Ferill 435. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 1266  —  435. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefnd­arálit


um frumvarp til laga um al­mennar íbúðir.

Frá vel­ferðar­nefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Árnadóttur, Bolla Þór Bollason og Rún Knútsdóttur frá vel­ferðar­ráðu­neyti, Gylfa Arnbjörnsson og Magnús M. Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Yngva Harðarson og Vigni Jónsson frá Analytica ehf., Döllu Ólafsdóttur frá Bandalagi starfs­manna ríkis og bæjar, Björn Arnar Magnússon frá Brynju – hússjóði Öryrkjabandalagsins, Benedikt Sigurðarson frá Búseta á Norðurlandi hsf., Aðalstein Þorsteinsson og Snorra Björn Sigurðsson frá Byggða­stofnun, Auðun Frey Ingvarsson frá Félagsbústöðum hf., Guðrúnu Björnsdóttur frá Félags­stofnun stúdenta, Önnu Guðmundu Ingvarsdóttur, Her­mann Jónasson og Úlfar Þ. Indriðason frá Íbúðalánasjóði, Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Friðrik Sigurðsson frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Birgi Björn Sigurjónsson, Einar Bjarka Gunnarsson, Ellý A. Þorsteinsdóttur, Helgu Jónu Benediktsdóttur og Ívar Örn Ívarsson frá Reykjavíkurborg, Ástríði Þóreyju Jónsdóttur, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Skúla Jónsson frá ríkisskattstjóra, Guðjón Bragason, Karl Björnsson og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jóhann Má Sigurbjörnsson frá Samtökum leigjenda, Halldór Árnason og Hannes Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Lúðvík Elíasson og Sigríði Benediktsdóttur frá Seðlabanka Íslands, Tryggva Másson frá Stúdenta­ráði Há­skóla Íslands, Ástu S. Helgadóttur, umboðs­mann skuldara, og Lovísu Ósk Þrastardóttur frá umboðs­manni skuldara, Björn Brynjúlf Björnsson og Mörtu Guðrúnu Blöndal frá Við­skipta­ráði Íslands og Lilju Þorgeirsdóttur og Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfs­manna ríkis og bæja, Búseta á Norðurlandi hsf., Félagsbústöðum hf., Félags­stofnun stúdenta, fjár­málaskrifstofu Reykjavíkurborgar, Hafnar­fjarðarbæ, Hagsmunasamtökum heimilanna, Íbúðalánasjóði, Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Mosfellsbæ, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum leigjenda á Íslandi, Seðlabanka Íslands, Stúdenta­ráði Há­skóla Íslands, umboðs­manni skuldara, vel­ferðarsviði Reykjavíkurborgar, Við­skipta­ráði Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.

Markmið og efni frumvarpsins.
    Frumvarpinu er ætlað að leggja grunn að nýju leiguíbúðakerfi. Meginmarkmið þess eru aukið framboð leigu­húsnæðis og að húsnæðiskostn­aður fólks verði í samræmi við greiðslugetu. Miðað var við að það tæki til fólks í tveimur lægstu tekjufimmtungum.
    Kveðið er á um heimild ríkis og sveitarfélaga til að styrkja kaup eða byggingu svo­nefndra al­mennra íbúða, leiguíbúða sem ætlaðar eru fólki undir tilgreindum tekju- og eignamörkum. Framlag ríkis verði 18% af stofnvirði íbúðanna og geti falist í beinu fjárframlagi eða vaxtaniðurgreiðslu. Framlag sveitarfélaga verði 12% af stofnvirðinu og geti falist í beinu fjárframlagi, úthlutun lóðar eða lækkun eða niðurfellingu á gjöldum. Krefjast megi þess að fram­lögin verði endurgreidd þegar lán af íbúðunum hafa verið greidd upp, en endurgreiðslur skuli þá nýttar til að styðja við öflun fleiri al­mennra íbúða sé þeirra þörf.
    Kveðið er á um nýja teg­und sjálfseignar­stofnana, svo­nefnd al­menn íbúðafé­lög, sem haldi utan um al­mennar íbúðir. Einnig er þó gert ráð fyrir að veita megi starfandi leigufé­lögum sem eru í eigu sveitarfélaga eða uppfylla skilyrði til að fá lán frá Íbúðalánasjóði samkvæmt núgildandi 37. gr. laga um húsnæðis­mál, nr. 44/1998, stofnfram­lög. Þá verði heimilt að veita ­sveitarfé­lögum stofnfram­lög til öflunar íbúða fyrir þá sem þeim ber lagaskylda til að veita úrlausn í húsnæðis­málum.
    Mælt er fyrir um greiðslur frá eigendum al­mennra íbúða í nýjan Húsnæðis­málasjóð. Ætlunin er að þegar fram í sækir styrki sjóðurinn frekari kaup eða byggingar íbúða og al­menna íbúðakerfið verði þannig sjálfbært.

Al­menn ákvæði.
1. gr. Markmið og gildissvið.
    Í vinnu við mótun húsnæðisstefnu í aðdraganda framlagningar frumvarpsins var lagt til grundvallar að leiga yrði jafnan ekki umfram 20–25% af tekjum. Nefndin telur æskilegt að þetta markmið komi fram í lögunum og leggur til viðbót þess efnis við fyrri málslið 1. mgr.
    Í 2. mgr. er ákvæði um gildissvið laganna. Málsgreinin afmarkar þó ekki gildissviðið umfram það sem leiðir af öðrum ákvæðum. Nefndin leggur því til að hún falli brott.

2. gr. Skilgreiningar.
    Í 1. tölul. eru „al­mennar íbúðir“ skilgreindar. Nokkrir gestir og umsagnaraðilar nefnd­ar­innar bentu á að heitið gæti valdið misskilningi því orðasambandið „al­mennur leigumarkaður“ væri vanalega notað um leiguíbúðir á frjálsum markaði. Í ljósi ábendinganna leggur nefndin til að rætt verði um „al­mennar félagsíbúðir“, enda um sérstakt form leiguíbúða að ræða.
    Í 2. tölul. er „al­mennt íbúðafélag“ skilgreint. Fram kemur að „fé­lögin“ séu sjálfseignar­stofnanir. Sjálfseignar­stofnanir eru ekki fé­lög, enda eiga þær sig sjálfar og er stýrt af sjálfstæðri stjórn en ekki af félags­mönnum. Nefndin telur því villandi að í heitinu komi fram orðið „félag“. Til að skýra um hvers konar lögaðila er að ræða leggur nefndin til að þess í stað verði notað heitið „húsnæðissjálfseignar­stofnun“.
    Í 3. tölul. er „áfangi“ skilgreindur. Hugtakið hefur aðeins þýðingu í tengslum við 19. gr. Nefndin leggur til breytingu á orðalagi þannig að ekki verði talað um áfanga í 19. gr. og leggur því jafnframt til að 3. tölul. falli brott.
    Í 4. tölul. eru „efnaminni leigjendur“ skilgreindir. Nefndin telur óheppilegt að skilgreina hóp fólks sem „efnaminni“. Nefndin leggur því til að orðið verði fellt brott úr frumvarpinu. Þess í stað verði vísað til tekju- og eignamarka skv. 12. gr. þegar við á.
    Í 5. tölul. er „íbúðar­húsnæði á vegum sveitarfélaga“ skilgreint. Nefndin leggur til að seinni hluti skilgreiningarinnar, þar sem í dæmaskyni eru taldir upp tilteknir hópar sem sveitarfé­lögum beri lagaskylda til að veita úrlausn í húsnæðis­málum, falli brott. Það ræðst af öðrum lögum hverjum sveitarfé­lögum beri hverju sinni lagaskylda til að veita úrlausn í húsnæðis­málum, sbr. einkum lög um félags­þjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Nefndin telur því ekki heppilegt að telja upp dæmi í lögum um al­mennar íbúðir.
    Í 8. tölul. er „stofnvirði al­mennra íbúða“ skilgreint. Nefndin leggur til viðbót við ákvæðið til að árétta að annar kostn­aður við kaup en kaupverðið, svo sem stimpilgjöld og gjöld fyrir þinglýsingu kaupsamnings, afsals og veðbréfa, teljist til stofnvirðis.

Al­menn íbúðafé­lög.
4. gr. Al­mennt íbúðafélag.
    Í fyrri málslið 2. mgr. segir að samþykktir eða skipulagsskrá al­menns íbúðafélags skuli hafa hlotið staðfestingu ráð­herra áður en félag hefur starfsemi sína og er tilkynnt til skráningar hjá sjálfseignar­stofnanaskrá. Ríkisskattstjóri benti á að samspil ákvæðisins og 1. mgr. 7. gr. laga um sjálfseignar­stofnanir sem stunda atvinnurekstur, nr. 33/1999, væri óljóst. Í síðar­nefnda ákvæðinu segir að stjórn sjálfseignar­stofnunar sem ætlað er að stunda atvinnurekstur skuli tilkynna hana til skráningar hjá sjálfseignar­stofnanaskrá áður en atvinnurekstur hefst, þó eigi síðar en sex mánuðum frá dagsetningu stofnskjals. Nefndin leggur til að stjórn skuli tilkynna ráð­herra um stofnun eigi síðar en sex mánuðum frá dagsetningu stofnskjals. Ráðherra skuli svo að staðfestingu lokinni framsenda tilkynninguna til skráningar hjá sjálfseignar­stofnanaskrá.
    Í 3. mgr. segir að ef rekstrarafgangur verði af rekstri al­menns íbúðafélags skuli hann nýttur til frekari uppbyggingar í samræmi við ákvæði laganna. Nefndin telur æskilegt að al­menn íbúðafé­lög hafi meira svigrúm við nýtingu rekstrarafgangs, þannig að hann megi t.d. nýta til að jafna út leigu milli íbúa eða styrkja eigið fé. Nefndin leggur því til að málsgreinin falli brott.
    Í 4. mgr. segir að með al­menn íbúðafé­lög skuli fara sem fé­lög með takmarkaðri ábyrgð eftir því sem við á. Hliðstæð regla gildir þegar skv. 4. mgr. 8. gr. laga um sjálfseignar­stofnanir sem stunda atvinnurekstur. Nefndin leggur því til að frumvarpsákvæðið falli brott.

5. gr. Stofnun félags og samþykktir.
    Í 1. og 2. mgr. er fjallað um stofnun og stofnfé al­mennra íbúðafélaga. Ákvæði um sama efni eru þegar í 2. gr., 1. mgr. 10. gr., 1. og 3. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. laga um sjálfseignar­stofnanir sem stunda atvinnurekstur. Nefndin leggur því til að frumvarpsákvæðin falli brott.
    Í 3. mgr. er upptalning á atriðum sem skuli fjalla um í samþykktum eða skipulagsskrá al­menns íbúðafélags. Ríkisskattstjóri benti á að í hana vantaði atriði sem 9. gr. laga um sjálfseignar­stofnanir sem stunda atvinnurekstur kveður á um að skuli greina í samþykktum eða skipulagsskrá sjálfseignar­stofnunar. Nefndin leggur til að fram komi að fjallað skuli um stofnfé, hvort tekið skuli við öðrum fjármunum en reiðufé í tengslum við stofnun, starfstíma stjórnar­manna, hvernig háttað skuli vali nýs stjórnar­manns í lausa stöðu og hvert reikningsárið skuli vera.
    Í 5., 7. og 8. tölul. 3. mgr. eru ákvæði um aðild að al­mennum íbúðafé­lögum og félagsfundi. Al­menn íbúðafé­lög eru sjálfseignar­stofnanir, sbr. 2. tölul. 2. gr. Engir félags­menn eru í sjálfseignar­stofnunum og því engir félagsfundir. Æðsta vald í málefnum sjálfseignar­stofnana eru sjálfstæðar stjórnir. Nefndin telur því marklaust að ræða um aðild að al­mennum íbúðafé­lögum eða félagsfundi og leggur til frumvarpsákvæðin falli brott.
    Í 20. tölul. 3. mgr. segir að fjallað skuli um ráðstöfun eigna félagsins umfram skuldir ef því er slitið. Fram kemur í 3. mgr. 11. gr. og 3. tölul. 5. mgr. 24. gr. að þeim skuli ráðstafað til Húsnæðis­málasjóðs. Nefndin leggur því til að 20. tölul. 3. mgr. falli brott.

6. gr. Félagsstjórn og fram­kvæmdastjóri.
    Ákvæði hliðstæð fyrri málslið 1. mgr., 1. og 3.–6. málsl. 3. mgr., 4. mgr., fyrri málslið 5. mgr., 6.–8. mgr. og fyrri málslið 9. mgr. greinarinnar eru þegar í fyrri málslið 1. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. 14. gr., 1. mgr. 15. gr., 1. mgr. 16. gr., 1. mgr. 17. gr., 1. og 3. málsl. 20. gr., fyrri málslið 21. gr., fyrri málslið 1. mgr. og 2. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 26. gr. laga um sjálfseignar­stofnanir sem stunda atvinnurekstur. Nefndin leggur því til að frumvarpsákvæðin falli brott.
    Í síðari málslið 1. mgr. segir að stjórn skuli kjörin til tveggja ára nema annað sé ákveðið í samþykktum. Málsliðurinn verður óþarfur ef bætt er við 3. mgr. 5. gr. fyrirmælum um að kveðið skuli á um starfstíma stjórnar­manna í samþykktum, líkt og nefndin leggur til. Nefndin leggur því til að hann falli brott.
    Nefndin leggur til að á eftir 2. mgr. komi ný málsgrein um kynjahlutföll í stjórn. Ákvæði um kynjahlutföll í stjórn eru í lögum um ýmiss konar félagaform, sbr. til dæmis 4. málsl. 1. mgr. 27. gr. laga um samvinnufé­lög, nr. 22/1991, og 1. mgr. 63. gr. laga um hlutafé­lög, nr. 2/1995. Að mati nefnd­ar­innar er eðlilegt að hliðstæð fyrirmæli gildi um al­menn íbúðafé­lög. Nefndin leggur þó ekki til að áskilinn verði tiltekinn lágmarksfjöldi starfs­manna til að ákvæðið eigi við.
    Í síðari málslið 5. mgr. segir að stjórn geti veitt stjórnar­mönnum og fram­kvæmdastjóra heimild til að rita firma félags ef ekki er kveðið á um annað í samþykktum eða skipulagsskrá þess. Í 2. mgr. 26. gr. laga um sjálfseignar­stofnanir sem stunda atvinnurekstur segir aftur á móti að ákveða megi í samþykktum að einstakir stjórnar­menn eða fram­kvæmdastjórar hafi ritunarréttinn. Nefndin telur ekki tilefni til að hafa sérreglu um þetta efni í lögum um al­mennar íbúðir og leggur því til að frumvarpsákvæðið falli brott.
    Í síðari málslið 9. mgr. segir að óheimilt sé að velja í stjórn al­menns íbúðafélags einstaklinga sem koma að opinberu eftirliti með því eða ákvörðun um stofnfram­lög til slíkra félaga hjá ríki eða sveitarfé­lögum. Það leiðir þegar af 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að starfsmaður ríkis eða sveitarfélags væri vanhæfur til meðferðar máls al­menns íbúðafélags þar sem hann á sæti í stjórn. Nefndin leggur því til að frumvarpsákvæðið falli brott.

7. gr. Störf stjórnar.
    Ákvæði hliðstæð greininni eru í 1.–3. mgr. og fyrri málslið 4. mgr. 23. gr. og fyrri málslið 1. mgr. og fyrri málslið 2. mgr. 24. gr. laga um sjálfseignar­stofnanir sem stunda atvinnurekstur. Nefndin leggur því til að frumvarpsgreinin falli brott. Í síðari málslið 4. mgr. frumvarpsgreinarinnar segir að vísu að stjórnarformaður og fram­kvæmdastjóri undirriti fundargerðir en í fyrri málslið 4. mgr. 23. gr. laga um sjálfseignar­stofnanir sem stunda atvinnurekstur segir að gerðabók skuli undirrituð af þeim er fund sitja. Nefndin telur þó síðar­nefndu regluna heppilegri, enda ekki víst að stjórnarformaður og fram­kvæmdastjóri sitji alla fundi auk þess sem meiri hluti stjórnar kunni að taka ákvörðun á fundi í þeirra óþökk.

8. gr. Fulltrúa­ráð.
    Í 2. mgr. segir að val á fulltrúa­ráði al­menns íbúðafélags skuli fara fram á aðalfundi félagsins og skuli starfstími þess vera tvö ár í senn. Al­menn íbúðafé­lög eru sjálfseignar­stofnanir, sbr. 2. tölul. 2. gr., sem hafa enga félags­menn eða félagsfundi. Nefndin telur því ekki unnt að mæla fyrir um að val á fulltrúa­ráði skuli fara fram á aðalfundi félagsins og telur eðlilegra að al­mennt íbúðafélag ákveði í samþykktum eða skipulagsskrá hvernig val á fulltrúa­ráði fari fram, sbr. 9. tölul. 3. mgr. 5. gr. Þá telur nefndin ekki ástæðu til að fjalla um starfstíma fulltrúa­ráðs í 8. gr., enda skal það gert í samþykktum eða skipulagsskrá skv. 9. tölul 3. mgr. 5. gr. Nefndin leggur því til að 2. mgr. 8. gr. falli brott.
    Nefndin telur þó mikilvægt að tryggja aðkomu íbúa hjá al­mennum íbúðafé­lögum að stjórnun þeirra. Nefndin leggur því til að minnst þriðjungur fulltrúa­ráðs­manna skuli vera úr hópi leigjenda sé þess kostur. Fulltrúa­ráð kýs stjórn, sbr. 2. mgr. 6. gr. Aðild leigjenda að fulltrúa­ráði tryggir því að leigjendur eigi aðkomu að vali á stjórn. Gert er ráð fyrir að ákveðið verði nánar í samþykktum eða skipulagsskrá hvernig vali á leigjendum í fulltrúa­ráð verði háttað, sbr. 9. tölul. 3. mgr. 5. gr.
    Í 3. mgr. er ákvæði um hlutverk fulltrúa­ráðs. Hliðstæð ákvæði eru þegar í fyrri málslið 20. gr., 1. mgr. 22. gr. og 1. málsl. 30. gr. laga um sjálfseignar­stofnanir sem stunda atvinnurekstur. Nefndin leggur því til að frumvarpsákvæðið falli brott.
    Í fyrri málslið 5. mgr. segir að ákvæði laganna um stjórn og stjórnar­menn eigi við um fulltrúa­ráð og fulltrúa­ráðs­menn eftir því sem við eigi. Að teknu tilliti til breytingartillagna nefnd­ar­innar á málsliðurinn ekki við neitt ákvæði frumvarpsins og leggur nefndin því til að hann falli brott.

9. gr. Framkvæmdasjóður.
    Í 1. mgr. segir að rekstur al­mennra íbúðafélaga skuli vera ábyrgur og skilvirkur. Nefndin telur málsgreinina vart hafa efnislega þýðingu og leggur því til að hún falli brott.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að al­menn íbúðafé­lög skuli halda fram­kvæmdasjóð. Gert er ráð fyrir að hann standi einkum undir viðhaldi al­mennra íbúða og öflun fleiri íbúða. Í megindráttum er gert ráð fyrir að öll leiga af al­mennum íbúðum renni í sjóðinn, að frátöldum greiðslum af lánum, rekstrarkostnaði og greiðslum í Húsnæðis­málasjóð. Nefndin telur æskilegt að al­menn íbúðafé­lög hafi meira svigrúm við nýtingu leigutekna, þannig að þær megi t.d. nýta til að jafna leigu milli íbúa eða styrkja eigið fé. Fyrir nefndinni kom þó fram að reynsla Dana af rekstri „almene boliger“, sem eru svipað íbúðaform og frumvarpið fjallar um, sýndi að nauðsynlegt væri að skylda eigendur íbúðanna til að halda sérstakan sjóð til að standa undir viðhaldi og endur­bótum. Nefndin leggur því til að í stað fram­kvæmdasjóðs verði kveðið á um viðhaldssjóð sem skuli standa undir eðlilegu viðhaldi og nauðsynlegum endur­bótum á al­mennum íbúðum og fasteignum sem þær tilheyra.

10. gr. Ársreikningur og endur­skoðun.
    Ákvæði hliðstæð 1. og 2. málsl. 1. mgr. og 2., 3., 5. og 8. mgr. eru þegar í 1. mgr. 28. gr. og 1. málsl. 30. gr. laga um sjálfseignar­stofnanir sem stunda atvinnurekstur og 1. mgr., fyrri málslið 2. mgr. og 1. og 3. málsl. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006. Nefndin leggur því til að frumvarpsákvæðin falli brott.
    Í 3. málsl. 1. mgr. og 6. mgr. eru sérreglur um reikningsár og hvenær ársreikningur skuli fullgerður. Nefndin telur ekki ástæðu til að hafa sérreglur um þessi efni í lögum um al­mennar íbúðir og leggur því til að ákvæðin falli brott.
    Í 4. mgr. segir að ársreikning skuli leggja fram á aðalfundi félagsins. Með vísan til fyrri athugasemda um félagsfundi al­mennra íbúðafélaga leggur nefndin til að hún falli brott.
    Í 7. mgr. er ákvæði um skil á ársreikningi til Íbúðalánasjóðs, sveitarfélaga og ársreikningaskrár. Nefndin leggur til að vísun til ársreikningaskrár falli brott, þar sem þegar er mælt fyrir um skil til ársreikningaskrár í 109. gr. laga um ársreikninga, og að ákvæðið færist að öðru leyti í 2. mgr. 25. gr.

11. gr. Breyting samþykkta og slit félags.
    Ákvæði hliðstæð 1. mgr. og síðari málslið 2. mgr. eru þegar í 1. og 3. mgr. 36. gr. laga um sjálfseignar­stofnanir sem stunda atvinnurekstur. Nefndin leggur því til að frumvarpsákvæðin falli brott.
    Nefndin leggur til breytingar á 4. mgr. til að skýra á hverjum tilkynningarskyldan liggi.

Stofnfram­lög.
12. gr. Stofnfram­lög og tekju- og eignamörk.
    Í 1. mgr. er ákvæði um hverjir geta fengið stofnfram­lög. Þeirra á meðal eru sveitarfé­lög, vegna íbúðar­húsnæðis á vegum sveitarfélaga, og leigufé­lög í þeirra eigu, hafi þau verið starfandi við gildistöku laganna. Nefndin leggur til að heimildirnar verði ekki takmarkaðar við íbúðar­húsnæði á vegum sveitarfélaga eða að leigufé­lögin hafi verið starfandi við gildistöku laganna, enda telur nefndin sveitarfé­lögum og lögaðilum á þeirra vegum treystandi til að halda utan um al­mennar íbúðir.
    Í lok 1. mgr. er vísað til leigufélaga sem uppfylla skilyrði 23. gr. Nefndin leggur til að fram komi strax í málsgreininni um hvers konar lögaðila sé að ræða, fremur en að vísað sé til 23. gr., í því skyni að ákvæðið verði sem aðgengilegast.
    Nefndin telur að í sérstökum tilvikum geti það þjónað markmiðum laganna að uppbygging al­mennra íbúða sé á vegum annars konar lögaðila en greinir í 1. mgr. Það gæti til dæmis átt við ef húsnæðissamvinnufélag vildi hafa al­mennar íbúðir í leigufélagi á sínum vegum eða ef sveitarfélag vildi byggja upp al­mennar íbúðir í félagi við aðra. Nefndin leggur því til að veita megi stofnfram­lög til annarra með sérstöku samþykki ráð­herra.
    Í 3. mgr. er rætt um hvað teljist til áfanga. Hugtakið hefur aðeins þýðingu í tengslum við 19. gr. Nefndin leggur til að ekki verði talað um áfanga í 19. gr. og leggur því jafnframt til að 3. mgr. 12. gr. falli brott.
    Í 1. málsl. 4. mgr. segir að óheimilt sé að veita stofnframlag vegna íbúðar­húsnæðis sem hefur verið keypt áður en sótt er um stofnframlag. Nefndinni var bent á að íbúðir sem kæmu til sölu seldust oft hratt og því gæti þurft að hafa snarar hendur við kaup. Erfitt gæti reynst að ganga ávallt frá umsókn um stofnframlag í tæka tíð. Með hliðsjón af ábendingunni leggur nefndin til að unnt verði að leggja fram umsókn allt að fjórum vikum frá kaupum. Sá sem kaupir íbúð án þess að hafa fengið samþykki við umsókn um stofnframlag ber þó vitaskuld áhættu af því að honum verði synjað um stofnframlag.
    Í 2. og 3. málsl. 4. mgr. eru fyrirmæli sem eiga við þegar andvirði al­mennrar íbúðar er nýtt til kaupa á öðru íbúðar­húsnæði. Nefndin leggur til ögn breytta framsetningu til að skýra að þau eigi við þótt andvirðið sé notað til að kaupa dýrari íbúð, en ekki aðeins fleiri íbúðir, og að þau eigi við um byggingu íbúðar, en ekki aðeins kaup.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að tilteknar greiðslur í fram­kvæmdasjóð og Húsnæðis­málasjóð og endurgreiðslur stofnframlaga, þegar við á, hefjist þegar lán af al­mennri íbúð hafa verið greidd upp. Bent var á að auðvelt væri að komast hjá þeim með því að taka lán til mjög langs tíma og framlengja þau eða endurfjármagna ítrekað. Til að taka fyrir það leggur nefndin til að sett verði hámark á lánstí­mann. Á grundvelli upplýsinga sem nefndin aflaði sér um hver lánstími þyrfti að vera til að leiga yrði að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna leigjenda leggur nefndin til að hámarkið verði 50 ár.
    Í 5. og 6. mgr. eru tilgreind tekju- og eignamörk leigjenda al­mennra íbúða við upphaf leigu. Nefndin leggur til að örlítil reikningsskekkja í 5. mgr. verði leiðrétt og að viðmiðin verði uppfærð vegna verðlags­breytinga. Nefndin leggur einnig til að orðinu „saman­lögð“ verði skotið fremst í 6. mgr. til að skýra að átt sé við samanlagða hreina eign beggja eða allra leigjenda, ef tveir eða fleiri leigja al­menna íbúð saman, en ekki eign hvers og eins.
    Í 8. mgr. segir að ráð­herra sé heimilt að setja reglu­gerð þar sem fram komi frekari ákvæði um tekju- og eignamörkin. Í fyrri málsgreinum er þegar tilgreint hvað teljist til tekna og eigna og hvernig haga beri breytingum á viðmiðunum. Nefndin telur 8. mgr. því óþarfa og leggur til að hún falli brott.

13. gr. Stofnfram­lög ríkisins vegna al­mennra íbúða.
    Samband íslenskra sveitarfélaga benti á að að óbreyttu frumvarpi bera ríki og sveitarfé­lög áhættu af því að kostn­aður við al­mennar íbúðir fari fram úr áætluðu stofnvirði samkvæmt umsókn um stofnfram­lög, enda gert ráð fyrir að stofnfram­lög miðist við raunverulegt stofnvirði, sbr. 1. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. Til að takmarka þá áhættu leggur nefndin til að reynist endanlegt stofnvirði hærra en umsókn gerði ráð fyrir miðist stofnfram­lög við áætlað stofnvirði. Í því felst einnig aukinn hvati fyrir umsækjendur til að vanda til verka við áætlun stofnvirðis og halda kostnaði innan áætlana.
    Útreikningar sem lagðir voru fyrir nefndina bentu til þess að nauðsynlegt væri að koma sérstaklega til móts við þá leigjendur sem verst stæðu ef leiga þeirra ætti að jafnaði ekki að vera umfram fjórðung tekna. Fjár­málaskrifstofa Reykjavíkurborgar benti á að framan af við vinnslu frumvarpsins hafi verið gert ráð fyrir fjögurra prósentu­stiga við­bótarframlagi frá ríki vegna íbúðar­húsnæðis á vegum sveitarfélaga. Nefndin leggur til að heimilt verði að veita allt að fjögurra prósentu­stiga við­bótarframlag vegna íbúðar­húsnæðis á vegum sveitarfélaga og íbúðar­húsnæðis sem ætlað er náms­mönnum eða öryrkjum. Þar sem um sérstakan stuðning er að ræða leggur nefndin til að framlagið verði ekki endurgreitt eftir uppgreiðslu lána.
    Fram kom fyrir nefndinni að sums staðar á landsbyggðinni væri skortur á leigu­húsnæði sem erfiðlega gengi að mæta því ekki fengjust lán. Það ætti einkum við þar sem velta með fasteignir væri lítil eða markaðsverð verulega lægra en byggingarkostn­aður og lánveitendur því tregir til að veita fasteignaveðlán. Í verstu tilvikum gæti jafnvel reynst ómögulegt að fjármagna leiguíbúðir þrátt fyrir 30% stofnframlag frá ríki og sveitarfé­lögum. Í ljósi þessara ábendinga leggur nefndin til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að veita allt að sex prósentu­stiga við­bótarframlag á svæðum þar sem skortur er á leigu­húsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði á því að fá fjármögnun á al­mennum markaði. Um undantekningarheimild er að ræða sem nefndin gerir ráð fyrir að verði aðeins nýtt þegar ætla verður að 30% stofnframlag dugi ekki til. Nefndin leggur til hliðstæða breytingu á 16. gr. um stofnfram­lög sveitarfélaga. Heimildirnar verða þó sjálfstæðar. Ríki og sveitarfélagi verður þannig hvoru um sig heimilt að veita við­bótarframlag, hvort sem hinn aðilinn gerir það eður ei. Nefndin leggur þó til að sá munur verði á heimildunum að ekki megi krefjast endurgreiðslu á við­bótarframlagi ríkis eftir uppgreiðslu lána. Í því felst sérstakur byggðastuðningur frá ríki.
    Nokkrir umsagnaraðilar og gestir nefnd­ar­innar gagnrýndu að helmingur stofnframlags ríkis, sem væri í formi beins framlags, skyldi greiddur út þegar við samþykkt umsóknar, sbr. 3. mgr. Í því fælist aukin áhætta fyrir ríkið og hætta á misnotkun. Svipuð gagnrýni kom fram varðandi stofnfram­lög sveitarfélaga, sbr. 2. mgr. 16. gr. Á móti kom fram að fyrirkomulagið auðveldaði fjármögnun al­mennra íbúða og drægi úr þörf á dýrum brúarlánum, en það ætti að skila sér í lægri leigu. Hvað mögulega misnotkun varðar bendir nefndin á að Íbúðalánasjóði er falið eftirlit með eigendum al­mennra íbúða í 25. gr. frumvarpsins. Misnotkun getur varðað refsingu, sbr. 1. mgr. 27. gr. frumvarpsins og al­menn hegningar­lög, nr. 19/1940. Nefndin leggur því ekki til breytingu að þessu leyti.
    Í 4. mgr. segir að greiðsla stofnframlags í formi vaxtaniðurgreiðslu hefjist þegar al­menn íbúð hefur verið tekin í notkun. Nefndin leggur til að hún hefjist fremur þegar afborgun af láni hefst, enda tilgangur hennar sá að létta á greiðslubyrði lána.
    Í fyrri málslið 6. mgr. segir að heimilt sé að setja það sem skilyrði fyrir stofnframlagi ríkis að það verði endurgreitt þegar lán af al­mennri íbúð hafa verið greidd upp. Hliðstætt ákvæði varðandi stofnfram­lög sveitarfélaga er í fyrri málslið 4. mgr. 16. gr. Ákvæðin sættu nokkurri gagnrýni. Bent var á að samkvæmt núgildandi 37. gr. laga um húsnæðis­mál, nr. 44/1998, væri veittur óafturkræfur stuðningur með niðurgreiddum vöxtum. Töldu sumir stofnfram­lög fela í sér minni stuðning, eða jafnvel engan stuðning, væri gerð krafa um endurgreiðslu þeirra. Nefndin bendir á að frumvarpið gerir ekki ráð fyrir því að krafa um endurgreiðslu stofnframlaga beri vexti fyrr en frá þeim degi sem hún er sett fram, sbr. 3. málsl. 4. mgr. 17. gr., sem er líklegt að verði ekki fyrr en að liðnum áratugum frá afhendingu framlaganna. Einnig er gert ráð fyrir því að hluti framlaga kunni að vera greiddur þegar við samþykkt umsóknar, sbr. 3. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 16. gr., og að endurgreiðslukröfur komi aftar í veðröð en lán af íbúð, sbr. 5. mgr. 17. gr. Hvort tveggja felur í sér aukna áhættu ríkis og sveitarfélaga í því skyni að lækka fjármagnskostnað umsækjanda. Stofnfram­lög fela því í sér talsverðan stuðning þótt þau beri að endurgreiða.

15. gr. Afgreiðsla umsókna.
    Nefndin leggur til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að líta til byggðasjónarmiða við mat á umsóknum um stofnfram­lög. Það gæti t.d. átt við ef skortur á leigu­húsnæði stæði atvinnuuppbyggingu í byggðarlagi fyrir þrifum. Byggðasjónarmið koma einnig til skoðunar við mat á því hvort veita beri við­bótarframlag vegna íbúða á svæðum þar sem skortur er á leigu­húsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði á því að fá fjármögnun á al­mennum markaði.
    Í fyrri málslið 3. mgr. segir að Íbúðalánasjóður skuli á grundvelli mats skv. 1. mgr. ákveða hvaða umsóknir um stofnframlag skuli samþykkja og hverjum skuli synja. Fyrirmælin leiða af 1. mgr. eðli máls samkvæmt. Nefndin telur málsliðinn því óþarfan og leggur til að hann falli brott.
    Í síðari málslið 3. mgr. segir að Íbúðalánasjóður skuli tilkynna umsækjanda um ákvörðun sína án ástæðulauss dráttar. Fyrirmælin leiða þegar af málshraðareglu stjórnsýsluréttar, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Nefndin telur málsliðinn því óþarfan og leggur til að hann falli brott.

16. gr. Stofnfram­lög sveitarfélaga.
    Í 2. málsl. 1. mgr. segir að stofnframlag sveitarfélags geti m.a. falist í lækkun eða niðurfellingu á gjöldum sem umsækjanda um stofnframlag beri að standa skil á til sveitarfélags vegna byggingar eða kaupa á al­mennum íbúðum. Nefndin leggur til að ákvæðið verði gert afdráttarlausara með því að fram komi að stofnframlagið geti falist í beinu framlagi, úthlutun lóðar eða lækkun eða niðurfellingu á gjöldum sem umsækjanda ber að standa skil á til ­sveitarfélagsins vegna íbúðanna.
    Í 2. mgr. er heimild til að greiða helming stofnframlags sveitarfélags við samþykkt umsóknar. Frumvarpið gerir þó ráð fyrir að sveitarfélag samþykki umsókn áður en Íbúðalánasjóður fjallar um hana og að samþykki sveitarfélags falli niður synji Íbúðalánasjóður umsókn, sbr. 3. mgr. 14. gr. og 4. málsl. 1. mgr. 16. gr. Óheppilegt væri að sveitarfélag hefði þegar veitt helming stofnframlags ef Íbúðalánasjóður hafnaði svo umsókn. Nefndin leggur því til að fyrri helmingur stofnframlags sveitarfélags greiðist ekki fyrr en við samþykkt Íbúðalánasjóðs á umsókn um stofnframlag ríkisins.
    Í síðari málslið 4. mgr. segir að um endurgreiðslu stofnframlaga fari skv. 3.–5. mgr. 17. gr. Nefndin telur óþarft að geta þess sérstaklega og leggur til að málsliðurinn falli brott.
    Í fyrri málslið 6. mgr. segir að sveitarfélag skuli á grundvelli mats skv. 5. mgr. ákveða hvaða umsóknir um stofnframlag skuli samþykkja og hverjum skuli synja. Fyrirmælin leiða af 5. mgr. eðli máls samkvæmt. Nefndin leggur því til að málsliðurinn falli brott.
    Í síðari málslið 6. mgr. segir að sveitarfélag skuli tilkynna umsækjanda um ákvörðun sína án ástæðulauss dráttar. Fyrirmælin leiða þegar af málshraðareglu stjórnsýsluréttar, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Nefndin telur málsliðinn því óþarfan og leggur til að hann falli brott.

17. gr. Endurgreiðsla stofnframlaga, veð og kvaðir.
    Í 17. gr. er fjallað um endurgreiðslu stofnframlaga. Bent var á að ekki væri ljóst hvernig afborgun þeirra ætti að vera háttað og að ekki væri skýrlega greint á milli endurgreiðslna eftir því hvort þær stöfuðu af því íbúð væri færð úr al­menna íbúðakerfinu eða því að lán vegna hennar hefðu verið greidd upp. Nefndin leggur til nokkrar breytingar á greininni til að skilja með greinilegri hætti þar á milli og skýra hvernig endurgreiðslu skuli háttað í hvoru tilviki.
    Í 2. málsl. 2. mgr. er undanþága frá endurgreiðslu stofnframlags við sölu al­mennrar íbúðar ef andvirðið er notað til kaupa á íbúðar­húsnæði sem nota á í sama tilgangi. Nefndin leggur til að undanþágunni verði settur árs rammi og að skýrt verði að hún nái einnig til byggingar íbúðar­húsnæðis en ekki aðeins kaupa. Nefndin leggur einnig til að eigendum verði með samþykki Íbúðalánasjóðs heimilt að færa sérstakt stofnframlagabókhald og gera þá upp stofnfram­lög með reglulegu millibili en ekki þegar í stað vegna hverrar seldrar íbúðar. Hagræði getur verið að því ef um er að ræða lögaðila sem heldur utan um mikinn fjölda íbúða og byggir eða kaupir og selur íbúðir reglulega. Gert er ráð fyrir að ráð­herra setji nánari reglur um bókhaldið, þar á meðal um hvenær uppgjör skuli fara fram og vexti af endurgreiðslukröfum.
    Í 3. mgr. segir að endurgreiðsla á stofnframlagi ríkisins skuli renna í ríkissjóð en endurgreiðsla á stofnframlagi sveitarfélags til viðkomandi sveitarfélags. Endurgreiðslur skuli nýta til veitingar frekari stofnframlaga sé þörf á fleiri al­mennum íbúðum. Nefndin fellst á að rök séu fyrir því að endurgreidd stofnfram­lög sveitarfélags renni til viðkomandi sveitarfélags, enda nýtast þau þá við áfram­haldandi uppbyggingu á al­mennum íbúðum í því sveitarfélagi. Aftur á móti leggur nefndin til að endurgreidd stofnfram­lög ríkis renni til Húsnæðis­málasjóðs fremur en í ríkissjóð. Með því móti má flýta talsvert uppbyggingu félagsauðs í Húsnæðis­málasjóði.
    Nefndin leggur til að upphafsorð 4. mgr., um að stofnframlag skuli endurgreitt að fullu, falli brott. Endurgreiðslur kunna að vera minni en stofnfram­lög því endurgreiðslur miðast við áætlað söluverð íbúðar en stofnfram­lög við kostnaðarverð. Kostnaðarverð kann að vera hærra en söluverð, einkum á svæðum þar sem byggingarkostn­aður er hærri en markaðsverð.
    Í fyrri málslið 5. mgr. kemur fram að krafa um endurgreiðslu stofnframlaga skuli tryggð með veði í hlutaðeigandi íbúð og koma í veðröð næst á eftir lánum af henni. Samband íslenskra sveitarfélaga lagði til að krafan nyti lögveðs í því skyni að lágmarka áhættu ríkis og sveitarfélaga og draga úr umsýslu vegna veðleyfa, ellegar að krafan kæmi fremst í veðröð. Það yki á móti áhættu lánveitanda, og þar af leiðandi líklega fjármagnskostnað. Sá kostn­aður rynni að líkindum út í leiguverð. Breytingin ynni þannig gegn því markmiði frumvarpsins að lækka leigu. Nefndin leggur því ekki til breytingu í þessa veru.
    Í 5. og 6. mgr. er mælt fyrir veðsetningu og þinglýsingu kvaðar á íbúð við veitingu stofnframlags. Fjár­málaskrifstofa Reykjavíkurborgar benti á að þegar stofnfram­lög væru veitt til nýbygginga væru engar íbúðir til staðar. Nefndin leggur til að í ákvæðunum verði vísað til fasteignar fremur en íbúðar. Veðsetning eða þinglýsing getur þá eftir atvikum tekið til lóðar fremur en tilbúinnar íbúðar.

Al­mennar íbúðir.
18. gr. Al­mennar íbúðir.
    Nefndin leggur til að framsetningu 1. og 2. mgr. verði breytt til að árétta að þótt leggja beri áherslu á hagkvæmni megi ekki slá af kröfum tímans um sómasamlegt húsnæði og að hafa í huga framtíðarþarfir, svo sem vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Þannig verður m.a. að huga að því að fólk geti búið áfram í íbúð þótt það þarfnist aukinnar aðstoðar þegar það eldist. Kröfurnar ráðast þó auðvitað af aðstæðum hverju sinni. Misjafnar kröfur kunna því t.d. að eiga við um íbúðir sem ætlaðar eru stúdentum og íbúðir sem ætlunin er að fólk geti verið í á mismunandi aldursskeiðum.

19. gr. Ákvörðun leigufjárhæðar.
    Í 1. og 2. málsl. 1. mgr. er áskilið að leiga fyrir al­mennar íbúðir miðist við áfanga, það er stofnfram­lög á tólf mánaða tímabili. Fyrir nefndinni kom fram að þessu ákvæði væri ætlað að gera leiguna fyrirsjáanlegri. Leigjendur gætu treyst því að leiga hækkaði ekki vegna þess að al­mennt íbúðafélag réðst í öflun nýs og dýrara húsnæðis og leigjendur í ódýrari hverfum þyrftu ekki að greiða niður leigu leigjenda í dýrari hverfum. Einnig voru færð rök fyrir því að áskilnaðurinn takmarkaði áhættu al­mennra íbúðafélaga því afmarkaðir áfangar kæmu ekki fé­lögunum í heild í koll.
    Áskilnaðurinn sætti talsverðri gagnrýni. Bent var á að leiga fyrir nýjar íbúðir gæti orðið mjög há ef eigendum íbúðanna væri ókleift að nýta leigu af eldri og skuldlausum íbúðum til að styðja við afborganir lána af nýjum íbúðum. Það væri einnig visst réttlætis­mál að leigjendur greiddu sambærilega leigu fyrir sambærilegar íbúðir. Þá var bent á að jöfnun leiguverðs milli hverfa væri liður í félagslegri blöndun. Ef eigendum al­mennra íbúða væri óheimilt að nýta leigu af íbúðum í ódýrari hverfum til að styðja við leigu í dýrari hverfum væri hætt við því að leiga í dýrari hverfum yrði of há fyrir tekjulága leigjendur. Eigendurnir gætu þannig neyðst til að hafa aðeins íbúðir í ódýrari hverfum. Með því væri unnið gegn félagslegri blöndun.
    Nefndin telur ekki fram komið að jöfnun leiguverðs milli al­mennra íbúða í eigu sama aðila feli í sér hættu á verulegum sveiflum í leiguverði. Nefndin telur hana jafnvel geta dregið úr verðsveiflum, enda þá hægt að mæta sveiflum í kostnaði af sumum íbúðum með leigutekjum af öðrum. Nefndin fær heldur ekki séð að áfangaskipt leiga takmarki áhættu eigenda íbúðanna, enda hnikar hún ekki ábyrgð þeirra á íbúðum í sinni eigu og lánum sem á þeim hvíla. Nefndin fellst aftur á móti á framkomna gagnrýni á áskilnaðinn.
    Nefndin leggur því til að ákvæði um áfangaáskilnað verði fellt brott og ákvörðun leigu verði sveigjanlegri. Ekki verði mælt fyrir um hvernig leiga fyrir einstakar íbúðir eða flokka íbúða skuli ákveðin í 2. mgr., heldur aðeins að hún skuli ákveðin þannig að rekstur eigandans sé sjálfbær og hann geti staðið í skilum, þar á meðal á greiðslum í viðhaldssjóð og Húsnæðis­málasjóð. Áfram er þó gert ráð fyrir að ráð­herra setji viðmið um leigu í reglu­gerð, sbr. 3. mgr. Nefndin leggur til að sveitarfé­lög, og lögaðilar með ótakmarkaðri ábyrgð þeirra, verði undanþegin ákvæðinu, enda vart unnt að ætlast til þess að leiga af al­mennum íbúðum ein og sér tryggi sjálfbæran rekstur þeirra.
    Í nefndinni var rætt hvort heimila ætti eigendum al­mennra íbúða að innheimta markaðsleigu ef leigjendur færu yfir tekju- eða eignamörk skv. 12. gr. Fyrir því standa þau rök að markmið frumvarpsins er að styðja við tekjulægra fólk. Svigrúm til þess minnkar ef hluti stuðningsins rennur til tekjuhærra fólks. Færsla í markaðsleigu í einu lagi fæli þó í sér íþyngjandi jaðaráhrif og drægi úr hvata leigjenda til að bæta tekju- og eignastöðu sína. Opinber húsnæðisstuðningur við leigjendur kemur einnig til með að lækka með auknum tekjum og eignum vegna skerðingar húsnæðis­bóta, sbr. 17. og 18. gr. frumvarps til laga um húsnæðis­bætur sem nú er í þinglegri meðferð (407. mál). Þá hefur verið bent á að al­mennar íbúðir komi ekki til með að vera íburðarmiklar. Ætla megi að þegar tekjur og eignir fólks aukist komi það til með að sækja í veglegra húsnæði. Í ljósi þessara mismunandi sjónarmiða leggur nefndin til að heimilt verði að reikna álag á leigu ef tekjur eða eignir leigjanda eru umfram viðmið skv. 12. gr. í samfellt þrjú ár eftir nánari reglum sem ráð­herra setur í reglu­gerð. Gert er ráð fyrir að miðað verði við tiltekið hlutfall tekna eða eigna umfram viðmið skv. 12. gr. þannig að jaðaráhrif af hækkuninni verði ekki of mikil. Heimildin krefst þess að eigendur al­mennra íbúða geti aflað upplýsinga um tekjur og eignir leigjenda. Nefndin leggur því til að þeim verði heimilt að krefjast afrita síðustu þriggja skattframtala leigjenda.

20. gr. Úthlutun al­mennra íbúða.
    Í 1. mgr. segir að al­mennum íbúðum skuli úthlutað af eiganda þeirra. Fyrir nefndinni kom fram að nokkuð hafi tíðkast að fé­lög og stofnanir fælu félags­þjónustum sveitarfélaga að annast úthlutun félagslegs húsnæðis í sinni eigu. Nefndin telur ekki tilefni til að hrófla við því og leggur því til að eiganda verði heimilt að semja við viðkomandi sveitarfélag um að annast úthlutunina.
    Í 3. málsl. 2. mgr. segir að leigjendur sem hafi fengið íbúð úthlutað en hafi vegna breyttra aðstæðna þörf fyrir annars konar íbúð skuli eiga forgang við úthlutun slíkrar íbúðar hjá sama eiganda. Þótt það sé alla jafna eðlilegt telur nefndin að sérstakar aðstæður kunni að réttlæta frávik. Nefndin leggur því til að orðunum „að jafnaði“ verði skotið inn í málsliðinn.
    Í 4. málsl. sömu málsgreinar segir að við úthlutun al­mennra íbúða skuli stuðla að fjölbreyttri samsetningu íbúa og félagslegri blöndun. Félags­stofnun stúdenta taldi óvíst hvort áskilnaðurinn væri samræmanlegur starfsemi sinni, enda þjónustaði hann aðeins einn þjóðfélagshóp, stúdenta við Há­skóla Íslands. Nefndin telur þessa afmörkun á skjólstæðingum Félags­stofnunar stúdenta ekki kalla á breytingu á ákvæðinu, enda bakgrunnur stúdenta við Há­skóla Íslands misjafn.
    Í 4. mgr. er heimild til að leigja al­menna íbúð tímabundið leigjanda sem er yfir tekju- og eignamörkum skv. 12. gr. Nefndin leggur til að þá megi krefjast markaðsleigu, enda ekki tilgangur frumvarpsins að niðurgreiða leigu efnameira fólks.

Íbúðar­húsnæði á vegum sveitarfélaga og annarra félaga.
22. gr. Íbúðar­húsnæði á vegum sveitarfélaga.
    Í 1. mgr. er heimild til að veita sveitarfé­lögum og leigufé­lögum í þeirra eigu stofnframlag vegna íbúðar­húsnæðis á vegum sveitarfélaga. Heimild um sama efni er í 1. mgr. 12. gr. Nefndin telur óþarft að endurtaka hana í 1. mgr. 22. gr. og leggur því til að málsgreinin falli brott.
    Í fyrri málslið 2. mgr. segir að ákvæði II. kafla, sem fjallar um starfsemi al­mennra íbúðafélaga, eigi ekki við um íbúðar­húsnæði á vegum sveitarfélaga. Nefndin telur ekki ástæðu til að undanskilja al­menn íbúðafé­lög ákvæðum II. kafla af þeirri ástæðu einni að þau eigi íbúðar­húsnæði á vegum sveitarfélaga. Ef íbúðirnar eru ekki í eigu al­menns íbúðafélags á II. kafli ekki við þegar af þeirri ástæðu. Nefndin leggur því til að fyrirmælin falli brott.
    Nefndin leggur til að íbúðar­húsnæði á vegum sveitarfélaga verði undanþegið ákvæðum 20. gr. um úthlutun al­mennra íbúða. Af hálfu vel­ferðarsviðs Reykjavíkurborgar kom fram að við úthlutun félagslegra íbúða á vegum borgarinnar væri al­mennt ekki litið til þess hversu lengi umsækjandi hefði verið á biðlista eftir íbúð heldur þarfar og félagslegrar stöðu. Nefndin telur ekki tilefni til að hrófla við slíku fyrirkomulagi.
    Nefndin leggur til að síðari málsliður 2. mgr. falli brott. Nefndin telur sjálfgefið að lög um al­mennar íbúðir eigi við um slíkar íbúðir þótt þær séu nýttar sem íbúðar­húsnæði á vegum ­sveitarfélaga.
    Í 3. málsl. 3. mgr. segir að reglur sveit­ar­stjórna um leigufjárhæð skuli birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Í síðari málslið 1. mgr. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, segir þegar að birta skuli í B-deild Stjórnartíðinda þær reglur sem stjórnvöldum öðrum en ráðuneytum er falið lögum samkvæmt að setja. Nefndin leggur því til að frumvarpsákvæðið falli brott.
    Í 4. mgr. segir að Íbúðalánasjóður fari með tiltekið eftirlit til samræmis við 25. gr. Nefndin telur tilvísunina óþarfa og leggur til að málsgreinin falli brott.

23. gr. Fé­lög, önnur en þau sem eru í eigu sveitarfélaga.
    Líkt og fyrr greinir leggur nefndin til að efni 1. mgr. 23. gr. komi fram í 1. mgr. 12. gr. Nefndin leggur því til að 1. mgr. 23. gr. falli brott.
    Í 2. mgr. kemur fram að ákvæði II. kafla eigi ekki við um al­mennar íbúðir á vegum tiltekinna félaga sem voru starfandi við gildistöku laganna, en að öðru leyti eigi ákvæði laganna við um íbúðirnar eftir því sem við á. Ákvæði II. kafla eiga aðeins við um al­menn íbúðafé­lög. Fé­lög sem verða starfandi við gildistöku laganna eru ekki al­menn íbúðafé­lög og þegar af þeirri ástæðu eiga ákvæði II. kafla laganna ekki við um þau. Þá telur nefndin óþarft að taka sérstaklega fram að ákvæði laganna eigi við um al­mennar íbúðir á vegum þessara félaga að öðru leyti. Nefndin leggur því til að 2. mgr. falli brott.
    Í 3. mgr. segir að Íbúðalánasjóður fari með tiltekið eftirlit til samræmis við 25. gr. Nefndin telur tilvísunina óþarfa og leggur til að málsgreinin falli brott.

Húsnæðis­málasjóður.
24. gr. Húsnæðis­málasjóður.
    Í 2. málsl. 2. mgr. segir að stærstu heildar­samtök launafólks tilnefni einn mann í stjórn Húsnæðis­málasjóðs. Nefndin leggur til að „stærstu“ verði fellt brott og „sam­eigin­lega“ skeytt inn til að árétta að heildar­samtök launafólks skuli standa sam­eigin­lega að tilnefningunni. Nú eru það Alþýðusamband Íslands, Bandalag há­skóla­manna, Bandalag starfs­manna ríkis og bæja og Kennarasamband Íslands.
    Í 4. mgr. er ákvæði um lítils háttar umsýslugjald. Að mati nefnd­ar­innar væru tekjur sjóðsins af gjaldinu of litlar til að réttlæta þá umsýslu sem því fylgdi. Nefndin leggur því til að málsgreinin falli brott. Nefndin ráðgerir að það sem á vanti til að standa undir rekstrarkostnaði sjóðsins, sem ætla má að verði óverulegur í fyrstu, verði greitt samkvæmt fjár­lögum. Því til samræmis leggur nefndin jafnframt til að 6. mgr., um að kostn­aður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans, falli brott.
    Í fyrri málslið 1. tölul. 5. mgr. kemur fram að eigendur al­mennra íbúða skuli greiða Húsnæðis­málasjóði tvo þriðju hluta leigugreiðslna af al­mennum íbúðum þegar lán af þeim hafa verið greidd upp og stofnfram­lög endurgreidd, ef við á, að frádregnum kostnaði vegna reksturs þeirra. Nefndin telur eðlilegt að eigendur íbúðanna, sem bera áhættu af þeim og eru ábyrgir fyrir viðhaldi og rekstri þeirra, njóti í ríkari mæli arðsins af þeim. Sá arður getur m.a. nýst til að greiða niður leigu fyrir nýjar og skuldsettar íbúðir og jafna þannig leiguverð íbúa. Nefndin leggur því til að hlutfallið lækki úr tveimur þriðju í 40%.
    Sem fyrr greinir leggur nefndin til að endurgreidd stofnfram­lög ríkisins renni í Húsnæðis­málasjóð. Því til samræmis leggur nefndin til að fjármunir sjóðsins standi undir stofnfram­lögum ríkisins í stað styrkja til nýbygginga eða kaupa á al­mennum íbúðum. Eigendur al­mennra íbúða geti þó áfram sótt styrki til sjóðsins til endur­bóta á íbúðum og rekstraraðstoðar.

Eftirlit.
25. gr. Eftirlit og upplýsingaskylda eigenda al­mennra íbúða.
    Í 5. mgr. er ákvæði um tilnefningu eftirlits­manns til að fylgjast með rekstri al­mennra íbúða ef eigandi þeirra fer ekki að tilmælum Íbúðalánasjóðs um úr­bætur. Nefndin leggur til að fari eigandi ekki að tilmælum eftirlits­manns og hann telji fullreynt að koma rekstri eigandans í viðunandi horf skuli Íbúðalánasjóður krefjast skipta á búi eigandans. Andvirði eigna eigandans sem eftir standa þegar skuldir hafa verið greiddar við skiptin renni þá í Húsnæðis­málasjóð, sbr. 3. mgr. 11. gr. og 3. málsl. 5. mgr. 24. gr. Nefndin telur eðlilegt að ef rekstur eiganda al­mennra íbúða er slíkur að stofnfram­lög sem hann hefur fengið nýtast ekki til að vinna að markmiðum laganna verði honum slitið þannig að fjármunirnir komist í þau not sem þeim var ætlað.
    Í 6. mgr. er ákvæði um eftirlit sveitarfélaga með al­mennum íbúðum á fram­kvæmda- og byggingar­stigi. Nefndin leggur til við­bætur við málsgreinina sem taka mið af til­lögu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Gildistaka.
30. gr. Gildistaka.
    Í 1. mgr. segir að lögin öðlist gildi 1. janúar 2016. Sá dagur er þegar liðinn. Nefndin leggur til að þess í stað öðlist lögin þegar gildi.
    Í 2. mgr. er heimild til að veita stofnfram­lög til félaga sem eru starfandi við gildistöku laganna og uppfylla skilyrði til að fá lán frá Íbúðalánasjóði á grundvelli 37. gr. laga um húsnæðis­mál eins og hún var fyrir gildistöku laganna. Ákvæði um sama efni verður í 1. mgr. 12. gr. laganna, að teknu tilliti til breytingartil­lögu nefnd­ar­innar. Nefndin leggur því til að 2. mgr. 30. gr. falli brott.

31. gr. Breytingar á öðrum lögum.
    Í 2. tölul. c-liðar er mælt fyrir um heimild sveitarfélaga og leigufélaga í þeirra eigu til að framselja á markaðsvirði íbúðir, sem fengið hafa lán frá Íbúðalánasjóði á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um húsnæðis­mál, til al­menns íbúðafélags án þess að lánið sé greitt upp eða stjórn Íbúðalánasjóðs hafi veitt samþykki sitt fyrir framsalinu.
    Nefndin leggur til að ákvæðið verði víkkað út með því að vísað verði til aðila skv. 1. og 2. mgr. 12. gr. laga um al­mennar félagsíbúðir. Með því móti tekur það einnig til lögaðila sem eru alfarið í eigu sveitarfélaga og lögaðila sem eru starfandi við gildistöku laganna og uppfylla skilyrði til að fá lán frá Íbúðalánasjóði skv. 37. gr. laga um húsnæðis­mál eins og ákvæðið var fyrir gildistöku laganna, svo og lögaðila sem hafa fengið stofnfram­lög með leyfi ráð­herra á grundvelli 2. mgr. 12. gr.
    Af hálfu Íbúðalánasjóðs kom fram að lán sem féllu undir ákvæðið væru að fjárhæð 26,4 milljarðar kr. og þar af væru 3,7 milljarðar kr. umfram 90% af fasteignamati viðkomandi íbúða. Íbúðalánasjóður benti á að yfirfærslan hefði þau áhrif að ábyrgð sveitarfélags á endurgreiðslu lánsins félli niður, sem gæti valdið sjóðnum tjóni. Til að bregðast við athugasemdum sjóðsins leggur nefndin til að ábyrgð sveitarfélags haldist óbreytt á þeim hluta skuldar sem er umfram 90% af fasteignamati.

Ákvæði til b­ráðabirgða o.fl.
    Fyrirséð er að lög um al­mennar íbúðir koma ekki að fullu til fram­kvæmda fyrr en í fyrsta lagi þegar vel er liðið á árið 2016 og ef til vill ekki fyrr en 2017. Í ljósi þess leggur nefndin til að áfram verði heimilt að samþykkja lán á grundvelli 37. gr. laga um húsnæðis­mál, eins og ákvæðið er nú, fram til 1. janúar 2018.
    Af svipuðum sökum leggur nefndin jafnframt til að heimilt verði að veita stofnfram­lög vegna byggingar íbúða sem er hafin fyrir gildistöku laganna, hafi ekki verið veitt lán til byggingar eða kaupa þeirra skv. 37. gr. laga um húsnæðis­mál.
    Fjár­málaskrifstofa Reykjavíkurborgar benti á að borgin hefði þegar úthlutað lóðum sem ætlaðar væru undir íbúðir fyrir tekjulága einstaklinga og fjölskyldur, þar á meðal náms­menn. Fjár­málaskrifstofan lagði til að heimilt yrði að telja lóðir sem úthlutað hefði verið fyrir gildistöku laganna til stofnframlags sveitarfélaga, enda gætu þau ella í reynd þurft að veita tvöfalt framlag. Með hliðsjón af athugasemdunum leggur nefndin til að hafi sveitarfélag úthlutað byggingaraðila lóð verði heimilt að líta á andvirði hennar sem stofnframlag ­sveitarfélags, þrátt fyrir að úthlutun hafi farið fram fyrir gildistöku laganna.
    Aðrar breytingartil­lögur skýra sig sjálfar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Elsa Lára Arnardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta skv. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fasta­nefndir Alþingis.

Alþingi, 9. maí 2016.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form.
Elsa Lára Arnardóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Páll Valur Björnsson. Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steingrímur J. Sigfússon. Unnur Brá Kon­ráðsdóttir.