Ferill 721. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1199  —  721. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur um nýliðun í landbúnaði.


     1.      Hver er skilgreiningin á nýliðun í landbúnaði?
    Hugtakið nýliðun er ekki sérstaklega skilgreint í ákvæðum laga og reglugerða, en skilgreining á nýliða í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt er að finna í núgildandi reglugerðum.
    Reglugerð nr. 1220/2015 um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda verðlagsárið 2016: Í 2. gr. viðauka V, verklagsreglur um stuðning við nýliðun í mjólkurframleiðslu, er um að ræða nýliða þegar einstaklingur eða lögaðili uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
     a.      Hefur ekki áður verið skráður handhafi beingreiðslna samkvæmt samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu á síðustu átta árum, talið frá 1. janúar þess árs sem umsókn um framlag er lögð inn.
     b.      Hefur ekki lagt inn mjólk eða verið eigandi að félagsbúum eða lögaðilum sem rekið hafa kúabú í mjólkurframleiðslu á síðustu átta árum, talið frá 1. janúar þess árs sem umsókn um framlag er lögð inn.
     c.      Hefur ÍSAT-númer í búnaðargjaldsskyldri búgrein og opið virðisaukaskattsnúmer.
     d.      Reiknar sér endurgjald eða er launþegi við reksturinn.
     e.      Er aðili að gæðastýrðu skýrsluhaldi í nautgriparækt og uppfyllir kröfur þess.
    Reglugerð nr. 1221/2015 um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum 2016: Í 2. gr. viðauka IV, um verklagsreglur um úthlutun bústofnskaupastyrkja til frumbýlinga, eru nýliðar þeir sem ekki uppfylla eitt eða fleiri af neðangreindum skilyrðum. Skilyrðin í liðum a, b og c miðast við tímabil átta ár aftur í tímann talið frá 1. janúar árið áður en umsókn er lögð fram í fyrsta sinn:
     a.      Verið skráðir handhafar beingreiðslna.
     b.      Verið eigendur að félagsbúum, einkahlutafélögum eða öðru fyrirtækjaformi sem rekið hefur sauðfjárbú.
     c.      Hafa átt fleiri en 50 fjár samkvæmt forðagæsluskýrslum.

     2.      Hver er meðalaldur bænda á Íslandi?
    Meðalaldur sauðfjárbænda er 56 ár og kúabænda 53 ár samkvæmt upplýsingum úr kjörskrá vegna búvörusamninga. Meðalaldur garðyrkjubænda er 58 ár samkvæmt upplýsingum Matvælastofnunar um handhafa beingreiðslna.

     3.      Hver er stefna stjórnvalda um nýliðun í landbúnaði og hvernig hefur ráðherra beitt sér í þeim efnum?
    
Eitt af samningsmarkmiðum ríkisins í samningaviðræðum við Bændasamtök Íslands vegna búvörusamninga og búnaðarlagasamnings var að skapa aðstæður til að auka nýliðun og tryggja fjölskylduvænan landbúnað með nýjum samningum. Markmið samninganna sem undirritaðir voru 19. febrúar 2016 og taka gildi 1. janúar 2017 er að auðvelda nýliðun svo að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi framleiðenda og tryggt verði að stuðningur ríkisins nýtist sem best starfandi bændum.
    Samkvæmt rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og framlög sem ekki falla undir samninga um starfsskilyrði garðyrkju, nautgriparæktar og sauðfjárræktar á árunum 2017–2026 eru veittar 128 millj. kr. í nýliðunarstuðning. Samkvæmt 6. gr. rammasamningsins er markmið framlaganna að aðstoða nýliða við að hefja búskap og auðvelda ættliðaskipti í landbúnaði. Þá geta nýliðar einnig óskað eftir fjárfestingastuðningi til nýframkvæmda eða endurbóta á eldri byggingum samkvæmt samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar og sauðfjárræktar, sem getur auðveldað nýliðum að hefja búskap og komið til móts við stofnkostnað þegar búskapur er hafinn. Þá er einnig lagt til í framangreindum samningum að vægi greiðslumarks mjólkur og sauðfjár fjari út á samningstímanum en í því hefur falist aðgangshindrun fyrir þá nýliða sem vilja hefja búskap í framangreindum búgreinum með tilheyrandi fjárfestingakostnaði.

     4.      Hversu margir aðilar hafa hafið búskap, tekið yfir búskap eða hafið innlögn afurða:
        a) síðustu 5 ár, b) síðustu 10 ár?
    Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um það hversu margir aðilar hafa hafið búskap, tekið yfir búskap eða hafið innlögn afurða á síðustu 5 eða 10 árum. Upplýsingar liggja fyrir um breytingar á innleggi og handhöfum, en oft er um að ræða breytingar á rekstrarformi þannig að ekki er endilega í þeim tilfellum um að ræða nýliða. Nokkur vinna er því að greina þær upplýsingar sem liggja fyrir og krefst það sérstakrar skoðunar. Þó liggja fyrir upplýsingar um fjölda þeirra nýliða sem fengið hafa nýliðastuðning.

Fjöldi aðila sem fengið hafa nýliðastuðning í sauðfjárrækt 2008–2015: Fjöldi aðila sem fengið hafa nýliðastuðning í mjólkurframleiðslu 2012–2015:
2008 24
2009 19
2010 10
2011 32
2012 16 2012 12
2013 24 2013 7
2014 27 2014 17
2015 38 2015 16
Samtals 190 Samtals 52

     5.      Leggja einhverjar stofnanir, samtök eða félög nýliðun í landbúnaði lið og, ef svo er, með hvaða hætti?
    Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur með verkefninu Búseta í sveit veitt ráðgjöf varðandi ábúendaskipti á bújörðum og einnig ráðgjöf við ættliðaskipti og upphaf búrekstrar. Ráðgjöfin felst í aðstoð við rekstrar- og við­skipta­áætlanir, samningagerð og aðstoð við umsóknir. Þá hafa einnig ýmis búgreinafélög aðgengilegan fróðleik og upplýsingar sem nýtast nýliðum.
    Þá heldur Matvælastofnun utan um úthlutun nýliðunarstyrkja, en stofnunin hefur umsjón með flestum þeim framlögum sem búvörusamningar og búnaðarlagasamningur gera ráð fyrir.