Ferill 601. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1249  —  601. mál.




Svar


félags- og húsnæðis­mála­ráð­herra við fyrirspurn frá Unni Brá Kon­ráðsdóttur um vasapeninga og hjúkrunarheimili.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er staðan á tilraunaverk­efni um afnám vasapeningakerfis á hjúkrunarheimilum sem ráð­herra boðaði á fundi Landssambands eldri borgara 5. maí 2015?
     2.      Hvaða hjúkrunarheimili tóku þátt í verk­efninu?
     3.      Hefur árangur verk­efnisins verið metinn?
     4.      Liggja fyrir til­lögur um að taka upp breytt fyrirkomulag þar sem einstaklingar greiða milliliðalaust fyrir alla þjónustu sem þeir fá á hjúkrunarheimilum, að undanskilinni heilbrigðis­þjónustu og annarri u­mönnun?


    Hugmyndir um breytt fyrirkomulag á greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum hafa um nokkurt skeið verið til umræðu í vel­ferðar­ráðu­neytinu, m.a. í tengslum við hugsanlega yfirfærslu öldrunar­þjónustu til sveitarfélaga. Núgildandi greiðslufyrirkomulag byggist á greiðslu daggjalda eða sérstakra framlaga úr ríkissjóði til hjúkrunarheimila. Jafnframt greiða einstaklingar með tekjur yfir ákveðnum mörkum (81.942 kr. á mánuði eftir skatt) framlag til hjúkrunarheimilanna sem getur að hámarki numið um 384.740 kr. á mánuði.
    Þegar um varanlega búsetu á dvalar- eða hjúkrunarheimili er að ræða falla lífeyrisgreiðslur frá Trygginga­stofnun niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að búseta hefst. Íbúi á dvalar- eða hjúkrunarheimili getur átt rétt á ráðstöfunarfé sem á árinu 2016 er að hámarki 58.529 kr. á mánuði. Ekki þarf að sækja sérstaklega um ráðstöfunarfé, sem er tekjutengt og fellur niður ef tekjur eru yfir 90.045 kr. á mánuði.
    Í þeim hugmyndum sem hafa verið til umræðu felst m.a. að íbúar á hjúkrunarheimilum greiði milliliðalaust fyrir al­menna framfærslu sem þeir fá þar, þ.e. fyrir mat, þrif, þvott, tómstundastarf og húsaleigu. Um heilbrigðis­þjónustu, þ.m.t. lyf, og aðra u­mönnun gildi hins vegar al­mennar reglur. Þetta er í takt við það fyrirkomulag sem tíðkast t.d. í Danmörku og víðar. Í framangreindum hugmyndum hefur verið gert ráð fyrir að fjárhæð húsaleigu tæki mið af stærð og gæðum húsnæðisins en einnig af tekju- og eignastöðu einstaklinga. Jafnframt er gert ráð fyrir að viðkomandi geti átt rétt á húsnæðis­bótum.
    Með þessum breytingum er stefnt að auknu sjálfræði íbúanna og afnámi svokallaðs „vasapeningakerfis“ en það hefur um langt árabil sætt gagnrýni, m.a. af hálfu samtaka aldraðra. Enn fremur er rétt að nefna sérstaka athugun umboðs­manns Alþingis í tilefni ýmissa erinda og kvartana um réttarstöðu aldraðra sem hann gerði grein fyrir í bréfi til ráð­herra árið 2008. Kjarninn í hugmyndafræði nýs greiðslufyrirkomulags á hjúkrunarheimilum er að sem mest jafnræði ríki á milli þeirra einstaklinga sem búa á dvalar- og hjúkrunarheimilum og þeirra sem búa heima. Jafnframt er það haft að leiðarljósi að nýtt greiðslufyrirkomulag skapi forsendur fyrir auknu valfrelsi einstaklinga til að ákvarða hvaða þjónustu þeir vilja fá.
    Ráðherra hefur, að höfðu sam­ráði við heilbrigðis­ráð­herra, skipað starfshóp til að gera nánari til­lögur um breytt greiðslufyrirkomulag á dvalar- og hjúkrunarheimilum þar sem m.a. verði komið á sérstöku tilraunaverk­efni í samvinnu við eitt eða fleiri hjúkrunarheimili. Hópurinn er skipaður fulltrúum frá Landssambandi eldri borgara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í vel­ferðar­þjónustu, Trygginga­stofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands og þremur fulltrúum frá vel­ferðar­ráðu­neytinu. Formaður starfshópsins er Birna Bjarnadóttir.