Ferill 544. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1122  —  544. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni um stefnu ríkisstjórnarinnar um NPA-þjónustu við fatlaða einstaklinga.


1.      Er svigrúm innan fjárlagaársins 2016 til að fjölga NPA-samningum til að mæta þjónustuþörf við fatlað fólk þegar hefðbundin úrræði duga ekki?
    Velferðarráðuneytið gerði samkomulag í desember sl. við Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd sveitarfélaganna um að framlag ráðuneytisins til NPA-samninga á árinu 2016 skyldi verða allt að 211 millj. kr. Þá var miðað við það að fjöldi samninga á árinu 2016 skyldi vera óbreyttur frá árinu 2015, eða 51 samningur. Heildarkostn­aður við NPA-samninga er áætlaður 855 millj. kr. á árinu 2016, þar af greiðir ráðuneytið 25% kostnaðarins með framlagi í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Framlag ráðuneytisins vegna gerðra samninga á milli áranna 2015 og 2016 hækkar úr 133 millj. kr. í 211 millj. kr. Ekki er gert ráð fyrir fjölgun NPA- samninga með kostnaðarþátttöku ráðuneytisins umfram það sem fram kemur í samkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Sveitarfélögunum er þó eftir sem áður heimilt að gera notendasamninga við fatlað fólk ef þau kjósa það.

2.      Hver er stefna ríkisstjórnarinnar um fram­hald þróunar og innleiðingar NPA?
    Stefna ráðherra hefur verið sú að lögleiða NPA á haustþingi 2016.

3.      Gerir ríkisstjórnin ráð fyrir innleiðingu NPA í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017?
    Ráðherra gerir ráð fyrir NPA í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017.

4.      Hvað mætti ætla að margir NPA-samningar kæmust á í kjölfar lagasetningar fyrir árið 2017 annars vegar og hins vegar árið 2018?
    Ekki er hægt að svara þessu fyrr en lög um NPA hafa verið sett og fjármagn tryggt á grundvelli þeirra.

5.      Hversu mikið er áætlað að NPA-samningum fjölgi ef lagasetning tryggir að NPA verði lögvarinn valkostur og réttur fatlaðs fólks?
    Fjöldi samninga ræðst af þörf, umfangi þeirra samninga sem gerðir eru og því fjármagni sem verður til ráðstöfunar á vegum ríkis og sveitarfélaga.