Ferill 580. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1169  —  580. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um Þingeyrarflugvöll og Ísa­fjarðarflugvöll.


     1.      Hefur Þingeyrarflugvöllur verið lagður af sem varaflugvöllur fyrir Ísa­fjarðarflugvöll?
    Í þjónustusamningi milli innanríkisráðuneytis og Isavia er Þingeyrarflugvöllur skilgreindur sem varaflugvöllur fyrir Ísa­fjarðarflugvöll að sumri. Samkvæmt handbók flugmanna er veitt þjónusta fyrir áætlunarflug samkvæmt beiðni. Þar kemur einnig fram að flugvöllurinn er lokaður frá 15. október til 1. júní. Frostlyftingar urðu á flug­brautinni í mars 2013 sem ollu því að hún er ekki nothæf meðan áhrifa gætir af frosti annars vegar og þíðu hins vegar. Vegna þessa hefur flug­brautin verið lokuð í þrjá vetur: 2013–2014, 2014–2015 og 2015–2016.

     2.      Hver hefur nýting Þingeyrarflugvallar verið sl. fimm ár og hvenær var síðast lent þar?
    Nýting flugvallarins síðastliðin fimm ár hefur á ársgrundvelli verið eins og fram kemur í eftirfarandi töflu. Lendingar utan sviga sýna áætlunarflug. Innan sviga eru allar lendingar.

Lendingar Komufarþegar Brottfararfarþegar
2011 9(13) 246 249
2012 14(20) 483 435
2013 10(11) 374 251
2014 2 39 45
2015 1 19 27

    Síðast var lent á flugvellinum 12. ágúst 2015.

     3.      Hve oft hefur flug fallið niður á Ísa­fjarðarflugvelli sl. tvö ár og hversu oft hefði verið hægt að lenda á Þingeyrarflugvelli í staðinn?
    Eftirfarandi tafla sýnir niðurfelld flug síðastliðin sex ár.

2010 2011 2012 2013 2014 2015
94 102 97 94 119 113

    Erfitt er að meta hversu oft hefði verið hægt að nota Þingeyrarflugvöll í stað Ísa­fjarðarflugvallar þar sem veðurfarslegar aðstæður eru ekki kannaðar nema þegar til stendur að lenda á vellinum. Skiptir þar skyggni, vindhæð og vindátt mestu máli. Enginn starfsmaður er á Þingeyrarflugvelli, auk þess er veðurkerfið gamalt og þarfnast endurnýjunar. Sjaldan er hægt að skoða veðuraðstæður á Þingeyrarflugvelli frá Ísa­fjarðarflugvelli. Ef rýnt er í tölur um lendingar sést að Þingeyrarflugvöllur hefur á árunum 2010–2015 verið notaður í um 9–15% þeirra tilvika sem ekki hefur verið hægt að nota Ísa­fjarðarflugvöll. Eftirfarandi tafla sýnir lendingar á Þingeyrarflugvelli vegna áætlunarflugs.

Lendingar 2010 2011 2012 2013 2014 2015
Áætlun 12 9 14 10 2 1
% af niðurfelldu á Ísafjörð 12,8% 8,8% 14,4% 10,6% Lokað á veturna

    Á árunum 2014 og 2015 voru samtals 33 flugferðir til Ísa­fjarðar felldar niður á þeim tíma þegar Þingeyrarflugvöllur var opinn (1. júní til 15. október). Á þeim tíma var Þingeyrarflugvöllur ein­göngu þrisvar sinnum notaður sem varaflugvöllur (9,1% af niðurfelldum flugferðum). Út frá þessum gögnum má áætla að ef fjármunir fengjust til að ráðast í úrbætur á flug­brautinni á Þingeyri og til þess að reka flugvöllurinn allt árið væri hægt að nota hann í um 9–15% tilfella sem ekki er hægt að lenda á Ísa­fjarðarflugvelli. Það væru um 9–15 lendingar á ári.

     4.      Hver eru framtíðaráform stjórnvalda um Þingeyrarflugvöll og viðhald fjárfestinga þar?
    Frá árinu 2008 hefur Alþingi þurft að skera verulega niður fjárveitingar til sam­göngumála, ekki síst flugmála. Ráðstöfun fjármuna er forgangsraðað í þágu flugöryggis til þeirra áfangastaða þar sem þörfin er mest. Töluverða fjármuni þyrfti til að á Þingeyrarflugvelli væri hægt að lenda þeim flugvélum sem notaðar eru í áætlunarflugi og er ekki ráðgert að fara í slíkar framkvæmdir.

     5.      Geta nýjar flugvélar Flugfélags Íslands lent á Ísa­fjarðarflugvelli og Þingeyrarflugvelli?
    Nýjar Q400-vélar Flugfélags Íslands geta hvorki lent á Ísa­fjarðarflugvelli né Þingeyrarflugvelli. Þær vélar, Q200, sem notaðar eru núna geta lent á báðum þessum flugvöllum. Sætum í ferð fækkar aftur á móti þar sem aðeins eru 37 sæti í Q200 vél en Fokker50 var með 50 sæti.