Ferill 706. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1259  —  706. mál.




Svar


mennta- og menningar­mála­ráð­herra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um flutning verk­efna til sýslu­mannsembætta.


     1.      Hvernig miðar flutningi verk­efna frá ráðu­neytinu til sýslu­mannsembætta samkvæmt aðgerða­áætlun um flutning verk­efna til embætta sýslu­manna sem gerð var samkvæmt ákvæði til b­ráðabirgða I í lögum nr. 50/2014?
    Ekkert verk­efni hefur verið flutt úr ráðu­neytinu til sýslu­mannsembætta.

     2.      Telur ráð­herra unnt að flytja önnur verk­efni úr ráðu­neytinu til sýslu­mannsembætta en þau sem tiltekin eru í fyrrgreindri aðgerða­áætlun?
    Ráðherra tók ekki afstöðu til tillagna í aðgerða­áætlun frá janúar 2015 um flutning verk­efna úr ráðu­neytinu til sýslu­mannsembætta. Sýslu­menn gerðu þrjár til­lögur um flutning tveggja verk­efna sem þeir töldu að heyrðu undir mennta- og menningar­mála­ráðu­neyti, annars vegar innheimtu gjaldfallinna en ógreiddra útlána Lánasjóðs íslenskra náms­manna en ákvörðun um tilhögun innheimtunnar er á forræði stjórnar sjóðsins samkvæmt lögum um sjóðinn, hins vegar útgáfu prófskírteina, löggildinga og sveins- og meistarabréfa í iðngreinum sem eru á ábyrgð atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðu­neytis auk leyfi­sveitinga til kennara en í ársbyrjun 2015 var há­skólum sem brautskrá leik­skóla- og grunn­skólakennara falið að afhenda þeim leyfisbréf við brautskráningu. Ráðuneytið hefur á síðustu árum flutt verk­efni á sviði sjóðaumsýslu, leyfi­sveitinga og eftirlits til undir­stofnana og hyggst halda áfram á sömu braut en telur að þau henti ekki starfsemi sýslu­mannsembætta.

     3.      Hvaða aðferðum er beitt við ákvörðun um að flytja verk­efni til sýslu­mannsembættis og hvað kemur einkum í veg fyrir flutning?
    Við ákvörðun um flutning verk­efna er metið hvort stofnun, t.d. sýslu­mannsembætti, hefur faglega kunnáttu á starfsemi í málaflokkum ráðu­neytisins, hvort hún ræður yfir nauðsynlegum kerfum eða aðferðafræði og hversu vel verk­efni, sem stendur til að flytja, fellur að verk­efnum sem eru fyrir hjá viðkomandi aðila.