Ferill 600. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1192  —  600. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur
um einkarekstur heilsugæslustöðva.


     1.      Hverjar eru ástæður fyrir ákvörðun ráðherra um að bjóða út rekstur þriggja nýrra heilsugæslustöðva til einkaaðila, fremur en að styrkja opinberan rekstur heilsugæslunnar á höfuð­borgar­svæðinu?
    Ástæður fyrir því að ákveðið var að bjóða út rekstur þriggja nýrra heilsugæslustöðva á höfuð­borgar­svæðinu eru margþættar. Má þar nefna að á undanförnum árum hefur íbúum á svæðinu fjölgað mikið án þess að fleiri heilsugæslustöðvar hafi komið í rekstur. Þar af leiðandi hefur heilsugæslan ekki getað mætt þörfum fólks fyrir þjónustu. Nýliðun meðal heimilislækna á höfuð­borgar­svæðinu hefur verið lítil á undanförnum árum og hefur sá læknahópur ítrekað óskað eftir að eiga val um hvort þeir starfa hjá opinberum aðilum eða reka eigin þjónustu eins og aðrir sérfræðilæknar hafa átt kost á. Líklegt er talið að með því að auka valmöguleika hvað varðar rekstrarform verði auðveldara að fá heimilislækna til starfa. Þá hefur verið góð reynsla af rekstri einkarekinna heilsugæslustöðva á höfuð­borgar­svæðinu og sú reynsla sýnir að einkarekstur við hlið opinbers rekstrar er góð viðbót við opinberan rekstur.
    Með nýju greiðslufyrirkomulagi verður aukið gegnsæi í nýtingu fjármuna og aukið jafnræði rekstraraðila þar sem hver heilsugæslustöð á svæðinu mun fá greiðslur í samræmi við þann sjúklingahóp sem nýtur þjónustu viðkomandi stöðvar óháð því hvort einkaaðili eða opinber aðili sér um reksturinn.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja samstarf og samvinnu milli einkarekinna stöðva og stöðva sem eru í opinberum rekstri og hafa haft margvíslegt samstarf um heilsugæsluþjónustu sín á milli? Hvernig hyggst ráðherra tryggja að einkareknar stöðvar verði ekki aðgreindar „þjónustueyjar“ í heilbrigðiskerfinu sem geri heilsugæsluna brotakenndari og sundurlausari en henni er ætlað að vera?
    Öllum heilsugæslustöðvum, bæði í opinberum rekstri og einkarekstri, verður gert að starfa í samræmi við nýja kröfulýsingu um heilsugæsluþjónustu. Heilsugæslu höfuð­borgar­svæðisins verður auk þess falið það hlutverk að vera umsjónaraðili samninga um rekstur heilsugæslustöðva á höfuð­borgar­svæðinu og hafa eftirlit með að kröfur í kröfulýsingu séu uppfylltar. Það hlutverk verður ekki á hendi annarra stöðva eða rekstrareininga.
    Í kröfulýsingunni verður áskilið að heilsugæslustöð, óháð rekstrarformi, skuli vera virkur þátttakandi í samhæfingu heilbrigðisþjónustu í landinu með hagsmuni einstaklinga sem skráðir eru á viðkomandi heilsugæslustöð og heilbrigðisþjónustunnar í heild að leiðarljósi. Allar heilsugæslustöðvar á höfuð­borgar­svæðinu munu verða í samvinnu við aðra sem veita heilbrigðisþjónustu, svo sem aðrar heilsugæslustöðvar, göngudeildir sjúkrahúsa, sérgreinalækna og aðrar heilbrigðisstéttir eftir því sem tilefni er til, í þeim tilgangi að samhæfa þjónustu við þá sem fá þjónustu stöðvarinnar. Þá er í kröfulýsingunni einnig lögð áhersla á samvinnu við sveitarfélög, m.a. vegna félagsþjónustu sveitarfélaga.

          3.      Er fyrirhuguðum einkareknum heilsugæslustöðvum ætlað að gegna sömu skyldum og heilsugæslustöðvum sem eru í opinberum rekstri, þ.m.t. að sinna heimahjúkrun, kennslu og þjálfun nema, vísindarannsóknum, læknisþjónustu á hjúkrunarheimilum og sérverkefnum, svo sem sérhæfðum meðferðarteymum og félagsráðgjöf, sem heilsugæslunni eru falin á hverjum tíma?
    Einkareknum heilsugæslustöðvum er ætlað að gegna sömu skyldum og heilsugæslustöðvum sem eru í opinberum rekstri.
    Heimahjúkrun verður ekki hluti af starfsemi einkarekinna heilsugæslustöðva. Heimahjúkrun í Reykjavík er nú á hendi Reykjavíkurborgar á grundvelli samnings Sjúkratrygginga Íslands og Reykjavíkurborgar. Heimahjúkrun á öðrum svæðum höfuð­borgar­svæðisins verður sinnt af Miðstöð heimahjúkrunar sem verður staðsett í Kópvogi. Ábyrgð á rekstri þeirrar þjónustu verður áfram hjá Heilsugæslu höfuð­borgar­svæðisins. Samkvæmt fyrrgreindri kröfulýsingu eiga heilsugæslustöðvar að vera í samvinnu við heimahjúkrun um sam­eigin­lega sjúklinga og þessir aðilar skulu hafa samráð sín á milli um samhæfingu þjónustu almennt.
    Í fyrrnefndri kröfulýsingu er tilgreint að heilsugæslustöðvar skuli vera þátttakendur í kennslu og þjálfun nemenda á heilbrigðissviði. Einnig kemur fram í kröfulýsingunni að veita skuli ráðgjöf um næringu og hreyfingu og sérstök áhersla er á þjónustu við fólk með langvinna sjúkdóma.
    Heilsugæsla höfuð­borgar­svæðisins sinnir ekki læknisþjónustu á hjúkrunarheimilum ef frá er talin læknisþjónusta á Droplaugarstöðum og í Selja­hlíð. Um þessa þjónustu er samningur milli Heilsugæslu höfuð­borgar­svæðisins og Reykjavíkurborgar og greiðir Reykjavíkurborg fyrir þá þjónustu samkvæmt samningi. Heilsugæslustöðvar munu geta gert samninga við rekstraraðila hjúkrunarheimila um að veita þeim þjónustu en ekki er gerð krafa um að þær sinni læknisþjónustu á hjúkrunarheimilum frekar en gert er nú.
    Ekki er krafa um að félagsráðgjafar starfi á heilsugæslustöðvum í núverandi skipulagi og ekki er ráðgert að breyta því þótt breyting verði á rekstrarformi. Varðandi sérhæfð meðferðarteymi þá geta heilsugæslustöðvar ákveðið hvernig þær skipuleggja þjónustu við sjúklingahópa og þar með hvaða heilbrigðisstarfsmenn veita tiltekna þjónustu að því gefnu að þeir hafi þá menntun og þekkingu sem nauðsynleg er og lög gera ráð fyrir. Á öllum heilsugæslustöðvum skal áhersla lögð á einstaklingsmiðaða meðferð og þjónustu.

     4.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja að rekstrarhagnaður einkarekinna stöðva skili sér inn í rekstur þeirra?
         Sjúkratrygginar Íslands munu hafa eftirlit með fjárhagslegum þáttum samninga og forsendum greiðslna til heilsugæslustöðva og hafa rétt til að kalla eftir upplýsingum sem stofnunin telur þörf á hverju sinni. Samkvæmt lögum nr. 86/1997 hefur Ríkisendurskoðun heimild til að endurskoða starfsemi sem byggist á á þjónustusamningum við ríkið. Ríkisendurskoðun getur einnig framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun hjá stofnunum og öðrum aðilum sem fá fé úr ríkissjóði á grundvelli þjónustusamninga.

     5.      Hvernig verður eftirliti með þjónustu einkarekinna heilsugæslustöðva háttað? Verða gæði hennar metin á heildstæðan hátt? Verður lagt mat á heildaráhrif einkarekinna heilsugæslustöðva á þjónustukerfi heilsugæslunnar á höfuð­borgar­svæðinu?

    Umsjónaraðili samninga um einkareknar heilsugæslustöðvar, sem verður Heilsugæsla höfuð­borgar­svæðisins, mun hafa eftirlit með framkvæmd samninga og að kröfur í kröfulýsingu séu uppfylltar. Gerðar verða reglubundnar úttektir á því hvort kröfur í kröfulýsingu séu uppfylltar og á það bæði við um rekstur og þjónustu stöðva í einkarekstri og í opinberum rekstri. Úttektirnar verða framkvæmdar í samvinnu við embætti landlæknis.
    Sjúkratryggingar Íslands munu hafa eftirlit með fjárhagslegum þáttum samningsins og forsendum greiðslna til heilsugæslustöðva og að greiðslur séu á hverjum tíma í samræmi við þjónustu og árangur.
    Embætti landlæknis hefur eftirlit með gæðum og öryggi starfseminnar eins og með annarri heilbrigðisþjónustu. Auk þess mun embættið hafa eftirlit með hversu vel heilsugæslustöðvar uppfylla tiltekin skilgreind gæðaviðmið en hluti af greiðslum til heilsugæslustöðva mun byggjast á þeim.
    Gerðar hafa verið þjónustukannanir á undanförnum árum bæði á opinberum og einkareknum heilsugæslustöðvum. Heilsugæsla höfuð­borgar­svæðisins mun sjá um framkvæmd og úrvinnslu árlegra viðhorfs- og þjónustukannana sem ætlað er að mæla gæði þjónustunnar út frá sjónahóli notenda þjónustunnar.
    Viðhorfskannanir, úttektir Heilsugæslu höfuð­borgar­svæðisins og embættis landlæknis á hvort kröfur eru uppfylltar svo og gæðaviðmið sem sett hafa verið sem grundvöllur fyrir greiðslum að hluta munu í heild verða mælikvarði á hvort gæði aukast, minnka eða standa í stað í heilsugæsluþjónustu á höfuð­borgar­svæðinu.