verið fengið lagagildi með lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993. Er lagt til að lagasetningin sé með sama hætti og verið hefur í fyrri skipti sem ákvæðinu hefur verið breytt af sama eða sambærilegu tilefni í því skyni að endurspegla þá breytingu.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Efni frumvarpsins er að gera nauðsynlegar breytingar á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, í því skyni að endurspegla þá breytingu sem samningurinn felur í sér á 117. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þar sem vísað verður til nýrrar bókunar um Uppbyggingarsjóð EES 2014–2021 sem er að finna í fylgiskjali við frumvarpið. Nánari efnislegar útskýringar er að finna í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ekki var tilefni til að leggja mat á samræmi efnis frumvarpsins við ákvæði stjórnarskrár.
Frumvarpinu er ætlað að vera grunnur innleiðingar alþjóðlegrar skuldbindingar Íslands sem snúa að Uppbyggingarsjóði EES fyrir tímabilið 2014–2021.

V. Samráð.
    Samráð var haft við fulltrúa hagsmunaaðila í sjávarútvegi á meðan samningaferlinu stóð um samninginn um tímabundna niðurfellingu tolla á tilteknum sjávarafurðum. Að því er varðar samninginn um Uppbyggingarsjóð EES tóku fulltrúar utanríkisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis þátt í viðræðunum en ekki var séð að málið snerti hagsmunaaðila með þeim hætti að þörf væri á sérstöku samráði hvað sjálfa samningana varðar. Á hinn bóginn hefur utanríkisráðuneytið staðið fyrir nánu samráði við önnur ráðuneyti og helstu hagsmunaaðila eftir atvikum vegna vinnu við endurskoðun reglugerðar um Uppbyggingarsjóð EES, þar sem nánar er útfært á hvaða sviðum sjóðnum er ætlað að veita aðstoð og með hvaða hætti.

VI. Mat á áhrifum.
    Með samþykkt þessa frumvarps verður heimilt að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli Evrópusambandsins, Íslands, Liechtensteins og Noregs um EES-fjármagnskerfið 2014–2021. Með samningnum skuldbinda EES-ríkin innan EFTA sig til að greiða samtals 1.548,1 milljón evra í Uppbyggingarsjóð EES. Skipting milli Noregs, Íslands og Liechtensteins á framlögum til sjóðsins, að óbreyttum reglum þar um, ræðst af hlutfalli hvers ríkis í samanlagðri landsframleiðslu þeirra. Miðað við að hlutdeild Íslands verði áfram rúmlega 3% má reikna með að heildarframlag Íslands til þessa nýja sjóðs verði um 50 milljónir evra, en það jafngildir um 7 milljörðum kr. á núverandi gengi. Árlegar greiðslur til sjóðsins taka mið af fjárþörf samkvæmt framvindu verkefna í styrkþegaríkjunum. Reynslan af fyrri samningstímabilum hefur sýnt að töluverður tími getur liðið frá því að vilyrði fyrir styrkjum eru veitt þar til skilyrði fyrir útgreiðslu styrkja hafa verið uppfyllt. Allt eins má búast við að greiðslur samkvæmt þessu samkomulagi muni dreifast yfir lengri tíma en sjö ár því að framkvæmdatími verkefna er yfirleitt lengri en skuldbindingartíminn. Reynslan hefur einnig sýnt að greiðslur styrkja hafa verið hlutfallslega litlar á fyrstu árum hvers samningstímabils, verið í hámarki um og eftir mitt tímabilið en síðan farið lækkandi. Ógerlegt er að áætla með nákvæmni yfir hve mörg ár greiðslur samkvæmt þessum samningi muni dreifast eða hvernig þær muni skiptast milli ára. Í drögum að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017–2021 er reiknað með að af samtals 7 milljarða kr. áætluðu heildarframlagi Íslands muni um 4,2 milljarðar kr. koma til greiðslu á gildistíma áætlunarinnar.
    Í gildandi fjárlögum er reiknað með tæplega 600 m.kr. framlagi til Uppbyggingarsjóðs EES en þessi framlög eru að mestu vegna fyrra samningstímabils, þ.e. 2009–2014. Í langtímaáætlun um útgjöld ríkissjóðs er reiknað með að framlög í sjóðinn verði á bilinu 400–500 m.kr. á árunum 2017 og 2018. Aukist síðan í um 800 m.kr. á árinu 2019, fari í rúmar 1.000 m.kr. árið 2020 og verði svo nálægt 1.600 m.kr. á árunum 2021 og 2022 en fari lækkandi eftir það.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að heimilað verði að fullgilda fyrir Íslands hönd nýjan samning um EES-fjármagnskerfið til sjö ára fyrir tímabilið 2014–2021. Með því er hinni þjóðréttarlegu skuldbindingu sem Ísland hefur undirgengist fullnægt. Er sami háttur hafður hér á og í þau önnur skipti sem breytingar hafa verið gerðar á orðalagi EES-samningsins af sama tilefni.

Um 2. gr.

    Með 2. gr. er lagt til að 1. gr. samningsins hafi lagagildi hér á landi þar sem í ákvæðinu felst breyting á sjálfu meginmáli EES-samningsins. Þar sem meginmálið hefur lagagildi hér á landi samkvæmt lögum nr. 2/1993 er nauðsynlegt að lögfesta einnig breytingar á meginmáli samningsins.

Um 3. og 4. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Athugasemdir um einstök ákvæði bókunar 38c.

    Eins og að framan er getið er hér um að ræða endurnýjun á fyrri sjóði en þó með þeirri breytingu að um hækkun fjárframlaga í sjóðinn er að ræða auk þess sem gildistími lengist úr fimm árum í sjö.

Um 1. gr. bókunar 38c.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að EES-ríkin innan EFTA skuli leggja sitt af mörkum fjárhagslega til að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi á EES-svæðinu en á sama tíma til að efla sín tengsl við viðtökuríkin. Slík framlög renna til þeirra forgangsgeira sem fjallað er um í 3. gr.

Um 2. gr. bókunar 38c.

    Í ákvæðinu er fjallað um fjárframlagið sjálft, fjárhæð þess, hvernig það verði greitt og yfir hvaða tímabil.

Um 3. gr. bókunar 38c.

    Í 3. gr. er mælt fyrir um að veita skuli aðstoð og styrki með atbeina sjóðsins til áætlana og einstakra verkefna í nánar tilgreindum forgangsgeirum. Sem dæmi um forgangsgeira má nefna um­hverfis-, orku- og loftslagsmál annars vegar, og nýsköpun, rannsóknir og menntun, hins vegar. Innan ramma forgangsgeiranna er gert ráð fyrir fjölbreyttum áætlanasviðum og því að EES-ríkin innan EFTA og viðtökuríkin sammælist um rekstur tiltekinna samstarfsáætlana. Hér má nefna áætlanir sem lúta að endurnýjanlegri orku, aðlögun að loftslagsbreytingum, lýðheilsu, hælismálum og fólksflutningum, rannsóknum, skólasamstarfi, menningarmálum o.fl. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að Uppbyggingarsjóður EES styðji það sem nefnt er borgaralegt samfélag.
    Sú áhersla sem lögð hefur verið á loftslagsmálin hefur skapað íslenskum fyrirtækjum tækifæri til að leita eftir samstarfsverkefnum í þeim ríkjum sem um ræðir og þannig stutt við þessi ríki með þekkingu sinni og reynslu. Í þessu skyni hafa samstarfsaðilar í viðkomandi ríkjum sóst eftir stuðningi úr sjóðnum. Full ástæða er til að ætla að áhugi viðtökuríkjanna til slíks samstarfs verði síst minni á nýju starfstímabili sjóðsins.
    Það eru nýmæli að forgangsgeirar og áherslusvið Uppbyggingarsjóðs EES og norska systursjóðsins verða þau sömu. Þetta hefur í för með sér að íslenskir aðilar munu hafa aðgang að samstarfi á ýmsum sviðum, sem áður var einvörðungu bundið við norska hluta Uppbyggingarsjóðsins. Þetta mun skapa tækifæri til fjölbreyttara samstarfs, t.d. á sviði rannsókna, nýsköpunar og á milli lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Um 4. gr. bókunar 38c.

    Í 4. gr. er kveðið á um að viljayfirlýsingar EES-ríkjanna innan EFTA og einstakra viðtökuríkja, sem samið verður um sérstaklega, skuli taka mið af meginmarkmiðum Uppbyggingarsjóðs EES og forgangsgeirum sbr. 3. gr. bókunar 38c, en jafnframt áherslum Evrópusambandsins eins og þær eru skilgreindar í Evrópa 2020 um snjallhagvöxt, sjálfbæran hagvöxt og hagvöxt fyrir alla, en að öðru leyti vísað til 10. gr. bókunar 38c þar um. Til að tryggja sem best samræmi við samheldnistefnu Evrópusambandsins, er að auki í 4. gr. bókunarinnar, kveðið á um að haft skuli samráð við Evrópusambandið á meðan viðræður við viðtökuríkin standa yfir um viljayfirlýsingar aðila.

Um 5. gr. bókunar 38c.

    Í 5. gr. er kveðið á um þær reglur sem gilda um aðstoð til einstakra verkefna. Er þar kveðið á um hámarkshlutföll fjármögnunar.
    Samkvæmt 2. mgr. skal virða reglur um ríkisaðstoð við úthlutun úr sjóðnum.
EES-ríkin innan EFTA verða ekki ábyrg gagnvart þriðja aðila að því er varðar framkvæmd einstakra verkefna skv. 3. mgr. 5. gr.

Um 6. gr. bókunar 38c.

    Í 6. gr. er kveðið á um hvaða ríki það eru sem njóta skulu stuðnings og hvernig fjármagnið skiptist á milli þeirra.

Um 7. gr. bókunar 38c.

     Í 7. gr. er mælt fyrir um sérstakan sjóð fyrir svæðasamvinnu. Alls munu 55,25 milljónir evra af heildarframlagi Uppbyggingarsjóðsins renna til samstarfsverkefna styrkþegaríkja sjóðsins og nágrannaríkja þeirra. Um 70% af framlaginu er ætlað að styrkja atvinnuþátttöku ungs fólks í ríkjum þar sem atvinnuleysi ungs fólks er meira en 25%. Um 30% af framlaginu verður úthlutað á grundvelli forgangsgeira sbr. 3. gr. bókunarinnar með nánar tilgreindum markmiðum til miðlunar þekkingar, skoðanaskipta um bestu starfsvenjur og uppbyggingar stofnana.

Um 8. gr. bókunar 38c.

    Í 8. gr. er mælt fyrir um hvernig standa skuli að endurúthlutun árlegra fjárframlaga EES- ríkjanna innan EFTA sem af einhverjum ástæðum hefur ekki verið úthlutað.

Um 9. gr. bókunar 38c.

    Fjárframlög úr Uppbyggingarsjóði EES skulu vandlega samræmd tvíhliða framlagi Noregs sem kveðið er á um í sérstökum samningi milli ESB og Noregs. EFTA ríkin skulu sjá til þess að sömu reglur gildi um málsmeðferð við umsóknir beggja fjármagnskerfanna.

Um 10. gr. bókunar 38c.

    Ákvæðið mælir fyrir um ákveðnar grunnreglur um framkvæmd styrkveitinga. Tryggja skal gegnsæi, góða stjórnsýsluhætti, sjálfbærni, jafnrétti kynjanna og bann við mismunun við framkvæmd styrkveitinga. Skipulag styrkveitinga er í nánu samstarfi þeirra ríkja sem veita aðstoð og þeirra sem hana þiggja.
    Kveðið er á um að EES-ríkin innan EFTA starfræki tvo sjóði sem fjármagnaðir verða af heildarframlagi til einstakra viðtökuríkja. Annars vegar sérstakan sjóð um svæðasamvinnu sbr. 7. gr. bókunar 38c og hins vegar sjóð um borgaralegt samfélag sbr. 3. gr. bókunarinnar, sem m.a. inniheldur rekstur áætlana um frjáls félagasamtök.
    Gert er ráð fyrir að gerð verði viljayfirlýsing við viðkomandi ríki sem þiggja aðstoð þar sem rammi verður settur fyrir áætlanir um ráðstöfun stuðningsins auk skipulags og stjórnunar. Er gert ráð fyrir að ríkin leggi fram sérstakar áætlanir sem EFTA-ríkin innan EES munu yfirfara og samþykkja. Um hverja áætlun verður gerður sérstakur samningur, en ábyrgðin á framkvæmdinni er ríkjanna sem njóta aðstoðar. Miðað er við að allur undir­búningur áætlana ríkjanna fari fram í breiðu samráði innanlands í viðkomandi ríki. Áætlanir geta verið framkvæmdar í samstarfi við aðila í EES-ríkjunum innan EFTA. Eftirlit mun verða á höndum EES-ríkjanna innan EFTA og ríkar kröfur verða gerðar í því efni til þiggjenda fjármuna. Heimilt verður að stöðva greiðslur ef svo ber undir, t.d. ef í ljós kemur rökstuddur grunur um spillingu í tengslum við ráðstöfun fjármuna.
    Tekið er fram að kostn­aður af rekstri sjóðsins er greiddur af heildarframlagi EFTA-ríkjanna innan EES.
    Skipuð verður stjórn Uppbyggingarsjóðs EES fyrir tímabilið með fulltrúum allra EES-ríkjanna innan EFTA. Reglur um framkvæmd og innleiðingu Uppbyggingarsjóðs EES verða ákveðnar af EFTA-ríkjunum innan EES, að undangengnu samráði við viðtökuríki sjóðsins og Evrópusambandið eftir atvikum. Leitast verður við að setja reglurnar fyrir undirritun viljayfirlýsinga aðila.
    Gert er ráð fyrir að EES-ríkin innan EFTA veiti reglulegar upplýsingar um árangur af styrkveitingum í samræmi við meginmarkmið sjóðsins og eftir atvikum með hliðsjón af markmiðum samheldnisjóða Evrópusambandsins.

Um 11. gr. bókunar 38c.

    Samkvæmt ákvæðinu munu samningsaðilar við lok sjö ára tímabilsins leggja mat á hvort enn sé þörf á að veita fjármunum til að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi á Evrópska efnahagssvæðinu. Eru EFTA-ríkin innan EES því ekki skuldbundin til að greiða til sjóðsins lengur en til sjö ára, en að loknu því tímabili skal taka ákvörðun um hvort halda skuli áfram slíkum greiðslum og þá semja um það sérstaklega.

Fylgiskjal.


BÓKUN 38C { 1 }

UM FJÁRMAGNSKERFI EES (2014–2021)


1. gr.

    1. Liechtenstein og Noregur („EFTA-ríkin“) skulu leggja sitt af mörkum til að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi á Evrópska efnahagssvæðinu og efla tengsl sín við styrkþegaríkin, með fjárframlögum til þeirra áherslusviða sem sett eru fram í 3. gr.
    
    2. Allar áætlanir og öll starfsemi, fjármögnuð innan ramma fjármagnskerfis EES fyrir tímabilið 2014–2021, skal byggjast á sam­eigin­legu gildunum sem eru virðing fyrir mannlegri reisn, frelsi, lýðræði, jafnrétti, réttarríkið og virðing fyrir mannréttindum, þ.m.t. réttindum þeirra sem tilheyra minnihlutahópum.

2. gr.

    1. Framlagið, sem kveðið er á um í 1. gr., skal nema 1.548,1 milljón evra alls og skulu á hverju ári vera til ráðstöfunar 221,16 milljónir evra á tímabilinu frá 1. maí 2014 til 30. apríl 2021, að báðum dögum meðtöldum.

    2. Heildarfjárhæðin skal samanstanda af sérstakri úthlutun til einstakra landa eins og tilgreint er í 6. gr. og heildarsjóði fyrir svæðisbundið samstarf eins og tilgreint er í 7. gr.

3. gr.

          1.      Sérstakar úthlutanir til einstakra landa skulu vera til ráðstöfunar á eftirtöldum áherslusviðum:

                a)         nýsköpun, rannsóknir, menntun og samkeppnishæfni,

                b)         félagsleg aðild, atvinna ungs fólks og aðgerðir til að draga úr fátækt,

                c)         um­hverfi, orka, loftslagsbreytingar og hagkerfi sem einkennist af lítilli koltvísýringslosun,

                d)         menning, borgaralegt samfélag, góðir stjórnunarhættir, grundvallarréttindi og frelsi,

                e)         dóms- og innanríkismál.

                        Í viðaukanum við þessa bókun er að finna þau áætlunarsvið innan áherslusviðanna sem lýsa þeim markmiðum og sviðum sem stuðningur nær til.

          2.          a) Velja skal áherslusviðin, sameina þau og aðlaga í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 3. mgr. 10. gr. og miða við ólíkar þarfir í hverju styrkþegaríki, með hliðsjón af stærð þess og fjárframlagi.

                  b) Leggja skal 10% af sérstakri heildarúthlutun til einstakra landa í sjóð fyrir borgaralegt samfélag sem skal vera til ráðstöfunar í samræmi við skiptinguna sem um getur í 6. gr.

             4. gr.

          1.      EFTA-ríkin skulu ganga frá samkomulagi við hvert styrkþegaríki, í samræmi við 3. mgr. 10. gr., til þess að unnt sé að sameina áherslusvið og tryggja skilvirka framkvæmd í samræmi við heildarmarkmiðin sem um getur í 1. gr. og með hliðsjón af áætluninni Evrópa 2020 um snjallhagvöxt, sjálfbæran hagvöxt og hagvöxt fyrir alla, þar sem m.a. er lögð áhersla á atvinnumál, landsbundin forgangsverkefni, tilmæli til einstakra landa og samstarfssamninga við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

          2.      Samráð við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skal fara fram á stefnumótunarstigi samhliða þeim viðræðum um samkomulag, sem eru skilgreindar í 3. mgr. 10. gr., með það fyrir augum að ýta undir samræmi eða samlegðaráhrif hvað varðar samheldnistefnu ESB, auk þess að kanna möguleika á því að beita fjármögnunarleiðum til að auka áhrif fjárframlaga.

5. gr.

          1.      Framlag EFTA skal ekki fara yfir 85% af kostnaði við áætlanir með tilliti til þeirra áætlana, sem falla undir úthlutanir til einstakra landa, sem styrkþegaríkin bera ábyrgð á að koma til framkvæmda nema EFTA-ríkin ákveði annað.

          2.      Fara skal að gildandi reglum um ríkisaðstoð.
    
          3.      Ábyrgð EFTA-ríkjanna á verkefnunum er takmörkuð við það að útvega fjármagn samkvæmt samþykkta fyrirkomulaginu. Ekki skal gera ráð fyrir bótaábyrgð gagnvart þriðju aðilum.

6. gr.

    Eftirfarandi styrkþegaríki skulu fá til ráðstöfunar sérstakar úthlutanir: Búlgaría, Eistland, Grikkland, Króatía, Kýpur, Lettland, Litáen, Malta, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland, í samræmi við eftirfarandi skiptingu:

Styrkþegaríki

Fjármagn (milljónir evra)

Búlgaría
115,0
Króatía 56,8
Kýpur 6,4
Tékkland 95,5
Eistland 32,3
Grikkland 116,7
Ungverjaland 108,9
Lettland 50,2
Litáen 56,2
Malta 4,4
Pólland 397,8
Portúgal 102,7
Rúmenía 275,2
Slóvakía 54,9
Slóvenía 19,9


7. gr.

          1.      Heildarsjóðurinn fyrir svæðisbundið samstarf skal hafa til ráðstöfunar 55,25 milljónir evra. Hann skal stuðla að því að markmiðum fjármagnskerfis EES, eins og þau eru skilgreind í 1. gr., verði náð.

          2.      Alls skal 70% af sjóðnum ráðstafað í þágu þess að efla sjálfbær og góð atvinnutækifæri fyrir ungt fólk þar sem megináhersla er lögð á eftirtalin svið sem eru:

            a)    Áætlanir um störf og þjálfun fyrir ungt fólk þar sem stuðlað er að hreyfanleika og megináhersla er lögð á þann hóp sem er atvinnulaus og hvorki í námi né þjálfun.

            a)    Tvíþættar menntunaráætlanir, nám á námssamningi, þátttaka ungs fólks.

            b)    Miðlun þekkingar, skoðanaskipti um bestu starfsvenjur og gagnkvæmur lærdómur stofnana sem sinna vinnumiðlunarþjónustu fyrir ungt fólk.

                     Þessum hluta sjóðsins skal ráðstafað til verkefna sem taka til styrkþegaríkja og annarra aðildarríkja ESB þar sem atvinnuleysishlutfall ungs fólks fer yfir 25% (Hagstofa Evrópusambandsins, viðmiðunarárið 2013) og til minnst tveggja landa, þar sem a.m.k. annað þeirra er styrkþegaríki. EFTA-ríkin geta tekið þátt sem samstarfsaðilar.

          3.      Alls skal ráðstafa 30% af sjóðnum til svæðisbundins samstarfs þvert á áherslusviðin sem er sett fram í 3. gr., einkum til miðlunar þekkingar, skoðanaskipta um bestu starfsvenjur og uppbyggingar stofnana.

                     Þessum hluta sjóðsins skal ráðstafað til verkefna sem taka til styrkþegaríkja og nærliggjandi þriðju landa. Verkefni skulu taka til minnst þriggja landa, þar sem a.m.k. tvö eru styrkþegaríki. EFTA-ríkin geta tekið þátt sem samstarfsaðilar.


8. gr.

    EFTA-ríkin skulu annast endurskoðun á miðju tímabili eigi síðar en á árinu 2020 með það fyrir augum að endurúthluta fjármagni sem hefur ekki verið ráðstafað af úthlutunum til einstakra styrkþegaríkja sem málið varðar.

9. gr.

          1.      Fjárframlagið, sem kveðið er á um í bókun þessari, skal vandlega samræmt tvíhliða framlagi Noregs sem kveðið er á um í norska fjármagnskerfinu.

          2.      Einkum skulu EFTA-ríkin sjá til þess að málsmeðferðarreglur og fyrirkomulag við framkvæmd séu í aðalatriðum eins í báðum fjármagnskerfunum sem um getur í málsgreininni hér að framan.

          3.      Taka skal tillit til hvers kyns viðeigandi breytinga sem verða á samheldnistefnu Evrópusambandsins eftir því sem við á.

10. gr.

    Framkvæmd fjármagnskerfis EES skal vera sem hér segir:

          1.      Gæta verður fullkomins gagnsæis, ábyrgðar og kostnaðarhagkvæmni á öllum stigum framkvæmdar og jafnframt fylgja meginreglum um góða stjórnunarhætti, samstarf og stigskipta stjórnun, sjálfbæra þróun, jafnrétti kynjanna og bann við mismunun.
                 Vinna skal að markmiðum fjármagnskerfis EES innan ramma náins samstarfs styrkþegaríkjanna og EFTA-ríkjanna.

          2.      a) EFTA-ríkin skulu starfrækja og bera ábyrgð á framkvæmd, þ.m.t. stjórnun og eftirliti, heildarsjóðsins fyrir svæðisbundið samstarf eins og fram kemur í 1. mgr. 7. gr.

            b) EFTA-ríkin skulu starfrækja og bera ábyrgð á framkvæmd, þ.m.t. stjórnun og eftirliti, sjóðsins fyrir borgaralegt samfélag, eins og fram kemur í b-lið 2. mgr. 3. gr., nema annað komi fram í samkomulaginu sem um getur í 3. mgr. 10. gr.

          3.      EFTA-ríkin skulu gera samkomulag við hvert styrkþegaríki varðandi sérstaka úthlutun til viðkomandi ríkis, þó ekki það fjármagn sem um getur í a-lið 2. mgr., þar sem settur er fram rammi um áætlun til margra ára og skipulag stjórnunar og eftirlits.

             a)    Á grundvelli samkomulagsins skulu styrkþegaríkin leggja tillögur að sérstökum áætlunum fyrir EFTA-ríkin sem skulu leggja mat á og samþykkja tillögurnar og gera samninga um styrki fyrir hverja áætlun við styrkþegaríkin. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skal, að fenginni skýrri beiðni frá EFTA-ríkjunum eða viðkomandi styrkþegaríki, skoða tillögu að sérstakri áætlun áður en hún er samþykkt til að ganga úr skugga um að hún samrýmist samheldnistefnu Evrópusambandsins.
            
             b)    Framkvæmd samþykktra áætlana skal vera á ábyrgð styrkþegaríkjanna sem skulu koma á viðeigandi stjórnunar- og eftirlitskerfi til að tryggja trausta framkvæmd og stjórnun.
            
             c)    EFTA-ríkjunum er heimilt að hafa eftirlit í samræmi við innri skilyrði sín. Styrkþegaríkin skulu leggja fram nauðsynlega aðstoð, upplýsingar og skjöl í þessu skyni.
            
             d)    EFTA-ríkjunum er heimilt að stöðva fjármögnun og krefjast endurheimtar fjármuna ef í ljós kemur að reglur hafa verið sniðgengnar.
            
             e)    Þar sem við á skal hafa samstarf um undirbúning, framkvæmd, eftirlit og mat á fjárframlagi til að tryggja víðtæka þátttöku. Samstarfsaðilar geta m.a. verið af staðbundnum, svæðisbundnum og landsbundnum vettvangi, einnig úr einkageiranum, borgaralegu samfélagi og aðilar vinnumarkaðarins í styrkþegaríkjunum og EFTA-ríkjunum.
            
             f)        Heimilt er að koma verkefni, sem fellur undir ramma áætlana til margra ára í styrkþegaríkjunum, til framkvæmda í samstarfi við aðila sem hafa aðsetur í styrkþegaríkjunum og EFTA-ríkjunum, í samræmi við gildandi reglur um opinber innkaup.
            
          4.      Stjórnunarkostn­aður EFTA-ríkjanna skal greiddur af heildarfjárhæðinni sem um getur í 1. mgr. 2. gr. og hann skal tilgreina í ákvæðum um framkvæmd sem um getur í 5. mgr.

          5.      EFTA-ríkin skulu skipa nefnd sem annast almenna stjórnun fjármagnskerfis EES. EFTA-ríkin munu setja frekari ákvæði um framkvæmd fjármagnskerfis EES að höfðu samráði við styrkþegaríkin sem kunna að njóta aðstoðar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. EFTA-ríkin skulu leitast við að setja þessi ákvæði fyrir undirritun samkomulagsins.

          6.      EFTA-ríkin skulu gefa skýrslu um framlag sitt til markmiða fjármagnskerfis EES og, eftir því sem við á, hinna 11 þemabundnu meginmarkmiða uppbyggingar- og fjárfestingarsjóða Evrópu fyrir tímabilið 2014–2020 2 .


11. gr.

    Í lok tímabilsins, sem er skilgreint í 2. gr., og með fyrirvara um réttindi og skyldur samkvæmt samningnum, skulu samningsaðilarnir endurskoða, í ljósi 115. gr. samningsins, þörfina á að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi á Evrópska efnahagssvæðinu.


Viðauki við bókun 38C


                     Nýsköpun, rannsóknir, menntun og samkeppnishæfni
          1.      Fyrirtækjaþróun, nýsköpun og lítil og meðalstór fyrirtæki
          2.      Rannsóknir
          3.      Menntun, námsstyrkir, nám á námssamningi og frumkvöðlastarfsemi ungs fólks
          4.      Jafnvægi milli vinnu og einkalífs

                     Félagsleg aðild, atvinna ungs fólks og aðgerðir til að draga úr fátækt
          5.      Áskoranir í lýðheilsumálum Evrópu
          6.      Félagsleg aðild og valdefling Rómafólks
          7.      Börn og ungmenni í áhættuhópi
          8.      Þátttaka ungs fólks á vinnumarkaði
          9.      Staðbundin þróun og aðgerðir til að draga úr fátækt

                         Um­hverfi, orka, loftslagsbreytingar og hagkerfi sem einkennist af lítilli koltvísýringslosun
          10.      Um­hverfi og vistkerfi
          11.      Endurnýjanleg orka, orkunýtni, orkuöryggi
          12.      Aðgerðir til að draga úr og aðlagast loftslagsbreytingum

                          Menning, borgaralegt samfélag, góðir stjórnunarhættir, grundvallarréttindi og frelsi
          13.      Frumkvöðlastarfsemi á sviði menningarmála, menningararfleifð og menningarsamstarf
          14.      Borgaralegt samfélag
          15.      Góðir stjórnunarhættir, ábyrgar stofnanir, gagnsæi
          16.      Mannréttindi – Framkvæmd á landsvísu

                         Dóms- og innanríkismál
          17.      Hælismál og fólksflutningar
          18.      Betrunarþjónusta og gæsluvarðhald
          19.      Alþjóðleg lögreglusamvinna og aðgerðir til að berjast gegn afbrotum
          20.      Skilvirkni og árangur dómskerfisins, efling réttarríkisins
          21.      Heimilisofbeldi og kynbundið ofbeldi
          22.      Forvarnir og viðbúnaður vegna hamfara eða stóráfalla
Neðanmálsgrein: 1
    1 Bókuninni var bætt við samninginn milli Evrópusambandsins, Íslands, Liechtensteins og Noregs um fjármagnskerfi EES (2014–2021).
Neðanmálsgrein: 2
    2      1) Efla rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun,
    2) bæta aðgang að, notkun og gæði upplýsinga- og fjarskiptatækni,
    3) efla samkeppnishæfni lítilla og meðalstórra fyrirtækja í landbúnaðargeiranum og sjávarútvegs- og fiskeldisgeiranum,
    4) styðja við umskipti yfir í hagkerfi sem einkennist af lítilli koltvísýringslosun í öllum geirum,
    5) ýta undir aðlögun að loftslagsbreytingum, forvarnir gegn þeim og stjórnun þeirra,
    6) varðveita og vernda um­hverfið og efla orkunýtni,
    7) stuðla að sjálfbærum sam­göngum og fjarlægja flösku­hálsa í helstu grunnvirkjum sam­göngunetsins,
    8) stuðla að sjálfbærum og góðum atvinnutækifærum og styðja við hreyfanleika vinnuafls,
    9) efla félagslega aðild, berjast gegn fátækt og hvers konar mismunun,
    10) fjárfesta í menntun, þjálfun og starfsmenntun til aukinnar færni og námi alla ævi,
    11) efla stofnanagetu opinberra yfirvalda og hagsmunaaðila og skilvirka opinbera stjórnsýslu.