Ferill 718. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1159  —  718. mál.




Frumvarp til laga



um tímabundið bann við sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Flm.: Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson.


1. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2016 er ráðherra óheimilt að selja eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum samkvæmt liðum 5.1–5.4 í greininni.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og falla úr gildi 1. nóvember 2016.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er brugðist við því fordæmalausa ástandi sem upp er komið í íslenskum stjórnmálum. Ný ríkisstjórn er tekin til starfa og boðað hefur verið að almennar kosningar til Alþingis muni fara fram næsta haust. Ljóst er að staða þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr er mjög ótrygg. Má þannig í raun líkja núverandi ríkisstjórn við starfsstjórn sem ætlað er að sitja fram yfir kosningar þegar ný ríkisstjórn mun taka við. Ekki er því eðlilegt að sú ríkisstjórn sem nú situr geti tekið afdrifaríkar og stefnumarkandi ákvarðanir á þeim fáu mánuðum sem eftir eru af starfstíma hennar. Slíkar ákvarðanir ber að bíða með að taka fram yfir næstu kosningar þar sem stjórnmálamenn munu fá nýtt umboð frá kjósendum til góðra verka.
    Í 6. gr. fjárlaga eru ýmsar heimildir til handa fjármála- og efnahagsráðherra til að leigja eða selja ríkiseignir eða ganga til annarra samninga. Í liðum 5.1–5.4 í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2016 eru fjármála- og efnahagsráðherra veittar heimildir til að selja eignarhluti ríkisins í Arion banka hf., Íslandsbanka hf., þá hluti sem eru umfram 70% af hlut ríkisins af heildarhlutafé í Landsbankanum hf. og eignarhluti ríkisins í sparisjóðum. Þessir eignarhlutar ríkisins í fjármálafyrirtækjum eru gríðarlega verðmætir. Það skiptir því miklu máli að fullkomið traust sé til stjórnvalda hafi þau í hyggju að selja að hluta eða að öllu leyti eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þar sem núverandi ríkisstjórn nýtur ekki trausts og ljóst að hún muni aðeins sitja í nokkra mánuði er ekki eðlilegt að fjármála- og efnahagsráðherra hafi þá heimild að selja eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga að sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum getur verið stefnumarkandi ákvörðun fyrir fjármálakerfið í heild sinni. Eignnarhald ríkisins á nánast öllu fjármálakerfinu gefur möguleika á því nú að endurskoða fjármálakerfið í heild sinni standi til þess pólitískur vilji.
    Ákvæði 1. gr. frumvarpsins hefur það í för með sér að fyrrnefndar heimildir í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2016 gilda ekki í gildistíð ákvæðisins ef af lögum verður. Skv. 2. gr. frumvarpsins öðlast lögin þegar gildi en falla úr gildi 1. nóvember nk. Boðað hefur verið að almennar kosningar til Alþingis verði haldnar í haust og gera má ráð fyrir því að ný ríkisstjórn verði tekin við störfum 1. nóvember. Standi skýr vilji Alþingis til þess að selja eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum áður en að þeirri dagsetningu kemur fellir Alþingi lög þessi úr gildi og ráðherra hefur þá skýrt umboð til þeirra verka.