Ferill 559. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1171  —  559. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um átröskunarteymi Landspítalans.


     1.      Hver er lagagrundvöllur átröskunarteymis Landspítalans?
    Átröskunarteymi Landspítalans er starfrækt á grundvelli laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, eins og önnur starfsemi spítalans.

     2.      Hvernig þróaðist umfang starfsemi átröskunarteymisins á árunum 2007–2015?
    Á Landspítala eru tvö átröskunarteymi. Annað þeirra sinnir börnum og starfar á göngudeild barna- og unglingageðdeildar (BUGL). Hitt teymið sinnir fullorðnum og starfar á geðsviði spítalans.
    Átröskunarteymi göngudeildar barna og unglingageðdeildar hefur verið starfandi frá árinu 2000 þar sem einstaklingar með átröskun þurfa sérhæfða meðferð. Þróun átröskunarteymisins frá 2007 hefur verið á þá leið að sérhæfðir fagaðilar hafa sinnt greiningu og meðferð fyrir börn og unglinga með átröskun og fjölskyldur þeirra. Átröskunarteymið er þverfaglegt teymi barna- og unglingageðlæknis, geðhjúkrunarfræðings og fjölskylduþerapista, sálfræðings, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa og næringarfræðings. Tveir aðilar í teyminu sinna málum í 80%- starfi en aðrir í 10–30%-starfi. Sú meðferð sem veitt er í teyminu felst í greiningu vandans, sálfræðimeðferð, fjölskyldumeðferð, hóp- og stuðningsmeðferð fyrir foreldra, læknisfræðilegu mati og eftirliti, næringarráðgjöf, eflingu á jafnvægi í daglegu lífi og líkamsvitundarþjálfun auk félagsráðgjafar. Auk þess getur þurft að grípa til innlagnar á legudeild. Þar er einnig ákveðið teymi sem sinnir þessum skjólstæðingahópi og samráð er milli teyma legu- og göngudeildar varðandi skjólstæðinga með átröskun. Á hverjum tíma eru um það bil 30 einstaklingar og fjölskyldur þeirra í meðferð, oftast í eitt til þrjú ár. Fjöldi nýrra tilvísana á BUGL ár hvert hefur verið á bilinu 15–20 einstaklingar.
    Átröskunarteymi fyrir fullorðna á geðsviði Landspítalans hefur verið starfandi frá árinu 2006 og kom sérstök fjárveiting til stofnunar þess í upphafi. Þjónusta þess hefur verið í stöðugri þróun síðan og hefur sjúklingum fjölgað jafnt og þétt síðustu ár.

Fjöldi sjúklinga Fjöldi koma á dag- og göngudeild
Ár innskriftar Fjöldi einstaklinga Göngudeild Dagdeild Samtals
2007 140 2007 664 998 1.662
2008 164 2008 648 1.289 1.937
2009 178 2009 1.489 814 2.303
2010 156 2010 1.625 947 2.572
2011 162 2011 1.641 800 2.441
2012 177 2012 1.626 754 2.380
2013 249 2013 1.595 828 2.423
2014 199 2014 1.435 1.016 2.451
2015 244 2015 1.987 1.021 3.008

    Fyrir stofnun teymisins, á árunum 2003–2006, var meðaltalsfjöldi legudaga 116,5 á ári hjá sjúklingum með átröskun sem fyrstu sjúkdómsgreiningu en 2007–2015 var hann 23,8 dagar.
    Þjónusta við átröskunarsjúklinga er veitt á göngu- og dagdeild. Aðgengi að þjónustu teymisins hefur verið gott og frá árinu 2012 hafa sjúklingar getað komið án milli­göngu heimilislækna eða tilvísana annarra fagstétta. Síðustu árin hefur fyrirspurnum um meðferð fjölgað mikið og teymið þurft að vísa fólki í önnur úrræði, aðallega til sálfræðinga. Fyrstu árin var biðtíminn eftir meðferð 4–8 vikur en síðastliðin 3–4 ár hefur hann lengst og er nú um 4–6 mánuðir. Á hverjum tíma eru um 60–70 einstaklingar í virkri meðferð hjá teyminu og oft eru um 20–30 sjúklingar á biðlista. Forgangsraðað er eftir alvarleika vandans.
    Meðferð við átröskunum er langtímameðferð og getur tekið allt frá sex mánuðum upp í 3–4 ár. Sjúklingar átröskunarteymisins eru oft ungir einstaklingar með flókinn fjölþættan vanda og því er mikilvægt að tekið sé heildrænt á vandanum.
    Umfang ráðgjafarþjónustu átröskunarteymisins hefur vaxið jafnt og þétt síðustu ár. Fólk um allt land getur leitað beint til teymisins og fengið upplýsingar, ráðgjöf og fræðslu. Daglega berast fyrirspurnir með tölvupósti um þjónustuna. Auk meðferðar sinnir starfsfólk teymisins kennslu, handleiðslu og starfsþjálfun nema á heilbrigðisvísindasviði. Einnig tekur teymið þátt í rannsóknarverkefnum og greinarskrifum. Þessir þættir starfseminnar hafa aukist mjög síðustu ár og komið til viðbótar við klíníska meðferðarvinnu.
    Átröskunarteymið kom að stofnun Félags fagfólks um átraskanir, FFÁ, árið 2011 og tekur þátt í samnorrænu samstarfi. Norræna átröskunarþingið verður haldið á Íslandi árið 2018 og hefur teymið nú þegar hafið undirbúning þess.

     3.      Telur ráðherra að teymið búi við fullnægjandi fjárframlög?
    Það er skoðun ráðherra að það megi gera betur í þessum málaflokki eins og mörgum öðrum málaflokkum innan heilbrigðisþjónustunnar. Í ljósi þess að starfsmönnum í teyminu hefur ekki fjölgað þrátt fyrir auknar óskir um þjónustu kann að vera full ástæða til að fara yfir hvort þjónusta við fólk með átraskanir hafi orðið útundan varðandi fjármagn miðað við aðra þætti heilbrigðisþjónustunnar.
    Ekki hefur verið merkt sérstök fjárveiting í þjónustu BUGL fyrir börn og unglinga með átröskun. Átröskunarteymi BUGL er eitt af göngudeildarteymum BUGL og er kostn­aður vegna þess hluti af heildarrekstri Landspítalans. Nýlega hafa fjárframlög verið aukin til ­göngudeildar BUGL og áform eru um að auka þau reglubundið einnig næstu tvö ár.
    Átröskunarteymi geðsviðs Landspítalans er hluti af rekstri geðsviðs. Teymið telur að til þess að stytta bið úr 4–6 mánuðum niður í 1–2 mánuði og sinna einnig sívaxandi fræðslu- og ráðgjafarhlutverki á fullnægjandi hátt þyrfti að fjölga um þrjú stöðugildi, úr sjö í tíu. Áætluð kostnaðaraukning við þessa viðbót væri 23 millj. kr. á ársgrundvelli.

     4.      Hvernig sér ráðherra fyrir sér þróun þeirrar þjónustu sem einstaklingar með átröskun njóta af hendi heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustunnar?
    Þótt hér sé spurt um þjónustu við einstaklinga sem þegar eru með átröskun verður ekki hjá því komist að minnast á mikilvægi forvarna. Leggja þarf áherslu á forvarnir.
    Það er afar mikilvægt að forvarnir með fræðslu um átraskanir beinist að foreldrum/forráðamönnum, kennurum og öðru starfsfólki skóla fremur en að börnum og unglingunum sjálfum. Forvarnir sem tengjast börnum og unglingunum sjálfum ættu frekar að beinast að því að efla sjálfsmat og sjálfsvirðingu og að þeim líði vel með eigin líkama en meðal helstu áhættuþátta átraskana eru slæm líkamsmynd og megrun.
    Heilsugæslan þarf að vera virkur þátttakandi í forvörnum og æskilegt er að fyrsta mat fari fram í heilsugæslu, svo og meðferð og eftirfylgni með vægari einkennum. Meðferð við átröskunum er sérhæfð og nauðsynlegt er að þjálfa starfsfólk heilsugæslu til að veita slíka þjónustu. Með fjölgun sálfræðinga í heilsugæslu, eins og stefnt er að, verður heilsugæslan betur í stakk búin til að sinna fólki með væg einkenni geðheilsuvanda ásamt því að fylgja meðferð eftir.
    Einnig er full ástæða til að fara yfir hvernig núverandi þjónusta mætir þeirri þörf sem er fyrir hendi en eins og fyrr segir hefur þeim fjölgað sem leita eftir þjónustu átröskunarteyma á síðustu árum.