Ferill 610. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1225  —  610. mál.




Svar


innanríkis­ráð­herra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um öryggisúttekt á vegakerfinu.


     1.      Hefur verið gerð EuroRAP-öryggisúttekt á vegakerfinu undanfarin fimm ár á landsvísu og eftir landshlutum þar sem banaslys og önnur alvarleg slys eru skoðuð miðað við fjölda slysa og ekna kílómetra á tilgreindum vegarköflum?
    Öryggisúttekt hefur verið gerð á hluta vegakerfisins samkvæmt aðferðum EuroRAP-verk­efnisins, fyrst fyrir árin 2001 til 2008 og var niðurstaðan birt í skýrslu sem gefin var út árið 2010. Nú er verið að ljúka við úrvinnslu á úttekt sem gerð var árin 2009 til 2014. Í þeirri úttekt var mun lengri hluti vegakerfisins skoðaður eða um 4.500 km auk þess sem upplýsingar um umferð og slys á þriggja ára tímabili, frá 2009 til 2011 og síðan 2012 til 2014, voru bornar saman. Samanburðurinn byggist á opinberum slysa­skráningum og umferðartölum. Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) hafði umsjón með þessari vinnu í samstarfi við viðeigandi stofnanir ráðu­neytisins. Verkefnið hefur verið kynnt víða, þar með talið í innanríkis­ráðu­neytinu og um­hverfis- og sam­göngu­nefnd Alþingis.
    Úttektir EuroRAP-verk­efnisins takmörkuðust við vegi sem falla undir skilgreiningu vegalaga, nr. 80/2007, og Vegagerðin er veghaldari á og beindust einkum að vegum með bundnu slitlagi. Samanlagt voru skoðaðir um 4.000 km við öryggisskoðunarhluta verk­efnisins. Í honum er metið ástand vega og hve mikla umferð þeir þola og á hve miklum hraða má fara um þá með ásættanlegu öryggi.
    Vegagerðin hefur stutt við EuroRap verk­efnið og fengið niðurstöður þess til skoðunar. Vegagerðin vinnur þar að auki að greiningu á umferðar­öryggi vegakerfisins á grundvelli reglu­gerðar um öryggisstjórnun vega­mannvirkja nr. 866/2011 með síðari breytingum en með þeirri reglu­gerð var innleidd tilskipun 2008/96/EB um sama efni. Vegagerðin metur umferðar­öryggi vega í notkun með því að greina staði þar sem slys eru mörg og slysa­tíðni, þ.e. fjöldi slysa á milljón ekinna kílómetra, er há. Hún greinir auk þess vegi í notkun í þeim tilgangi að finna staði þar sem hætta er á að slys verði. Í fyrra tilvikinu er sjónum beint að slysa­stöðum en í hinu tilvikinu er vegur og um­hverfi hans skoðað og metið með tilliti til áhættu. Slíkt mat er lagt til grundvallar við mat á lagfæringum sem ráðast þarf í svo koma megi í veg fyrir slys eða draga úr afleiðingum þeirra slysa sem verða.
    Til að greina slysa­staði út frá gögnum um slys er vegarköflum skipt í undirkafla og slysa­tíðni og fjöldi slysa á þeim fundin. Notuð eru viðmið um slysa­tíðni og fjölda slysa, sem og afleiðingar slysa­nna, til að meta áhættu. Þessi aðferð var þróuð í samstarfi við írsku vegagerðina.
    Eftirfarandi er dæmi um mat á hefðbundnum tveggja akreina vegi (1+1) með bundnu slitlagi:
    Á hverjum 1 km kafla þarf slysa­tíðnin að vera a.m.k. tvisvar sinnum hærri en meðalslysa­tíðni á sambærilegum vegi og annaðhvort þarf:
    – heildar­fjöldi slysa á fimm ára tímabili að vera fimm eða fleiri og að lágmarki verður eitt þeirra slysa að vera banaslys eða slys þar sem alvarleg meiðsli hafa orðið á fólki, eða
    – heildar­fjöldi slysa að vera níu eða fleiri á fimm ára tímabili.
    Önnur viðmið eru notuð fyrir malarvegi og vegi með aðgreindum akstursstefnum.
    Þeir staðir sem koma fram í þessari greiningu eru skoðaðir nánar með tilliti til vegteg­undar og aðstæðna í þeim tilgangi að finna heppilegustu lausnina til úr­bóta. Árlega er unnið að lagfæringum á fjölmörgum stöðum á vegakerfinu og er það m.a. gert á grundvelli þessarar greiningar. Umfangið ræðst af þeim fjármunum sem eru til ráðstöfunar hverju sinni. Verkefnið er liður í umferðar­öryggis­áætlun stjórnvalda og er gerð grein fyrir þeim verk­efnum sem unnið hefur verið að í ársskýrslu um fram­kvæmd hennar.
    Nokkuð stærri hluti vegakerfisins, eða um 4.500 km, eru metnir í áhættugreiningarhluta verk­efnisins. Í honum er áhætta metin og slys skoðuð með því að greina þá staði þar sem mest hætta er á slysum. Fyrirspurnin snýst um seinni liðinn og er svarið miðað við það.
    Loks ber að geta þess að Sam­göngustofa hefur, skv. 5. gr. laga um Sam­göngustofu, nr. 119/2012, eftirlit með því að fylgt sé kröfum um öryggi sam­göngu­mannvirkja og öryggisstjórnun við rekstur þeirra. Sam­göngustofa annast samkvæmt lögunum öryggisúttekt á sam­göngu­mannvirkjum. Skerpt er á þessu hlutverki stofnunarinnar gagnvart Vegagerðinni í 5. gr. vegalaga, nr. 80/2007, sbr. lög nr. 14/2015, þar sem mælt er fyrir um eftirlit Sam­göngustofu með fram­kvæmd umferðar­öryggisstjórnunar vega­mannvirkja samkvæmt verklagsreglum sem stofnunin setur sér.

     2.      Hvernig er röðun áhættumestu vegarkafla­nna miðað við ekna kílómetra?
     3.      Á hvaða vegarköflum verða flest slys?

    Til að svara 2. og 3. lið fyrirspurnarinnar, þ.e. um flest slys og áhættumestu vegakafla­na, fylgja tvær töflur en af þeim má sjá þessa röðun byggða á forsendum EuroRAP-verk­efnisins. Aðferðin er sú að taka tölur yfir alvarleg slys og banaslys og reikna út tíðni og áhættu á grundvelli umferðar eins og hún er sk­ráð af Vegagerðinni. Er mælikvarðinn „látnir og alvarlega slasaðir“ á hverja milljón ekinna kílómetra.
    Þegar upplýsingarnar eru skoðaðar þarf að hafa a.m.k. tvennt í huga. Annars vegar áhættu á hvern ekinn kílómetra og hins vegar fjölda slysa eins og fram kemur í meðfylgjandi töflum um áhættumestu vegina 2009–2014 og slysa­mestu vegina 2009–2014. Af þeim má ráða að áhættumestu vegirnir eru stuttir eða fáfarnir vegir en slysa­mestu vegirnir eru oftast áhættuminni, með öðrum orðum eru slys tiltölulega fá miðað við umferð. Báðar töflur sýna til að mynda að vegir eins og Grindavíkur­vegur (43) og hluti af hringveginum við Egilsstaði eru varasamir, auk fleiri vega. Þetta gefur vísbendingar um hvert beina ætti athyglinni til að fækka slysum.
    Slysa­mestu vegirnir eru á höfuð­borgar­svæðinu þar sem umferðarþungi er mikill. Þar er ­vegur 49, Nes­braut, efstur á blaði. Við greiningu kemur í ljós að slys er mest við ljósastýrð gatnamót á vegarkafla­num. Umferðarmestu gatnamót landsins sem eru milli Reykjanes­brautar og Miklu­brautar eru hins vegar ekki áhættusöm.
    Í undirbúningi er að birta upplýsingar EuroRAP myndrænt á slysa- og áhættukortum. Það yrði annaðhvort á sam­eigin­legu Evrópukorti, sem unnið yrði í London, eða fyrir Ísland sérstaklega í samvinnu við íslenskt fyrirtæki en það hefur verið gert áður. Upplýsingarnar eru nánast fullunnar.
    Verið að leggja síðustu hönd á öryggisskoðun vegakerfisins samkvæmt EuroRAP en þar er um að ræða ítarlega samræmda úttekt á öllum helstu vegum landsins. Upplýsingar eru byggðar á hátt í 200 mismunandi atriðum og verða kerfisbundið settar inn í gagnagrunninn ViDA sem er hluti af alþjóðlegu átaki Sameinuðu Þjóðanna, Decade of Action, sem Ísland er aðili að. Markmið átaksins Decade of Action er að fækka umferðarslysum í heiminum um helming og er EuroRap-verk­efnið liður í að ná því markmiði.
    Við gerð svarsins studdist ráðu­neytið við upplýsingar frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda og Vegagerðinni, eftir því sem við átti.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Áhættumestu vegir 2009–2014

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Slysa­mestu vegir 2009–2014

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.