Ferill 112. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1282  —  112. mál.

2. umræða.


Nefnd­arálit með breytingartil­lögu


um frumvarp til laga um ríkisendur­skoðanda og endur­skoðun ríkisreikninga.

Frá stjórnskipunar- og eftirlits­nefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Vilhjálmsson frá lagaskrifstofu Alþingis, Svein Arason ríkisendur­skoðanda og Óla Jón Jónsson frá Ríkisendur­skoðun, Áslaugu Árnadóttur og Hildi Árnadóttur frá endur­skoðenda­ráði, Margréti Pétursdóttur frá Félagi löggiltra endur­skoðenda og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra ­sveitarfélaga.
    Við umfjöllun málsins var litið til umsagna sem bárust um málið á síðasta löggjafarþingi en það var lagt fram óbreytt frá síðasta löggjafarþingi. Umsagnir bárust þá frá atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðu­neyti, endur­skoðenda­ráði, Félagi löggiltra endur­skoðenda, fjárlaga­nefnd Alþingis, Kópavogsbæ, Ríkisendur­skoðun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Þorvaldi Inga Jónssyni.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem ætlað er að styrkja eftirlitshlutverk þingsins með fram­kvæmdarvaldinu og byggjast m.a. á niðurstöðum vinnuhóps sem skipaður var af forsætis­nefnd og skilaði skýrslu árið 2009 um efnið sem og skýrslu þing­manna­nefnd­ar sem falið var að bregðast við skýrslu rannsóknar­nefnd­ar Alþingis frá árinu 2010.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að með breytingunum sé m.a. verið að leggja til að lög um Ríkisendur­skoðun og lög um umboðs­mann Alþingis verði samræmd að því er varðar eftirlitshlutverk og starfsemi.

Umfjöllun nefnd­ar­innar.
    Nefndin fjallaði á fundum sínum al­mennt um stöðu stofnunarinnar og ríkisendur­skoðanda gagnvart Alþingi. Þá fjallaði nefndin um hlutverk stofnunarinnar og ríkisendur­skoðanda og tilgang með þeim verk­efnum sem henni eru falin og enn fremur hvað þingið ætlaðist til af stofnuninni. Einnig fjallaði nefndin um hvað fælist í sjálfstæði stofnunarinnar og ríkisendur­skoðanda gagnvart þinginu.
    Nefndin fjallaði einnig um þær áherslu­breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á stofnuninni, embættinu og stöðu þess gagnvart Alþingi, hvaða hæfiskröfur ætti að gera til ríkisendur­skoðanda, sjálfstæði ríkisendur­skoðanda, skýrslubeiðnir Alþingis o.fl.

Ríkisendur­skoðandi.
    Í frumvarpinu eru lögð til nokkur nýmæli og breytingar á stöðu ríkisendur­skoðanda. Lagt er til að í stað þess að vísað sé til stofnunarinnar í heiti frumvarpsins eins og gert er í gildandi lögum um Ríkisendur­skoðun verði vísað til ríkisendur­skoðanda og endur­skoðunar ríkisreikninga. Með þeirri breytingu er lögð áhersla á stöðu ríkisendur­skoðanda sem samkvæmt gildandi lögum er starfsmaður Alþingis og ber ábyrgð gagnvart því, sbr. 2. gr. laganna. Í frumvarpinu er lagt til að ríkisendur­skoðandi starfi á vegum Alþingis og sé trúnaðarmaður þess við endur­skoðun og eftirlit með rekstri og fjár­málum ríkisins, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Nefndin telur að sú áhersla á að ríkisendur­skoðandi starfi á vegum Alþingis og sé trúnaðarmaður þess og ábyrgur gagnvart því við endur­skoðun og eftirlit með rekstri og fjár­málum ríkisins sé grundvallaratriði í störf­um hans og þeirrar skrifstofu sem hann stýrir og nefnist Ríkisendur­skoðun.
    Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er lagt til að tveir þriðju hlutar þing­manna geti samþykkt að víkja ríkisendur­skoðanda úr embætti. Samkvæmt gildandi lögum er kveðið á um að forsætis­nefnd geti að fengnu samþykki Alþingis vikið ríkisendur­skoðanda úr starfi, þ.e. meiri hluta Alþingis þarf til að samþykkja brottvikningu. Breytingin sem lögð er til í frumvarpinu felur því í sér sterkari stöðu og meira sjálfstæði ríkisendur­skoðanda gagnvart Alþingi. Nefndin tekur fram að ríkisendur­skoðandi er sérstakur trúnaðarmaður Alþingis sem hefur verið falið að leiða störf Ríkisendur­skoðunar. Nefndin telur breytinguna því eðlilega og til þess fallna að efla sjálfstæði ríkisendur­skoðanda og styrkja í því starfi sem honum er falið.
    Samkvæmt gildandi lögum um Ríkisendur­skoðun ræður forsætis­nefnd forstöðu­mann stofnunarinnar til sex ára í senn. Með frumvarpinu er lagt til að Alþingi kjósi ríkisendur­skoðanda til sex ára í senn og heimilt verði að endurkjósa hann einu sinni. Í greinargerð kemur fram að þetta sé nokkuð sambærilegt annars staðar á Norðurlöndum þó að skipunartíminn þar sé styttri. Fram kom að með þessu væri leitast við að skapa hæfilega endurnýjun án þess þó að raska stöðugleika í starfsemi stofnunarinnar. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og telur nauðsynlegt í ljósi þess aðhalds sem ríkisendur­skoðanda er ætlað að veita stjórnvöldum og þess trausts sem þarf að ríkja um þennan trúnaðar­mann þingsins að endurnýjun verði a.m.k. á tólf ára fresti.

Hæfisskilyrði.
    Nefndin ræddi nokkuð um hæfisskilyrði ríkisendur­skoðanda en í frumvarpinu er lagt til að hann skuli hafa löggildingu sem endur­skoðandi. Fyrir nefndinni kom fram að rökin að baki þeirri kröfu væru að ríkisendur­skoðandi, sem ber m.a. ábyrgð á endur­skoðun ríkisreiknings og ársreikningum stofnana ríkisins, skyldi hafa þá þekkingu á reikningsskilum og gerð ársreikninga sem nauðsynleg væri til að geta staðfest réttmæti þeirra og trúverðugleika með áritun sinni. Á fundum nefnd­ar­innar og í umsögnum um málið komu fram sjónarmið þess efnis að viðfangsefni embættisins væru víðtækari en svo að þau tækju einvörðungu til endur­skoðunar ríkisreikninga þótt slík endur­skoðun væri vissulega höfuðverk­efni og þungamiðja starfseminnar. Á það bæri þó að líta að gagnrýnin sýn á stjórnsýslu og stjórnun væri einnig mjög mikilvæg og væri yfirgripsmikil þekking og reynsla á öllum þessum þáttum mikilvægari og vægi þyngra en tiltekin sérþekking. Horfa þyrfti heildstætt til þeirra verkþátta sem ríkisendur­skoðandi hefði umsjón með og verkstýrði og hlyti í því mati að vera horft til þekkingar og reynslu á sviði fjár­mála og opinberrar stjórnsýslu. Þessi nálgun er í góðu samræmi við það sem tíðkast hjá systur­stofnunum Ríkisendur­skoðunar annars staðar á Norðurlöndum en þar er ekki gerð krafa um að ríkisendur­skoðandi hafi löggildingu.
    Þessi sjónarmið fengu hljómgrunn í nefndinni og varð niðurstaðan sú að ekki var talin þörf á að lögfesta kröfu um að ríkisendur­skoðandi hefði löggildingu sem endur­skoðandi þó að það væri ekki útilokað. Nefndin tekur fram að þeir starfs­menn sem vinna að endur­skoðun hjá stofnuninni þurfi að hafa slíka löggildingu. Nefndin leggur þó áherslu á nauðsyn þess að ríkisendur­skoðandi hafi þekkingu á reikningsskilum og ríkisrekstri auk stjórnunarreynslu. Nefndin leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis að ríkisendur­skoðandi skuli hafa þekkingu á reikningsskilum og ríkisrekstri auk stjórnunarreynslu.

Starfssvið ríkisendur­skoðanda.
    Nefndin fjallaði einnig um 4. gr. frumvarpsins um starfssvið ríkisendur­skoðanda. Í 1. gr. laga um Ríkisendur­skoðun er kveðið á um hlutverk stofnunarinnar og í loka­málslið greinarinnar kveðið á um að hún skuli enn fremur annast eftirlit með fram­kvæmd fjárlaga og vera þing­nefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhags­málefni ríkisins. Í frumvarpinu er ekki að finna slíkt ákvæði en fyrir nefndinni hafa komið fram sjónarmið um að rétt væri að geta þessa hlutverks sérstaklega eins og gert er í gildandi lögum. Nefndin telur að þótt það felist í meginhlutverki ríkisendur­skoðanda sem trúnaðar­manns þingsins og ábyrgð hans gagnvart því við endur­skoðun og eftirlit með fjár­málum ríkisins að vera nefndum þingsins til aðstoðar að þessu leyti sé engu að síður rétt að kveða skýrt á um það. Nefndin leggur því til að við 1. mgr. 4. gr. bætist nýr stafliður um að ríkisendur­skoðandi eigi að vera þing­nefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhags­málefni ríkisins, þ.m.t. eftirlit með fram­kvæmd fjárlaga.

Skýrslubeiðni Alþingis.
    Nefndin fjallaði einnig um þær breytingar sem lagðar eru til á ákvæði um skýrslubeiðni Alþingis. Í 17. gr. frumvarpsins er lagt til að forsætis­nefnd Alþingis geti ýmist að eigin frum­kvæði eða samkvæmt beiðni þing­nefnda eða þingflokka farið fram á að ríkisendur­skoðandi taki saman skýrslu um einstök mál eða málaflokka sem falla undir starfssvið hans. Í 3. gr. gildandi laga er kveðið á um að forsætis­nefnd geti að eigin frum­kvæði eða samkvæmt óskum þing­manna krafist skýrslna um einstök mál er falla undir starfsemi Ríkisendur­skoðunar.
    Nefndin ræddi sérstaklega hvort fela ætti stjórnskipunar- og eftirlits­nefnd fremur en forsætis­nefnd það verk­efni að geta farið fram á að ríkisendur­skoðandi tæki saman skýrslu. Stjórnskipunar- og eftirlits­nefnd hefur ríkt eftirlitshlutverk samkvæmt þingsköpum Alþingis. Nefndin skal m.a. hafa frum­kvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráð­herra og verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart fram­kvæmdarvaldinu. Nefndin telur með hliðsjón af hlutverki nefnd­ar­innar og þeim verk­efnum sem henni eru falin að það eigi vel við að fela nefndinni það hlutverk sem forsætis­nefnd hefur haft gagnvart Ríkisendur­skoðun. Þá telur nefndin það einnig ríma vel við hlutverk og stöðu ríkisendur­skoðanda gagnvart nefndinni og þinginu. Nefndin leggur því einnig til að stjórnskipunar- og eftirlits­nefnd geti farið fram á að ríkisendur­skoðandi taki saman skýrslu um einstök mál eða málaflokka og leggur til breytingar á frumvarpinu í þá veru.
    Nefndin ræddi einnig nokkuð um hvort breytingarnar sem lagðar eru til fælu í sér takmörkun á rétti einstakra þing­manna til að veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald. Þing­menn geta samkvæmt gildandi lögum um Ríkisendur­skoðun leitað til forsætis­nefnd­ar með skýrslubeiðnir til Ríkisendur­skoðunar. Með frumvarpinu er lagt til að heimildin verði hjá þing­nefndum eða þingflokkum. Nefndin telur að með þeirri breytingu felist ákveðin takmörkun á rétti þing­manna og leggur því til með hliðsjón af ákvæði 54. gr. þingskapa að í stað þess að þing­nefndir eða þingflokkar geti beðið um skýrslu eins og lagt er til í frumvarpinu geti níu þing­menn óskað eftir því að ríkisendur­skoðandi taki saman skýrslu um einstök mál eða málaflokka á sambærilegan hátt og þeir geta óskað eftir skýrslu frá ráð­herra um opinbert málefni. Nefndin telur eðlilegt að um meðferð skýrslubeiðninnar í þingsal fari sem um skýrslubeiðni til ráð­herra, þ.e. að borið verði undir atkvæði á þingfundi umræðulaust hvort beiðnin skuli leyfð. Nefndin leggur því til breytingu á frumvarpinu í þá veru og telur að með því sé komið til móts við þing­menn sem geti þar með veitt stjórnvöldum fullnægjandi aðhald.
    Nefndin áréttar að það að fara fram á að ríkisendur­skoðandi taki saman skýrslu geti hvort sem er átt við frumskýrslu, eftirfylgniskýrslu eða lokaskýrslu. Nefndin bendir einnig á að skýrslubeiðendur geti haft skoðanir á úttekt, efnistökum og umfangi skýrslu og komið á framfæri sjónarmiðum og ábendingum um það sem þeir telji að betur megi fara, en það er ríkisendur­skoðanda að vinna skýrsluna á faglegan, óhlutdrægan og trúverðugan hátt út frá gildandi lögum, stöðlum og viðmiðum. Nefndin áréttar þó að ríkisendur­skoðandi skal vera sjálfstæður í störf­um sínum og óháður fyrirmælum frá þinginu um fram­kvæmd starfa sinna.

Kynning á skýrslum.
    Nefndin fjallaði einnig um hvort leggja ætti til breytingar á því hvernig skýrslur eru kynntar fyrir Alþingi, þ.e. hvort ríkisendur­skoðandi ætti að kynna þær fyrir stjórnskipunar- og eftirlits­nefnd áður en þær eru birtar á vef Ríkisendur­skoðunar og sendar út fréttatilkynningar um skýrslurnar m.a. til fjölmiðla. Röksemdir með því verklagi eru að Ríkisendur­skoðun er undir­stofnun Alþingis og vinnur skýrslurnar fyrir það. Slíkt verklag væri einnig til þess fallið að stuðla að meiri aga hjá nefndinni við umfjöllun um skýrslurnar. Þannig gæti umræðan orðið markvissari og farið fram á sama tíma í nefndinni og í fjölmiðlum.
    Nefndin skoðaði í því sambandi hvernig kynningu á skýrslum systur­stofnana Ríkisendur­skoðunar annars staðar á Norðurlöndum væri háttað. Í Noregi eru skýrslur ríkisendur­skoðunar kynntar af ríkisendur­skoðanda fyrir systur­nefnd stjórnskipunar- og eftirlits­nefnd­ar, þ.e. „kontroll- og konstitusjonskomiteen“, áður en send er út fréttatilkynning til fjölmiðla og þær birtar á vef ríkisendur­skoðunar. Árið 2011 var sú fram­kvæmd lögfest með breytingum á lögum um ríkisendur­skoðun. Skýrslurnar í Noregi eru þó mun færri og umfangsmeiri en þær sem Ríkisendur­skoðun gefur út hér. Í Svíþjóð er svipaður háttur á kynningum skýrslna og hérlendis, þ.e. þær eru kynntar á vef og síðan fyrir þinginu. Í Danmörku er annar háttur þar sem ríkisendur­skoðandi (rigsrevisor) skilar öllum skýrslum til skoðunar­manna ríkisreikninga (statsrevisorerne). Skoðunar­menn eru sex stjórn­mála­menn til­nefndir af þinginu eftir tilnefningu stjórn­málaflokka. Þeir vinna sjálfstætt og hafa aðsetur í þinginu. Skýrslur eru birtar á vef ríkisendur­skoðanda, skoðunar­manna ríkisreikninga og þingsins eftir að skoðunar­menn hafa fengið þær í hendur og fundað um þær, m.a. með embættis­mönnum viðeigandi stofnana og ráðuneyta.
    Nefndin leggur að þessu sinni ekki til breytingar á frumvarpinu í þá veru að Ríkisendur­skoðun kynni skýrslur fyrir stjórnskipunar- og eftirlits­nefnd áður en þær eru birtar opinberlega en telur að verði sú fram­kvæmd tekin upp geti það orðið til þess að bæta umræðu um skýrslurnar í nefndinni, þ.e. að nefndin hafi tíma til að kynna sér efni þeirra áður en þær eru gerðar opinberar.

Sérstakt hæfi.
    Nefndin fjallaði einnig um ákvæði frumvarpsins um hæfi, þ.e. hvenær ríkisendur­skoðandi og starfs­menn hans gætu orðið vanhæfir í einstökum tilvikum og hvaða hagsmunir gætu valdið því. Í 3. gr. gildandi laga er kveðið á um að Ríkisendur­skoðun sé engum háð í störf­um sínum og að starfs­menn ríkisendur­skoðunar skuli í einu og öllu óháðir ráðuneytum og stofnunum sem þeir vinna að endur­skoðun hjá. Í 13. gr. frumvarpsins er lögð til nánari útlistun á hæfisreglum og vísað til 1.–3. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga þar sem kveðið er á um að starfsmaður sé vanhæfur til meðferðar máls m.a. ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila, skyldur, tengdur eða mægður eða tengist fyrirsvars­manni eða umboðs­manni aðila á þann hátt. Þá er einnig lagt til að litið verði til þess hvort það eru að öðru leyti fyrir hendi slíkar aðstæður svo að með réttu megi draga í efa óhlutdrægni ríkisendur­skoðanda eða þeirra sem starfa hjá eða á vegum Ríkisendur­skoðunar. Nefndin tekur undir nauðsyn þess að kveða skýrt á um hæfisreglur ríkisendur­skoðanda og starfs­manna hans m.a. til þess að tryggja hlutleysi þeirra. Nefndin telur reglurnar til þess fallnar að auðvelda mat á álitaefnum um hæfi sem upp kunna að koma, tryggja faglega nálgun á viðfangsefnin og auka þar með traust á embættinu og stofnuninni til lengri tíma.
    Í 3. mgr. 13. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði sú venja að ríkisendur­skoðandi skeri úr um hæfi sitt og annarra sem starfa í þágu Ríkisendur­skoðunar. Verði á­grein­ingur um sérstakt hæfi ríkisendur­skoðanda skeri forseti Alþingis úr. Í 4. mgr. 13. gr. er lagt til það nýmæli að þegar ríkisendur­skoðandi telur sig vanhæfan til að fjalla um og afgreiða tiltekið mál víki hann sæti við athugun þess og setur forseti Alþingis þá sérstakan ríkisendur­skoðanda til að fara með málið. Nefndin telur ríka þörf á slíku ákvæði og telur það til þess fallið að skapa meiri sátt um embættið, ef upp kemur mál þar sem sérstakt hæfi ríkisendur­skoðanda kemur til skoðunar, að settur verði ríkisendur­skoðandi til að fara með það mál. Með þeirri breytingu verður einnig tryggt samræmi við ákvæði laga um umboðs­mann Alþingis, en í 2. og 3. mgr. 14. gr. er kveðið á um að þegar umboðsmaður víkur sæti við meðferð máls setji forseti Alþingis mann til þess að fara með málið.

Starfskjör ríkisendur­skoðanda.
    Nefndin fjallaði einnig um starfskjör ríkisendur­skoðanda en í frumvarpinu er lagt til að forsætis­nefnd ákveði laun ríkisendur­skoðanda og skuli þau taka mið af launum hæstaréttar­dómara. Í 2. gr. gildandi laga um Ríkisendur­skoðun er kveðið á um að launakjör ríkisendur­skoðanda skuli ákveðin af kjara­ráði. Tillagan í frumvarpinu tekur mið af ákvæðum laga um umboðs­mann Alþingis en skv. 13. gr. þeirra ákveður forsætis­nefnd laun umboðs­manns. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ástæða þess að taka upp slíkt fyrirkomulag, þ.e. að forsætis­nefnd Alþingis ákveði laun ríkisendur­skoðanda, byggist aðallega á því að það samræmist illa að kjara­ráð skuli ákveða launakjör ríkisendur­skoðanda á meðan hann hefur eftirlit með fram­kvæmdarvaldinu í þágu Alþingis. Nefndin telur með vísan til þess að kjara­ráð hefur nú þegar það hlutverk að ákveða starfskjör æðstu embættis­manna allra greina ríkisvaldsins að ekki séu sérstök rök fyrir því að hafa annan hátt á varðandi ríkisendur­skoðanda. Nefndin leggur því til breytingu á frumvarpinu í þá veru.

Stjórnsýsluendur­skoðun.
    Nefndin fjallaði einnig á fundum sínum um 6. gr. frumvarpsins um stjórnsýsluendur­skoðun en með framsetningu ákvæðisins er verið að einfalda og gera það skýrara. Þannig er lögð áhersla á að lýsa inntaki og viðmiðum stjórnsýsluendur­skoðunar. Megininntak hennar felst í því að kanna meðferð og nýtingu ríkisfjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort fram­lög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt. Við fram­kvæmd stjórnsýsluúttekta og nánari afmörkun þeirra geta risið álita­mál um það hversu langt ríkisendur­skoðandi megi ganga í umfjöllun sinni um einstök atriði. Ákveðin hætta er á að slíkar athuganir geti farið inn á svið stjórn­mála þar sem leitað er sam­eigin­legrar úrlausnar á hagsmuna­málum samfélagsins eftir lýðræðislegum leikreglum. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið sem koma fram í greinargerð með frumvarpinu og telur mikilvægt að ríkisendur­skoðandi gæti þess sérstaklega að afmarka stjórnsýsluúttektir sínar við að kanna meðferð og nýtingu ríkisfjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort fram­lög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt. Jafnframt skal ríkisendur­skoðandi horfa til þeirra kvaða sem stofnunum er ætlað að rísa undir samkvæmt lögum og fyrirmælum.
    Nefndin fjallaði einnig um markmið stjórnsýsluúttekta en skv. 1. mgr. 6. gr. er það að stuðla að úr­bótum út frá framangreindri afmörkun. Í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um að ríkisendur­skoðandi skuli upplýsa Alþingi og stjórnvöld um málefni sem varða rekstur og fjárreiður ríkisins, leiða í ljós frávik frá lögum og reglum á því sviði og gera til­lögu að úr­bótum, bættri stjórnsýslu, skýrari ábyrgð og betri nýtingu ríkisfjár. Þannig getur hann lagt til úr­bætur, þ.m.t. laga­breytingar, telji hann að þannig verði best stuðlað að hagkvæmum, skilvirkum og árangursríkum rekstri. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að slíkar úr­bætur geti lotið að breytingum á skipulagi, stjórnun og starfsaðferðum hjá ríkis­stofnunum og öðrum sem endur­skoðunin beinist að. Í fæstum tilvikum er tekin afstaða til þess hver beri ábyrgð á mistökum eða vanrækslu, enda beinist eftirlitið fremur að því að færa rekstur og meðferð fjármuna ríkisins til betri vegar en að leiða í ljós ábyrgð tiltekins aðila. Í athugasemdum ríkisendur­skoðanda og til­lögum til úr­bóta getur engu að síður falist gagnrýni á stjórnendur stofnana eða þau stjórnvöld sem bera ábyrgð á þeim málaflokki sem stofnanirnar falla undir. Í sumum tilvikum getur ábyrgð þó reynst óskýr. Þegar svo ber undir er beinlínis gert ráð fyrir því í 3. gr. frumvarpsins að ríkisendur­skoðandi geri til­lögur að „skýrari ábyrgð“. Nefndin telur þetta mjög mikilvægt atriði en bendir á að við mat á því hvort ábyrgð sé nægilega skýr sé nauðsynlegt að fram fari lögfræðileg skoðun á því álitaefni innan stofnunarinnar þar sem beitt sé hlutlægum faglegum viðmiðum. Nefndin telur það vera stjórnunarlegt atriði hjá ríkisendur­skoðanda að gæta að því að innan stofnunarinnar sé fullnægjandi fag- og sérþekking til að standa undir því hlutverki og verk­efnum sem honum eru falin.

Skörun við verk­efni umboðs­manns Alþingis.
    Nefndin fjallaði einnig á fundum sínum um verk­efni Ríkisendur­skoðunar og skörun við verk­efni umboðs­manns Alþingis. Grundvallarþáttur í stjórnsýsluúttektum er athugun á því hvort rekstur á vegum ríkisins sé í samræmi við þær forsendur og markmið sem Alþingi hefur lagt til grundvallar í lögum, ályktunum eða með öðrum hætti. Við athugun á því hvort stjórnvöld hafi fylgt lagafyrirmælum á tilteknu sviði geta risið álita­mál um túlkun og skýringu laga. Nefndin tekur undir sjónarmið í greinargerð með frumvarpinu um að ríkisendur­skoðanda beri að gæta varúðar að álykta al­mennt um slíkt og bendir á að í þessu sambandi ganga gildandi lög út frá því að hlutverk ríkisendur­skoðanda sé að hafa í umboði Alþingis eftirlit með fjárhagslegum hagsmunum ríkisins. Ríkisendur­skoðanda er ekki falið hlutverk sem öðrum er fengið. Dómstólar og umboðsmaður Alþingis hafa eftirlit með því hvort al­mennar stjórnsýslureglur séu í heiðri hafðar. Þannig verður ekki litið á ríkisendur­skoðanda sem dómstól eða álitsgjafa um túlkun laga enda ekki hlutverk hans að taka afstöðu til á­grein­ingsefna um lagatúlkun. Á það t.d. við um ákvarðanir um réttindi og skyldur manna í stjórnsýslunni, svo sem við innheimtu og álagningu skatta og annarra gjalda, við veitingu starfa hjá ríkinu eða um beitingu málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga. Á ákveðnum sviðum, sérstaklega þegar um er að ræða al­menna löggjöf sem beinlínis varðar rekstur og fjárhags­málefni ríkisins, kann það þó að vera óhjákvæmilegt. Getur það a.m.k. átt við þegar meta þarf hvort fylgt hafi verið fyrirmælum laga um fjárreiður ríkisins, um bókhald, ársreikninga og önnur reikningsskil eða opinber innkaup. Nefndin tekur undir þessa áréttingu í greinargerð með frumvarpinu og telur nauðsynlegt að ríkisendur­skoðandi fylgi þessari afmörkun verk­efna embættisins strangt eftir.

Endurskoðendur o.fl.
    Nefndin fjallaði einnig um gildissvið frumvarpsins gagnvart lögum um endur­skoðendur en fyrir nefndinni komu fram ýmis sjónarmið um að það væri ekki nægilega skýr afmörkun. Nefndin bendir í því sambandi á að ef frumvarp til laga um Ríkisendur­skoðun og endur­skoðun ríkisreikninga verður að lögum gangi þau sér­lög framar al­mennum lögum um endur­skoðendur. Í 21. gr. frumvarpsins er einnig skýrt tekið fram að lög um endur­skoðendur taki ekki til ríkisendur­skoðanda eða Ríkisendur­skoðunar. Þar er einnig lagt til að ákvæði laganna taki til þeirra starfs­manna Ríkisendur­skoðunar sem annast endur­skoðun ársreikninga, sjóða og ríkisfyrirtækja þar sem ríkið á helmingshlut eða meira. Skilyrði er að í lögum um hlutaðeigandi fé­lög eða fyrirtæki sé gerð krafa um að endur­skoðunin sé fram­kvæmd af löggiltum endur­skoðanda. Nefndin tekur fram að undanþágan sem lögð er til í frumvarpinu varðar einungis starfsábyrgðartryggingu samkvæmt lögum um endur­skoðendur. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkisendur­skoðandi upplýsi endur­skoðunar­ráð um þá starfs­menn Ríkisendur­skoðunar sem falla undir þá reglu og að stofnunin beri ábyrgð á störf­um þeirra. Nefndin bendir á að al­mennar kröfur laga um endur­skoðendur gilda þannig um endur­skoðendur sem starfa hjá Ríkisendur­skoðun og falla undir þau, svo sem varðandi endur­menntun o.fl.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      2. málsl. 1. mgr. 2. gr. orðist svo: Hann skal hafa þekkingu á reikningsskilum og ríkisrekstri auk stjórnunarreynslu og má ekki vera alþingismaður.
     2.      Á eftir orðunum ,,verðmæti séu nýtt og“ í 1. mgr. 3. gr. komi: þeim.
     3.      Við 1. mgr. 4. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: aðstoðar við störf þing­nefnda er varða fjárhags­málefni ríkisins, þ.m.t. eftirlit með fram­kvæmd fjárlaga.
     4.      Í stað orðanna ,,víkur hann úr sæti“ í 4. mgr. 13. gr. komi: víkur hann sæti.
     5.      Eftirfarandi breytingar verði á 17. gr.:
                  a.      Í stað orðanna ,,Forsætis­nefnd Alþingis“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: Stjórnskipunar- og eftirlits­nefnd Alþingis.
                  b.      Í stað orðanna ,,beiðni þing­nefnda eða þingflokka“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: til­lögu sem henni berast.
                  c.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir ef níu þing­menn óska þess með skýrslubeiðni í þingsal og skal þá taka beiðnina fyrir.
     6.      Í stað 1. málsl. 1. mgr. 19. gr. komi: Kjara­ráð ákveður laun ríkisendur­skoðanda.
     7.      Í stað orðanna „1. janúar 2016“ í 1. mgr. 22. gr. komi: 1. janúar 2017.

    Árni Páll Árnason og Höskuldur Þórhallsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Brynhildur Pétursdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk álitinu.

Alþingi, 10. maí 2016.

Ögmundur Jónasson,
form.
Birgir Ár­mannsson,
frsm.
Birgitta Jónsdóttir.
Brynjar Níelsson. Elsa Lára Arnardóttir. Helgi Hjörvar.
Willum Þór Þórsson.