Ferill 605. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1125  —  605. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur um Heilbrigðisstofnun Vesturlands.


     1.      Hefur ráðherra áætlanir um að efla og auka þjónustustig Heilbrigðisstofnunar Vesturlands með það að markmiði að létta álagi af Landspítalanum? Ef svo er, hvaða svið snerta þær áætlanir?
    Samstarf Landspítala og Heilbrigðisstofnunar Vesturlands hefur verið margþætt og árangursríkt og á sér langa sögu. Sem dæmi má nefna að formlegt samstarf á sviði myndgreininga og blóðrannsókna hefur gengið vel. Þá hafa sjúklingar flust á milli stofnana með hliðsjón af alvarleika sjúkdómsástands og álagi á hvorri stofnun fyrir sig. Oft á tíðum fara sjúklingar beint frá bráðamóttöku Landspítala á Heilbrigðisstofnun Vesturlands ef ástand þeirra leyfir og aðstæður benda til að unnt sé að mæta þjónustuþörfum þeirra á fullnægjandi hátt.
    Undanfarin ár hafa forustumenn stofnananna átt viðræður um enn frekara og formlegra samstarf á skilgreindum sviðum. Sérstaklega hefur verið horft til þess að nýta megi skurðstofur Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi betur í þeim tilgangi að stytta biðtíma eftir ákveðnum aðgerðum og létta þar með álagi af Landspítala. Nýlega hrinti heilbrigðisráðherra af stað sérstöku átaki til að stytta biðtíma eftir völdum aðgerðum og er Heilbrigðisstofnun Vesturlands virkur þátttakandi í því átaki. Fjárframlög til stofnunarinnar hækka um tæpar 55 millj. kr. í ár vegna þessa verkefnis. Þá má einnig nefna að fjárframlag til Heilbrigðisstofnunar Vesturlands hækkaði um 50 millj. kr. á fjárlögum fyrir árið 2016 vegna ýmissa verkefna.
    Að undanförnu hefur Landspítalinn staðið frammi fyrir miklum vanda við að útskrifa sjúklinga eftir að brýnustu meðferð þeirra á Landspítalanum er lokið. Við þær aðstæður hefur Heilbrigðisstofnun Vesturlands tekið við sjúklingum frá Landspítalanum til frekari meðferðar og boðið sjúkrarými á Akranesi, Hvammstanga og í Stykkishólmi eftir þörfum og aðstæðum hverju sinni.
    Heilbrigðisráðherra leggur hér eftir sem hingað til áherslu á gott samstarf Landspítala og heilbrigðisstofnana, ekki síst þeirra sem eru í næsta nágrenni höfuð­borgar­svæðisins.

     2.      Telur ráðherra að gera ætti Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi að varasjúkrahúsi fyrir Landspítalann?
    Í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, er skilgreint hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri að vera varasjúkrahús fyrir Landspítala. Heilbrigðisráðherra hefur ekki í hyggju að leggja til breytingar á því lagaákvæði.