Ferill 457. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 1268  —  457. mál.
Undirskriftir.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007 (heimagisting, veitingastaðir án áfengisveitinga, ótímabundin rekstrarleyfi).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Brynhildi Pálmarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Benedikt S. Benediktsson frá fjármála- og efnahags­ráðuneyti, Helenu Þ. Karlsdóttur og Ólöfu Ýri Atladóttur frá Ferðamálastofu, Sigurlaugu Gissurardóttur og Guðmund H. Helgason frá Ferðaþjónustu bænda, Árnýju Sigurðardóttur og Óskar Ísfeld frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Geir A. Gunnlaugsson og Grím Sigurðs­son fyrir hönd Húsfélagsins 101 Skuggahverfi-1, Öldu Hrönn Jóhannsdóttur og Heiðu Gests­dóttur frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Níels Sigurð Olgeirsson og Guðrúnu Elvu Hjörleifsdóttur frá Matvís, Örn Sigurðsson frá Reykjavíkurborg, Elínu Ölmu Arthúrsdóttur, Jarþrúði Hönnu Jóhannsdóttur, Óskar H. Albertsson og Sigurð Jensson frá embætti ríkis­skattstjóra, Guðjón Bragason og Vigdísi Häsler Sveinsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitar­félaga, Gunnar Val Sveinsson og Evu Silvernail frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Ragnhildi Sigurðardóttur og Sölva Melax frá Samtökum um skammtímaleigu á heimilum, Bjarna Guðmundsson og Gunnar Þorgeirsson frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Jón Viðar Matthíasson frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Þórólf Halldórsson, sýslumann á höfuð­borgarsvæðinu, og Sigurð Hafstað frá embætti hans, Jónas Guðmundsson, sýslumann á Vestfjörðum, og Ara Björn Thorarensen og Ástu Stefánsdóttur frá Sveitarfélaginu Árborg. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bláskógabyggð, Airbnb, Eyjólfi Ármannssyni, Félagi ferðaþjónustubænda, Ferðamálastofu, Grímsnes- og Grafningshreppi, Hauki Loga Karlssyni, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Húsfélaginu 101 Skuggahverfi-1, Húsfélaginu 101 Skuggahverfi 2–3, Ingunni Gísladóttur, Hlín Gunnarsdóttur og Sigfríði Þorsteinsdóttur, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Lögreglustjórafélagi Íslands, Matvís, Reykjavíkurborg, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum iðnaðarins, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum um skammtímaleigu á heimil­um, Seyðisfjarðarkaupstað, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Sveitarfélaginu Árborg, Sveitasælu ehf., sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, sýslumanninum á Vestfjörðum, Thor Guesthouse, Villa Accomodation, Viðskiptaráði Íslands og Þjóðskrá Íslands.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtana­hald í því skyni að bregðast við breytingum í samsetningu gististaða og þróun framboðs á gistingu, einkum í ljósi mikils fjölda óskráðra og leyfislausra gististaða. Lögð er til breytt skilgreining á því hvað felist í heimagistingu og er kveðið á um að sýslumenn fari með eftirlit með skráðum og skráningarskyldum aðilum sem bjóða upp á slíka gistingu. Jafnframt eru lagðar til breytingar á flokkun veitingastaða, m.a. til að fella brott rekstrarleyfisskyldu veitingastaða sem falla undir flokk I og til að hverfa frá því að lok afgreiðslutíma veitinga­staðar ráði því hvort hann telst umfangsmikill eða umfangslítill.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Lagt er til breytt orðalag á b-lið 1. gr. Breytingin miðar annars vegar að því að hnykkja á því að ekki megi leigja húsnæðið út lengur en í 90 daga samtals á hverju almanaksári. Heildartíminn er því umræddur dagafjöldi hvort sem viðkomandi leigir út eina eða tvær fasteignir. Hins vegar leggur nefndin til að bætt verði við skilgreininguna að húsnæðið megi aðeins leigja út fyrir allt að 2 millj. kr. á hverju almanaksári. Í breytingartillögu nefndarinnar felst breytt skilgreining á heimagistingu á þá leið að útleiga á húsnæði í eigu einstaklings verði annaðhvort heimil í allt að 90 daga eða fyrir allt að 2 millj. kr. á ári. Nefndin leggur til þrenns konar breytingar á 10. gr. frumvarps­ins. Í fyrsta lagi er lagt til að kveðið verði á um það skilyrði að húsnæði sem leigt er út sem heimagisting sé samþykkt íbúðarhúsnæði. Í öðru lagi er lagt til að mælt verði fyrir um að húsnæði þar sem boðið er upp á heimagistingu teljist ekki vera atvinnuhúsnæði í skilningi 1. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Það er því vilji löggjafans að húsnæði sem heimagisting fer fram í, eins og það hugtak er skilgreint í frumvarpinu, teljist ekki vera atvinnuhúsnæði. Í þriðja lagi er lagt til að því verði bætt við að númer sem skráningaraðili fær úthlutað skuli vera sýnilegt á viðkomandi fasteign. Þá leggur nefndin til breytingu á 12. gr. um að sýslumaður hafi heimild samkvæmt lögunum til að senda tilkynningar um niðurfellt rekstrarleyfi með tölvupósti á netfang sem skráður aðili hefur gefið upp. Jafnframt er lögð til breyting á 18. gr. í þá veru að sýslumenn sinni einnig eftirliti með notkun á leyfisnúmeri í rekstrarleyfisskyldri starfsemi, sbr. 4. mgr. 11. gr. laganna. Einnig er lögð til viðbót við 15. gr. frumvarpsins til að hnykkja á því að ekki aðeins lögreglustjóri heldur jafnframt slökkviliðsstjóri geti ákveðið kostnað af hlutaðeigandi ráðstöfunum sem og að bætt verði við tilvísun til öryggisvaktar af hálfu slökkviliðs sem mun hafa tíðkast gegn gjaldi á fjölmennum samkomum. Lögð er til viðbót við frumvarpið í þá veru að bæta við ákvæði um viðurlög við því að brjóta gegn banni við nektarsýningum og því að gert sé út á nekt skv. 4. mgr. 4. gr. laganna. Nefndin leggur jafnframt til að heimild fyrir setningu reglugerðar verði bætt við 21. gr. frumvarpsins en í því ákvæði er mælt fyrir um heimild sýslumanns til að leita til lögreglu um stöðvun starfsemi heimagistingar. Að lokum leggur nefndin til að frumvarpið öðlist gildi 1. september 2016.
    Við umfjöllun um málið kom fram að jafnvel á stærri veitingastöðum störfuðu ekki fag­lærðir matreiðslumenn. Nefndinni barst umsögn um málið þar sem bent var á að mikilvægt væri að virða 1. mgr. 8. gr. iðnaðarlaga. Nefndin telur mikilvægt að atvinnugreinin uppfylli kröfur um fagmenntun en nefndin hefur upplýsingar um að á vegum stjórnvalda standi yfir vinna sem tengist menntun og gæðum ferðaþjónustu.
    Í athugasemdum við frumvarpið er vísað til laga um fjöleignarhús og bent á fordæmi kærunefndar húsamála fyrir því að ekki sé talin óeðlileg breyting á hagnýtingu séreignar í fjöleignarhúsi að þar fari fram atvinnurekstur. Nefndin bendir á að annað mætti ráða af 1. mgr. 27. gr. laga um fjöleignarhús þar sem kveðið er á um samþykki allra eigenda ef breyta á hagnýtingu séreignar og af breytingunni leiðir verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur/afnotahafa. Nýverið féll dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli húsfélags gegn eigendum þriggja íbúða í stóru fjöleignarhúsi í Reykjavík (mál nr. E-2597/2015) sem leigðu ferðamönnum íbúðir til skamms tíma á grundvelli leyfis í flokki I (heimagisting) og flokki II (gististaður án veitinga) samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Dómurinn viðurkenndi að það hefði þeim verið óheimilt án þess að fyrir lægi samþykki allra félagsmanna húsfélagsins. Nefndin tekur undir að það geti falist ónæði í því, umfram það sem venjulega megi búast við í fjöleignarhúsi, þegar hluti eignar eða hluti eigna í fjöleignarhúsi er leigður ferðamönnum. Fram hefur komið að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar og telur nefndin rétt að þegar endanleg niðurstaða málsins liggur fyrir skuli fordæmisgildi þess metið. Nefndin bendir á að önnur sjónarmið geti átt við um heimagistingu í takmarkaðan tíma samkvæmt frumvarpi þessu en eiga við um útleigu á grundvelli leyfis fyrir gististað í flokki II. Nefndin beinir því til iðnaðar- og viðskiptaráðherra eða velferðar­ráðherra að meta hvort breyta þurfi lögum eða reglugerðum þegar endanleg niðurstaða liggur fyrir í framangreindu dómsmáli.
    Fram kom við umfjöllun um málið að ef frumvarpið yrði óbreytt að lögum brysti grundvöllur fyrir rekstri þeirra sem nú hafa leyfi í flokki heimagistingar. Þegar þau leyfi renna út munu slíkir aðilar ekki lengur heyra undir skilgreiningu heimagistingar og þurfa að sækja um sem gistiheimili og munu því þurfa að gangast undir ríkari kröfur, mögulega kostnaðarsamar eða illframkvæmanlegar. Nefndin beinir því til ráðherra að í reglugerð verði kveðið á um misríkar kröfur til gistiheimila og þá með tilliti til fjölda gesta.
    Fyrir liggur að húsnæði er leigt ferðamönnum án þess að tilskilið leyfi sé fyrir hendi og án þess að af því séu greiddir skattar. Nefndin telur brýnt að átak verði gert í eftirliti með slíkri starfsemi. Nefndin bendir á að ólögleg gististarfsemi skerði rekstrarskilyrði þeirra sem fylgja lögum og að auki geti hún raskað öryggi ferðamanna. Nefndin beinir því til ríkis­stjórnarinnar að ráðast í sérstakt átak til að tryggja að öll gististarfsemi fari löglega fram, m.a. með eftirlitsferðum lögreglu í húsnæði þar sem grunur leikur á um útleigu án leyfis.
    Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er unnið að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skipan ferðamála. Nefndin hvetur iðnaðar- og viðskiptaráðherra til að mæla þar fyrir um að bókunarþjónusta skuli skila stjórnvöldum upplýsingum um viðskipti sín hér á landi.
    Kristján L. Möller og Þorsteinn Sæmundsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 10. maí 2016.

Jón Gunnarsson,
form.
Þorsteinn Sæmundsson,
frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Haraldur Benediktsson. Ásmundur Friðriksson. Björt Ólafsdóttir.
Kristján L. Möller. Páll Jóhann Pálsson. Þórunn Egilsdóttir.