Ferill 541. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1131  —  541. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um ríkisjarðir.


     1.      Hvað eru ríkisjarðir margar og hvernig skiptast þær eftir sýslum með tilliti til þess
                  a.      hversu margar þeirra eru setnar,
                  b.      hversu margar þeirra eru lausar til ábúðar
                  c.      á hversu mörgum þeirra er búseta án búskapar?
    
Ríkissjóður Íslands á alls 450 jarðir og er stór hluti jarðanna nýttur til landbúnaðar. Ríkiseignir, sem tóku við verkefnum Jarðeigna ríkisins, sjá um daglega umsýslu stærsta hluta jarðeigna ríkisins, eða 315 jarðir. Þar af eru 122 ábúðarsamningar í gildi hjá Ríkiseignum vegna bújarða.
    Samkvæmt 12. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 er ábúanda skylt að hafa fasta búsetu á ábúðarjörð sinni og stunda þar landbúnað nema annað hafi verið samþykkt. Í samræmi við almenn skilyrði ábúðarsamninga hjá Ríkiseignum er ábúanda m.a. skylt að eiga lögheimili á jörðinni og búa þar. Auk ábúðarsamninga hafa fjölmargir leigusamningar verið gerðir um ríkisjarðir þar sem leigutaki býr á jörðinni. Einnig er algengt að leigja jarðir til slægna og beitar til aðila sem búa á aðlægum jörðum. Til að geta hafið ábúð á jörð þarf nauðsynlegan húsakost. Eyðijarðir henta því almennt ekki til ábúðar.
    Jarðir í umsjón Ríkiseigna skiptast á eftirfarandi hátt:
                  a.      122 jarðir í ábúð með útgefið byggingarbréf,
                  b.      107 eyðijarðir í notkun,
                  c.      82 ónýttar eyðijarðir og
                  d.      4 lausar bújarðir.
    Í töflu með svari þessu er gerð nánari grein fyrir heildarfjölda ríkisjarða og flokkun eftir sýslum. Jafnframt eru jarðirnar flokkaðar eftir því hvort Ríkiseignir hafa þær til umráða í umboði fjármála- og efnahagsráðuneytisins eða aðrir aðilar á vegum ríkisins. Jarðir í umsjón Landgræðslu ríkisins, Skógræktar ríkisins, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Háskólans á Hólum eru alls 96. Þá eru einnig 39 jarðir í umsjón annarra aðila á vegum ríkisins.

     2.      Er vinnu við nákvæma skráningu jarða á forræði ráðuneytisins lokið? Ef ekki, hvenær er áætlað að henni ljúki?
    Þegar Ríkiseignum var komið á fót í febrúar 2015 var ákveðið að eitt af áhersluverkefnum stofnunarinnar yrði að þróa upplýsingakerfi og bæta skráningu allra eigna ríkisins. Hlutverk Ríkiseigna er því m.a. að halda örugga og lifandi skrá um jarðir, aðrar eignir og auðlindir sem og allar mikilvægar upplýsingar um eignirnar, þ.m.t. hnitasetningar, stærð, gerð og ástand, tekjur, gjöld, nýtingu, samninga, réttindi og kvaðir. Í samræmi við stefnumörkun í eignamálum hafa Ríkiseignir unnið að heildstæðri skráningu allra jarða ríkisins og miðar þeirri vinnu vel. Mikilvægum áfanga var náð þegar komið var á fót kortavefsjá yfir allar jarðir í eigu ríkisins á vefsvæði Ríkiseigna. Á kortavefsjánni er yfirlit yfir allar jarðir ríkisins, hvar þær eru á landinu og hver hefur umráð yfir tiltekinni jörð. Kortavefsjánni er ætlað bæta miðlæga skráningu ríkisjarða ásamt því að auka aðgengi almennings að þeim upplýsingum.
    Gert er að ráð fyrir að skráning ríkisjarða verði uppfærð reglulega. Ríkiseignir búa yfir ítarlegum upplýsingum um þær jarðir og eignir sem stofnunin hefur til umráða. Um þessar mundir er unnið að því að ná betur utan um upplýsingar um jarðar sem aðrir aðilar á vegum ríkisins hafa umráð yfir. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki á þessu ári. Hins vegar er ljóst að nákvæmari skráning, m.a. hnitasetning hverrar jarðar og upplýsingar um hvaða auðlindir kunna að tilheyra hverri jörð, mun taka lengri tíma. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvenær þeim hluta skráningarinnar lýkur.

     3.      Liggur fyrir áætlun um sölu eða útleigu ríkisjarða?
     Fastmótaðar reglur gilda um sölu á eignum í eigu ríkissjóðs þar sem rík áhersla er lögð á jafnræði, gagnsæi og hagkvæmni við allar ráðstafanir. Samkvæmt 46. gr. laga um opinber fjármála þarf að vera til staðar heimild í lögum eða 6. gr. fjárlaga til að hægt sé að selja eða leigja til langs tíma eignir í eigu ríkissjóðs. Þá er jafnframt í gildi reglugerð nr. 1280/2014 um ráðstöfun eigna ríkisins þar sem fram kemur að almennt skuli auglýsa eignir ríkisins til sölu með opinberri auglýsingu. Taki ríkið ákvörðun um sölu á ríkisjörð, þ.m.t. landspildum í ríkiseigu, á frjálsum markaði, er Ríkiskaupum falið að annast auglýsingu og leita tilboða í samræmi við framangreint þar sem öllum er gefinn kostur á að skila inn tilboði. Kaupverð skal að jafnaði vera hagkvæmasta tilboð m.a. með tilliti til verðs og greiðsluskilmála.
    Ásamt almennu reglugerðinni um ráðstöfun eigna ríkisins gilda jarðalög nr. 84/2001 þar sem fram koma nokkrar sérreglur um sölu ríkisjarða. Samkvæmt 35. gr. jarðalaga er heimilt að selja sveitarfélögum jarðir í eigu ríkisins sem eru innan marka sveitarfélaga án auglýsingar. Þá hafa ábúendur ríkisjarða skv. 36. gr. jarðalaga rétt á því kaupa þær jarðir sem þeir sitja að vissum skilyrðum uppfylltum. Reglum um sölu ríkisjarða er að þessu leyti skipt upp í þrjá flokka en meginreglan er ávallt sú að auglýsa skuli jarðir til sölu á almennum markaði þar sem hagkvæmasta tilboði er tekið.
    Í samræmi við almenna stefnumörkun á sviði eignamála hefur verið gengið út frá því að framtíðarfyrirkomulag um eignarhald ríkisins á jörðum skuli byggja á því að slíkar eignir ríkisins skili samfélagslegum ávinningi. Þar af leiðandi þurfa almannahagsmunir að réttlæta áfram­haldandi eignarhald á viðkomandi landi, t.d. vegna landgræðslu, vegagerðar, orkunýtingar eða annarra sambærilegra atriða. Þá er jafnframt lögð áhersla á að eignir séu nýttar með eins hagkvæmum hætti og kostur er fyrir starfsemi í þágu ríkisns. Við almennt mat á því hvort eign eigi að vera í eigu ríkisins þarf af þessum sökum að leggja mat á það hver fjárbindingin er í slíkri eign og hvaða leigutekjum hún skilar samanborið við tekjur af sölu hennar. Falli jörð eða aðrir landskikar ekki að þessum atriðum hefur almennt verið tekin ákvörðun um að selja slíka eign á almennum markaði.
    Samhliða vinnu við að ganga frá heildstæðri skráningu jarða á forræði ríkisins hefur ráðuneytið í samstarfi við Ríkiseignir unnið að gerð almennrar eigandastefnu ríkisins fyrir ríkisjarðir og land í eigu ríkisins. Í stefnunni er ráðgert að farið verði yfir það hvaða jarðir eigi að vera í eigu ríkisins og hverjar skuli selja eða ráðstafa með öðrum hætti, t.d. í leigu eða ábúð. Áður en eigandastefnan verður fullmótuð er mikilvægt að fyrir liggi mat á kostum og göllum á þeirri framkvæmd sem verið hefur á jarðamálum ríkisins á undanförnum árum. Í þessu skyni hefur ráðuneytið óskað eftir úttekt óháðs aðila á framkvæmd þessara mála þar sem lagt verði mat á samfélagslegan ávinning við að setja ríkisjarðir í ábúð og lagðar verði fram tillögur um hvernig gera megi kerfið skilvirkara og hagkvæmara fyrir ríkið sem leigusala sem og leigjendur og ábúendur. Gert er ráð fyrir að niðurstöður úttektarinnar liggi fyrir síðar á þessu ári.
Jarðir í umsjón Ríkiseigna:
Landsvæði Í ábúð Eyðijarðir Lausar bújarðir með húskosti Heildarfjöldi Í umsjón Skógræktarinnar, Landgræðslu og landbúnaðarháskólanna Í umsjón annarra ríkisstofnana og ráðuneyta Í eigu ríkissj.
nýttar ónýttar
Norð­vesturkjördæmi:
Borgar­fjarðarsýsla 5 4 3 12 11 1 24
Mýrasýsla 2 1 1 4 5 1 10
Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla 3 3 11 17 1 11 29
Dalasýsla 5 1 1 7 2 0 9
Austur-Barðastrandarsýsla 1 4 1 6 0 0 6
Vestur -Barðastrandarsýsla 2 2 9 13 0 0 13
Vestur-Ísa­fjarðarsýsla 1 1 1 3 0 1 4
Norður-Ísa­fjarðarsýsla 2 9 4 15 0 1 16
Strandasýsla 1 1 0 0 1
Vestur-Húna­vatnssýsla 8 3 11 0 0 11
Austur-Húna­vatnssýsla 4 1 5 0 0 5
Skaga­fjarðarsýsla 1 5 1 7 5 3 15
Norð­austurkjördæmi:
Eyja­fjarðarsýsla 3 13 2 18 4 0 22
Suður-Þingeyjarsýsla 2 8 2 12 12 4 28
Norður-Þingeyjarsýsla 4 2 2 8 1 5 14
Norður-Múlasýsla 25 9 7 41 3 0 44
Suður-Múlasýsla 15 5 12 32 8 0 40
Suðurkjördæmi:
Austur-Skaftafellssýsla 4 4 5 13 0 1 14
Vestur-Skaftafellssýsla 14 12 4 4 34 7 0 41
Rangárvallasýsla 8 6 1 15 27 0 42
Árnessýsla 9 11 11 31 7 7 45
Suður- og Suð­vesturkjördæmi:
Gullbringu- og Kjósarsýsla 3 3 4 10 3 4 17
Samtals 122 107 82 4 315 96 39 450