Ferill 536. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1210  —  536. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um kaupauka í Íslandsbanka hf.


    Lokið hefur verið við gerð samninga vegna framsals stöðugleikaeigna, sbr. lög nr. 24/2016, um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingu. Í lögunum er jafnframt mælt fyrir um að Bankasýsla ríkisins fari með eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, sbr. einnig 4. gr. laga nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins, þar sem fram kemur að stofnunin annist samskipti ríkisins við fjármálafyrirtæki sem ríkið á eignarhluti í og tengjast eigandahlutverki þess.
    Í samræmi við framangreint óskaði ráðherra eftir því að Bankasýsla ríkisins aflaði svara við fyrirspurn þessari frá Íslandsbanka hf. og er það birt hér orðrétt:

     1.      Voru greiddir eða samþykktir kaupaukar eða réttur til kaupa á hlutabréfum eða öðrum verðmætum í Íslandsbanka hf. við flutning á eignarhaldi hans til ríkisins og ef svo er, hverjir fengu fyrrgreind réttindi og hvað fékk hver og einn háa fjárhæð?
    Nei.

     2.      Voru gerðir samningar um hlutdeild einstaklinga eða lögaðila í afkomu bankans á næstu árum í tengslum við flutning á eignarhaldi hans til ríkisins? Ef svo er, um hvernig samninga er að ræða?
    Nei.

     3.      Voru í gildi fyrir flutning á eignarhaldinu samningar um valrétti, kaup eða yfirfærslu eignarréttar á hlutabréfum eða hlutdeild í arði eða öðrum ávinningi af rekstri bankans sem tengjast yfirfærslu á eignarhaldi bankans til ríkisins?
    Nei.
            
     4.      Hvaða samningar um kaupauka, rétt til kaupa á hlutabréfum eða yfirfærslu verðmæta til stjórnenda, starfsmanna og annarra aðila voru í gildi við flutning á eignarhaldi bankans til ríkisins?
    Íslandsbanka ber samkvæmt lögum að samþykkja starfskjarastefnu, sem borin er undir samþykki hluthafa á aðalfundi hvers árs. Á aðalfundi bankans 19. apríl 2016 var samþykkt starfskjarastefna. Skv. 5. grein starfskjarastefnunnar, sem fjallar um breytilega kjaraþætti, er einungis heimild til að greiða starfsmönnum og stjórnendum árangurstengdar greiðslur á grundvelli sérstaks árangurskerfis sem aðalfundur bankans árið 2015 samþykkti og þegar hafa verið gerðir sérstakir samningar um. Skulu slíkar greiðslur uppfylla reglur Fjármálaeftirlitsins um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja. Samkvæmt sömu grein starfskjarastefnunnar er stjórn bankans ekki heimilt að gera eða heimila samninga um árangurstengdar greiðslur sem gilda um rekstur bankans eftir 31.12.2016, nema að fengnu samþykki hluthafa bankans og þá á þeim skilmálum sem hluthafar samþykkja á hluthafafundi.