Ferill 690. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1121  —  690. mál.




Beiðni um skýrslu


frá innanríkisráðherra um nauðsyn bættra fjarskiptatenginga og hagræn áhrif gagnavera.


Frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Ásmundi Friðrikssyni, Birgi Ármannssyni, Brynjari Níelssyni, Óla Birni Kárasyni, Ragn­heiði Ríkharðsdóttur, Valgerði Gunnarsdóttur, Vilhjálmi Árnasyni og Vilhjálmi Bjarnasyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að innanríkisráðherra flytji Alþingi skýrslu um ávinning og nauðsyn nýs fjarskiptastrengs til Íslands, m.a. til að laða starfsemi gagnavera til landsins, og um hagræn áhrif af starfsemi þeirra.
    Ráðherra leggi skýrsluna fyrir Alþingi eigi síðar en í nóvember 2016.

Greinargerð.

    Farið er fram á að innanríkisráðherra láti fara fram heildræna úttekt á því hvort nauðsynlegt sé að leggja nýjan fjarskiptastreng til landsins og um hagræn áhrif gagnavera hér á landi. Ráðherra leggi skýrslu þar að lútandi fyrir Alþingi eigi síðar en í nóvember 2016.
    Talsverður uppgangur hefur verið í starfsemi gagnavera á Íslandi síðustu ár. Upplýsingar um tekjur og hagræn áhrif gagnavera í löndum sem við berum okkur saman við benda til þess að fjárfestingar í innviðum fyrir gagnaver hafi jákvæð áhrif á samfélagið og mikil hagræn áhrif. Þrátt fyrir nokkurn vöxt hefur orðið ákveðið hrakval við­skipta­vina sem skýrist af því að kröfuharðari við­skipta­vinir telja fjarskiptatengingar Íslands ófullnægjandi og því skorti á áreiðanleika í fjarskiptum. Vegna þessa er Ísland slegið út af borðinu snemma í ferlinu þegar staðsetning er valin. Á sama tíma er erfitt að sjá að úrbætur á fjarskiptatengingum verði án aðkomu ríkisins. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að ráðist verði í könnun á því hvort nauðsyn sé á nýjum fjarskiptastreng, þ.m.t. að gerð verði úttekt á hagrænum áhrifum gagnavera hér á landi. Slík könnun yrði innlegg í mögulegt framlag ríkisins til að bæta fjarskiptainnviði til landsins.
    Nágrannaþjóðir okkar, einkum Norðurlandaþjóðirnar og Írar, hafa lagt verulega áherslu á gagnaver síðustu ár og hafa fjárfest í innviðum. Á síðustu árum hefur markvisst verið unnið að því að laða gagnaver til Írlands, einkum til Dublin, og hafa m.a. verið lagðir fram fjármunir til þess að bæta fjarskiptainnviði þar. Að sama skapi lögðu Finnar og Svíar fram fjármuni í fjarskiptatengingar. Á síðustu þremur árum hafa Microsoft, Amazon, Apple, Google og Facebook fjárfest eða upplýst um áform um að fjárfesta í gagnaverum á Írlandi, hvert um sig fyrir 500–1.000 milljónir bandaríkjadala (60–120 milljarða kr.). Finnar gáfu nýverið út skýrslu um jákvæð áhrif gagnavera, „Finland's Giant Data Center Opportunity – From the Industrial Heartland to Digital Age“. Í öllum þessum löndum eru umtalsverð jákvæð efnahagsáhrif af starfsemi gagnavera.
    Gagnaver eru um­hverfisvænn og hreinn iðnaður sem notar umtalsvert rafmagn. Landsvirkjun hefur sett gagnaver í flokk þeirra stóru notenda sem geta greitt hvað hæst verð fyrir rafmagn. Gagnaver og innviðir þeirra eru undirstaða hátækniiðnaðar, netverslunar og netþjónustu. Núna eru þessar greinar vart mælanlegar sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Til samanburðar leggja nágrannaþjóðir okkar áherslu á þessar greinar þar sem þær eru virðisaukandi og bjóða upp á sérfræðistörf sem höfða til yngra háskólamenntaðs fólks. Í samanburði við framleiðslugreinar er líftími búnaðar gagnavera stuttur. Af því leiða umtalsverð áhrif af endurfjárfestingu í búnaði (einkum tölvum) og tengdri þjónustu.
    Gagnaversiðnaður hefur vaxið á Íslandi frá því að Verne Holding hf. hóf starfsemi fyrsta eiginlega gagnaversins árið 2012. Nú kaupa íslensk gagnaver um 18MW af rafmagni. Ísland er á margan hátt ákjósanlegur staður fyrir gagnaver með áreiðanlegu grænu rafmagni á samkeppnishæfu verði, köldu loftslagi og legu landsins á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Þá eru góðar flugtengingar til og frá Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt skýrslu Data Center Risk Index lendir Ísland hins vegar í 29. sæti af 30 hvað nettengingar varðar. Fyrir vikið hefur átt sér stað ákveðið hrakval við­skipta­vina þar sem hingað koma við­skipta­vinir sem nota litla bandvídd og geta tekið áhættu á rofi fjarskiptatenginga.
    Írska ríkisstjórnin hefur nú átt frumkvæði að því að leita eftir samstarfi við Ísland og Noreg um að tengja þjóðirnar þrjár saman með nýju fjarskiptakerfi með það fyrir augum að þjóðirnar vinni saman að því að styrkja vesturjaðar Evrópu sem ákjósanlegan stað fyrir gagnaver. Vert er að skoða sérstaklega hvaða tækifæri felast í slíku samstarfi, bæði hvað varðar tímalínu og kostnað.
    Miðað við reynslu annarra þjóða má leiða líkur að því að aukin umsvif gagnavera séu líkleg til að hafa umtalsverð jákvæð efnahagsáhrif. Lögð er áhersla á að í skýrslu ráðherra verði farið yfir stöðuna og að afleiddir þættir og hagræn áhrif verði tekin inn í myndina. Helstu atriði sem ættu að koma fram í skýrslunni eru:
     1.      Hver er samkeppnishæfni Íslands fyrir gagnaver? Hvernig er samkeppnisstaða Íslands varðandi fjarskiptatengingar til landsins? Hvaða áhrif mundi nýr (nýir) fjarskiptastrengur (strengir) hafa á samkeppnishæfi Íslands almennt og fyrir gagnaver sérstaklega?
     2.      Hvert er umfang netverslunar og netþjónustu sem hlutfall af þjóðarframleiðslu? Hefði tilkoma gagnaversiðnaðar jákvæð áhrif á þessar greinar?
     3.      Hvað hafa nágrannaþjóðir okkar, svo sem Norðurlandaþjóðirnar og Írar, gert til að styðja við gagnaversiðnað í sínum löndum? Hvernig hefur aðkoma viðkomandi ríkja verið? Hvaða áhrif hafa aðgerðir stjórnvalda haft á viðgang gagnavera á svæðinu?
     4.      Hver hafa efnahagsáhrif gagnavera verið á viðgang hátækniiðnaðar, netverslunar og netþjónustu hjá nágrannaþjóðum okkar? Eru líkur á að áhrifin á Íslandi yrðu sambærileg?
    Þess er óskað að skýrsla ráðherra verði tekin til umræðu jafnskjótt og henni hefur verið útbýtt á Alþingi.