Ferill 726. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1296  —  726. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um hagsmunaskráningu þingmanna.


     1.      Hvernig hyggst forseti Alþingis bregðast við mismunandi túlkun þingmanna á reglum um skráningu þingmanna á hagsmunum sínum?
    Á fundi forsætisnefndar 14. apríl sl. var nefndinni greint frá því að forseti Alþingis hygðist taka til endurskoðunar reglur um hagsmunaskráningu þingmanna. Tvennt þyrfti að athuga, annars vegar skilning á einstökum ákvæðum reglnanna og hins vegar efnislegar breytingar á reglunum, m.a. hvort þingmenn ættu að tilgreina skuldir sínar og eignir maka. Þessari athugun hyggst forseti ljúka á þessu þingi.

     2.      Telur forseti að reglur um hagsmunaskráningu þingmanna hafi verið brotnar þegar fyrrverandi forsætisráðherra lét hjá líða að skrá eignarhlut sinn í aflandsfélaginu Wintris Inc. þegar hann var kosinn á þing árið 2009?
     3.      Telur forseti að fjármála- og efnahagsráðherra hafi brotið reglur um hagsmunaskráningu þingmanna þegar hann lét hjá líða að skrá eignarhlut sinn í aflandsfélaginu Falson & Co. með tilliti til þess að ráðherrann hefur gegnt þingmennsku frá árinu 2003?
    Hagsmunaskráningin er á ábyrgð þingmanna sjálfra. Þeir skrá sjálfir upplýsingar um hagsmunatengsl sín á vef Alþingis og uppfæra þær eftir því sem tilefni er til. Í því felst líka að þeir bera sjálfir ábyrgð á því hvernig þeir skilja reglurnar, en skrifstofan leiðbeinir og ráðleggur þingmönnum þegar eftir slíku er leitað. Þó að forsætisnefnd Alþingis setji reglurnar er hún ekki úrskurðaraðili um skilning þeirra. Fyrir því eru ekki heimildir í þingsköpum. Forsætisnefnd getur þó breytt reglunum eða gert ákvæðin skýrari ef vafi leikur á um merkingu þeirra. Við þá athugun sem fyrirhuguð er á reglunum, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar, munu m.a. athuguð þau álitamál sem eru uppi um skilning á einstökum ákvæðum reglnanna.

     4.      Telur forseti Alþingis eðlilegt að þingmenn beri sjálfir alla ábyrgð á hagsmunaskráningu sinni eða álítur hann að forsætisnefnd eigi að hafa eftirlit með hagsmunaskráningu þingmanna?
    Eins og fram kemur í svari við 2. og 3. tölul. fyrirspurnarinnar bera þingmenn sjálfir alla ábyrgð á hagsmunaskráningu sinni eins og reglur um hana eru. Forsætisnefnd hefur hvorki heimildir né aðstöðu til að kanna eða fylgjast með hverjir hagsmunir þingmanna eru hverju sinni.

     5.      Telur forseti að breyta eigi reglum um hagsmunaskráningu þingmanna og skrá víðtækari upplýsingar en nú er gert?
    Eins og áður er komið fram er fyrirhugað að taka reglur um hagsmunaskráningu til endurskoðunar. Fyrir fram er ekki hægt að segja til um til hvers sú endurskoðun leiðir. Forseti hefur hins vegar ekki farið dult með þá afstöðu sína að líta beri á þær upplýsingar sem gerð er krafa um samkvæmt reglunum sem lágmarksupplýsingar og að þingmönnum sé frjálst að veita ítarlegri upplýsingar ef þeir svo kjósa.