Ferill 648. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1245  —  648. mál.

2. umræða.


Nefnd­arálit með breytingartil­lögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002 (styrkur til hitaveitna).

Frá atvinnuvega­nefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Davíðsson og Sigríði Klöru Árnadóttur frá Kjósarhreppi.
    Með frumvarpinu er lagt til að ef tiltekin skilyrði verða uppfyllt verði heimilt að miða stofnstyrk fyrir nýjar hitaveitur við allt að 16 ár af áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu. Skv. 12. gr. gildandi laga er miðað við 12 ár.
    Við umfjöllun um málið kom fram að unnið væri að stofnun hitaveitu í Kjósarhreppi. Nefndin leggur til breytingu á gildistökugrein frumvarpsins svo að ljóst sé að ákvæði laganna nái til hitaveitu ef undir­búningur er byrjaður eða fram­kvæmdir hafnar. Jafnframt leggur nefndin til þá breytingu á orðalagi 2. tölul. 1. gr. frumvarpsins að hitaveitan skuli sýna fram á getu til að standa við skuldbindingar sínar með rekstrar­áætlun til 16 ára. Þá er lögð til smávægileg breyting á orðalagi 4. tölul. 1. gr.
    Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson og Páll Jóhann Pálsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      2. tölul. orðist svo: Viðkomandi hitaveita hefur ábyrgð hlutaðeigandi sveitarfélags og skal sýna fram á getu til að standa undir skuldbindingum sínum með rekstrar­áætlun til 16 ára.
                  b.      4. tölul. orðist svo: Tryggt er að styrkurinn sé einungis til þess fallinn að eigandi (eigendur) hitaveitunnar fái lágmarksarð af fjárfestingunni.
     2.      Við 2. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Um fram­kvæmdir sem eru í undirbúningi eða eru þegar hafnar fer samkvæmt ákvæðum laga þessara.

Alþingi, 27. apríl 2016.

Jón Gunnarsson,
form., frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. Björt Ólafsdóttir.
Kristján L. Möller. Þorsteinn Sæmundsson. Þórunn Egilsdóttir.