Ferill 719. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1289  —  719. mál.




Svar


forsætis­ráð­herra við fyrirspurn frá Valgerði Bjarnadóttur um aðgerða­áætlun Vísinda- og tækni­ráðs.


     1.      Hafa eftirfarandi markmið aðgerða­áætlunar Vísinda- og tækni­ráðs 2014–2016 náðst? Ef svo er ekki, hver er árangurinn miðað við fjár­lög eða þjóðhagsspá fyrir árið 2016, eftir því sem við á, varðandi:
                  a.      auknar fjárveitingar til vísinda og nýsköpunar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF), þannig að árið 2016 nái þær 3,0% af henni,
                  b.      fjármögnun há­skólakerfisins hér á landi svo að hún verði a.m.k. sambærileg við meðaltal aðildarríkja OECD árið 2016,
                  c.      hækkun hlutfalls samkeppnisfjár í fjármögnun há­skóla og rannsóknar­stofnana, þannig að það nái um þriðjungi af heildar­fjármögnun árið 2016?

    Árið 2014 tók Hagstofa Íslands við gagnasöfnun um fram­lög til rannsókna og þróunar frá Rannsókna­miðstöð Íslands (Rannís). Aðferðafræði Hagstofu er önnur en fyrri umsjónaraðila svo rof varð í tímaröð og eru því tölur stofnananna ekki samanburðarhæfar. Samkvæmt tölum Hagstofu sem stofnunin birti vorið 2015 var hlutfall fjárfestinga til vísinda og nýsköpunar árið 2013 1,87% af VLF sem er nokkuð lægra en gert hafði verið ráð fyrir þegar aðgerða­áætlunin var samþykkt. Sambærileg tala er 1,89% fyrir árið 2014. Af þessum sökum er þriggja prósenta markmiðið árið 2016 ekki raunhæft, enda hafa forsendur breyst. Samkvæmt Hagstofu Íslands nam framlag fyrirtækja til útgjalda til rannsóknar- og þróunarstarfs árið 2013 19,9 milljörðum kr. og 21,35 milljörðum kr. árið 2014 en tölur fyrir árið 2015 munu liggja fyrir í september 2016. Hækkun framlags fyrirtækja nam því 1,45 milljarði kr. milli áranna. Útgjöld fyrirtækja til rannsókna og þróunar, óháð uppruna fjármagns, nema samkvæmt Hagstofu 57% af heildar­útgjöldum til málaflokksins og er það hlutfall hið sama og fyrir árið 2013. Vonir standa til þess að nýir skatthvatar sem voru kynntir í síðasta mánuði í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í rekstri muni auðvelda fyrirtækjum fjárfestingar í rannsóknum og nýsköpun.
    Alþingi samþykkti í fjár­lögum fyrir árið 2016 að til­lögu ríkisstjórnar 2 milljarða kr. varanlega hækkun framlaga í Vísindasjóð, Innviðasjóð og Tækniþróunarsjóð sem allir eru samkeppnissjóðir. Fram­lögin koma til úthlutunar á árinu 2016. Er það viðbót við varanlega hækkun árið 2015 um 800 millj. kr. Með því móti stóð ríkisstjórn og fjárveitingavaldið við sitt loforð um að auka verulega opinberar fjárveitingar til samkeppnissjóða.
    Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið vinnur að því að efla fjármögnun há­skólakerfisins með það að leiðarljósi að hver há­skólanemi hér á landi verði fjármagnaður með sambærilegum hætti og gerist annars staðar á Norðurlöndunum á árinu 2020.
    Þegar litið er til há­skólakerfisins í heild, þ.e. há­skóla, há­skólatengdra rannsóknar­stofnana og opinberra samkeppnissjóða, er hlutur samkeppnisfjár í dag um 23%. Hefur það hækkað verulega á síðustu árum, eða úr 14% árið 2014 (sjá töflu). Hér er ekki tekinn með skattafrádráttur vegna rannsóknar- og þróunarstarfs eins og gert er á mynd við aðgerð 1.3 í aðgerða­áætlun Vísinda- og tækni­ráðs, en væri hann með í þessum tölum væri hlutfallið enn hærra.
    Þegar litið er til þróunar fram til ársins 2021 er gert ráð fyrir að hlutfall samkeppnisfjár haldi áfram að hækka, þrátt fyrir (eða samhliða) verulegri hækkun á grunnfjármögnun há­skólanna þannig að það nái um 30% árið 2021.

Opinber fram­lög til há­skólakerfisins og hlutfall samkeppnissjóða af heildinni.*

2014 2015 2016
Safna­mál (há­skólabókasafn) 396 420 450
Há­skólar 18.788 19.712 21.995
Rannsóknastarfsemi á há­skóla­stigi (Árna­stofnun, Keldur, þekkingarsetur) 1.645 1.593 1.550
Samkeppnissjóðir í rannsóknum (Rannsóknasjóður, Innviðasjóður, Mark­áætlun, Tækniþróunarsjóður) 3.442 4.928 7.047
Samtals 24.270 26.653 31.042
Hlutfall sjóða af kerfinu 14% 18% 23%
*(í millj. kr.)

     2.      Hver er staða aðgerða til að eftirfarandi markmið náist:
                  a.      að skapa gegnsætt fjárhagslegt um­hverfi fyrir há­skóla og rannsóknar­stofnanir svo að ljóst sé að fjárveitingar tengist árangri og gæðum,
                  b.      að tryggja að reglur íslenskra samkeppnissjóða um samrekstrarkostnað og mótfram­lög taki mið af þróun á alþjóða­vett­vangi, svo sem í Horizon 2020,
                  c.      að nýta skattkerfið markvisst til að hvetja til fjárframlaga fyrirtækja og einstaklinga til vísinda og nýsköpunar?

    Samhliða eflingu á grunnfjármögnun há­skóla á næstu árum mun mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið vinna að því að endur­skoða reiknilíkan há­skóla, m.a. með það fyrir augum hvort taka beri upp árangurstengdar fjárveitingar á rannsóknarfram­lögum. Slíkar fjárveitingar byggjast á upplýsingum um afrakstur há­skóla, t.d. hvað varðar birtingar í ritrýndum tímaritum og einkaleyfi. Ráðuneytinu hefur til þessa ekki verið unnt að árangurstengja rannsóknarfjárveitingar vegna þess að samræmdar upplýsingar um afrakstur í há­skólum hafa verið takmarkaðar. Ráðuneytið vinnur nú að því, í samræmi við stefnu Vísinda- og tækni­ráðs, að kaupa upplýsingakerfi um afrakstur há­skóla sem mun auðvelda alla gagnaöflun um rannsóknar- og nýsköpunarstarf í há­skólum og rannsóknar­stofnunum. Í endur­skoðuninni verður hugað að því hvernig fjárveitingar geta betur stutt við gæði, gagnsæi og skilvirkni. Í umræddu upplýsingakerfi munu koma fram lykiltölur árangurs í vísinda- og nýsköpunarstarfi. Myndaður hefur verið stýrihópur um kaup á upplýsingakerfinu sem í sitja fulltrúar hagsmunaaðila. Hlutverk hans er að vinna kröfulýsingu fyrir útboð í samvinnu við Ríkiskaup, ákveða til hvaða þátta verður horft við mat á tilboðum, samhæfa verkferla og gæðaeftirlit við notkun kerfisins og skipuleggja og tryggja árangursríka innleiðingu innan stofnana. Vonir standa til að útboð verði auglýst í haust og innleiðing hefjist í byrjun næsta árs. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir að innleiðingin nái til há­skóla­stofnana. Næsti áfangi mun ná til rannsóknar­stofnana.
    Starfshópur um endur­skoðun á reiknilíkani há­skóla verður settur á laggirnar á árinu 2016. Vegna þess hve verk­efnið er viðamikið er gert ráð fyrir að innleiða þurfi breytingarnar í þrepum og miðað við að hefja innleiðingu í fjár­lögum fyrir árið 2018 (á árinu 2017).
    Ljóst er að ríkisstjórnin hefur þegar tekið skref í átt til aukinnar árangurstengingar með því að efla opinbera samkeppnissjóði, en þeir byggjast á þeirri hugmyndafræði að styrkir skuli renna til vísinda­manna sem náð hafa góðum árangri og eru líklegir til að gera það í framtíðinni.
    Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið benti stjórnum opinberra samkeppnissjóða á markmiðið með bréfi í febrúar 2015. Hvor tveggja stóru sjóða Rannís, Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður, hafa aðlagað reglur sínar að reglum sem gilda í ramma­áætlun ESB um samrekstrarkostnað („overhead“) og mótfram­lög frá stofnunum.
    Nýsköpunarfyrirtæki hafa átt kost á skattaívilnunum að uppfylltum vissum skilyrðum frá því að lög nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, voru sett. Frádrátturinn miðast við 20% af út­lögðum kostnaði vegna nýsköpunarverk­efnis sem hefur fengið staðfestingu Rannsókna­miðstöðvar Íslands. Annars vegar er um að ræða stuðning vegna útgjalda að hámarki 100 millj. kr. á ári sem jafngildir 20 millj. kr. skattaívilnun á ári og hins vegar útgjöld að hámarki 150 millj. kr. á ári ef um er að ræða aðkeypta rannsóknar- eða þróunarvinnu, sem svarar til 30 millj. kr. skattaívilnunar á ári. Álagningarárið 2013, sem tekur mið af rekstri ársins 2012, námu skattaívilnanirnar 1,1 milljarði kr. og jukust um 19% frá árinu á undan. Fyrir álagningarárið 2014 voru ívilnanirnar ríflega 1,2 milljarður kr. og jukust um 10% frá árinu á undan og fyrir álagningarárið 2015 voru þær tæplega 1,2 milljarður kr. sem jafngildir samdrætti um 5%. Á sama tíma hefur fyrirtækjum sem sótt hafa um skattaívilnanir fjölgað um tæp 14%. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands námu heildar­útgjöld fyrirtækja til rannsóknar- og þróunarstarfs rekstrarárið 2013 um 20 milljörðum kr. en árið 2014 námu heildar­útgjöldin rúmum 21 milljarði kr. Ekki liggja fyrir tölur frá Hagstofunni fyrir árið 2015 um heildar­útgjöld fyrirtækja til rannsókna og þróunar.
    Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í rekstri, sem fjár­mála- og efnahags­ráð­herra leggur fram nú á vorþingi, er lagt til að viðmiðunarfjárhæðirnar verði hækkaðar umtalsvert, en þær hafa verið óbreyttar frá því að lögin um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki voru sett. Í frumvarpinu er lagt til að viðmiðunarfjárhæðir verði þrefaldaðar, þ.e. fari annars vegar úr 100 millj. kr. í 300 millj. kr. hámark á al­mennum rannsóknar- og þróunarkostnaði en fari hins vegar úr 150 millj. kr. í 450 millj. kr. á ári þegar um er að ræða aðkeypta rannsóknar- og þróunar­þjónustu.
Auk þess að hækka viðmiðunarfjárhæðir er einnig að finna í umræddu frumvarpi breytingar á lögum um álagningu opinberra gjalda á árunum 2017, 2018 og 2019 sem fela í sér að komið verði á fót nýju skattafsláttarkerfi fyrir einstaklinga vegna hlutafjárkaupa. Markmið afsláttarins er að styðja við lítil fyrirtæki hér á landi með því að gera þau að fýsilegum fjárfestingarkosti og stuðla þannig að nýsköpun og fjölgun starfa með því að hvetja fjárfesta til að leggja fyrirtækjum í vexti til nýtt hlutafé, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, bæði hjá einstaklingum og umræddum fé­lögum. Þessu til við­bótar, sem hér hefur verið nefnt, eru lagðar til breytingar í frumvarpinu á skattlagningu erlendra sérfræðinga. Markmiðið er að auðvelda fyrirtækjum að fá til sín aðila erlendis frá sem búa yfir nauðsynlegri sérþekkingu og hæfni til að koma á fót hágæðastarfsemi innan lands. Koma erlendra sérfræðinga mun jafnframt styrkja tækni, rannsóknir, þróun og nýsköpun í landinu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekjur erlendra sérfræðinga sem nýta sér heimildina verði einungis skattskyldar að 75% en 25% þeirra verði skattfrjálsar.
    Að öðru leyti má vísa í nýútkomna stöðuskýrslu um aðgerða­áætlun Vísinda- og tækni­ráðs á vef ráðsins:
www.forsaetisraduneyti.is/media/vt/stoduskyrsla-visinda-og-taeknir-mars-2016.pdf