Ferill 630. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1241  —  630. mál.




Svar


innanríkis­ráð­herra við fyrirspurn frá Willum Þór Þórssyni um eftirlit með rekstri Íslandspósts og póst­þjónustu.


     1.      Hefur Póst- og fjarskipta­stofnun heimilað Íslandspósti ohf. tilteknar leiðréttingarfærslur á grundvelli al­þjónustu, þ.e. að kostn­aður sé færður af samkeppnisrekstri bæði innan og utan al­þjónustu yfir á einkaréttarlega starfsemi fyrirtækisins? Ef svo er, telur ráð­herra að slíkar leiðréttingarfærslur samræmist kröfum sem gerðar eru í reglu­gerð nr. 313/2005 um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekenda?
    Eitt af verk­efnum Póst- og fjarskipta­stofnunar er að staðreyna hvernig Íslandspóstur færir kostnaðarbókhald félagsins, þar á meðal um skilin milli einkaréttar og annars rekstrar félagsins. Þau ákvæði laga um póst­þjónustu sem hér koma til álita eru 16. og 18. gr. laga um póst­þjónustu, nr. 19/2002. Þeim til stuðnings er reglu­gerð nr. 313/2005 um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekenda.
    Gera þarf greinarmun á þeim upplýsingum sem Íslandspósti er skylt að senda Póst- og fjarskipta­stofnun, sbr. t.d. 13. gr. reglu­gerðar nr. 313/2005 um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekenda, og þeim upplýsingum sem heimilt er að birta, í heild eða að hluta, sbr. 14. gr. Eðli málsins samkvæmt er Íslandspósti gert að skila mun nákvæmari upplýsingum og skýringum við einstaka liði í bókhaldi félagsins til Póst- og fjarskipta­stofnunar en birtar eru opinberlega. Þetta á við hvort sem það er gert í ársreikningi félagsins eða í ákvörðunum Póst- og fjarskipta­stofnunar. Slíkar ákvarðanir tengjast m.a. samþykki Póst- og fjarskipta­stofnunar á gjaldskrá félagsins innan einkaréttar sem og yfirlýsingum sem stofnunin hefur gefið og tengjast bókhaldslegri aðgreiningu Íslandspósts og verðákvörðunum. Í tengslum við verk­efni Póst- og fjarskipta­stofnunar um að leggja mat á kostnaðaraðgreiningu einkaleyfis­þjónustu og samkeppnis­þjónustu var unnið að viðamikilli úttekt á kostnaðarbókhaldi Íslandspósts og lauk fyrsta áfanga hennar með ákvörðun Póst- og fjarskipta­stofnunar nr. 18/2013. Meginniðurstaða þeirrar úttektar var að kostnaðarbókhald og bókhaldslegur aðskilnaður Íslandspósts byggði á viðurkenndri aðferðafræði sem væri í samræmi við ákvæði laga um póst­þjónustu og reglu­gerðar nr. 313/2005 um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekenda. Þó taldi stofnunin þörf á að gera ýmsar endur­bætur á forsendum og fram­kvæmd þessara þátta. Í ákvörðuninni voru því nokkur fyrirmæli um úr­bætur og frekari greiningar á kostnaði félagsins. Í tengslum við eftir­mál ákvörðunar Pósts- og fjarskipta­stofnunar nr. 18/2013 hefur stofnunin birt tvær yfirlýsingar, fyrst 30. júní 2015 sem tók til bókhaldslegs aðskilnaðar félagsins til loka ársins 2012 þar sem kostn­aður dreifikerfisins er flokkaður eftir svokölluðum ABC-kostnaðarflokkunarstaðli og síðan 4. mars 2016 sem tók til bókhaldslegs aðskilnaðar félagsins á árunum 2013 og 2014 þar sem kostn­aður við dreifingarkerfi félagsins var flokkaður á grundvelli svokallaðs LRAIC- kostnaðarflokkunarstaðals.
    Samkvæmt Póst- og fjarskipta­stofnun eru engar leiðréttingarfærslur gerðar í bókhaldi Íslandspósts frá og með árinu 2013 eftir að tekið var upp að flokka kostnaðinn samkvæmt fyrr­nefndum LRAIC-staðli, enda leiðréttingarfærslurnar tilkomnar vegna þess að hið eldra ABC-líkan félagsins náði ekki yfir al­þjónustubyrði félagsins með nægjanlega skýrum hætti. Rekstri Íslandspósts sem fellur undir einkarétt er ætlað að standa undir metinni byrði sem al­þjónustuskyldan orsakar.
    Allar upplýsingar sem snúa að hinum svokölluðu leiðréttingarfærslum hafa verið birtar opinberlega á vefsíðu Póst- og fjarskipta­stofnunar.
    Varðandi það hvort ráð­herra telji að leiðréttingarfærslur samræmist kröfum sem gerðar eru í reglu­gerð nr. 313/2005 um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekenda skal tekið fram að samkvæmt lögum nr. 69/2003, um Póst- og fjarskipta­stofnun, er stofnunin sjálfstæð stofnun og er hægt að bera ákvarðanir hennar undir úrskurðar­nefnd fjarskipta- og póst­mála, sbr. 13. gr. laganna. Ráðherra hefur því ekki valdheimildir til þess að endur­skoða ákvarðanir stofnunarinnar.

     2.      Hversu háar eru leiðréttingarfærslur Íslandspósts ohf. sem Póst- og fjarskipta­stofnun hefur samþykkt frá árinu 2007? Óskað er eftir sundurliðun á milli ára og sundurliðun eftir einkarétti, samkeppnisrekstri innan al­þjónustu og samkeppnisrekstri utan al­þjónustu innan hvers árs.
    Upplýsingar í meðfylgjandi töflu eru frá Póst- og fjarskipt­stofnun og sýna fjárhæðir leiðréttingarfærslna vegna áranna 2007–2012.

                              Yfirlit yfir leiðréttingarfærslur 2007–2012.

Ár

Einkaréttur
Samkeppni innan al­þjónustu Samkeppni
utan al­þjónustu
Samtals
2012 315.000.000 -209.765.000 -105.235.000 0
2011 300.000.000 -193.283.580 -106.716.420 0
2010 202.500.000 -112.500.000 -90.000.000 0
2009 213.500.000 -164.000.000 -49.500.000 0
2008 190.000.000 -204.000.000 14.000.000 0
2007 235.000.000 -305.000.000 70.000.000 0
    
    Eins og fram kemur í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar hafa engar leiðréttingarfærslur verið gerðar í bókhaldi fyrirtækisins frá og með árinu 2013. Það ár tók Íslandspóstur upp LRAIC-líkan við færslu kostnaðarbókhalds félagsins. Það líkan byggir á annarri aðferðafræði við að nálgast al­þjónustukostnað félagsins en eldra líkanið. ABC-kostnaðarlíkanið var ástæðan fyrir þeim leiðréttingarfærslum sem spurt er um, eins og áður hefur komið fram.

     3.      Telur ráð­herra að Íslandspósti ohf. sé heimilt að taka hluta afkomu mismunandi rekstrarþátta og dótturfélaga og birta sem eina samtölu eignarekstrar samkvæmt þeim lögum sem um starfsemi fyrirtækisins gilda eða ber fyrirtækinu að aðgreina reiknaðar tekjur mismunandi rekstrareininga og afkomu dótturfélaga í ársreikningum fyrirtækisins í samræmi við kröfur um bókhaldslegan aðskilnað, sbr. framangreinda reglu­gerð nr. 313/2005? Óskað er eftir sundurliðun eignarekstrar milli ára og sundurliðun eftir einkarétti, samkeppnisrekstri innan al­þjónustu, annarri póst­þjónustu og samkeppnisrekstri utan al­þjónustu innan hvers árs frá árinu 2006.
    Til skýringar er rétt að taka fram að liðurinn „eignarekstur“ í skýringum í ársreikningum Íslandspósts felur í sér svo­nefnda mótfærslu, „tekjufærslu“, vegna reiknaðrar ávöxtunarkröfu fjárbindingar í rekstrarfjármunum sem deilt hefur verið á einstaka starfsþætti, auk innheimtra vaxtatekna og greiddra vaxtagjalda, söluhagnaðar eða taps á eignum, áhrifa dótturfélaga og óreglulegra liða. Því er undir liðnum „eignarekstur“ í raun um að ræða afstemmingu á milli reiknaðs kostnaðar framangreindra liða, þ.e. fjárbindingar og raunkostnaðar samkvæmt fjárhagsbókhaldi. Mismunurinn, „eignarekstur“, getur því verið mjög breytilegur á milli ára.
    Það heyrir undir Póst- og fjarskipta­stofnun, sem er sjálfstætt eftirlitsstjórnvald, að taka afstöðu til framsetningar á tilteknum upplýsingum, þ.m.t. hvort þær standist kröfur 14. gr. og 16. gr. reglu­gerðar nr. 313/2005. Eins og áður sagði má bera ákvarðanir stofnunarinnar undir úrskurðar­nefnd um póst- og fjarskipta­mál.
    Ársreikningur Íslandspósts ohf. er birtur opinberlega á vefsíðu fyrirtækisins en ekki hefur verið birt opinberlega með ítarlegri hætti hvernig eignarekstri er dreift á einstaka starfsþætti eða tiltekna þjónustu frekar en sundurliðun á öðrum gjöldum. Það er undir Íslandspósti komið að birta nánari sundurliðun ársreiknings og upplýsingar úr bókhaldi.
    Eftirfarandi dæmi vegna ársins 2014 fylgir þó hér með til skýringar.

     Sundurliðun á eignarekstri – fjárhæðir í þús. kr.
Reiknaðir fjármagnsliðir og afskriftir umfram bókfærðir 306.492
Afkoma dóttur- og hlutdeildarfélaga -74.969
Annað 2.397
Samtals 233.921

     Eignarekstri skipt á starfsþætti.
Eignarekstur gjaldfærður á starfsþætti* Eignarekstur, sundurliðun
Einkaréttur Samkeppni innan al­þjónustu Samkeppni utan al­þjónustu Fjármagns-
krafa samtals
    Bókfærður fjármagns-
kostn­aður
Hagnaður af sölu eigna, dótturfé­lög o.fl.          Mismunur „Eignarekstur“
    129.942                257.194 27.119 414.255     -107.763     -72.572     233.921
    *Innifalið í rekstrargjöldum viðkomandi starfsþáttar.